Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 81  —  81. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Síðari málsliður 1. mgr. 46. gr. laganna orðast svo: Við lok grunnskóla skal gefa nemendum kost á að þreyta samræmd lokapróf í allt að sex námsgreinum sem menntamálaráðherra ákveður.

2. gr.

    1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Menntamálaráðherra er heimilt að veita sveitarfélögum sem þess óska frest til 1. september 2004 til að framkvæma ákvæði 3. gr. um einsetinn grunnskóla.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Markmið með lagafrumvarpi þessu eru tvíþætt: Í fyrsta lagi að koma á auknu valfrelsi í 9. og 10. bekk grunnskóla þannig að nemendur taki aukna ábyrgð á námi sínu í samræmi við nýja aðalnámskrá grunnskóla 1999. Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að frestur til einsetningar grunnskóla verði framlengdur í samræmi við óskir Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Námi í grunnskóla telst lokið þegar nemendur hafa stundað grunnskólanám með fullnægjandi árangri í tíu ár eða þegar þeir hafa staðist þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt aðalnámskrá við lok grunnskóla, þ.e. í lok 10. bekkjar. Með auknu valfrelsi nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla er í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla stuðlað að því að nemendur taki meiri ábyrgð á námi sínu. Aukið valfrelsi þýðir að nemendur geta lokið grunnskóla með mismunandi áherslum og á skemmri tíma en tíu árum. Samkvæmt aðalnámskrá er gert ráð fyrir að um það bil 30% kennslutímans geti verið valfrjáls í 9. og 10 . bekk grunnskóla, sbr. 32. gr. gildandi laga. Jafnframt er horfið frá því að skylda alla til að gangast undir samræmd lokapróf 10. bekkjar. Einnig geta nemendur í 9. bekk valið að taka samræmd lokapróf 10. bekkjar og hefja framhaldsskólanám að því loknu, enda teljist þeir hafa staðist að öðru leyti þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt aðalnámskrá við lok grunnskóla. Mismunandi inntökuskilyrði í framhaldsskóla og val í 9. og 10. bekk leiðir til þess að það er réttur nemandans að velja sjálfur hvaða samræmd próf hann tekur, allt eftir því hvert hann stefnir í framhaldsnámi. Inntökuskilyrði í framhaldsskóla eru skilgeind í aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla og þau segja til um lágmarksárangur sem þarf í lykilgreinum einstakra brauta. Inntökuskilyrði framhaldsskóla miðast bæði við einkunnir á samræmdum prófum og einnig einkunnir sem skólinn gefur.
    Þá er í greininni lagt til að í stað þess að nemendur verði skyldaðir til þess að taka samræmd lokapróf í a.m.k. fjórum námsgreinum geti þeir átt kost á því að þreyta lokapróf í allt að sex námsgreinum. Menntamálaráðherra hefur kynnt að samræmd lokapróf grunnskóla verði í eftirtöldum námsgreinum: íslensku, dönsku, ensku, stærðfræði, náttúrufræði og samfélagsgreinum.

Um 2. gr.

    Í núgildandi lögum segir að ákvæði 3. gr. um einsetningu grunnskóla skuli komið að fullu til framkvæmda að átta árum liðnum frá gildistöku laganna og er reiknað með að einsetningu grunnskóla verði náð árið 2002. Langflest sveitarfélög hafa þegar einsett grunnskóla eða gert áætlanir til að ná því innan þeirra tímamarka sem núgildandi lög setja.
    Samband íslenskra sveitarfélaga ályktaði um einsetningu grunnskóla á 56. fulltrúaráðsfundi sínum í apríl 1999. Þar segir m.a.:
    ,,Fulltrúaráðið leggur áherslu á að lögum um grunnskóla verði breytt þegar á næsta þingi þannig að sett verði inn heimildarákvæði sem veitir þeim sveitarfélögum sem þess óska heimild til að sækja um frest til ársloka 2004 til að ljúka einsetningu grunnskóla.“
    Í grunnskólalögunum, nr. 66/1995, var upphaflega gert ráð fyrir að einsetningu yrði lokið árið 2000–2001. Farið var að óskum sveitarfélaga um lengri frest og var hann framlengdur til 2002 með breytingu á grunnskólalögunum, nr. 77/1996. Með þessari grein frumvarpsins er komið til móts við framangreindar óskir Sambands íslenskra sveitarfélaga.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1995,
um grunnskóla, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að nemendur grunnskóla hafi val um að taka lokapróf í allt að sex námsgreinum í stað þess að taka samræmd lokapróf í a.m.k. fjórum námsgreinum sem menntamálaráðherra ákveður. Hins vegar er lagt til að sveitarfélög fái frest til 1. september 2004 til að ljúka einsetningu grunnskóla, í samræmi við ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Talið er að frestun á einsetningu grunnskóla hafi ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs, en fjölgun samræmdra prófa auki útgjöld. Samkvæmt upplýsingum Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála, sem annast framkvæmd samræmdra prófa í grunnskólum, kostar að meðaltali um 7 m.kr. að gera eitt samræmt aðalpróf fyrir 10. bekk ásamt sjúkraprófi og um 250 kr. að fara yfir eina úrlausn sé allt með talið. Það er alls óvíst hvaða áhrif breytt fyrirkomulag hefur á próftöku nemenda og þar með t.d. fjölda úrlausna sem þarf að fara yfir, en verði eins staðið að framkvæmd prófa í nýjum námsgreinum má gera ráð fyrir nálægt 14 m.kr. viðbótarkostnaði.