Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 143  —  122. mál.
Frumvarp til lagaum fjarskipti.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)I. KAFLI
Skipulag fjarskipta.
1. gr.
Markmið og gildissvið.

    Lög þessi gilda um fjarskipti, fjarskiptaþjónustu og fjarskiptanet.
    Markmið laganna er að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og efla samkeppni á fjarskiptamarkaði.
    Íslenska ríkið skal tryggja eftir því sem unnt er að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.
    Fjarskipti, sem eingöngu eru boð eða sendingar með þræði innan húsakynna heimilis, fyrirtækis eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum og verksmiðjum, heyra ekki undir lög þessi.
    Lög þessi eru samin með hliðsjón af tilskipunum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um fjarskiptamál.

2. gr.
Stjórn fjarskiptamála.

    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn fjarskipta.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa umsjón með fjarskiptum innan lögsögu íslenska ríkisins og hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara.

II. KAFLI
Orðskýringar.
3. gr.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Almenningssími: Sími sem er opinn almenningi til notkunar gegn greiðslu peninga og/eða með greiðslu- og/eða fríkortum.
     2.      Almennt farsímanet: Almennt símanet þar sem nettengipunktar eru ekki fastsettir.
     3.      Almennt fastasímanet: Almennt skiptinet sem flytur tal milli nettengipunkta á föstum stöðum.
     4.      Almennt fjarskiptanet: Fjarskiptanet notað að öllu eða einhverju leyti til framboðs á almennt fáanlegri fjarskiptaþjónustu.
     5.      Almenn fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem er almennt fáanleg fyrir notendur.
     6.      Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra.
     7.      Áskrifandi: Einstaklingur eða lögaðili sem er aðili að samningi við seljanda almennrar fjarskiptaþjónustu um afhendingu slíkrar þjónustu.
     8.      Fjarskiptafyrirtæki: Einstaklingur eða lögaðili sem hefur almenna heimild eða rekstrarleyfi Póst- og fjarskiptastofnunar til að reka fjarskiptaþjónustu og/eða fjarskiptanet.
     9.      Fjarskiptanet: Sendikerfi og þar sem við á skiptistöðvar og önnur úrræði sem gera kleift að beina merkjum milli skilgreindra nettengipunkta eftir þræði, þráðlaust, með ljósbylgjum eða með öðrum rafsegulaðferðum.
     10.      Fjarskiptavirki: Hvers konar tæki, tækjahlutar, leiðslur, búnaður og því um líkt sem sérstaklega er ætlað að koma á fjarskiptum eða reka þau hvort heldur er til sendingar eða móttöku.
     11.      Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet með fjarskiptaaðferðum, öðrum en sjónvarpi eða hljóðvarpi.
     12.      Fjarskipti: Hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum, með þráðlausri útbreiðslu eða öðrum rafsegulkerfum.
     13.      Forskeyti: Númer sem notandi verður að velja á undan venjulegu símanúmeri til að fá aðgang að ákveðnum þjónustuaðila.
     14.      Grunnkröfur: Aðstæður í almannaþágu aðrar en fjárhagslegar sem geta valdið því að sett eru skilyrði um uppsetningu og/eða starfrækslu fjarskiptaneta eða framboð fjarskiptaþjónustu. Þessar aðstæður geta varðað rekstraröryggi netsins, viðhald á heildstæði neta og, þar sem réttlætanlegt er, samtvinnun þjónustu, gagnavernd, umhverfisvernd og skipulagsmarkmið ríkis og sveitarfélaga, einnig hagkvæma nýtingu tíðnirófsins og að fyrirbyggja skaðlegar truflanir milli þráðlausra fjarskiptakerfa og annarra tæknikerfa í geimnum eða á jörðu. Í gagnavernd getur falist vernd persónuupplýsinga, trúnaðarskylda vegna upplýsinga sem sendar eru eða geymdar og verndun einkalífs.
     15.      Heimtaug: Tenging frá tengigrind símstöðvar í almennu fjarskiptuneti að þeim búnaði sem gefur aðgang að innanhússlögn áskrifanda.
     16.      Kapalkerfi: Fjarskiptanet sem ætlað er til dreifingar á útvarpsmerkjum til almennings.
     17.      Nettengipunktur: Efnislegur tengipunktur þar sem notanda er veittur aðgangur að almennu fjarskiptaneti. Staðsetning nettengipunkta skal vera ákvörðuð af Póst- og fjarskiptastofnun og skal marka umfang almennra fjarskiptaneta.
     18.      Notendur: Einstaklingar eða lögaðilar sem nota eða krefjast nota á almennt fáanlegri fjarskiptaþjónustu.
     19.      Númer og vistföng: Röð tákna sem notuð eru til að auðkenna einstaka notendur í fjarskiptavirkjum.
     20.      Rekstrarleyfi: Heimild veitt af Póst- og fjarskiptastofnun sem veitir fyrirtæki sérstök réttindi eða leggur starfsemi fyrirtækisins á herðar, þar sem við á, sérstakar skyldur til viðbótar ákvæðum almennrar heimildar.
     21.      Rekstrarleyfishafi með umtalsverða markaðshlutdeild: Rekstrarleyfishafi sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur skilgreint með umtalsverða markaðshlutdeild.
     22.      Samtenging: Efnisleg og rökrétt tenging fjarskiptaneta sem gerir notendum kleift að eiga samskipti við aðra notendur eða fá aðgang að þjónustu sem veitt er af öðrum aðila. Ekki skiptir máli hvort þjónustan er veitt af eigendum netsins eða öðrum aðilum sem kunna að hafa aðgang að fjarskiptanetinu.
     23.      Skeyti: Skriflegt efni sem á að senda með ritsíma til afhendingar móttakanda.
     24.      Talsímaþjónusta: Þjónusta opin almenningi sem felst í markaðsframboði á beinum rauntímaflutningi á tali um almennt skiptinet þannig að notandi getur notað búnað tengdan föstum nettengipunkti til þess að hafa samband við annan notanda búnaðar sem tengdur er öðrum nettengipunkti.
     25.      Virðisaukandi þjónusta: Þjónusta þar sem virðisaukandi þáttum er bætt við fjarskiptaþjónustu.
     26.      Yfirgjald: Gjald fyrir virðisaukandi þjónustu sem er hærra en almennt símtalagjald.

III. KAFLI
Heimild til fjarskiptastarfsemi.
4. gr.
Skilgreining.

    Póst- og fjarskiptastofnun veitir heimild til reksturs almennra fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu, þ.m.t. kapalkerfa. Heimildir geta verið tvenns konar: almennar heimildir og rekstrarleyfi. Í öllum heimildum skal tilgreina til hvaða þjónustu leyfið nær og til hvaða almennra fjarskiptaneta. Heimildir eru veittar einstaklingum eða lögaðilum sem staðfestu hafa innan Evrópska efnahagssvæðisins og í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eftir því sem samgönguráðherra ákveður með reglugerð.
    Ekki þarf heimild til að veita virðisaukandi fjarskiptaþjónustu.

5. gr.
Almenn heimild.

    Einstaklingar og lögaðilar sem uppfylla skilyrði laga þessara skulu hafa almenna heimild til að veita fjarskiptaþjónustu. Fjarskiptafyrirtæki sem hyggst starfa í samræmi við almenna heimild skal tilkynna það Póst- og fjarskiptastofnun a.m.k. fjórum vikum áður en starfsemi hefst og veita upplýsingar um starfsemi sína. Póst- og fjarskiptastofnun skal tilkynna fjarskiptafyrirtækinu eigi síðar en fjórum vikum eftir móttöku fullnægjandi tilkynningar hvort fyrirtækinu verði sett sérstök skilyrði, sbr. 7. og 8. gr.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal halda skrá yfir öll fjarskiptafyrirtæki sem hafa tilkynnt að þau muni starfa samkvæmt almennri heimild.

6. gr.
Skilyrði almennrar heimildar.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal setja skilyrði sem gilda um almennar heimildir. Skilyrði skulu vera hlutlæg, skýr og þannig að jafnræðis sé gætt.
    Skilyrði geta verið eitt eða fleiri af eftirtöldum:
     a.      að fylgt sé viðeigandi grunnkröfum,
     b.      að veittar séu upplýsingar sem sanngjarnt er að krefjast til þess að ganga úr skugga um að farið sé eftir settum skilyrðum og til söfnunar á tölfræðilegum upplýsingum,
     c.      að komið sé í veg fyrir samkeppnishamlandi aðgerðir á fjarskiptamarkaðinum, þ.m.t. skilyrði sem tryggja að gjaldskrá mismuni ekki aðilum og raski ekki samkeppni,
     d.      að notkun númera sé til þess fallin að þau verði nýtt sem best.
    Að auki geta skilyrði sem gilda um almennar heimildir til framboðs á almennri fjarskiptaþjónustu og fyrir almenn fjarskiptanet sem þarf til að geta boðið slíka þjónustu verið eitt eða fleiri, þ.m.t.:
     a.      að tryggður sé réttur notenda og áskrifenda einkum að því er varðar,
                  1.      fyrir fram samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar á samningum við áskrifendur,
                  2.      nákvæma og sundurliðaða reikningagerð,
                  3.      gerð vinnureglna um úrvinnslu kvartana,
                  4.      birtingu á fullnægjandi tilkynningu um allar breytingar á skilyrðum um aðgang, þ.m.t. gjaldskrá, gæðum og fáanlegri þjónustu,
     b.      að lagt sé fé til alþjónustu samkvæmt reglum sem gilda hverju sinni,
     c.      að nauðsynlegar símaskrárupplýsingar úr gagnagrunni um viðskiptavini skuli látnar í té,
     d.      um framboð neyðarþjónustu,
     e.      um sérstaka tilhögun fyrir fatlaða,
     f.      um samtengingu fjarskiptaneta og gagnkvæma starfrækslu þjónustu milli neta,
     g.      um almannaheill, allsherjarreglu og rannsókn opinberra mála.

7. gr.
Rekstrarleyfi.

