Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 135  —  84. mál.Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um ráðstefnuna Konur og lýðræði.

     1.      Hvað komu fram margar umsóknir frá íslenskum konum eða kvennasamtökum um þátttöku í ráðstefnunni Konur og lýðræði? Óskað er eftir yfirliti yfir umsóknirnar.
    Í febrúar og mars 1999 leitaði framkvæmdanefnd ráðstefnunnar eftir ábendingum um þá aðila í þátttökulöndunum tíu sem annaðhvort sinntu þeim málefnum sem ráðstefnan skyldi snúast um eða létu sig þau mál varða. Þeir sem leitað var ábendinga hjá um hugsanlega þátttakendur frá Íslandi voru m.a. Skrifstofa jafnréttismála, nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum, Kvenréttindafélag Íslands og félagsmálaráðuneytið. Þar sem ráðstefnan snerist í meginatriðum um tvo málaflokka, efnahagsmál og stjórnmál, var áhersla lögð á að finna hugsanlega þátttakendur af þessum sviðum.
    Bréf til yfir 700 slíkra aðila, þar á meðal um 60 innan lands, voru send út fyrri hluta aprílmánaðar 1999. Meðal viðtakenda á Íslandi voru öll helstu kvennasamtök landsins, allir þingflokkar, launþegasambönd og fyrirtæki, sem samanlagt hafa þúsundir kvenna og karla innan sinna vébanda (sjá fylgiskjal I). Í bréfinu var viðtakandi beðinn um að dreifa því til allra þeirra sem hún eða hann teldi að ættu erindi á ráðstefnuna (sjá fylgiskjal II). Hér var því um opið boð að ræða og engin leið er að henda reiður á hversu víða bréfið fór. Að auki höfðu margir samband við ráðstefnuskrifstofuna að eigin frumkvæði.
    Í bréfinu voru viðtakendur beðnir um að skoða nokkur lykilatriði (Key Issues) sem því fylgdu og greina í svari sínu frá því hvernig þekking þeirra og reynsla tengdist þessum lykilatriðum. Jafnframt voru þeir beðnir um að setja fram tillögur um úrlausnir á vandamálum sem viðkomandi skilgreindi og/eða benda á verkefni sem hefðu tekist vel og nota mætti sem fyrirmynd. Skilafrestur var til 10. maí.
    Svör bárust frá 38 aðilum á Íslandi, þar af tvö undirrituð af körlum og 36 undirrituð af konum. Í heild bárust rúmlega 350 svör og er því svörun frá Íslandi yfir meðaltali. Úr þessum svörum var ráðstefnan efnislega sett saman.
    Fjöldi þátttakenda réðst annars vegar af stærð Borgarleikhússins, þar sem ráðstefnan skyldi haldin, og hins vegar af því að vinnuhópar ráðstefnunnar yrðu hæfilegar stórir til að geta unnið þau verk sem þeim voru ætluð. Í samstarfi þátttökulandanna hafði Íslandi verið úthlutað 15 þátttakendasætum. Lögð var áhersla á það af hálfu framkvæmdanefndar ráðstefnunnar að fjölga þessum sætum þar sem Ísland væri heimaland ráðstefnunnar. Á fundi samstarfsnefndar þátttökulandanna í Kaupmannahöfn 8. júlí 1999 tókst að fjölga íslenskum þátttakendum í 28 og tók nefndin á þessum fundi jafnframt ákvörðum um hvaða umsóknir yrðu fyrir valinu frá þátttökulöndunum. Við val á umsóknum var annars vegar tekið mið af svörum við framangreindu boðsbréfi og hins vegar var leitast við að jafna dreifingu í vinnuhópa milli landa (miðað við úthlutuð sæti) eins og kostur var.
    Til glöggvunar er rétt að geta þess að greinarmunur var gerður á þátttakanda á ráðstefnunni annars vegar og framkvæmdaraðila að verkefnum á henni hins vegar. Þátttakendur voru þeir sem fengu framangreint bréf og voru valdir eins og að framan er lýst. Framkvæmdaraðilar voru hins vegar valdir eftir vilja þeirra til að leggja fram fé eða jafngildi þess til þeirra verkefna sem ákveðið yrði á ráðstefnunni að setja á laggirnar. Íslenskir framkvæmdaraðilar voru alls um 20, en fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum er enn velkomið að bætast í hóp framkvæmdaraðila þótt ráðstefnan sé afstaðin, enda er hún aðeins þáttur í lengra ferli.

