Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 65  —  65. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga, nr. 18 22. apríl 1959.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    1. málsl. 3. gr. laganna, sbr. lög nr. 24/1989, orðast svo: Heimild þessi gildir til ársloka 2007.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 13 16. mars 1949 var Sambandi íslenskra berklasjúklinga heimilað að stofnsetja og reka vöruhappdrætti og gilti heimildin í 10 ár. Þessi heimild hefur verið framlengd um 10 ár í senn, síðast með lögum nr. 24 2. maí 1989 til ársloka 1999.
    Ágóða af happdrættinu skal samkvæmt lögunum varið til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir vinnuheimilisins að Reykjalundi, til byggingar og rekstrar vinnustofu fyrir öryrkja og til annarrar félagsmálastarfsemi Sambands íslenskra berklasjúklinga sem viðurkennd er af ríkisstjórninni.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild Sambands íslenskra berklasjúklinga til rekstrar vöruhappdrættis verði framlengd um átta ár, þ.e. til ársloka 2007. Slík framlenging væri í samræmi við gildistíma heimildar happdrættis Dvalarheimilis aldraðra sjómanna sem framlengdur var með lögum nr. 21 17. apríl 1997.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vöruhappdrætti
fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga, nr. 18 22. apríl 1959.

    Tilgangur frumvarpsins er að framlengja heimild Sambands íslenskra berklasjúklinga til að reka vöruhappdrætti um átta ár. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið auki útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.