    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast þess að einstaklingar eða lögaðilar sæki um rekstrarleyfi í eftirfarandi tilvikum:
     a.      þegar óskað er afnota af tíðnum eða númerum,
     b.      þegar óskað er sérstakra réttinda að því er varðar aðgang að almenningum, afréttum og eignarlöndum,
     c.      þegar á eru lagðar skyldur til að veita almenna fjarskiptaþjónustu og reka almenn fjarskiptanet, þar á meðal skylda til að veita alþjónustu og aðrar skyldur samkvæmt reglum um opinn aðgang að netum,
     d.      þegar leggja þarf á sérstakar skyldur vegna almennra samkeppnisreglna og leyfishafi hefur umtalsverða markaðshlutdeild að því er varðar almenn fjarskiptanet og almenna fjarskiptaþjónustu.
    Að auki er það skilyrði þess að veita almenna talsímaþjónustu og reka almenn fjarskiptanet og önnur net sem byggjast á notkun tíðnirófsins að einstaklingar og lögaðilar hafi til þess rekstrarleyfi.

8. gr.
Skilyrði rekstrarleyfis.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur sett eftirfarandi sérstök skilyrði fyrir rekstrarleyfi, eitt eða fleiri, til viðbótar skilyrðum sem fylgja almennum heimildum, sbr. 6. gr.:
     a.      um úthlutun númera,
     b.      um hagnýta notkun og stjórnun tíðna,
     c.      um sérstakar kröfur í sambandi við umhverfismál og skipulag þéttbýlis og strjálbýlis, þ.m.t. skilyrði um aðgang að almenningum, afréttum og eignarlöndum og skilyrði um samnýtingu staðsetningar og aðstöðu,
     d.      um hámarksgildistíma leyfis, sem skal vera sanngjarn, einkum til að tryggja góða nýtingu tíðna og númera og aðgang að landi í opinberri eign eða einkaeign,
     e.      um alþjónustuskyldur,
     f.      um kröfur til rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild sem tryggja eiga samtengingu eða takmörkun á umtalsverðri markaðsstöðu,
     g.      um eignaraðild,
     h.      um kröfur til gæða, fáanleika og viðhalds þjónustu og neta, þ.m.t. fjárhagslega, stjórnunarlega og tæknilega hæfni umsækjanda og skilyrði um lágmarks starfstíma og að auki þegar við á skylduframboð almennrar fjarskiptaþjónustu og almennra fjarskiptaneta,
     i.      um framboð á leigulínum í samræmi við kvaðir um opinn aðgang að netum,
     j.      um að rekstrarleyfishafi skuli halda einstökum þáttum í rekstri sínum bókhaldslega eða fjárhagslega aðskildum,
     k.      um að gjöld fyrir samtengingu, opinn netaðgang og alþjónustu miðist við tilkostnað að teknu tilliti til hæfilegs arðs af fjárfestingu.

9. gr.
Málsmeðferð við veitingu rekstrarleyfis.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist af umsækjendum um rekstrarleyfi að þeir leggi fram fullnægjandi upplýsingar um eignaraðild, fjárhagsstöðu og fyrirhugaða starfsemi, svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að leggja mat á umsóknina. Málsmeðferð stofnunarinnar skal lokið innan sex vikna frá því að fullnægjandi umsókn barst. Stofnuninni er heimilt að framlengja þennan frest um allt að fjóra mánuði til viðbótar í sérstökum tilvikum þegar leita þarf ákvörðunar eða umsagnar annarra aðila, svo sem þegar,
     a.      sótt er um leyfi vegna fjarskiptaneta og/eða þjónustu sem þarf að samræma á alþjóðavísu,
     b.      ekki er hægt að veita leyfi nema að undangenginni málsmeðferð um tíðnimál hjá viðurkenndum alþjóðasamtökum.
    Póst- og fjarskiptastofnun er enn fremur heimilt að fresta ákvörðun um fjóra mánuði til viðbótar fresti skv. 1. mgr. þegar sótt er um leyfi sem felur í sér úthlutun í tíðnisviði sem er takmarkað að umfangi og stjórnvöld ákveða að viðhafa útboð um úthlutun eða gefa með auglýsingu öðrum kost á að sækja um sama tíðnisvið.

10. gr.
Takmörkun á fjölda rekstrarleyfishafa.

    Einungis má takmarka fjölda rekstrarleyfa fyrir sérhverja tegund þjónustu og til uppsetningar og/eða starfrækslu fjarskiptaneta að því leyti sem nauðsynlegt er til að tryggja hagkvæma nýtingu tíðnirófsins eða tímabundið meðan gerðar eru ráðstafanir til að fjölga númerum.
    Við ákvörðun um takmörkun á fjölda rekstrarleyfa skal leggja viðeigandi áherslu á hagsmuni notenda og örvun samkeppni. Póst- og fjarskiptastofnun skal birta ákvörðun sína um takmörkun á fjölda rekstrarleyfa ásamt forsendum hennar og endurskoða takmarkanir með hæfilegu millibili. Auglýsa skal eftir umsóknum þegar fjöldi leyfa er takmarkaður. Komi upp sú staða að frumkvæði Póst- og fjarskiptastofnunar eða að beiðni félags að hægt sé að fjölga leyfum skal það kynnt og auglýst eftir umsóknum um viðbótarleyfi.

11. gr.
Útboð.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að rekstrarleyfi skv. 10. gr., rekstur alþjónustu skv. 13. gr. og rekstur óarðbærrar þjónustu annarrar en alþjónustu skv. 16. gr. skuli boðin út.
    Útboð skal að jafnaði vera opið. Póst- og fjarskiptastofnun semur útboðsskilmála þar sem m.a. skal mælt fyrir um þá þjónustu eða rekstur sem boðinn er út og um lágmarksboð.
    Póst- og fjarskiptastofnun annast eða hefur umsjón með útboðum þessum.

12. gr.
    Breytingar á leyfisbréfi.

    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að breyta skilyrðum í almennum heimildum og leyfisbréfum þegar það er óhjákvæmilegt vegna nýrrar löggjafar og lögfestingar reglna sem leiðir af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Breytingar skulu kynntar með hæfilegum fyrirvara sem þó skal ekki vera minni en einn mánuður.

IV. KAFLI
Um alþjónustu og sértæka fjarskiptaþjónustu.
13. gr.
Skylda til að veita alþjónustu.

    Ef nauðsynlegt þykir til að tryggja fullnægjandi fjarskiptaþjónustu á sanngjörnum kjörum og þeirri þjónustu verður ekki við komið ef einungis er tekið mið af viðskiptasjónarmiðum getur Póst- og fjarskiptastofnun við útgáfu rekstrarleyfa mælt svo fyrir að rekstrarleyfishafi eða rekstrarleyfishafar skuli veita alþjónustu á starfssvæði sínu. Til alþjónustu teljast m.a. talsímaþjónusta, gagnaflutningsþjónusta með 128 Kb/s flutningsgetu og þjónusta við fatlaða eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið hámarksverð og lágmarksgæði alþjónustu.
    Sjái rekstrarleyfishafi sér ekki fært að veita tilteknum aðila alþjónustu skv. 1. mgr., svo sem vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis, skal ágreiningur um synjun borinn undir Póst- og fjarskiptastofnun til úrskurðar.
    Samgönguráðherra setur reglugerð um alþjónustu.

14. gr.
Umsóknir um fjárframlög og greiðslur þeirra.

    Telji rekstrarleyfishafi að alþjónusta, sem honum er gert skylt að veita samkvæmt rekstrarleyfi, sbr. 13. gr., sé rekin með tapi eða sé óarðbær getur hann krafist þess að honum verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Skal slík beiðni send Póst- og fjarskiptastofnun.
    Við mat á kostnaði við alþjónustu skal beita sömu reglum og um samtengingu skv. 1. tölul. 1. mgr. 26. gr.
    Nú berst Póst- og fjarskiptastofnun beiðni um fjárframlög skv. 1. mgr., og ekki verður talið að þjónustan verði tryggð með öðrum hagkvæmari hætti en jafnframt talið að þjónustan sé óhjákvæmileg og verði ekki aflögð, og skal stofnunin þá með fjárframlögum tryggja rekstrarleyfishafa eðlilegt endurgjald fyrir þá þjónustu sem veitt er.
    Skal Póst- og fjarskiptastofnun krefjast þess að rekstrarleyfishafi upplýsi nákvæmlega hvert rekstrartapið af starfseminni er og hvernig það sundurliðast.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur við mat á fjárframlögum krafist skýrslna löggiltra endurskoðenda eða falið slíkum aðila að gera úttekt á rekstrarafkomu á viðkomandi rekstrarsviði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast aðgangs að bókhaldi rekstrarleyfishafa við mat á fjárframlögum og eftirlit með þeim.
    Rekstrarleyfishafi skal gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir ráðstöfun fjárframlagsins í lok hvers árs.
    Fjárframlög skulu að jafnaði miðuð við eitt ár í senn. Nú telur annar hvor aðili að forsendur fyrir ákvörðun fjárframlaga hafi breyst verulega, og getur hvor um sig þá krafist endurskoðunar á framlaginu.
    Nú er hluti af starfsemi rekstrarleyfishafa háður fjárframlögum samkvæmt ákvæði þessu, og getur Póst- og fjarskiptastofnun þá krafist þess að sá þáttur starfseminnar sé bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi leyfishafans.

15. gr.
Jöfnunargjald.

    Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga samkvæmt þessum kafla skal innheimta jöfnunargjald sem rennur til Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Skal jöfnunargjaldið lagt á fjarskiptafyrirtæki sem veita þá þjónustu sem fellur undir alþjónustu í hlutfalli við bókfærða veltu á viðkomandi þjónustusviði. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem fjarskiptafyrirtæki hefur af umræddri starfsemi hér á landi. Sá þáttur rekstrarleyfishafa hér á landi sem er leyfisbundinn skal vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi hans.
    Jöfnunargjald samkvæmt lögum þessum skal ákveðið árlega með lögum.
    Jöfnunargjald má draga frá tekjum greiðanda á því rekstrarári þegar stofn þess myndaðist.
    Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
    Samgönguráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um fjárframlög og jöfnunargjöld í fjarskiptaþjónustu, þar á meðal um útreikning á kostnaði við að veita fjarskiptaþjónustu, og um útreikning rekstrartaps.

