Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 104  —  102. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson,


Árni Steinar Jóhannsson, Hjálmar Árnason.


1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þróunarsjóður sjávarútvegsins skal veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa. Fjárhæð styrks skal nema 50.000 kr. á hverja rúmlest skips sem tekið er til varðveislu eftir 1. janúar 1990.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
                             

Greinargerð.


    Þegar farið var að styrkja útgerðarmenn til að úrelda fiskiskip olli það því að fiskiskip voru eyðilögð. Forsjálir menn hafa þó séð til þess að í nokkrum byggðalögum eru enn til skip sem eru mikilvæg fyrir sögu skipamíða og útgerðar. Oftast eru þau varðveitt á byggða- og sjóminjasöfnum.
    Skip þurfa viðhald þótt á landi séu og ljót og ómáluð skip vekja lítinn áhuga, jafnvel þó að nafni þeirra og sjósókn sé tengd mikil og merkileg saga. Á næstu árum munu trébátar vertíðarbátaflotans týna tölunni og því er ekki seinna vænna að reyna að varðveita það merkasta sem enn er til óskemmt eða hæft til varðveislu. Á einstaka stöðum á landinu má enn finna byggingar, vélar, búnað og áhöld sem geyma sögu sjávarútvegsins, t.d. síldarminjar á Siglufirði og síldarbræðslur á Ströndum. Úrelding eigna sem síðan eru teknar til annarra nota eða niðurrifs gera okkur fátækari af eigin sögu. Að því ber að hyggja.
    Í frumvarpinu er lagt til að Þróunarsjóði sjávarútvegsins verði gert skylt að styrkja varðveislu skipa. Gert er ráð fyrir því að styrkveiting nemi 50.000 kr. á hverja rúmlest skips sem tekið er til varðveislu og að styrkur verði greiddur einu sinni fyrir hvert skip. Greiðsluskylda sjóðsins miðast við skip sem tekin eru til varðveislu eftir 1. janúar 1990.