Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 117  —  109. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Í stað ártalsins „2001“ í lokamálslið 6. gr. laganna kemur: 2003.

2. gr.

    10. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    12. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    13. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    16. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    19. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    20. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi skulu gilda til 1. janúar árið 2002.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar árið 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með setningu laga um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994, ákvað Alþingi að heimila ráðherrum félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála og umhverfismála að veita allt að tólf sveitarfélögum undanþágu frá ákvæðum tiltekinna laga. Markmið laganna var, sbr. 1. gr. þeirra, að gera sveitarfélögum kleift að gera tilraunir í þeim tilgangi að undirbúa breytingar á löggjöf um stjórnsýslu sveitarfélaga, framkvæmd verkefna þeirra, tekjustofna sveitarfélaga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Með tilraununum skyldi stefnt að aukinni sjálfsstjórn sveitarfélaga, betri aðlögun stjórnsýslu þeirra að staðbundnum aðstæðum, bættri þjónustu við íbúana og betri nýtingu fjármagns hins opinbera. Tilraunirnar máttu hvorki hafa í för með sér skerðingu á réttindum íbúanna né fela í sér auknar fjárhagslegar byrðar fyrir þá.
    Þau sveitarfélög sem fengið hafa heimild til að gera tilraunir í samræmi við ákvæði laganna nefnast reynslusveitarfélög.
    Lög nr. 82/1994 veittu félagsmálaráðherra heimild til að víkja frá ákvæðum eftirtalinna laga:
     a.      laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, varðandi félagslegar íbúðir,
     b.      laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, varðandi þjónustu við fatlaða,
     c.      laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, og laga um vinnumiðlun, nr. 18/1985, varðandi þjónustu við atvinnulausa,
     d.      laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990, varðandi fjármögnun reynsluverkefna.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra var með lögunum veitt heimild til að víkja frá ákvæðum laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, varðandi byggingu og/eða rekstur heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss og enn fremur ákvæðum laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, varðandi þjónustu við aldraða.
    Umhverfisráðherra var veitt heimild til að víkja frá ákvæðum byggingarlaga, nr. 54/1978, um meðferð umsókna um byggingarleyfi og verksvið byggingarfulltrúa í reynslusveitarfélagi.
Þá er heimilað í 9. gr. laganna að víkja frá ákvæðum laga um nefndir og stjórnir sveitarfélaga þegar reynslusveitarfélag á í hlut. Heimildin nær þó ekki til ákvæða um sveitarstjórnir, byggðarráð og kjörstjórnir.
    Samkvæmt 2. gr. laganna eiga framangreindar heimildir ráðherra til að víkja frá lögum við ákvæði laga um:
     a.      stjórnsýslu sveitarfélaga og skipulag starfsemi þeirra,
     b.      hvernig verkefni skulu leyst af hendi,
     c.      hvernig eftirliti ríkisins með starfsemi sveitarfélaga skuli háttað,
     d.      verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Við val á reynslusveitarfélögum bar félagsmálaráðherra að gæta þess að þau væru sem fjölbreytilegust að stærð og gerð. Sveitarfélög sem sóttu um þátttöku í tengslum við sameiningu skyldu að öðru jöfnu hafa forgang. Þau sveitarfélög sem valin voru til þátttöku voru: Reykjavík, Hafnarfjörður, Garðabær, Reykjanesbær, Snæfellsbær, Borgarbyggð, Dalabyggð, Vesturbyggð, Akureyri, Neskaupstaður, Hornafjörður og Vestmannaeyjar.
    Um áramótin 1998–99 var ólokið 23 tilraunaverkefnum á vegum átta reynslusveitarfélaga. Fjögur reynslusveitarfélög af þeim tólf sem félagsmálaráðherra valdi árið 1994 höfðu þá hætt þátttöku þar sem þeim hafði ekki tekist að ná samkomulagi um tilraunaverkefni. Þau eru: Borgarbyggð, Snæfellsbær, Vesturbyggð og Dalabyggð.
    Félagsmálaráðuneytið hefur gert samning við óháð ráðgjafarfyrirtæki um að meta árangur af verkefnunum, jafnframt því að verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga hefur hvatt reynslusveitarfélögin og hlutaðeigandi ráðuneyti til að leggja eigið mat á verkefnin og árangur þeirra.