16. gr.
Samningar og greiðslur fyrir sértæka fjarskiptaþjónustu, aðra en alþjónustu.

    Nú óskar samgönguráðherra eftir því að lagt sé í framkvæmdir eða rekstur sem er til almannaheilla í öryggisskyni, af umhverfisástæðum eða samkvæmt byggðasjónarmiðum, og ætla má að skili ekki arði, án þess þó að um alþjónustu sé að ræða, og skal Póst- og fjarskiptastofnun þá falið að gera um slíkt samning við fjarskiptafyrirtæki í kjölfar útboðs skv. 11. gr.
    Kostnaður, sem rekja má til ákvarðana samgönguráðherra skv. 1. mgr., skal að jafnaði greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.

V. KAFLI
Opinn aðgangur að netum og þjónustu.
17. gr.
Almenn ákvæði.

    Með það að markmiði að auðvelda framboð almennra fjarskiptaneta og/eða almennrar fjarskiptaþjónustu á Íslandi og á Evrópska efnahagssvæðinu skal öllum sem þess óska heimill aðgangur að almennum fjarskiptanetum og almennri fjarskiptaþjónustu með ákveðnum skilmálum.
    Skilmálar um opinn aðgang að netum mega ekki hindra:
     a.      möguleika allra á lágmarksþjónustu,
     b.      aðgang að og samtengingu við almenn fjarskiptanet og almenna fjarskiptaþjónustu,
     c.      framboð á samræmdri þjónustu notendum til hagsbóta með notkun samræmdra staðla og tæknieiginleika fyrir opinn og hagkvæman aðgang og samtengingu,
     d.      framboð á alþjónustu, m.a. með tilliti til framtíðarþróunar í fjarskiptum.

18. gr.
Skilmálar um opinn aðgang.

    Skilmálar um opinn aðgang mega ekki hafa í för með sér takmörkun á aðgangi að almennum fjarskiptanetum eða fjarskiptaþjónustu nema takmörkunin varði:
     a.      rekstraröryggi neta,
     b.      tryggingu á samstæði neta,
     c.      rekstrarsamhæfi mismunandi þjónustu, í rökstuddum tilvikum,
     d.      verndun gagna,
     e.      verndun umhverfisins og markmið skipulags ríkis og sveitarfélaga,
     f.      hagkvæma notkun tíðnirófsins.
    Til viðbótar gilda skilmálar sem almennt eiga við um tengingu notendabúnaðar við netin.
Fyrirtæki sem veita fjarskiptaþjónustu skulu geta tengst almennum fjarskiptanetum í annars konar nettengipunktum en venjulegir notendur. Þegar þjónusta sem fyrirtækin óska eftir er önnur en lýst er í gjaldskrá rekstraraðila almenna fjarskiptanetsins skulu aðilar semja sín á milli um gjöld og skilmála. Náist ekki samkomulag innan tveggja mánaða geta aðilar óskað eftir íhlutun Póst- og fjarskiptastofnunar, sbr. 22. gr.

19. gr.
Opinn aðgangur að leigulínum.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að a.m.k. eitt fyrirtæki sem heimild hefur fengið til reksturs almenns fjarskiptanets og/eða þjónustu bjóði fram leigulínur þeirra tegunda sem stofnunin telur að þörf sé fyrir á fjarskiptamarkaði. Að jafnaði skal velja fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild á hinum almenna fastanetsmarkaði. Fyrirtækið sem um ræðir skal birta skilmála fyrir línuleigu og gjaldskrá sem tekur mið af tilkostnaði og hæfilegum arði af fjárfestingu. Skal þetta gilda á meðan fyrirtækið hefur umtalsverða hlutdeild á leigulínumarkaði. Fyrirtæki með slíka hlutdeild skal leggja leigulínugjaldskrá sína fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til samþykktar. Gjaldskrá og skilmálar skulu gefa aðilum sem leigja línur kost á aðgreindum þáttum leigulína.

20. gr.
Aðgangur að heimtaug.

    Þegar fjarskiptafyrirtæki geta ekki tengst einstökum notendum sem eru tengdir fjarskiptaneti rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild vegna eðlis eða umfangs fjárfestingar í heimtaug sem er forsenda viðskiptasambands getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að fjarskiptafyrirtæki fái beinan aðgang að einstökum notendum.
    Um aðgang að heimtaug gilda ákvæði 17., 18. og 23. gr. eftir því sem við getur átt.

21. gr.
Innlendir reikisamningar.

    Þar sem ekki verður ráðist í uppsetningu og rekstur farsímastöðvar, vegna eðlis eða umfangs fjárfestingar, eða þar sem aðstæður til uppsetningar og rekstrar farsímastöðvar eru sérstaklega erfiðar, svo sem vegna náttúrulegra aðstæðna, skulu farsímafyrirtæki sem veita almenna farsímaþjónustu eiga aðgang að almennum farsímanetum annarra farsímafyrirtækja.
    Fjarskiptafyrirtæki skulu leitast við að semja sín á milli um skilmála aðgangs.
    Náist ekki samkomulag skal Póst- og fjarskiptastofnun ákveða hvort reikisamningur skuli gerður og skilmála hans á milli þess aðila er ræður farsímanetinu skv. 1. mgr. og annarra fjarskiptafyrirtækja, enda hafi þau þegar yfir að ráða eigin almennum farsímanetum þar sem þeim verður við komið að mati Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Um reikisamninga og málsmeðferð skal fara skv. 22., 27. og 28. gr. eftir því sem við getur átt, þó þannig að um ákvörðun gjalda gildir gjaldskrá fjarskiptafyrirtækis að frádregnum þjónustuliðum sem fjarskiptafyrirtæki þarf ekki að veita.

22. gr.
Deilur um aðgang.

    Þegar ekki næst samkomulag milli aðila um skilmála og gjaldskrá fyrir aðgang þjónustuveitanda að almennum fjarskiptanetum og málinu hefur verið vísað til Póst- og fjarskiptastofnunar skal stofnunin boða til samningafunda með aðilum undir stjórn sinni. Að beiðni annars eða beggja aðila getur stofnunin lagt fram málamiðlunartillögur. Náist engu að síður ekki samkomulag innan tveggja mánaða skal stofnunin úrskurða í málinu. Í úrskurði um skilmála og gjaldskrár skal m.a. hafa hliðsjón af 17. og 18. gr. Hafi rekstraraðili almenns fjarskiptanets umtalsverða markaðshlutdeild getur stofnunin ákveðið að gjöld skuli miðast við tilkostnað, þ.m.t. arðsemi fjármagns.

VI. KAFLI
Um samtengingu.
23. gr.
Réttur og skylda til samtengingar.

    Fjarskiptafyrirtæki sem starfrækir almenn fjarskiptanet og/eða almenna fjarskiptaþjónustu og falla undir eftirfarandi flokkun skulu eiga rétt á og bera skyldu til að semja um samtengingu sín á milli í þeim tilgangi að bjóða fram viðkomandi þjónustu:
     a.      fyrirtæki sem starfrækja almenn sjálfvirk fastafjarskiptanet og farsímanet,
     b.      fyrirtæki sem leigja línur að starfssvæði notenda,
     c.      fyrirtæki sem starfrækja fjarskiptaþjónustu sem heimilað er að samtengja í samræmi við rekstrarleyfi eða almennar heimildir.
    Tæknileg og viðskiptaleg atriði skulu vera háð samkomulagi milli aðila.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja fullnægjandi og hagkvæma samtengingu almennra fjarskiptaneta svo sem greinir í 1. mgr. að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er til að tryggja öllum notendum á Evrópska efnahagssvæðinu gagnkvæmni almennrar fjarskiptaþjónustu sem boðin er á:
     a.      almennum fastanetum fyrir talsíma,
     b.      leigulínum,
     c.      almennum farsímanetum.
    Stofnunin skal gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir allar takmarkanir sem hindra fyrirtæki sem heimild hafa til að starfrækja almenn fjarskiptanet og almenna fjarskiptaþjónustu í að gera samtengingarsamninga sín á milli.
    Telji Póst- og fjarskiptastofnun að samtenging geti valdið hættu á rekstrartruflunum í viðkomandi fjarskiptaneti eða samtengdum fjarskiptanetum getur stofnunin mælt svo fyrir að fjarskiptanetin skuli ekki samtengd.
    Samninga um samtengingu skal senda Póst- og fjarskiptastofnun að lokinni undirritun þeirra og skulu þeir vera aðgengilegir öðrum sem eiga hagsmuna að gæta að undanskildum þeim hlutum samnings sem að mati stofnunarinnar fjalla um viðskiptahagsmuni fyrirtækjanna. Að lágmarki skulu sundurliðuð samtengingargjöld, skilmálar og skilyrði birt öllum hagsmunaaðilum að fenginni skriflegri beiðni þar um.

24. gr.
Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild.

    Fyrirtæki, sem heimild hafa til að starfrækja almenn fjarskiptanet og almenna fjarskiptaþjónustu, sbr. 7. gr., og hafa umtalsverða markaðshlutdeild skulu verða við öllum raunhæfum og framkvæmanlegum beiðnum um aðgang að nettengipunktum, þ.m.t. öðrum nettengipunktum en þeim sem boðnir eru öllum þorra notenda.
    Fyrirtæki telst hafa umtalsverða markaðshlutdeild þegar það hefur að jafnaði meira en 25% hlutdeild ákveðins hluta fjarskiptamarkaðar á því landsvæði þar sem því er heimilt að starfa.
    Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að úrskurða að fyrirtæki með minni markaðshlutdeild en 25% hafi umtalsverða markaðshlutdeild. Hún getur einnig úrskurðað að fyrirtæki með markaðshlutdeild hærri en 25% á ákveðnum markaði teljist ekki hafa umtalsverða markaðshlutdeild. Í slíkum tilfellum ber að taka tillit til möguleika fyrirtækisins til að hafa áhrif á markaðsaðstæður, veltu þess í hlutfalli við stærð markaðarins, stjórn þess á aðgangi að notendum, aðgengi þess að fjármagni og reynslu þess af markaðsfærslu vöru og þjónustu.

