Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 102  —  101. mál.Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    3. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Skólameistari ræður aðstoðarskólameistara til allt að fimm ára í senn, áfangastjóra til allt að fjögurra ára og deildarstjóra til tveggja ára að höfðu samráði við skólanefnd. Kennari, sem ráðinn er aðstoðarskólameistari, skal fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir starfi aðstoðarskólameistara. Skólameistari ræður einnig kennara, námsráðgjafa, starfsfólk skólasafns og aðra starfsmenn skólans að höfðu samráði við skólanefnd.

2. gr.

    5. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    Almenn námsbraut er ætluð nemendum sem ekki hafa gert upp hug sinn varðandi áframhaldandi nám og nemendur sem uppfylla ekki skilyrði til inngöngu á lengri námsbrautir framhaldsskólans. Nám á brautinni getur veitt undirbúning fyrir nám á bók-, list- eða starfsnámsbrautum og getur jafnframt verið hluti af því.

3. gr.

    18. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Í stað 2. mgr. 24. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Námi á bóknámsbrautum framhaldsskóla er veita undirbúning til náms á háskólastigi lýkur með stúdentsprófi. Í reglugerð skulu sett ákvæði um samræmingu stúdentsprófa, framkvæmd þeirra og heimildir nemenda sem stunda nám á öðrum námsbrautum til þess að þreyta samræmd stúdentspróf.
    Námi í löggiltum iðngreinum lýkur með sveinsprófi. Ráðherra kveður á um samræmingu sveinsprófa með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi starfsgreinaráðs.
    Menntamálaráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að lokapróf í tilteknum greinum af öðrum námsbrautum skuli samræmd að fenginni umsögn viðkomandi starfsgreinaráðs ef um starfsnám er að ræða.

5. gr.

    1. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn starfsgreinaráð fyrir starfsgreinaflokka eða starfsgreinar. Í starfsgreinaráði skulu eiga sæti fulltrúar tilnefndir af samtökum atvinnurekenda og launþega í viðkomandi starfsgreinum og einn fulltrúi menntamálaráðherra. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Við skipun fulltrúa í starfsgreinaráð skal gætt jafnræðis milli fulltrúa atvinnurekenda og launþega. Formaður skal kjörinn úr hópi fulltrúa til tveggja ára í senn. Ef ekki tekst að skipa starfsgreinaráð er menntamálaráðherra heimilt að skipa tímabundið sérstaka starfshópa til að sinna verkefnum starfsgreinaráðs. Menntamálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skipan starfsgreinaráða að fengnum tillögum frá samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi.

6. gr.

    Í stað ártalanna „2000–2001“ í 47. gr. laganna kemur: 2003–2004.

7. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum orðast svo:
    Ákvæði í 24. gr. um samræmd lokapróf úr framhaldsskóla skulu ekki komin að fullu til framkvæmda fyrr en skólaárið 2003–2004.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þær breytingar sem með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði á núgildandi lögum um framhaldsskóla eru:
     1.      Kennarar sem ráðnir eru í störf aðstoðarskólameistara fái sambærilegan rétt til leyfis frá kennarastörfum og þeir kennarar sem ráðnir eru í embætti skólameistara.
     2.      Fornám í framhaldsskólum verði skipulagt innan almennra námsbrauta framhaldsskóla.
     3.      Menntamálaráðherra verði veitt heimild til þess að ákveða með reglugerð hvaða lokapróf framhaldsskóla skuli vera samræmd.
     4.      Skipan starfsgreinaráða verði ákveðin með reglugerð, þ.m.t. hver fjöldi fulltrúa skuli vera í starfsgreinaráðum og hvernig tilnefningum skuli vera háttað. Við skipan starfsgreinaráða verði tekið tillit til hagsmuna þeirra starfsgreina sem ekki njóta þegar fræðslu á framhaldsskólastigi.
     5.      Lögbundinn frestur til þess að framkvæma framhaldsskólalögin verði framlengdur til þess að undirbúa betur framkvæmd laganna, t.d. framkvæmd samræmdra prófa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með ákvæði þessu er þeim kennurum sem ráðnir eru til þess að gegna starfi aðstoðarskólameistara veittur sami réttur til að halda kennarastöðu sinni meðan þeir gegna starfinu og þeir kennarar hafa samkvæmt núgildandi lögum, sem skipaðir eru til þess að gegna embætti skólameistara. Þykir rétt að kennarar sem gegna stöðu skólameistara eða starfi aðstoðarskólameistara hafi sams konar rétt til leyfis frá kennarastarfinu, þar sem ráðning í fyrrgreind störf er til ákveðins tíma og því rétt að tryggja starf með þessum hætti og stuðla þannig að því að hæfir kennarar fáist til stjórnunarstarfa þar sem þeir eiga öruggt kennslustarf að ráðningartíma loknum.

