Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 66  —  66. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna, sbr. 36. gr. laga nr. 15/1998:
     a.      Í stað tölunnar „26“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 25.
     b.      Orðið „Kjalarneshrepp“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      17. tölul. 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með því er lögð til sú breyting á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, að stjórnsýsluumdæmi sýslumanna verði 26 í stað 27. Lög þessi hétu áður lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, en nafni laganna var breytt með lögum um dómstóla, nr. 15/1998.
    Tilefni þessarar breytingar er sameining Eskifjarðarkaupstaðar, Neskaupstaðar og Reyðarfjarðarhrepps í eitt sveitarfélag sem tók gildi 7. júní 1998, sbr. auglýsingu nr. 61/1998. Hið nýja sveitarfélag, Fjarðabyggð, nær yfir allt stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins í Neskaupstað og hluta stjórnsýsluumdæmis sýslumannsins á Eskifirði. Af ýmsum ástæðum er óheppilegt að í einu og sama sveitarfélagi séu umdæmi tveggja sýslumanna. Má helst nefna vandkvæði við innheimtu opinberra gjalda, framkvæmd löggæslu á hendi tveggja lögreglustjóra í einu og sama sveitarfélagi, auk þess sem afmörkun stjórnsýsluumdæma sýslumanna ræðst af mörkum sveitarfélaga, sbr. reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna, nr. 57/1992. Með frumvarpinu er því lagt til að embætti sýslumannsins í Neskaupstað verði lagt niður. Samhliða er gert ráð fyrir að reglugerðinni verði breytt og stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins á Eskifirði stækki sem þessu nemur. Til þess að svigrúm gefist til að undirbúa breytingarnar er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2000.
    Þótt embætti sýslumannsins í Neskaupstað verði lagt niður er gert ráð fyrir að þar verði áfram rekin skrifstofa sýslumanns og útibú lögreglu þannig að þjónusta við íbúa staðarins verði í meginatriðum sú sama og verið hefur. Á hinn bóginn hefur þetta í för með sér sparnað og frekari möguleika á hagræðingu. Þann ávinning er m.a. fyrirhugað að nýta með því að bæta við stöðu löglærðs fulltrúa hjá embætti sýslumannsins á Eskifirði og yrði hann búsettur í Fjarðabyggð.
    Þá er enn fremur lagt til að lögunum verði breytt til samræmis við sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur, sbr. auglýsingu nr. 231/1998.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um
framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989.

    Í frumvarpinu er lögð til stækkun umdæmis sýslumannsembættisins á Eskifirði og niðurlagning embættisins á Neskaupstað en tilefni breytingarinnar er sameining Eskifjarðarkaupstaðar, Neskaupstaðar og Reyðarfjarðarkaupstaðar. Í frumvarpsgreinargerðinni kemur fram að gert sé ráð fyrir að áfram verði rekin sýsluskrifstofa á Neskaupstað.
    Ætla má að sameining tveggja embætta leiði til hagræðingar og lægri kostnaðar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur hins vegar fram sú markmiðssetning að það fjárhagslega svigrúm sem hagræðing leiðir til verði m.a. nýtt með því að bæta stöðu löglærðs fulltrúa við embætti sýslumannsins á Eskifirði.