25. gr.
Samtengingarsamningar.

    Við gerð samninga um samtengingu við almenn fjarskiptanet og almenna fjarskiptaþjónustu, sbr. 23. gr., skal Póst- og fjarskiptastofnun tryggja að fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild gæti jafnræðis með tilliti til samtengingar sem þau bjóða og að fyrirtæki sem íhuga samtengingu eigi aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum um samtengingu og tæknikröfur sem gerðar eru.
    Upplýsingar sem fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild móttekur frá fyrirtæki sem óskar eftir samtengingu má einungis nota í þeim tilgangi að koma henni á. Fyrirtækinu er óheimilt að láta öðrum deildum en þeirri sem annast samtenginguna, dótturfélögum og samstarfsaðilum í té upplýsingar sem það móttekur í tengslum við samtenginguna, einkum ef þær geta haft áhrif á samkeppnisstöðu.

26. gr.
Viðmiðunartilboð o.fl.

    Fyrirtæki sem starfrækja almenn fjarskiptanet og/eða almenna fjarskiptaþjónustu á sviði talsíma í fastaneti og leigulína og njóta umtalsverðrar markaðshlutdeildar skulu uppfylla eftirtalin skilyrði:
     1.      Gjöld fyrir samtengingu skulu vera gagnsæ og byggjast á kostnaði við stofnun og rekstur nets, auk hæfilegrar ávöxtunar fjármagns á grundvelli kostnaðarbókhalds sem haldið skal. Sönnunarbyrði fyrir því að gjöld séu reiknuð út frá raunverulegum tilkostnaði skal hvíla á fyrirtækinu sem lætur í té aðgang að aðstöðu sinni. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefja viðkomandi fyrirtæki um rökstuðning fyrir samtengingargjöldum og þegar við á gera kröfu um lagfæringu þeirra. Þetta ákvæði nær einnig til farsímafyrirtækja sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur úrskurðað að hafi umtalsverða markaðshlutdeild á samtengingarmarkaðinum.
     2.      Póst- og fjarskiptastofnun skal krefjast þess að fyrirtæki samkvæmt þessari málsgrein birti viðmiðunartilboð um samtengingu sem innihaldi sundurliðaða lýsingu, í samræmi við þörf markaðsaðila, á samtengingartilboði og tengdum skilmálum og skilyrðum, þar á meðal gjaldskrám. Í viðmiðunartilboði skal vera verð fyrir aðgang að allri þjónustu sem í boði er á neti fyrirtækisins. Stofnunin getur mælt fyrir um rökstuddar breytingar á viðmiðunartilboði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja reglur um hvert skuli vera efni samtengingarsamninga og viðmiðunartilboðs.
     3.      Gjöld fyrir samtengingu skulu vera nægjanlega sundurgreind svo að umsækjandi um samtengingu þurfi ekki að greiða fyrir annað en það sem tengist beint umbeðinni þjónustu.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að lýsing á kostnaðarbókhaldi sem sýnir helstu kostnaðarliði og reglur sem gilda um færslu kostnaðar við samtengingu séu aðgengilegar.

27. gr.
Sáttameðferð Póst- og fjarskiptastofnunar.

    Náist ekki samkomulag með aðilum um samtengingu skv. 23. gr. innan mánaðar getur hvor aðili fyrir sig leitað til Póst- og fjarskiptastofnunar sem skal leita sátta með aðilum. Í því skyni skal stofnunin halda sáttafundi með þeim.
    Afskipti Póst- og fjarskiptastofnunar skulu miða að sem mestri hagkvæmni og hagsbótum fyrir notendur. Einkum skal lögð áhersla á nauðsyn þess:
     1.      að viðunandi fjarskiptasamband náist milli allra notenda,
     2.      að örva samkeppni á markaðinum,
     3.      að tryggja þróun samræmds fjarskiptamarkaðar í Evrópu,
     4.      að Póst- og fjarskiptastofnun eigi samvinnu við sams konar stofnanir í öðrum aðildarríkjum,
     5.      að hvetja til uppsetningar og þróunar neta og þjónustu um alla Evrópu, samtengingar innanlandsneta og gagnkvæmrar starfrækslu þjónustu sem og aðgangs að slíkum netum og þjónustu.
    Almennir skilmálar sem Póst- og fjarskiptastofnun kann að setja fyrir fram um málsmeðferð skulu birtir í B-deild Stjórnartíðinda.

28. gr.
Ákvörðun um skilmála samtengingar.

    Sem hluta af sáttameðferð getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt fram miðlunartillögu. Náist ekki samkomulag innan þriggja mánaða þrátt fyrir sáttatilraunir skal Póst- og fjarskiptastofnun að kröfu annars eða beggja aðila ákveða skilmála fyrir samtengingu. Við slíka ákvörðun skal hafa hliðsjón af ákvæðum þessa kafla og skal rökstuðningur fylgja henni. Stofnunin getur við sáttameðferð eða ákvarðanatöku krafist upplýsinga úr bókhaldi aðila og falið löggiltum endurskoðendum að yfirfara slík gögn.
    Þegar sérstaklega stendur á getur Póst- og fjarskiptastofnun að kröfu annars hvors aðilans mælt fyrir um breytingu á samningum um samtengingu eða á ákvörðunum sínum þar að lútandi.

VII. KAFLI
Viðskiptafyrirkomulag.
29. gr.
Viðskiptaskilmálar, gjaldskrár og bókhald.

    Fyrirtæki sem veita almenna fjarskiptaþjónustu og/eða reka almenn fjarskiptanet skulu birta viðskiptaskilmála og gjaldskrá fyrir alla þjónustu sína. Gjaldskrár og skilmálar skulu liggja frammi á öllum afgreiðslustöðum, vera auðskiljanlegir og ekki mismuna einstökum notendum.
    Gjöld skulu vera sundurliðuð svo að notendur eigi þess kost að meta sjálfir hvaða þætti þjónustu þeir vilja kaupa.
    Rekstrarleyfishafar skulu eigi síðar en fjórum virkum dögum fyrir gildistöku nýrra eða breyttra skilmála og/eða gjaldskrár senda Póst- og fjarskiptastofnun skilmála og/eða gjaldskrá til umsagnar. Stofnuninni er heimilt að krefjast lagfæringa á skilmálum eða uppsetningu gjaldskrár ef efni þeirra þykir brjóta í bága við lög og reglur eða leyfisbréf leyfishafa. Ef umfang málsins er slíkt að ekki verði greitt úr því á fjórum virkum dögum getur stofnunin frestað gildistöku nýrra skilmála, en þó ekki um meira en sjö daga.
    Póst- og fjarskiptastofnun eða löggiltum endurskoðendum í umboði hennar skal hvenær sem er og án fyrirvara heimilaður aðgangur að bókhaldi rekstrarleyfishafa í þeim tilgangi að sannreyna að aðgreining kostnaðar fari rétt fram og til þess að kanna hver sé kostnaður við alþjónustu, opinn aðgang að netum, leigulínur, samtengingu neta og númeraflutning.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánara fyrirkomulag bókhaldslegrar eða fjárhagslegrar aðgreiningar í rekstri fjarskiptafyrirtækja.

30. gr.
Reikningar notenda o.fl.

    Áskrifendur fjarskiptaþjónustu eiga rétt á að fá reikninga fyrir fjarskiptanotkun sína sundurliðaða eftir tegund þjónustu þeim að kostnaðarlausu.
    Áskrifendur geta óskað eftir nánari sundurliðun á fjarskiptareikningum sínum. Fjarskiptafyrirtækjum er heimilt að taka gjald fyrir sundurliðun reikninga umfram sundurliðun eftir þjónustu. Við gerð sundurliðaðra reikninga skal hafa hliðsjón af löggjöf um verndun persónulegra upplýsinga og friðhelgi einkalífsins. Samgönguráðherra setur reglugerð um meðferð upplýsinga sem nauðsynlegar eru fyrir gerð reikninga, sundurliðun þeirra og málsmeðferð vegna kvartana.
    Símtöl sem eru gjaldfrjáls og símtöl vegna ráðgjafar á vegum félagslegrar þjónustu mega ekki vera sundurliðuð á reikningum, enda hafi þeir sem veita slíka ráðgjöf tilkynnt fjarskiptafyrirtækjum um starfsemi sína fyrir fram.
    Innheimti fjarskiptafyrirtæki yfirgjöld af símtali skal þess ávallt getið í upphafi símtals hver fjárhæð gjaldsins sé eða á hvaða forsendum það verði ákvarðað. Áskrifandi skal eiga þess kost að læsa fyrir símtöl í númer þar sem tekið er yfirgjald. Nánar skal kveðið á um þetta í reglugerð.
    Heimilt er að loka fyrir þjónustu vegna vanskila fyrir símtöl önnur en þau sem eru með yfirgjaldi, enda hafi áskrifanda verið gefin skrifleg aðvörun a.m.k. mánuði fyrir lokun. Fyrsta mánuð eftir lokun skal þó vera mögulegt að hringja í áskrifandann. Einnig skal áskrifandi geta haft samband við neyðarnúmerið 112 í jafnlangan tíma. Ef gerð hefur verið tilraun til að komast hjá gjaldtöku á ólögmætan hátt eða reynt að koma gjaldskyldu yfir á óskyldan aðila er fjarskiptafyrirtæki heimilt að loka viðkomandi þjónustu án viðvörunar.

31. gr.
Aðskilnaður sérleyfisstarfsemi frá fjarskiptum.

    Fyrirtæki sem hafa fengið leyfi til að veita talsímaþjónustu og/eða til að reka almenn fjarskiptanet og njóta jafnframt einka- eða sérréttinda á öðru sviði en fjarskiptum skulu að kröfu Póst- og fjarskiptastofnunar halda fjárhag fjarskiptastarfsemi sinnar aðskildum frá annarri starfsemi.