     2.      Hvaða erindum var hafnað og hvaða erindi voru samþykkt?
    Listi yfir íslenska þátttakendur er birtur í fylgiskjali III.

     3.      Mun verða gefin út skýrsla um ráðstefnuna og niðurstöður hennar?
    Heimasíða ráðstefnunnar var opnuð í maí og þar hafa upplýsingar um ráðstefnuna verið birtar, þar á meðal listar yfir þátttakendur. Ræður sem fluttar voru á ráðstefnunni verða settar á heimasíðuna ásamt niðurstöðum allra vinnuhópa þegar þær liggja fyrir í endanlegri útgáfu. Verður auglýst í fjölmiðlum þegar þetta efni er komið á heimasíðuna. Slóð heimasíðunnar er: www.womenanddemocracy.com
    Gefin var út dagskrá ráðstefnunnar og liggur hún frammi á skrifstofu hennar að Hverfisgötu 4a. Jafnframt er í ráði að gefa út kynningarbækling um ráðstefnuna.Fylgiskjal I.


Stofnun, félagasamtök eða fyrirtæki Nafn
Alþýðusamband Íslands Grétar Þorsteinsson forseti
Atvinnu- og ferðamálastofa Reykjavíkurborgar Róbert Jónsson
Bandalag háskólamanna Björk Vilhelmsdóttir formaður
Bandalag íslenskra listamanna Tinna Gunnlaugsdóttir formaður
Biskupsstofa Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands
Blaðamannafélag Íslands Hjálmar Jónsson formaður
Bandalag starfsmanna ríkis og bæja Ögmundur Jónasson formaður
Búnaðarbanki Íslands Stefán Pálsson bankastjóri
Byggðastofnun á Austurlandi Elísabet Benediktsdóttir
Dómstólaráð
Félag kvenna í atvinnurekstri Jónína Bjartmarz hdl.
Félagsvísindadeild Rannveig Traustadóttir dósent
Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. Bjarni Ármannsson forstjóri
Gæðastjórnunarfélag Íslands Haraldur Hjaltason formaður
Hagstofa Íslands Sigríður Vilhjálmsdóttir þjóðfélagsfræðingur
Iðntæknistofnun Íslands Þuríður Magnúsdóttir
Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra Bjarnheiður Jóhannsdóttir jafnréttisráðgjafi
Íslandsbanki Valur Valsson bankastjóri
Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands Sigríður Þorgeirsdóttir lektor, formaður
Jafnréttisnefnd Reykjavíkur Steinunn Valdís Óskarsdóttir formaður
Jafnréttisnefnd Akureyrar Sigríður Stefánsdóttir formaður
Jafnréttisnefnd Landsvirkjunar Rán Jónsdóttir verkfræðingur, formaður
Jafnréttisnefnd stúdentaráðs Brynja Baldursdóttir formaður
Karlanefnd Jafnréttisráðs Ólafur Þ. Stephensen formaður
Kvenréttindafélag Íslands Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir formaður
Kvenfélagasamband Íslands Drífa Hjartardóttir formaður
Kvennalistinn
Lánatryggingasjóður kvenna Guðrún Ögmundsdóttir
Landbúnaðarráðuneyti Anna María Ólafsdóttir
Landsbanki Íslands Halldór Jón Kristjánsson bankastjóri
Landssími Íslands Erna Arnardóttir jafnréttisráðgjafi
Lögfræðingafélag Íslands Helgi Jóhannesson hrl., formaður
Lögmannafélag Íslands Jakob R. Möller hrl., formaður
Mannréttindaskrifstofa Íslands Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður
Menntasmiðja kvenna á Akureyri Valgerður H. Bjarnadóttir
Nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, formaður
Nefnd um konur og fjölmiðla Hanna Katrín Friðriksson blaðamaður, formaður
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins Páll Kr. Pálsson framkvæmdastjóri
Rannsóknarstofa í kvennafræðum Herdís Sveinsdóttir, formaður stjórnar
Samband íslenskra sparisjóða Sigurður Hafstein framkvæmdastjóri
Skref fyrir skref Ásdís G. Ragnarsdóttir
Skrifstofa jafnréttismála Elsa Þorkelsdóttir framkvæmdastjóri
UNIFEM á Íslandi Margrét Einarsdóttir formaður
Verslunarráð Íslands Kolbeinn Kristinsson formaður
Viðskiptaháskólinn í Reykjavík Guðfinna Bjarnadóttir rektor
Vinnueftirlit ríkisins Hólmfríður Gunnarsdóttir
Vinnueftirlit ríkisins Guðbjörg Linda Rafnsdóttir
Vinnumálasambandið Ólafur Ólafsson formaður
Vinnumálastofnun Margrét Gunnarsdóttir
Vinnumálastofnun Hólmfríður Sveinsdóttir
Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins Oddrún Kristjánsdóttir
Vinnuveitendasamband Íslands Ólafur B. Ólafsson formaður
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins Sigríður Anna Þórðardóttir formaður
Þingflokkur framsóknarmanna Valgerður Sverrisdóttir formaður
Þingflokkur Óháðra Ögmundur Jónasson formaður
Þingflokkur Samfylkingarinnar Rannveig Guðmundsdóttir formaður
Þingflokkur Fjálslynda flokksins
Þingflokkur Vinstri grænna
Þróun upplýsingasamfélagsins Guðbjörg Sigurðardóttir deildarstjóri