Um 2. gr.

    Með þeirri breytingu sem lagt er til að gerð verði á 5. mgr. 16. gr. og niðurfellingu 18. gr. framhaldsskólalaga er stefnt að því að fornám við framhaldsskóla verði fellt inn í hina almennu námsbraut.
    Á framhaldskólastigi er um að ræða ferns konar námsbrautir: bóknámsbrautir sem veita undirbúning fyrir nám á háskólastigi og lýkur með stúdentsprófi, starfsnámsbrautir til skilgreindra lokaprófa sem búa nemendur undir tiltekin störf í atvinnulífinu, listnámsbrautir sem veita undirbúning fyrir frekara nám í listgreinum í sérskólum eða í skólum á háskólastigi og getur lokið með stúdentsprófi og almenn námsbraut sem býr nemendur undir frekara nám á öðrum námsbrautum eða er skilgreindur hluti af námi á starfs-, list- eða bóknámsbrautum. Fellur fornám sem hefur verið starfrækt við nokkra skóla vel að náms- og kennsluskipulagi á almennri námsbraut og eru náin tengsl milli náms á almennri námsbraut og fornáms við framhaldsskóla sem kveðið er á um í núgildandi 18. gr. framhaldsskólalaga, þar sem bæði almennu námsbrautinni og fornáminu er ætlað að mæta þörfum þeirra nemenda sem til þessa hafa átt erfitt uppdráttar í framhaldsskóla. Ástæðurnar eru margar og breytilegar og er með því að sameina almennu námsbrautina og fornámið stefnt að átaki til að mæta með viðhlítandi hætti þörfum þessara nemenda. Hér er um að ræða nemendur sem hafa ekki náð fullnægjandi árangri á lokaprófi grunnskóla til að innritast á þá námsbraut sem hugur þeirra stendur til, hafa e.t.v. fengið of lága einkunn í einni eða tveimur greinum á samræmdum prófum og þurfa því að bæta árangur sinn í þeim. Árlega nær hópur nemenda slökum árangri á grunnskólaprófi. Þessir nemendur hafa oft fremur neikvæða sjálfsmynd og hafa því mesta þörf fyrir öfluga ráðgjöf, auk þess sem þeir þurfa að fá tækifæri til að spreyta sig á nýjum og fjölbreyttum viðfangsefnum.
    Hluti nemenda er mjög óráðinn hvað varðar framhaldsnám og fullnægir auk þess ekki inntökuskilyrðum á allar námsbrautir framhaldsskóla. Þessir nemendur þurfa á náms- og starfsráðgjöf að halda og þurfa jafnframt að kynnast frekar ýmsum námssviðum og nýjum vinnubrögðum, t. d. innan list- og verknáms eða upplýsingatækni, en tiltölulega lítil áhersla hefur verið á þessar greinar í grunnskóla.
    Gert er ráð fyrir að einstakir skólar útfæri nám og kennslu á almennri námsbraut í skólanámskrá og skilgreini framboð náms í samræmi við þarfir nemenda hverju sinni.

Um 3. gr.