VIII. KAFLI
Númer og vistföng.
32. gr.
Skipulag númera.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal koma á og viðhalda skipulagi númera sem nota má fyrir hvers konar fjarskiptaþjónustu í samræmi við alþjóðlegar reglur.
    Númeraraðir sem til ráðstöfunar eru skulu teknar frá fyrir mismunandi talsímaþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun getur fjölgað tölustöfum í símanúmerum. Slík ráðstöfun skal tilkynnt opinberlega með a.m.k. þriggja ára fyrirvara.
    Fjarskiptafyrirtækjum skulu heimiluð afnot af hæfilega löngum númeraröðum í þágu notenda sinna. Póst- og fjarskiptastofnun heimilar fjarskiptafyrirtækjum og notendum afnot af stuttnúmerum, þ.e. númerum sem eru styttri en venjuleg símanúmer. Stofnunin úthlutar einnig öðrum númerum, svo sem talstöðvarnúmerum fyrir skip.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um númer, númeraraðir og vistföng. Samgönguráðherra er heimilt með reglugerð að setja reglur um hlutverk stofnunarinnar í sambandi við útgáfu vistfanga.
    Stuttnúmerið 112 skal vera frátekið fyrir neyðar- og öryggisþjónustu og er óheimilt að nota það í öðrum tilgangi. Símtöl í 112 skulu vera endurgjaldslaus og eiga rekstrarleyfishafar ekki kröfu á yfirvöld um greiðslu kostnaðar vegna slíkra símtala.

33. gr.
Númeraflutningur og forskeyti.

    Enda þótt fjarskiptafyrirtæki hafi heimilað notendum afnot af númerum í númeraröðum sínum er notendum frjálst að halda símanúmeri sínu þegar þeir flytja viðskipti sín til annars fjarskiptafyrirtækis. Fjarskiptafyrirtæki er heimilt að innheimta hjá notanda, sem var skráður hjá honum, eingreiðslu er nemi kostnaði af umskráningu. Notendum skal vera unnt að halda símanúmeri sínu þó að þeir flytji milli númerasvæða. Fjarskiptafyrirtæki er heimilt að innheimta hjá notandanum kostnað við umskráningu. Póst- og fjarskiptastofnun setur nánari reglur um númeraflutning þ.m.t. hvenær númeraflutningur milli númerasvæða og númeraflutningur utan almenna fasta fjarskiptanetsins skuli innleiddur og sker úr ágreiningi um framkvæmd hans.
    Fjarskiptafyrirtæki er skylt að gera notendum sínum mögulegt að hringja í forskeyti eða númer allra aðila sem veita fjarskiptaþjónustu. Óski símnotandi eftir því að öllum símtölum hans, t.d. til útlanda, verði beint til ákveðins þjónustuveitanda skal hann tilkynna fjarskiptafyrirtækinu sem hann tengist um það. Skal fjarskiptafyrirtæki gera ráðstafanir til að símtölin fari hina fyrir fram völdu leið án þess að noti þurfi forskeytið hverju sinni. Símnotandi skal þó ávallt geta breytt þessu í einstökum símtölum. Póst- og fjarskiptastofnun skal ákveða hvenær forval skal að fullu innleitt.

34. gr.
Skráning símanúmera.

    Áskrifendur í fjarskiptaþjónustu eiga rétt á að vera skráðir í opinberum númeraskrám og fá að skoða upplýsingar sem skráðar eru um þá og ef nauðsynlegt er geta þeir krafist þess að fá upplýsingarnar leiðréttar eða fjarlægðar úr skránni. Áskrifendur eiga kröfu á að vera óskráðir í gagnagrunni símaskrár en heimilt er að krefja þá um gjald sem samsvarar kostnaði rekstrarleyfishafa af því að fjarlægja þá úr gagngrunninum.
    Símaskrár yfir alla áskrifendur sem ekki hafa mótmælt því að vera skráðir, þ.m.t. skrár yfir fastatalsímanúmer, farsímanúmer og persónutengd númer, skulu vera notendum fáanlegar í formi sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt.
    Persónuupplýsingar sem skráðar eru í símaskrám og í upplýsingaþjónustu um símanúmer skulu takmarkast við þær upplýsingar sem þarf til að bera kennsl á áskrifanda nema áskrifandinn hafi veitt ótvíræða heimild til að meiri upplýsingar séu skráðar. Áskrifanda er heimilt að krefjast að gefið sé til kynna að upplýsingar skráðar um hann megi ekki nota í tilgangi beinnar markaðssetningar eða að heimilisfangi sé sleppt að einhverju eða öllu leyti.
    Símanotendur sem nota almenna talsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar hringingar í símanúmer sitt.

35. gr.
Upplýsingaþjónusta um símanúmer.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að öllum notendum sé opin a.m.k. ein símaupplýsingaþjónusta sem hefur upplýsingar um öll símanúmer.
    Til að hægt verði að framfylgja ákvæðum 1. og 2. mgr. 34. gr. skal Póst- og fjarskiptastofnun tryggja að öll fjarskiptafyrirtæki sem velja áskrifendum sínum númer verði við öllum eðlilegum beiðnum um að láta í té viðkomandi upplýsingar í formi sem aðilar koma sér saman um, þ.m.t. tölvutæku formi, og með skilmálum sem eru sanngjarnir og byggðir á tilkostnaði. Óheimilt er að nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi en að gefa út símaskrár eða fyrir upplýsingaþjónustu um símanúmer. Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um þá aðila sem fá símaskrárupplýsingar í hendur.

IX. KAFLI
Fjarskiptabúnaður.
36. gr.
Tækjabúnaður til almennra fjarskiptaneta.

    Tækjabúnaður almennra fjarskiptaneta skal að jafnaði vera í samræmi við tæknistaðla sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Póst- og fjarskiptastofnun getur í sérstökum tilvikum mælt fyrir um notkun annarra staðla, svo og tilmæla frá Alþjóðafjarskiptasambandinu. Tæknilegir eiginleikar í nettengipunktum skulu ávallt vera í samræmi við staðla. Rekstrarleyfishafar almennra fjarskiptaneta skulu birta upplýsingar um tæknilega eiginleika í nettengipunktum. Samgönguráðherra getur sett reglugerð um nánari útfærslu þessara ákvæða.
Þráðlaus fjarskiptanet má einungis setja upp og nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar. Stofnuninni er þó heimilt að gefa út almennt leyfi fyrir þráðlaus fjarskiptanet í ákveðnum tíðnisviðum þegar geislað afl senda er undir hámarki sem stofnunin setur.

37. gr.
Notendabúnaður.

    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með sölu notendabúnaðar fyrir fjarskipti og tækja fyrir þráðlaus fjarskipti. Eftirfarandi grunnkröfur eiga við um öll slík tæki:
     1.      um verndun heilsu og öryggis notanda jafnt og annarra manna,
     2.      um að tæki í notkun hafi ekki truflandi áhrif á rafsegulumhverfið.
    Að auki skal þráðlaus búnaður gerður með tilliti til þess að nýta á sem skilvirkastan hátt tíðnisvið sem ætlað er þráðlausum fjarskiptum á jörðu og í geimnum og stöðu sem þeim er úthlutað á baugum umhverfis jörðu án þess að valda skaðlegum truflunum.
    Setja má skilyrði um að ákveðnir flokkar tækja eða einstök tæki séu þannig gerð að þau:
     1.      megi starfrækja með öðrum tækjum með milligöngu neta og að hægt sé að tengja þau við rétta skilpunkta hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins,
     2.      valdi ekki tjóni á netum, starfsemi þeirra eða virkni og orsaki þannig óviðunandi rýrnun þjónustu,
     3.      hafi innbyggða varnagla til verndar persónuupplýsingum og friðhelgi áskrifenda og notenda,
     4.      hafi möguleika á útfærslu sem hindrar svik,
     5.      hafi möguleika á útfærslu sem tryggir aðgang að neyðarþjónustu,
     6.      hafi ákveðna möguleika sem auðvelda fötluðum notkun þeirra.

38. gr.
Innanhússlagnir.

    Fjarskiptalagnir innan húss, þar með taldir húskassar þar sem heimtaugar fjarskiptafyrirtækja enda, eru á ábyrgð húseigenda. Staðsetning húskassa og allar lagnir skulu vera í samræmi við teikningar af byggingunni. Í byggingum sem rúma fleiri en einn áskrifanda skulu húskassar vera innsiglaðir og þannig gengið frá lögnum að óviðkomandi eigi ekki greiða leið að einstökum fjarskiptalínum. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um frágang húskassa og lagna í þeim tilgangi að tryggja vernd fjarskipta og skilgreina aðgangsheimild fjarskiptafyrirtækja.

39. gr.
Viðurkenning búnaðar.

    Heimilt er að setja á markað búnað skv. 37. gr. sem ber CE-merkingu til staðfestingar því að hann uppfylli viðeigandi kröfur innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samgönguráðherra setur reglugerð um viðurkenningu annars búnaðar.
    Þar til samgönguráðherra ákveður annað skal einnig heimilt að setja á markað búnað sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur framkvæmt prófun á og viðurkennt í samræmi við staðla.
    Framleiðandi eða umboðsmaður hans hér á landi skal tryggja að öllum búnaði sem settur er á markað hér á landi fylgi upplýsingar fyrir notendur um tilætlaða notkun og helstu eiginleika búnaðarins.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal framleiðandi eða umboðsmaður hans sem hyggst setja á markað þráðlausan búnað í tíðnisviðum þar sem notkun hefur ekki verið samræmd á Evrópska efnahagssvæðinu tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um þessa fyrirætlun með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Einnig skal senda stofnuninni upplýsingar um eiginleika búnaðarins, þ.m.t. tíðnisvið búnaðarins, bil milli rása, mótunaraðferð og hátíðniafl. Telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á því að búnaðurinn geti truflað aðra þjónustu í viðkomandi tíðnisviði getur stofnunin bannað sölu og notkun hans.

40. gr.
Markaðseftirlit.

