Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 114  —  75. mál.




Svar



dóms- og kirkjumálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um lagabreytingar í kjölfar hækkunar sjálfræðisaldurs.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða efnisbreytingar þarf að gera á lögum í kjölfar hækkunar sjálfræðisaldurs og hvaða áhrif munu þær hafa á kjör og aðbúnað barna á aldrinum 16–18 ára og aðstandenda þeirra?
     2.      Hvenær stendur til að leggja nauðsynlegar lagabreytingar fyrir Alþingi, sbr. 1. lið, og hvaða útgjöld munu þær hafa í för með sér?


    Í tilefni af lögræðislögum, nr. 71/1997, er tóku gildi 1. janúar 1998, skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd hinn 20. júní 1997 til þess að kanna og gera tillögur um hvaða lögum þyrfti að breyta vegna hækkunar sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár, sem lögin kveða á um. Síðar rýmkaði ráðherra umboð nefndarinnar þannig að hún skyldi skila skýrslu með ábendingum um hvaða lögum nefndin teldi æskilegt að yrði breytt fyrir gildistöku hinna nýju lögræðislaga. Endanlegur skilafrestur nefndarinnar var til 1. nóvember 1997. Nefnd þessi verður hér eftir nefnd lagaskoðunarnefnd.
    Í nefndina voru skipaðir fulltrúar sex ráðuneyta, þ.e. dóms- og kirkjumálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Hagstofu Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis.
    Nefndin skilaði skýrslu í lok októbermánaðar 1997 með bréfi þar sem segir m.a.:
    „Nefndarmenn eru sammála um, að auk þess að benda á hvaða lögum talið er æskilegt að breyta fyrir gildistöku hinna nýju lögræðislaga, og þá með hvaða hætti, sé rétt að gera grein fyrir þeim lögum sem nefndarmenn hafa skoðað sérstaklega, í tilefni af hækkuðum sjálfræðisaldri, en ekki talið að rétt sé að mæla með breytingum á, a.m.k. ekki að svo stöddu. Þessar ábendingar gefa á hinn bóginn viðkomandi fagráðuneytum tilefni til þess að kanna hvort ástæður séu til að breyta þeim lögum þegar fram líða stundir.“
    Í niðurstöðum skýrslu lagaskoðunarnefndar er þannig greint á milli þeirra laga sem nefndin taldi æskilegt að breytt yrði fyrir gildistöku lögræðislaga, nr. 71/1997, (A-liður í skýrslunni) og annarra laga (B-liður í skýrslunni) sem nefndin hafði sérstaklega tekið til skoðunar en taldi ekki rétt að fella undir A-lið.
    Þau lög sem lagaskoðunarnefnd taldi æskilegt að breyta fyrir 1. janúar 1998 eru talin hér upp og skipað eftir þeim ráðuneytum sem lögin heyra undir. Enn fremur er gerð grein fyrir breytingum sem gerðar hafa verið á lögunum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Lög um mannanöfn, nr. 45/1996.
    Var breytt með lögum nr. 150/1998.
Hjúskaparlög, nr. 31/1993.
    Var breytt með lögum nr. 150/1998.

Félagsmálaráðuneyti.
Lög um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992.
    Var breytt með lögum nr. 160/1998.
Lög um lögheimili, nr. 21/1990.
    Var breytt með lögum nr. 145/1998.
Lög um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952.
    Var breytt með lögum nr. 152/1998.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
Lög um félagslega aðstoð, nr. 118/1993.
    Hefur ekki verið breytt, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins.
Lög um almannatryggingar, nr. 117/1993.
    Hefur ekki verið breytt, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins.
Lög um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997
    Hefur ekki verið breytt, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins.
Læknalög, nr. 53/1998.
    Hefur ekki verið breytt, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins.

Landbúnaðarráðuneyti.
Jarðalög, nr. 65/1976.
    Hefur ekki verið breytt, en frumvarp og kostnaðaráætlun liggja fyrir.

    Framangreindar breytingar á lögum sem heyra undir dóms- og kirkjumálaráðuneyti munu lítil eða engin áhrif hafa á kjör og aðbúnað barna á aldrinum 16–18 ára og aðstandenda þeirra og hafa ekki útgjöld í för með sér.