    Vísað er til athugasemdar við 2. gr.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að menntamálaráðherra ákveði með reglugerð hvaða lokapróf úr framhaldsskóla skuli vera samræmd. Með þessari breytingu er ekki verið að falla frá þeirri skyldu að samræma lokapróf úr framhaldsskólum, heldur er kveðið á um að ráðherra ákveði með reglugerð hvaða próf verði samræmd og hvernig samræmd próf verði framkvæmd.
    Samkvæmt afdráttarlausu orðalagi núgildandi 24. gr. skulu lokapróf úr framhaldsskóla, svo sem stúdentspróf og burtfararpróf af starfsmenntabrautum er veitt geta rétt til frekara náms eða réttindi til starfa, vera samræmd í tilteknum greinum sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Tiltölulega auðvelt er að koma við samræmingu lokaprófa eins og t.d. í almennum bóknámsgreinum en mun flóknara í öðrum eins og í starfsnámi. Starfsnám er mjög breytilegt hvað varðar inntak og lengd. Sumt starfsnám fer fram á aðeins einum stað á landinu og nemendur eru mjög fáir. Í þessum tilvikum er nauðsynlegt að leita annarra og hagkvæmari leiða til að stuðla að góðum árangri skólastarfsins heldur en að halda hefðbundin samræmd próf. Kostnaður við samræmd próf er mjög mikill og af þeim sökum m.a. er nauðsynlegt að fyrir hendi sé svigrúm til að skipuleggja utanaðkomandi mat með hagkvæmum hætti.
    Samkvæmt 29. gr. laga nr. 80/1996 eiga starfsgreinaráð að gera tillögur um flest er varðar starfsnám, þar á meðal tilhögun námsmats, þar með talin sveinspróf, og er því eðlilegt að ákvörðun um lokapróf, þar með talin samræmd próf, verði tekin að fengnum tillögum frá þeim.
    Greinin felur í sér að leitað verði hagkvæmustu leiða í hverju tilviki og þá tekið tillit til aðstæðna á viðkomandi námsbraut eftir því sem nauðsyn krefur. Ákvörðunum um fjölda samræmdra prófa, skyldu nemenda til að taka þau og framkvæmd þeirra er vísað til reglugerðar.
    Með þessum breytingum á 24. gr. verður skilgreining á stúdentsprófi og sveinsprófi enn fremur gleggri en nú er samkvæmt gildandi lögum.

Um 5. gr.

    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til á 1. mgr. 28. gr. er fallið frá því að takmarka fulltrúaaðild að starfsgreinaráðum við þær allar starfsgreinar sem njóta fræðslu á framhaldsskólastigi. Verksvið starfsgreinaráða eru mismunandi að umfangi. Starfsgreinar eru margar á sumum sviðum en fáar á öðrum. Framboð menntunar er þar af leiðandi mismunandi. Nýjar starfsgreinar verða til og aðrar hverfa. Mikilvægt er að sjálfsögðu að þær starfsgreinar sem njóta fræðslu á framhaldsskólastigi eigi fulltrúaaðild að ráðunum. Það er þó ekki síður mikilvægt að nýjar starfsgreinar sem ekki njóta fræðslu á framhaldsskólastigi eigi sér málsvara í starfsgreinaráði með tilliti til framtíðaruppbyggingar náms á viðkomandi sviði. Þetta á ekki hvað síst við um starfssvið þar sem framboð náms hér á landi er lítið. Þá er ekki sjálfgefið að það sé heppilegt að allar starfsgreinar á tilteknu sviði eigi sinn fulltrúa í starfsgreinaráði. Heppilegra getur verið að skyldar greinar tilnefni fulltrúa sameiginlega. Með tilliti til þess breytileika sem ríkir í starfsmenntun og með hliðsjón af fenginni reynslu er lagt til að greininni verði breytt á þann veg að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um skipan starfsgreinaráðanna, þ.m.t. fjölda fulltrúa í starfsgreinaráðum og hvernig staðið skuli að tilnefningum þeirra að fengnum tillögum frá samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi.

Um 6. og 7. gr.