Fylgiskjal II.


Ráðstefnan Konur og lýðræði.
Opið boðsbréf.

(Reykjavík, 13. apríl 1999.)


    Meðfylgjandi bréf er opið boðsbréf um hugsanlega þátttöku á ráðstefnunni Konur og lýðræði við árþúsundamót, sem stefnt er að að halda í Reykjavík 8.–10. október 1999. Ríkisstjórn Íslands býður til ráðstefnunnar, en ríkisstjórn Bandaríkjanna og norræna ráðherranefndin standa einnig að henni.
    Þar sem málasvið ráðstefnunnar snertir samtök þín/stofnun, bjóðum við þér að dreifa meðfylgjandi bréfi til þeirra aðila innan samtakanna/stofunarinnar sem kynnu að hafa áhuga á að miðla þekkingu sinni og hugmyndum um úrlausnir á ráðstefnunni. Svör þurfa að hafa borist fyrir 10. maí nk. Samráðsnefnd þáttökuríkja ráðstefnunnar mun síðan á grundvelli þeirra svara sem berast ákveða hverjum verður boðið til þátttöku á ráðstefnunni. Þar sem um fjölþjóðlega valnefnd er að ræða eru þeir sem svara bréfinu vinsamlegast beðnir um að gera það á ensku.

Með kveðju,
Sigríður Dúna Kristmundsdóttir,
formaður framkvæmdanefndar.Fskj. I (þýtt úr ensku).


Ráðstefnan Konur og lýðræði.
Boðsbréf.

(Reykjavík, 7. apríl 1999.)


