Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 67  —  67. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69 10. mars 1995.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þegar veigamikil rök mæla með má víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 123. löggjafarþingi en hlaut þá eigi afgreiðslu. Það er nú lagt fram að nýju óbreytt.
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995. Felur frumvarpið í sér heimild til að víkja frá skilyrðum fyrir bótagreiðslu sem greinir í 6. gr. laganna.
    Tilefni frumvarpsins er erindi umboðsmanns barna til dómsmálaráðherra, dagsett 15. september 1997, þar sem umboðsmaður fór þess á leit að skilyrði 6. gr. laganna yrðu endurskoðuð með tilliti til þess að þau ættu illa við þegar um kynferðisbrot gegn börnum væri að ræða. Auk erindis umboðsmanns hefur verið höfð hliðsjón af hliðstæðri löggjöf annars staðar á Norðurlöndum við samningu frumvarpsins.
    Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna er skilyrði fyrir greiðslu bóta að brot, sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Í 2. mgr. segir síðan að umsókn um bætur skuli hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið.
    Við tilteknar aðstæður getur verið rétt að víkja megi frá þessum skilyrðum. Það á sérstaklega við þegar brotið er gegn barni en barn hefur oft ekki náð nauðsynlegum þroska til að gera sér grein fyrir því að um refsivert brot hefur verið að ræða, auk þess sem aðstæður barnsins til að kæra brot kunna að vera erfiðar. Á það sérsaklega við þegar náin tengsl eru milli barns og brotamanns. Í þessu sambandi má hafa hliðsjón af því að þessar röksemdir lágu til grundvallar lögum nr. 63/1998 þar sem lögfest var sérregla í 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga um upphaf sakarfyrningarfrests þegar kynferðisbrot beinast gegn börnum.
    Þótt tilefni frumvarpsins sé að styrkja réttarstöðu barna sem þolenda afbrota, og þá alveg sérstaklega þeirra barna sem þolað hafa kynferðislegt ofbeldi, er rétt að gera ráð fyrir að í fleiri tilvikum kunni að vera ástæða til að víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr. Af þessum sökum er lagt til að heimildin verði ekki bundin við þau tilvik þar sem börn eru þolendur.
    Við ákvörðun um hvort vikið verði frá skilyrðum í 1. og 2. mgr. 6. gr. verður að meta hvert tilvik fyrir sig. Þó má gera ráð fyrir að veigamikil rök mæli almennt með því þegar þolendur eru yngri en 18 ára. Með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af lögunum er ekki tilefni til að gera ráð fyrir mörgum tilvikum þar sem til álita kemur að víkja frá skilyrðunum.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um greiðslu ríkissjóðs
á bótum til þolenda afbrota, nr. 69 10. mars 1995.

    Í 6. gr. núgildandi laga er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu bóta. Í frumvarpinu er lagt til að víkja megi frá þessum skilyrðum þegar veigamikil rök mæla með. Með þeirri heimild má ætla að málum fjölgi en í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki er gert ráð fyrir að þau tilvik verði mörg. Talið er að kostnaður geti aukist fjölgi málum en ógerlegt er að segja fyrir um í hvaða mæli það verður. Framlag til bóta brotaþola er 40 m.kr. í fjárlögum 1999. Samkvæmt skýrslum dómsmálaráðherra um útgjöld vegna laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota sem lagðar voru fram á 122. og 123. löggjafarþingi var meðaltal greiðslna fyrir hvert mál á árunum 1996 og 1997 rúmar 0,5 m.kr. og fyrir árið 1998 rúmar 0,6 m.kr.