    Í grein þessari er lagt til að framlengja aðlögunartíma til þess að koma ýmsum ákvæðum laganna að fullu til framkvæmda, svo sem um samræmd lokapróf.
    Ný aðalnámskrá framhaldsskóla tók gildi 1. júní 1999, sbr. auglýsingu nr. 274/1999. Í auglýsingunni um gildistöku aðalnámskrárinnar segir m.a.:
    ,,Með vísan til 21. gr. og 29. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, með áorðnum breytingum, hefur menntamálaráðherra staðfest nýja aðalnámskrá framhaldsskóla, sem tekur gildi frá og með 1. júní 1999.
    Starf í framhaldsskólum samkvæmt hinni nýju aðalnámskrá hefst frá og með skólaárinu 1999–2000. Heimilt er þó að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins að láta námskrána koma til framkvæmda frá og með skólaárinu 2000–2001, enda séu fyrir því rökstuddar forsendur í einstökum framhaldsskólum. Aðalnámskrá framhaldsskóla skal vera komin til fullra framkvæmda í öllu starfi framhaldsskóla eigi síðar en að fimm árum liðnum frá gildistöku auglýsingar þessarar. Námskrá fyrir framhaldsskóla, 3. útgáfa, frá 1990 fellur úr gildi eftir því sem ákvæði nýrrar námskrár koma til framkvæmda.“
    Með hliðsjón af framangreindu er óhjákvæmilegt að veita skólum frekari aðlögunartíma til að koma aðalnámskrá að fullu til framkvæmda, m.a. vegna samræmdra lokaprófa, þar sem kennsla nemenda frá byrjun skólagöngu hlýtur að taka mið af slíkri samræmingu.
    Þá er einnig gert ráð fyrir að gerðar verði tilteknar breytingar á námi og námslokum grunnskóla, sbr. frumvarp til laga um breyting á lögum um grunnskóla, sem koma til með að hafa áhrif á framkvæmd framhaldsskólalaga, einkum varðandi inntökuskilyrði í framhaldsskóla. Af þessum sökum er lagt til að aðlögunartíminn verði framlengdur til skólaársins 2003–2004.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 80/1996,
um framhaldsskóla.

    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að kennarar sem ráðnir eru í störf aðstoðarskólameistara fái sambærilegan rétt til leyfis frá kennslustörfum og þeir kennarar sem ráðnir eru í embætti skólameistara. Í öðru lagi er lagt til að fornám verði fellt inn í almennar námsbrautir framhaldsskóla. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra fái heimild til að ákveða með reglugerð hvaða lokapróf framhaldsskóla skuli vera samræmd. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að skipan starfsgreinaráða verði ákveðin í reglugerð og að lokum er lagt til að frestur til að koma framhaldsskólalögum í framkvæmd verði lengdur.
    Talið er að það hafi ekki áhrif á útgjöld ríkisins að fella niður lagaákvæði um fornám en ætla þess í stað almennri námsbraut að þjóna nemendum sem til þessa hefur verið vísað í slíkt undirbúningsnám auk þess að þjóna þeim sem ekki hafa gert upp hug sinn varðandi áframhaldandi nám. Að því leyti sem þessi breyting kann að hafa áhrif á kostnað ræðst hann af námskrá sem menntamálaráðherra setur, ákvörðunum um hvaða skólar bjóða fram almenna námsbraut og hvernig skólum tekst að skipuleggja kennslu fyrir nemendur sem þurfa mismikinn stuðning. Ekki eru fyrir hendi forsendur til að meta þessa þætti til kostnaðar. Þess skal þó getið að í fjárlögum yfirstandandi árs er áætlað fyrir um 100 m.kr. aukakostnaði við að kenna fornámsnemendum í helmingi minni hópum en almennt er miðað við í skólum.
    Að mati fjármálaráðuneytisins mun það koma í veg fyrir aukinn kostnað verði lögbundið að menntamálaráðherra ákveði með reglugerð hvaða lokapróf úr framhaldsskóla skuli vera samræmd í stað þeirrar afdráttarlausu skyldu að lokapróf skuli vera samræmd. Forsendur til að meta fjárhæðir í þessu sambandi eru ekki fyrir hendi þar sem ekki liggur fyrir hvernig staðið verður að prófunum og hvort umrædd próf komi í stað prófa sem þegar eru haldin og greitt fyrir. Kostnaður við próf er afar mismikill. Sveinspróf eru einu samræmdu lokaprófin úr framhaldsskóla sem nú eru haldin. Útgjöld ríkissjóðs vegna 910 próftaka í sveinsprófum voru að meðaltali 51 þús. kr. á hvern nemanda árið 1998. Til samanburðar kostar gerð og yfirferð samræmdra lokaprófa 4.250 nemenda í fjórum aðalnámsgreinum grunnskóla með sjúkraprófum að meðaltali 7,4 þús. kr. á hvern þeirra.
    Að öllu samanlögðu telur fjármálaráðuneytið að frumvarpið hafi ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.