    Í samvinnu við ríkisstjórn Bandaríkja Norður-Ameríku og Norræna ráðherraráðið mun ríkisstjórn Íslands bjóða til ráðstefnunnar Konur og lýðræði við árþúsundamót, sem ráðgert er að að halda dagana 8.–10. október 1999. Þátttökulönd eru Norðurlönd, Bandaríkin, Rússland og Eystrasaltsríkin. Forsetafrú Bandaríkjanna, Hillary Rodham Clinton, mun ávarpa ráðstefnugesti í samræmi við eindreginn stuðning hennar við styrkingu á stöðu kvenna á vettvangi Vital Voices Global Initiative.
    Nafn yðar hefur verið nefnt við okkur og við viljum bjóða yður að senda okkur tillögu um hugsanlegt erindi á ráðstefnunni eða annað framlag til hennar.
    Hjálagt er:
     *      Yfirlit yfir ráðstefnuna.
     *      Helstu málefni sem tekin verða fyrir á ráðstefnunni.
     *      Drög að dagskrá ráðstefnunnar.
    Við biðjum yður að taka viðfangsefni ráðstefnunnar og lista yfir helstu málefni hennar til athugunar, með hugsanlegt framlag í huga. Listinn er ætlaður til að hjálpa yður að finna atriði sem sérþekking yðar gæti átt við, en hann er þó engan veginn tæmandi. Ef þér skynjið viðfangsefni ráðstefnunnar og helstu málefni hennar á annan hátt látið okkur þá hiklaust vita.
    Ráðstefnan snýst um aðferðir og leggur aðaláherslu á hvernig framkvæma eigi þær breytingar sem þörf er á hvað konur og lýðræði varðar. Sérstakar áætlanir/verkefni og hvernig framkvæmd þeirra skuli háttað verða til umfjöllunar á ráðstefnunni, ákvarðanir teknar þar að lútandi og þeim ýtt úr vör. Í þeim tilgangi biðjum við yður að lýsa því hvernig þér sjáið fyrir yður að hægt sé að framkvæma þær breytingar sem þér teljið nauðsynlegar á því sviði sem þér kjósið að taka til umfjöllunar, eða þá að lýsa verkefnum sem þegar hafa borið árangur. Ef þér hafið tillögur um framkvæmdaraðila, hvort sem um er að ræða ríkisstjórnir, frjáls félagasamtök eða fyrirtæki í einkaeign, leggið þær þá fram. Gert er ráð fyrir því að u.þ.b. einu ári eftir ráðstefnuna verði önnur ráðstefna haldin til að fylgja henni eftir og verður þá lagt mat á árangur áætlana/verkefna hennar.
    Með þessu bréfi förum við þess á leit við yður að þér sendið okkur 1–2 bls. þar sem þér lýsið því sviði sem þér vilduð helst fjalla um og þá hvernig, auk hugmynda varðandi áætlanir til að koma á þeim breytingum sem eru nauðsynlegar að yðar mati. Tillögur um framkvæmdaraðila og ævi- og starfságrip yðar væru einnig vel þegin. Ef yður finnst óþægilegt að vinna á ensku þá gefið okkur vinsamlegast til kynna hvaða tungumál þér kjósið heldur að nota.
    Skilafrestur tillögu yðar er 10. maí 1999. Ráðgjafarnefndin, sem í eiga sæti fulltrúar frá þátttökulöndunum, mun þá koma saman og taka ákvörðun um hvaða tillögur skuli samþykktar. Þeim aðilum sem sent hafa inn tillögur verður svo tilkynnt um val nefndarinnar. Ef þér óskið eftir frekari upplýsingum sendið þá fyrirspurn til skrifstofu ráðstefnunnar.
    Það er einlæg ósk mín að þér munið leggja okkur lið við að skipuleggja ráðstefnu sem skiptir máli fyrir konur og lýðræði í þátttökulöndunum, og þar af leiðandi einnig um allan heim. Er dregur að lokum þessa árþúsunds er bæði mikið í húfi og til mikils að vinna hvað þetta varðar.

Virðingarfyllst,
Dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir,
ráðstefnustjóri og formaður framkvæmdanefndar ráðstefnunnar.Fskj. II (þýtt úr ensku).

Ráðstefnan Konur og lýðræði.
Helstu málefni.


STJÓRNMÁL
    Hvernig geta konur tekið þátt í stjórnmálum á sem skilvirkastan hátt?
    Hvaða aðferðir eru fyrir hendi til að yfirstíga eftirtaldar hindranir:
     *      Lagalega mismunun?
     *      Hefðir?
     *      Fordóma?
     *      Menninguna?
     *      Staðlaðar ímyndir?
     *      Þekkingu á lögum?
     *      Sjálfstraust, eða skort á því?
     *      Þekkingu á leiðum til að hafa áhrif?
     *      Fjárhagslegt sjálfstæði?
     *      Menntun? Hvers konar?
     *      Þjálfun í stjórnmálastarfi?
     *      Að tilheyra minnihlutahópi?
     *      Annað?
    Tæki til að koma á breytingum:
    Hverjar eru skilvirkustu aðferðirnar til að auka þátttöku kvenna í ákvarðanatöku á sviði stjórnmála/í opinberu starfi?
     *      Kvennahreyfingar?
     *      Aðrar félagslegar hreyfingar?
     *      Umræðuvettvangur leiðtoga kvenna?
     *      Frjáls félagasamtök?
     *      Stjórnmálaflokkar?
     *      Stjórnmálaflokkar kvenna?
     *      Að koma á samstarfi milli grasrótarhreyfinga og formlegra stjórnmálahreyfinga?
     *      Skilvirkar áætlanir varðandi fjölmiðla?
     *      Internetið?
     *      Sjálfstæð útgáfa efnis?
     *      Menntun kvenna?
     *      Menntun fjölmiðla?
     *      Aðrar aðferðir?
    Trygging fyrir kosningu kvenna og pólitískri skipun þeirra í embætti:
    Hvaða aðferðir og kerfi er hægt að þróa til að auka möguleika á framboði kvenna til embættis, kosningu þeirra og áframhaldandi setu þeirra þegar þær eru komnar í embætti?
     *      Sama og hér að ofan?
     *      Óaðskiljanlegur þáttur í uppbyggingu vestræns lýðræðis? Hvernig þá?
     *      Leiðtogaímynd?
     *      Ímynd og raunveruleiki stjórnmála?
     *      Annað?
    Hvernig er hægt að nota nýja tækni til að tengjast betur og koma á skilvirkum samskiptanetum til þátttöku í stjórnmálum?
     *      Upplýsingaskipti?
     *      Gagnkvæm skipti á aðstöðu og úrræðum?
     *      Gagnkvæmur stuðningur?
    Hvers vegna kjósa konur ekki? Hvernig er hægt að efla kosningaþátttöku kvenna? Hvernig er hægt að stuðla að skilvirkri samvinnu milli karla og kvenna á sviði stjórnmála og í opinberu starfi? Hvernig er hægt að ná til ungra kvenna og sýna þeim fram á mikilvægi leiðtogahæfileika, og hæfileika sem þær kunna sjálfar að búa yfir?
    Hvaða önnur málefni þarf að fást við og hvernig?