    Póst- og fjarskiptastofnun hefur markaðseftirlit með búnaði skv. 37. gr. Í því skyni skal stofnunin hafa ótakmarkaðan aðgang að sölustöðum búnaðarins. Ef búnaður sem uppfyllir ekki grunnkröfur er settur á markað getur stofnunin krafist að sala hans og notkun verði þegar í stað stöðvuð og búnaðurinn kyrrsettur.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur gert kröfu um að framleiðandi eða umboðsmaður hans afhendi stofnuninni sundurliðaðar upplýsingar og teikningar um búnað sem ráðgert er að setja á markað. Með slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.
    Póst- og fjarskiptastofnun er jafnframt heimilt að gera ráðstafanir að teknu tilliti til 11. og 13. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið til að leggja bann við eða takmarka söluframboð eða til að krefjast þess að fjarlægður sé úr sölu þráðlaus búnaður sem hefur valdið eða stofnunin hefur rökstuddan grun um að muni valda skaðlegum truflunum, þ.m.t. truflunum á þjónustu eða fyrirhugaðri þjónustu í tíðnisviðum sem búið er að taka frá hér á landi.
    Samgönguráðherra setur reglugerð um markaðseftirlit með notendabúnaði og þráðlausum búnaði.

X. KAFLI
Réttindi til að starfa við fjarskiptavirki.
41. gr.
Skírteini talstöðvarvarða o.fl.

    Póst- og fjarskiptastofnun gefur út skírteini til talstöðvarvarða sem starfrækja fjarskiptabúnað í farartækjum, sbr. 47. gr. Skírteinin skulu vera í samræmi við alþjóðasamþykktir. Í skírteini skal tekið fram hvaða búnað skírteinishafa er heimilt að starfrækja. Skírteini skulu vera tímabundin.
    Þegar um er að ræða annan þráðlausan fjarskiptabúnað í farartækjum en um ræðir í 1. mgr., svo og þráðlausar fastastöðvar, gefur Póst- og fjarskiptastofnun út leyfisbréf fyrir viðkomandi búnað, sbr. 46. gr., en ekki þarf sérstakt skírteini talstöðvarvarðar til að starfrækja slíkan búnað.
    Póst- og fjarskiptastofnun gefur út skírteini til áhugamanna um þráðlausa útbreiðslu sem gengist hafa undir próf áhugamanna. Stofnunin skal leita umsagnar Félags íslenskra radíóamatöra áður en leyfi eru veitt. Heimilt er að gefa út bráðabirgðaleyfi til útlendinga sem dveljast hér á landi í takmarkaðan tíma. Sé um að ræða leyfi til mjög skamms tíma getur stofnunin veitt leyfi án umsagnar Félags íslenskra radíóamatöra.
    Póst- og fjarskiptastofnun gefur út leyfi fyrir notkun annars þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Heimilt skal þó að nota án leyfis búnað sem er ætlaður notendum í almennri þráðlausri fjarskiptaþjónustu. Leyfi skulu vera skráð á nafn og geta verið tímabundin.

42. gr.
Kröfur til starfsmanna fjarskiptavirkja.

    Fjarskiptafyrirtæki skulu tryggja að starfsmenn þeirra sem vinna við uppsetningu og viðhald almennra fjarskiptaneta hafi fengið nauðsynlega þjálfun. Þau skulu upplýsa starfsmenn sína um ákvæði þessara laga, einkum ákvæði um þagnarskyldu og vernd fjarskiptasendinga.
Samgönguráðherra getur sett reglugerð um réttindi sem krafist er af þeim sem starfa við fjarskiptavirki.

XI. KAFLI
Leynd og vernd fjarskipta.
43. gr.
Þagnarskylda.

    Allir sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn fjarskiptafyrirtækja eða aðra, skulu skyldugir, bæði meðan þeir gegna starfinu og eftir að þeir hafa látið af því, til að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og á milli hverra.
    Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti eða önnur skjöl sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

44. gr.
Vernd fjarskiptasendinga.

    Enginn sem starfar við fjarskiptavirki, net eða þjónustu má skjóta undan skeytum, gögnum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til fjarskiptaflutnings eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.
    Sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum, táknum eða hlustar á símtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Jafnframt ber honum að tilkynna sendanda að upplýsingar hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum.
    Viðtakandi símtals sem vill hljóðrita símtalið skal í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína.

XII. KAFLI
Sérstök ákvæði um þráðlaus fjarskipti.
45. gr.
Notkun tíðnirófs.

    Póst- og fjarskiptastofnun skal stuðla að sem hagkvæmastri nýtingu tíðnirófsins í samræmi við alþjóðlegar samþykktir þar að lútandi. Stofnunin skal skipuleggja notkun mismunandi hluta tíðnirófsins, skrá skipulagið og veita upplýsingar um skipulag einstakra tíðnisviða eftir þörfum. Stofnunin heimilar einstaklingum eða lögaðilum notkun einstakra tíðna í samræmi við framangreint skipulag.
    Heimilt er að áskilja að tíðnir verði teknar í notkun innan hæfilegs tíma ella falli heimildin niður. Heimild fyrir tíðninotkun skal bundin við nafn og framsal vera óheimilt.
    Póst- og fjarskiptastofnun getur synjað um tíðniúthlutun fyrir almenn fjarskiptakerfi ef umsækjandi hefur ekki aflað nauðsynlegs leyfis til reksturs fjarskiptanets.
    Heimild til notkunar tíðni má afturkalla ef mikilvægar forsendur fyrir heimildinni breytast eða bresta, t.d. vegna alþjóðlegra samþykkta sem Ísland er aðili að.
    Samgönguráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um skipulagningu og úthlutun tíðna.

46. gr.
Þráðlaus sendibúnaður.

    Sendibúnað fyrir þráðlaus fjarskipti má aðeins hafa undir höndum, setja upp eða nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar. Þó má starfrækja þráðlausan búnað án sérstaks leyfis þegar hann er eingöngu notaður í sambandi við almenna fjarskiptaþjónustu í tilteknu tíðnisviði. Póst- og fjarskiptastofnun gefur út leyfisbréf fyrir notkun þráðlauss sendibúnaðar og skal leyfisbréfið vera tímabundið. Póst- og fjarskiptastofnun getur sameinað í einu leyfisbréfi mismunandi þráðlausan búnað á sama stað. Binda má leyfið skilyrðum, svo sem að því er varðar sendiafl, staðsetningu, bandbreidd, útbreiðslusvæði og tengingu við almenn fjarskiptanet. Leyfisbréf skulu gefin út á nafn eiganda búnaðarins og eru ekki framseljanleg. Eigandi búnaðar sem heimilar öðrum notkun hans ber fulla ábyrgð á starfrækslu búnaðarins.
Leyfishafi sem selur þráðlausan búnað sem hann hefur fengið leyfisbréf fyrir eða afhendir hann öðrum varanlega ber ábyrgð á því að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um nýjan eiganda. Hinum nýja eiganda ber þegar í stað að sækja til stofnunarinnar um nýtt leyfisbréf.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal þegar í stað gera ráðstafanir til að stöðva starfrækslu þráðlausra senda sem ekki er leyfisbréf fyrir og ekki eru undanþegnir leyfisskyldu.

47. gr.
Fjarskiptabúnaður í farartækjum.

    Íslensk skip, loftför og önnur farartæki skulu búin fjarskiptabúnaði í samræmi við alþjóðasamþykktir og reglugerðir sem samgönguráðherra setur. Póst- og fjarskiptastofnun gefur út leyfisbréf fyrir þráðlausan búnað í farartækjum, sbr. 46. gr.
    Fjarskiptabúnaður í erlendum skipum, flugvélum eða öðrum farartækjum sem eru innan íslenskrar land- eða lofthelgi má aðeins nota í samræmi við íslensk lög og reglugerðir. Póst- og fjarskiptastofnun getur bannað notkun fjarskiptabúnaðar í erlendum farartækjum í íslenskri lögsögu ef notkunin telst andstæð íslenskum reglum.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur Póst- og fjarskiptastofnun heimilað notkun búnaðar sem viðurkenndur er til notkunar á alþjóðavettvangi.

XIII. KAFLI
Uppsetning og vernd fjarskiptavirkja.
48. gr.
Heimild til að leggja fjarskiptaleiðslur, eignarnám o.fl.

    Nú er fjarskiptafyrirtæki nauðsynlegt að leggja leiðslur fjarskiptavirkja um land annars manns, yfir það eða í jörðu, yfir hús eða önnur mannvirki á landinu, á þeim, gegnum þau eða undir þeim, og er eiganda viðkomandi fasteignar þá skylt að heimila slíkt, enda komi fullar bætur fyrir. Hafa skal samráð við eigendur eða umráðamenn slíkra fasteigna og mannvirkja um hvar leiðslur eru lagðar og skal þess gætt að sem minnst sé raskað hagsmunum eiganda viðkomandi eignar. Starfsmenn við fjarskiptavirki skulu gæta þess að valda eigendum og íbúum ekki meiri óþægindum en brýnustu nauðsyn ber til.
    Nú verður tjón á landi manna, mannvirkjum eða öðrum eignum við lagningu fjarskiptavirkja eða viðhald þeirra, og ekki verður úr bætt, eða lagning fjarskiptavirkja leiðir til takmörkunar á afnotamöguleikum viðkomandi eignar, og skal eigandi fjarskiptavirkis þá bæta tjónið. Náist ekki samkomulag um bótafjárhæð skal um ákvörðun bóta fara að lögum um framkvæmd eignarnáms.
    Ef fjarskiptafyrirtæki er nauðsynlegt að tryggja sér land, lóð eða aðra eign í sambandi við lagningu eða rekstur almennra fjarskiptavirkja og samningum um kaup verður ekki við komið má samgönguráðherra heimila, að fenginni umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar, að eign eða hluti hennar sé tekinn eignarnámi gegn endurgjaldi sem meta skal samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Samþykki ráðherra fyrir eignarnámi skal m.a. háð því að eignarnemi setji tryggingu fyrir greiðslu áætlaðra eignarnámsbóta og kostnaðar við matið. Nú fást eignarnámsbætur ekki greiddar hjá eignarnema, og skal ríkissjóður þá ábyrgjast greiðslu þeirra, enda hafi eignarnámsþoli staðið tilhlýðilega að innheimtu þeirra hjá eignarnema.

