Ferill 64. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 64  —  64. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Í stað orðsins „erlendis“ í a-lið 1. mgr. 133. gr. laganna kemur: utan Evrópska efnahagssvæðisins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu að höfðu samráði við réttarfarsnefnd. Með því er lögð til breyting á reglum um málskostnaðartryggingu í lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
    Samkvæmt a-lið 1. mgr. 133. gr. laganna getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef hann er búsettur erlendis og menn sem eru búsettir hér á landi eru ekki undanþegnir því að setja slíka tryggingu í heimalandi hans. Í bréfi Eftirlitsstofnunar EFTA 11. ágúst 1999 til íslenskra stjórnvalda er því haldið fram að þetta ákvæði geri stöðu aðila, sem höfðar mál hér á landi og er búsettur utan Íslands, lakari en þeirra sem búsettir eru hér á landi. Stofnunin telur því að ákvæðið samrýmist ekki 4. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um bann gegn hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs. Til að taka af allan vafa í þessum efnum er lagt til með frumvarpi þessu að ákvæðinu verði breytt þannig að það gildi ekki um þá sem höfða mál hér á landi og búsettir eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Á þann veg verður staða manns sú sama að þessu leyti án tillits til þess hvar hann býr á Evrópska efnahagssvæðinu. Á hinn bóginn mun reglan eiga óbreytt við um þá sem búsettir eru utan efnahagssvæðisins og höfða mál fyrir íslenskum dómstólum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

    Í frumvarpinu er lögð til breyting á reglum um málskostnaðartryggingu. Það er mat fjármálaráðuneytisins að frumvarpið hafi ekki för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.