Ferill 62. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 141  —  62. mál.
Svariðnaðarráðherra við fyrirspurn Sighvats Björgvinssonar um virkjunarleyfi og umhverfismat.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða virkjunarleyfi hafa verið gefin út samkvæmt lögum um raforkuver, nr. 60/1981, orkulögum, nr. 58/1967, eða sérlögum þar sem framkvæmdir eru ekki hafnar og þær taldar undanþegnar ákvæðum laga um umhverfismat?

1. Inngangur.
    Í 10. gr. orkulaga, nr. 58/1967, er fjallað um veitingu leyfa til að reisa og reka raforkuver. Í greininni segir m.a. að leyfi Alþingis þurfi til að reisa og reka raforkuver sem eru stærri en 2 MW en leyfi ráðherra þurfi vegna raforkuvera sem eru 0,2–2 MW. Leyfisveitingarvald er því eftir atvikum í höndum Alþingis eða iðnaðarráðherra.
    Lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, öðluðust gildi 21. maí 1993. Í bráðabirgðaákvæði II með lögunum segir að þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laganna séu framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Á tímabilinu frá gildistöku laganna og fram til 1. maí 1994 voru ekki veitt nein virkjunarleyfi. Hér eru taldar upp virkjanaframkvæmdir sem heimildir eru fyrir samkvæmt lögum settum fyrir 21. maí 1993 og ekki hafa komið til framkvæmda.

2. Lög um raforkuver, nr. 60/1981.
    Í lögum um raforkuver, nr. 60/1981, er að finna ýmsar virkjunarheimildir en með þeim var sett fram mótuð stefna í virkjanamálum til langs tíma. Lögunum hefur verið breytt með lögum nr. 74/1990 og lögum nr. 48/1999.
    Með 1. mgr. 2. gr. laga um raforkuver var Landsvirkjun veitt heimild, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, til að stækka Hrauneyjafossvirkjun í allt að 280 MW afl, en hún er 210 MW, og Sigölduvirkjun í allt að 200 MW afl, en hún er nú 150 MW. Framkvæmdir á grundvelli þessara heimilda eru ekki hafnar.
    Með 2. mgr. 2. gr. sömu laga var ríkisstjórninni veitt heimild til að semja við Landsvirkjun um að reisa og reka Blönduvirkjun með allt að 180 MW afli, Fljótsdalsvirkjun með allt að 330 MW afli og Villinganesvirkjun með allt að 40 MW afli. Á grundvelli þessarar heimildar var undirritaður samningur ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar um virkjanamál, yfirtöku byggðalína o.fl., dags. 11. ágúst 1982. Í 1. mgr. 6. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42 23. mars 1983, segir m.a. að Landsvirkjun reisi og reki, samkvæmt lögum um raforkuver og sérstöku samkomulagi við ríkisstjórn Íslands, Blönduvirkjun með allt að 180 MW afli, en hún er nú 150 MW, og Fljótsdalsvirkjun með allt að 330 MW afli, að fengnu leyfi ráðherra skv. 7. gr. sömu laga. Framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun með 210 MW afli hófust árið 1991 en var frestað síðar sama ár. Með breytingu á lögum um Landsvirkjun var heimild vegna Villinganesvirkjunar færð Rafmagnsveitum ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði og þarf sú virkjun því að fara í mat á umhverfisáhrifum.
    Í 4. mgr. 2. gr. laganna segir að ríkisstjórnin geti heimilað Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins, Hitaveitu Suðurnesja og/eða öðrum aðilum er standa að virkjun jarðvarma að reisa og reka jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu á háhitasvæðum eða stækka slík orkuver sem fyrir eru um samtals 50 MW, að fullnægðum skilyrðum sem ríkisstjórnin kann að setja fyrir slíkum heimildum í því skyni að tryggja hagkvæman heildarrekstur raforkukerfisins. Nú þegar hafa verið nýtt 38,4 MW af þessari heimild. Eftir eru því 11,6 MW.
    Í 1. mgr. 2. gr. laganna er Landsvirkjun veitt heimild til að stækka Búrfellsvirkjun í allt að 310 MW afl. Landsvirkjun hefur stækkað Búrfellsvirkjun í 270/280 MW og er 40 MW því óráðstafað samkvæmt þessari heimild. Hún var tekin upp í lög um raforkuver með lögum nr. 74 18. maí 1990.
    Í 3. mgr. 2. gr. laganna er iðnaðarráðherra veitt heimild til að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 76 MW afli í tveimur áföngum (38 MW hvor). Heimild þessi var tekin upp í lög um raforkuver með lögum nr. 74 18. maí 1990. Hitaveita Reykjavíkur hefur nú þegar hafið rekstur 60 MW virkjunar á Nesjavöllum og í iðnaðarráðuneytinu liggur nú fyrir beiðni Orkuveitu Reykjavíkur um að fullnýta heimild laganna og auka uppsett afl virkjunarinnar í 76 MW.

3. Orkulög, nr. 58/1967.
    Í orkulögum er ekki að finna heimildir fyrir einstaka virkjunum heldur er þar m.a. fjallað um stjórn orkumála. Í 10. gr. laganna segir að iðnaðarráðherra veiti leyfi fyrir virkjunum á bilinu 0,2–2 MW. Í 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum segir að vatnsorku- og jarðvarmavirkjanir með uppsett afl 10 MW eða meira séu háðar mati á umhverfisáhrifum. Þá segir í 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum að umhverfisráðherra sé heimilt, að fengnu áliti skipulagsstjóra, að ákveða að tiltekin framkvæmd eða framkvæmdir, sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, en ekki er getið í 5. gr., verði háðar mati samkvæmt lögunum.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að slík leyfi hafi verið veitt en framkvæmdir ekki hafnar.

4. Sérlög.
     1.      Lög um ný orkuver og nýjar orkuveitur Rafmagnsveitna ríkisins.
    Á árunum 1947–1956 setti Alþingi í fjórgang lög um ný orkuver og nýjar orkuveitur Rafmagnsveitna ríkisins, lög nr. 92/1947, 34/1949, 12/1951 og 65/1956. Lög þessi eru enn í gildi. Í þeim er að finna ýmsar heimildir sem sumar hverjar eru ónýttar. Þær heimildir eiga það hins vegar sameiginlegt að vera til smárra virkjanahugmynda sem flestar hafa verið aflagðar.
     2.      Lög um virkjun Hvítár í Borgarfirði.
    Með lögum nr. 26 11. maí 1977 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að veita Andakílsárvirkjun sf. leyfi til þess að reisa og reka vatnsaflsstöð við Kljáfoss í Hvítá í Borgarfirði með allt að 13,5 MW afli og orkuveitu til tengingar við orkuflutningskerfið í Borgarfirði. Virkjunin hefur ekki verið reist.
     3.      Lög um sjóefnavinnslu á Reykjanesi.
    Í 4. gr. laga um sjóefnavinnslu á Reykjanesi, nr. 62/1981, segir að iðnaðarráðherra geti heimilað Sjóefnavinnslunni hf. að reisa og reka raforkuver allt að 10 MW að stærð í tengslum við starfrækslu fyrirtækisins. Sú heimild hefur aðeins verið nýtt til 0,5 MW virkjunar.