49. gr.
Vernd fjarskiptavirkja.

    Þar sem fjarskiptavirki eru má ekki reisa mannvirki, setja upp tæki, leggja pípur, raflagnir, leiðslur og því um líkt, gera jarðrask eða aðrar ráðstafanir er af geta hlotist skemmdir á fjarskiptavirkjum eða truflanir á rekstri þeirra, nema áður hafi verið aflað upplýsinga um legu þeirra og samráð verið haft við eiganda fjarskiptavirkisins um tilhögun framkvæmdanna.
    Nú reynist nauðsynlegt vegna verklegra framkvæmda að flytja til eða breyta legu fjarskiptavirkja, og ber þá sá sem slíka framkvæmd annast allan kostnað sem af því kann að leiða, beinan og óbeinan, nema annað hafi orðið að samkomulagi.
    Ef jarðrask eða aðrar framkvæmdir hafa leitt til skemmda á fjarskiptavirkjum eða truflana á rekstri þeirra skal sá sem þeim hefur valdið þegar í stað tilkynna það til eiganda fjarskiptavirkisins. Er tjónvaldi jafnframt skylt að bæta allt tjón sem af skemmdunum leiðir, bæði beint og óbeint, þar á meðal viðskiptatap, nema hann sýni fram á að ekki hafi verið komist hjá tjóni þó að fyllsta aðgæsla hefði verið sýnd.
    Nú liggur fyrir að tæki, raflagnir, pípur, leiðslur eða því um líkt valda truflun á rekstri fjarskiptavirkis, og er fjarskiptafyrirtæki þá heimilt að krefjast úrbóta frá eiganda án tafar, en ella er fjarskiptafyrirtæki heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir truflun þá sem af þessu hlýst. Nú er truflun að þessu leyti að rekja til gáleysis eiganda viðkomandi búnaðar, og ber eiganda þá að greiða allan kostnað sem af úrbótum leiðir.

50. gr.
Takmörkun fjarskipta vegna truflana.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur látið innsigla fjarskiptavirki eða hluta þeirra eða bannað notkun þeirra og eftir atvikum fyrirskipað að fá þau afhent til geymslu undir innsigli ef fjarskiptavirkin trufla önnur fjarskipti eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað.

51. gr.
Aðgangur að aðstöðu í umráðum rekstrarleyfishafa.

    Þegar rekstrarleyfishafi hefur rétt á að setja upp eða grafa niður fjarskiptavirki á afréttum, almenningum eða eignarlöndum, eða getur tekið land eignarnámi, sbr. 48. gr., skal Póst- og fjarskiptastofnun hafa forgöngu um samnýtingu á aðstöðu eða landareign, einkum ef grunnkröfur koma í veg fyrir að önnur fjarskiptafyrirtæki geti fengið aðgang að sambærilegri aðstöðu.
    Aðilar skulu gera með sér samkomulag um samnýtingu. Náist samkomulag ekki innan tveggja mánaða getur annar hvor aðilinn óskað eftir íhlutun Póst- og fjarskiptastofnunar. Skulu þá gilda ákvæði 22. gr. um deilur um aðgang. Kostnaði við samnýtta aðstöðu skal Póst- og fjarskiptastofnun skipta á milli aðila. Taka skal hæfilegt tillit til stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar.
    Í sérstökum tilfellum þegar um er að ræða sérstaka landfræðilega aðstöðu eða þegar umhverfissjónarmið réttlæta getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt fyrir um samnýtingu þótt ákvæði 1. mgr. eigi ekki við.

52. gr.
Vernd sæstrengja.

    Þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó skulu sjófarendur sýna aðgæslu og gæta varúðar. Nú er tjóni valdið á fjarskiptastreng af ásetningi eða gáleysi, og skal þá sá sem tjóni hefur valdið bæta beint og óbeint fjártjón sem af því hlýst, nema hann sýni fram á að hann hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til þess að komast hjá tjóni.
    Þegar skip er innan eða utan landhelgi við lagningu eða viðgerð fjarskiptastrengja og ber til sýnis alþjóðamerki eða önnur merki er gefa þetta til kynna skulu önnur skip, sem sjá eða eiga að geta séð þessi merki, halda sig eigi skemmra en mílufjórðung frá sæsímaskipinu. Net og önnur veiðarfæri skal hafa í sömu fjarlægð. Fiskiskip skulu þó hafa 12 stunda frest til þess að fjarlægja veiðarfæri sem í sjó liggja.
    Nú hefur dufl verið lagt út vegna lagningar eða viðgerðar á sæstreng, og skulu skip þá halda sér og veiðarfærum sínum eigi skemmra en mílufjórðung frá duflinu.

53. gr.
Aðgerðir til verndar sæstrengjum, bætur o.fl.

    Ef skip hefur orðið að sleppa akkeri eða leggja net eða önnur veiðarfæri í sölurnar til þess að komast hjá því að skemma sæstrengi á það kröfu um skaðabætur frá eiganda strengjanna, enda hafi stjórnendur skipsins ekki stofnað til hættunnar af gáleysi.
    Ef unnt er skulu skipverjar þegar færa til bókar skýrslu um tjónið sem staðfest skal af stjórnanda skipsins. Að auki skal eiganda sæstrengsins eða forsvarsmanni eiganda tilkynnt um atburðinn eins fljótt og kostur er.

XIV. KAFLI
Fjarskipti á hættutímum.
54. gr.
Stöðvun fjarskipta.

    Á ófriðartímum getur samgönguráðherra samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar mælt fyrir um stöðvun fjarskipta sem teljast hættuleg öryggi ríkisins.
    Í neyðartilvikum, svo sem þegar um er að ræða eldgos, jarðskjálfta, snjóflóð o.s.frv., getur samgönguráðherra að beiðni almannavarnaráðs mælt fyrir um takmörkun fjarskipta sem truflað geta neyðar- og öryggisfjarskipti. Á sama hátt skal heimilt að mæla fyrir um að tiltekin fjarskiptavirki skuli notuð í þágu björgunaraðgerða og að sett skuli upp ný fjarskiptavirki. Komi endurgjald til greina greiðist það úr ríkissjóði samkvæmt mati.

XV. KAFLI
Ábyrgðartakmarkanir.
55. gr.

    Þeim sem hefur leyfi til reksturs almenns fjarskiptanets samkvæmt lögum þessum er heimilt í viðskiptaskilmálum sínum að undanþiggja sig bótaábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofa á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins eða mistaka við afgreiðslu símskeyta, hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í sambandastöðvum eða annarra ástæðna. Slík ábyrgðartakmörkun er þó bundin við að tjónið verði ekki rakið til stórfelldra mistaka starfsmanna rekstrarleyfishafa.


XVI. KAFLI
Viðurlög o.fl.
56. gr.
Heimild til rekstrarstöðvunar.

    Póst- og fjarskiptastofnun má stöðva, fella úr gildi leyfi fyrir eða skilyrða starfsemi almenns fjarskiptanets og/eða almennrar fjarskiptaþjónustu uppfylli hún ekki skilyrði laga þessara eða leyfisbréfs eða þegar grunnkröfum er ekki fullnægt.
    Starfi fjarskiptafyrirtæki eftir almennri heimild getur Póst- og fjarskiptastofnun tilkynnt því að það njóti ekki lengur almennrar heimildar og/eða gert fyrirtækinu að fara að settum skilyrðum.
    Fari rekstrarleyfishafi ekki að þeim skilyrðum sem honum hafa verið sett getur Póst- og fjarskiptastofnun dregið leyfið til baka, breytt því eða fellt það tímabundið úr gildi eða beitt sérstökum aðgerðum til að tryggja að farið sé að skilyrðunum.
    Fjarskiptafyrirtækinu skal gefinn kostur að tjá sig um skilyrðin og framkvæma nauðsynlegar úrbætur innan mánaðar nema um endurtekið brot sé að ræða en þá getur stofnunin þegar í stað tekið lokaákvörðun. Geri fjarskiptafyrirtækið úrbætur innan tilskilins tíma skal stofnunin innan tveggja mánaða frá íhlutun sinni fella úr gildi eða breyta, eftir því sem við á, ákvörðun sinni og birta rökstuðning þar að lútandi. Geri fyrirtækið ekki úrbætur innan tilskilins tíma skal stofnunin innan tveggja mánaða frá íhlutun sinni staðfesta með rökstuðningi ákvörðun sína og tilkynna leyfishafa um hana.

57. gr.
Viðurlög.

    Brot á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum, en fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð.
    Gáleysisbrot skulu eingöngu varða sektum.
    Brot gegn X. kafla laganna um leynd og vernd fjarskipta varða refsingu svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. Sé slíkt brot framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum.
    Tæki og hlutir sem hafa verið flutt inn í heimildarleysi, smíðuð eða starfrækt má gera upptæk, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum.
    Þegar fjarskiptafyrirtæki fer ekki að skilyrðum sem sett eru í leyfisveitingu eða starfar án heimildar getur Póst- og fjarskiptastofnun með úrskurði afturkallað, bætt við skilyrði eða frestað einstaklingsbundnu leyfi eða beitt dagsektum sem nemi 50.000–500.000 kr. á dag til að tryggja að eftir fyrirmælum stofnunarinnar sé farið.

58. gr.
Lögbundið gjaldsvæði.

    Notkunargjald fyrir talsímaþjónustu hjá hverjum rekstrarleyfishafa fyrir sig skal vera hið sama alls staðar á landinu og skal innheimta sérstaks álags vegna langlínusamtala óheimil.

XVII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
59. gr.
Almenn reglugerðarheimild.

    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd fjarskiptamála.

60. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.
    Jafnframt falla úr gildi lög um fjarskipti, nr. 143 27. desember 1996.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Fjarskiptaleyfi sem eru í gildi við setningu laga þessara skulu halda gildi sínu í eitt ár frá gildistöku laganna, þó þannig að skilyrði í leyfinu sem eru andstæð ákvæðum laganna falla niður. Póst- og fjarskiptastofnun skal þá gefa út ný leyfisbréf til fjarskiptafyrirtækja.