EFNAHAGUR
    Styrking efnahagslegs hlutverks og stöðu kvenna:
    Hindranir í vegi fjárhagslegs sjálfræðis kvenna sem þarf að yfirstíga:
     *      Mismunun og arðrán á vinnustað?
     *      Kynskiptur vinnumarkaður?
     *      Launastefna verkalýðshreyfinga?
     *      Aðrar vinnureglur og lög á atvinnumarkaði?
     *      Skortur á félagslegum stuðningi, t.d. barnsburðarleyfi (fyrir bæði konur og karla)?
     *      Tvöfalt vinnuálag?
     *      Skortur á þjálfun og menntun?
     *      Engar konur í stjórnunarstöðum?
     *      Aðrar hindranir?
     *      Hvaða leiðir er hægt að fara til að yfirstíga þessar hindranir?
    Hvaða hæfileikar, úrræði og tæki eru nauðsynleg til að stofna og þróa fyrirtæki og aðrar efnahagslegar valdstöðvar?
     *      Þjálfun?
     *      Aðgangur að fjármagni?
     *      Jákvæð áhrif frá einkageiranum og verslunarráðum?
     *      Staðbundin viðskiptanet sem miða að því að styrkja hlut kvenna?
     *      Hæfileikar á sviði markaðssetningar?
     *      Erlend sambönd?
     *      Aðgangur að tækni og þjálfun í notkun hennar?
     *      Samtenging fyrirtækja á neti?
     *      Sambönd við fjölmiðla?
     *      Internetið?
     *      Annað?
    Hvernig geta konur styrkt stöðu sína á vinnustað?
    Hvers konar netvæðingu má nota til að sameina konur í viðskiptum, frjáls félagasamtök, stefnumarkandi hópa, áhættufjármagn, lánastofnanir og aðra stuðningshópa?
    Hvaða önnur málefni þarf að takast á við og hvernig?


Fylgiskjal III.


Íslenskir þátttakendur í ráðstefnunni Konur og lýðræði.

Arnfríður Guðmundsdóttir, Ingólfur V. Gíslason,
Ásdís G. Ragnarsdóttir, Jóhanna Rósa Arnardóttir,
Áslaug Brynjólfsdóttir, Jónína Bjartmarz,
Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, Rannveig Traustadóttir,
Elsa Þorkelsdóttir, Rán Jónsdóttir,
Erna Arnardóttir, Soffía Jónsdóttir,
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Sólveig Jakobsdóttir,
Guðrún Stella Gissurardóttir, Sólveig Pétursdóttir,
Guðrún Pétursdóttir, Stefanía G. Traustadóttir,
Helga Stefáns Ingvarsdóttir, Stefanía Óskarsdóttir,
Helga Guðrún Jónasdóttir, Tinna Arnardóttir,
Hildur Jónsdóttir, Una María Óskarsdóttir,
Hjördís Hákonardóttir, Valgerður H. Bjarnadóttir,
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Þorbjörg I. Jónsdóttir.