Efni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildistími laga um reynslusveitarfélög verði framlengdur um tvö ár, til 1. janúar árið 2002. Helgast sú tillaga m.a. af því að sum þeirra tilraunaverkefna sem nú standa yfir hófust seinna en ráð var fyrir gert og er fyrirsjáanlegt að ekki verði fengin af þeim nægileg reynsla áður en gildistíminn rennur út. Enn fremur telur verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga heppilegt að í þeim tilvikum þar sem um er að ræða viðamikil verkefni og vilji reynslusveitarfélags stendur til að halda verkefnum áfram eftir 1. janúar árið 2000 verði ráðherra unnt að framlengja þau.
    Ekki er gert ráð fyrir að öll þau reynslusveitarfélagaverkefni sem komist hafa á laggirnar verði framlengd. Þau verkefni sem til greina kemur að framlengja á grundvelli laga um reynslusveitarfélög eru á sviði málefna fatlaðra, öldrunarmála og heilsugæslu og enn fremur ýmsar stjórnsýslutilraunir. Hins vegar er lagt til í frumvarpinu að felldar verði brott heimildir ráðherra til að veita undanþágur frá ákvæðum laga varðandi húsnæðismál, vinnumarkaðsmál og byggingarmál. Varðandi tvo fyrrnefndu málaflokkana hafa verið sett ný lög sem gera það að verkum að verkefnisstjórn reynslusveitarfélaga telur ekki forsendur fyrir framlengingu verkefna, en varðandi byggingarmálin telur verkefnisstjórnin að nægileg reynsla sé komin á og hefur hún tekið upp viðræður við umhverfisráðuneytið um möguleika á lagabreytingum til samræmis við góða reynslu af þeim verkefnum.
    Tilraunir á sviði stjórnsýslu og byggingarmála hafa gefið góðan árangur og hafa mörg sveitarfélög endurskipulagt stjórnsýslu sína almennt á grundvelli góðrar reynslu af tilraunaverkefnum. Enn fremur hefur verið góð reynsla af tilraun á yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðra, sem falla vel að annarri félagsþjónustu sem sveitarfélögin veita.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæðið varðar skýrslu verkefnisstjórnar reynslusveitarfélaga sem félagsmálaráðherra skal árlega leggja fram á Alþingi. Lagt er til að síðasta skýrsla verði lögð fram vorið 2003 í stað 2001, til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í 7. gr. frumvarpsins um framlengingu á gildistíma laga nr. 82/1994.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að heimild félagsmálaráðherra til að víkja frá ákvæðum laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, verði felld brott. Helgast það af breyttu skipulagi húsnæðismála, sbr. lög nr. 44/1998, um húsnæðismál, sem tóku gildi 1. janúar 1999.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að heimild félagsmálaráðherra til að víkja frá ákvæðum laga nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, og laga nr. 18/1985, um vinnumiðlun, verði felld brott. Eru ekki taldar forsendur fyrir framlengingu tilraunaverkefna vegna þeirra breytinga á skipulagi vinnumarkaðar sem urðu við setningu laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, og laga nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að heimild félagsmálaráðherra til að víkja frá ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990, verði felld brott. Ákvæði þessu hefur ekki verið beitt og er gert ráð fyrir að tilraunaverkefni reynslusveitarfélaga verði sem fyrr fjármögnuð með beinum framlögum úr ríkissjóði, samkvæmt fjárlögum.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að heimild umhverfisráðherra til að víkja frá ákvæðum byggingarlaga, nr. 54/1978, verði felld brott. Er gert ráð fyrir því að umhverfisráðherra leggi samhliða frumvarpi þessu fram frumvarp til breytingar á skipulags- og byggingarlögum þar sem mælt verði fyrir um þær heimildir sem tilraunaverkefni reynslusveitarfélaga byggjast á.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Ákvæðið varðar gildistíma laganna sem lagt er til að verði framlengdur til 1. janúar árið 2002. Þannig er lagt til að lögin gildi tveimur árum lengur en upphaflega var gert ráð fyrir.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994.

    Í frumvarpinu er lagt til að gildistími laga um reynslusveitarfélög verði framlengdur um tvö ár, eða til 1. janúar 2002. Ýmsum tilraunaverkefnum er ólokið en ekki er gert ráð fyrir að þau verði öll framlengd. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að felldar verði brott heimildir ráðherra til að veita undanþágur frá ákvæðum laga um húsnæðismál, vinnumarkaðsmál og byggingarmál. Enn fremur er lagt til að felld verði brott heimild félagsmálaráðherra til að víkja frá ákvæðum 2. mgr. 11. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990, en heimild þessi hefur ekki verið notuð. Er gert ráð fyrir að tilraunaverkefni reynslusveitarfélaga verði fjármögnuð með beinum framlögum úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum eins og verið hefur. Ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum úr ríkissjóði við samþykkt frumvarpsins.