II.

    Rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild skal heimilað að færa fastagjöld fyrir talsíma til samræmis við kostnað að viðbættri hæfilegri álagningu. Kostnaðarreikningar fyrir talsímaþjónustu skulu lagðir fyrir Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar en 1. mars 2000 og skal stofnunin með hliðsjón af kostnaði ákveða fastagjald fyrir síma sem taka skal gildi eigi síðar en 1. apríl 2000. Aðgangur að heimtaug skv. 20. gr. skal heimilaður sex mánuðum eftir að Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákvarðað um fastagjöld fyrir talsíma til samræmis við kostnað og hæfilega álagningu.

III.

    Ákvæði 21. gr. um innlenda reikisamninga skal taka gildi 1. janúar 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Með setningu gildandi fjarskiptalaga, nr. 143/1996, 27. desember 1996 urðu tímamót í fjarskiptum á Íslandi. Lögbundinn einkaréttur ríkisins var afnuminn og þeir sem fullnægja ákveðnum almennum skilyrðum geta nú fengið leyfi til að veita fjarskiptaþjónustu. Jafnframt var að því stefnt að tryggja örugg og hagkvæm fjarskipti fyrir alla landsmenn á sambærilegum kjörum.
    Þótt aðeins séu liðin tæp þrjú ár frá setningu laganna hafa verulegar breytingar orðið á tækni, þjónustu og alþjóðlegu lagaumhverfi fjarskipta. Þessar breytingar ásamt auknum umsvifum fjarskipta- og upplýsingartækni og nýjar skuldbindingar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa gert það að verkum að endurskoðun fjarskiptalaga er nauðsynleg. Frumvarpið hvílir á tveimur meginstoðum. Annars vegar eru ákvæði sem eiga að stuðla að aukinni samkeppni og tryggja aðgang allra landsmanna að ákveðinni lágmarksþjónustu, svokallaðri alþjónustu, og er í fyrsta sinn lagt til að gagnaflutningsþjónusta verði skilgreind sem alþjónusta. Hér er markvert nýmæli á ferð sem getur haft mikla þýðingu fyrir búsetu, atvinnuuppbyggingu og lífskjör í landinu. Hins vegar er með frumvarpi þessu verið að laga íslenska löggjöf að þeim tilskipunum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um fjarskiptamál.

II. Þróun fjarskiptamála.

    Mikil umskipti hafa orðið í fjarskiptamálum í heiminum á undanförnum árum, bæði í tækni, þjónustu og lagasetningu. Segja má að þróun síðustu ára hafi gerbreytt hefðbundum fjarskiptum, þráðlaus samskipti setja mark sitt á talsamband, gjald fyrir millilandasamtöl fer lækkandi og samruni fjarskipta, fjölmiðlunar og einkatölva hefur byltingarkennd áhrif. Samskipti framtíðarinnar munu að miklu leyti byggjast á gagnaflutningum, svo sem fjarvinnslu, fjarmenntun, fjarlækningum, heimabönkum og gagnvirku sjónvarpi. Miklir möguleikar opnast í almenna fjarskiptanetinu með nýrri tækni, þar á meðal xDSL, gagnaflutningstækni, eða með gagnaflutningsstaðli eins og IP-staðlinum (Internet Portocol). Nýtt almennt farsímakerfi (UMTS) mun margfalda gagnaflutningsgetu farsíma sem aftur leiðir til þess að þá má nota til margmiðlunar. Meginatriði í lagaumhverfi hinna nýju farsímakerfa liggja nú þegar fyrir í Evrópu. Hér eru nefnd örfá dæmi um mikilvægi upplýsingatækninnar fyrir velferð þjóðarinnar og framþróun.
    Fjarskipta- og upplýsingamál skipta Íslendinga höfuðmáli. Markmiðið er því að Ísland verði í fremstu röð tæknivæddra ríkja með ódýra og góða fjarskiptaþjónustu. Alþingi og stjórnvöld bera ábyrgð á því að tryggja réttlátar leikreglur í fjarskiptamálum, leikreglur sem stuðlað geta að aukinni velferð og hagsæld í þjóðfélaginu. Leikreglur fjarskiptanna eru um margt frábrugðnar leikreglum annarrar atvinnustarfsemi vegna þeirrar sérstöðu fjarskipta í Evrópu að þau hafa fyrst fyrir fáum árum verið leyst undan einkaréttarvernd og því er ekki talið tímabært að fella ákveðna þætti fjarskiptaþjónustu, svo sem samtengingu, reglur um opinn aðgang að netum og alþjónustu undir almenna samkeppnislöggjöf. Má nefna tvö dæmi því til sönnunar. Mikilvægi þess að notendur geti auðveldlega haft samskipti á milli fjarskiptaneta hefur haft áhrif við setningu reglna sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu hér að lútandi. Annað sérkenni fjarskipta er að ríkisreknar símastjórnir áttu og ráku eina fullkomna fjarskiptanetið sem til var þar til einkaréttur var afnuminn með lögum. Hinar sérstöku reglur sem um fjarskipti gilda í Evrópu eiga að stuðla að aukinni samkeppni með því að gera nýjum fyrirtækjum kleift að hefja starfsemi á markaðnum.

III. Alþjóðlegt samstarf á sviði fjarskipta.

    Alþjóðasamvinna á sviði fjarskipta er umfangsmikil og eðli málsins samkvæmt nauðsynleg. Ber þar fyrst að nefna aðild okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en einnig er Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) helsti samráðsvettvangur innan Sameinuðu þjóðanna á sviði fjarskipta. Enn fremur eru nokkrar stofnanir sem fjalla um tæknileg úrlausnarefni, svo sem fjarskiptastaðla. Vegna þess hve umsvif fjarskiptafyrirtækja eru orðin mikil í hagkerfinu hafa efnahagsstofnanir, svo sem OECD og Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO), einnig látið fjarskipti til sín taka á undanförnum árum.

1. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.

    Með aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var tekin ákvörðun um að lögleiða í íslenskan rétt ýmsar samþykktir og stefnumótun Evrópusambandsins á sviði fjarskipta. Þessar tilskipanir og tilmæli eru einkum í XI. viðauka samningsins og verða þannig skuldbindandi hluti hans.
    Eins og fram kom í inngangi hafa orðið miklar breytingar á löggjöf Evrópusambandsins um fjarskipti frá setningu núgildandi fjarskiptalaga. Hér á eftir er yfirlit yfir helstu fjarskiptareglur EES, en nánar verður fjallað um einstök efnisatriði þeirra í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.
    Þær tilskipanir og aðrar reglur og tilmæli sem leiðir af aðild Íslands að EES-samningnum og höfð var hliðsjón af við samningu frumvarpsins eru þessar helstar:
     1.      Tilskipun ráðsins 90/387/EBE frá 28. júní 1990 um myndun innri markaðar fyrir fjarskiptaþjónustu með því að koma á frjálsum aðgangi að netum var breytt með tilskipun 97/51/EB sem ætlað var að stuðla að aðlögun að samkeppnisumhverfi í fjarskiptum. Yngri breytingartilskipunin fól í sér umtalsverðar breytingar á rammatilskipuninni, enda breytti hún átta af tólf ákvæðum hennar. Í hinni breyttu tilskipun var markmið opins netaðgangs skilgreint nánar og rýmkað og eldri skilgreiningar voru teknar út en nýjum bætt inn eftir því sem hæfði samkeppnisumhverfi fjarskipta. Breytt tilskipun tók gildi 1. maí 1998 innan Evrópska efnahagssvæðisins í framhaldi af ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 31/1998. Tilskipunin var birt í EES-viðbæti nr. 48/229 19. nóvember 1998.
                  Breytingartilskipun 97/51 fól einnig í sér breytingar á tilskipun ráðsins 92/44/EBE frá 5. júní 1992 um skilyrði fyrir frjálsum aðgangi að netum fyrir leigulínur.
     2.      Tilskipanir 96/2/EB og 96/19/EB um breytingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 90/388/EBE um samkeppni á mörkuðum fyrir fjarskiptaþjónustu tóku gildi á Evrópska efnahagssvæðinu 18. desember 1997. Raunverulega höfðu þessar tvær tilskipanir verið innleiddar með gildandi fjarskiptalögum tæplega ári fyrr. Tilskipun 96/2/EB hafði verið leidd inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/ 1997. EES-viðbætir nr. 27/150 9. júlí 1998 en tilskipun 96/19/EB með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 106/1997, EES-viðbætir nr. 27/158 9. júlí 1998. Formleg gildistaka innan EES var 18. desember 1997.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/33/EB um samtengingu í fjarskiptum með tilliti til þess að tryggja altæka þjónustu og rekstrarsamhæfi með beitingu meginreglna um frjálsan aðgang að netum (ONP) tók gildi innan EES 30. janúar 1999 í framhaldi af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/1999. Tilskipun 98/61/EB um breytingu á tilskipun 97/33/EB var samþykkt í mars 1998 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/1999.
     4.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/13/EB frá 10. apríl 1997 um samræmda löggjöf fyrir almennar heimildir og rekstrarleyfi á sviði fjarskiptaþjónustu var samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni í mars 1999 með ákvörðun nr. 38/1999.
     5.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/62/EB um opinn netaðgang í talsímaþjónustu var samþykkt 27. mars 1998 af sameiginlegu EES-nefndinni, um svipað leyti og hún var felld úr gildi innan bandalagsins við gildistöku tilskipunar 98/10/EB um alþjónustu. Tilskipun 98/10/EB varð hluti af EES-samningnum í mars 1999 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/1999.
                  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/10/EB frá 26. febrúar 1998 um beitingu ákvæða um opinn netaðgang (ONP) í talsímaþjónustu og alþjónustu í samkeppni á fjarskiptamarkaði var samþykkt af sameiginlegu EES-nefndinni í mars 1999. Tilskipunin tekur við af fyrri tilskipun 95/62/EB um sama efni sem hefur verið felld úr gildi. Tilskipunin sem almennt gengur undir heitinu talsímatilskipunin tekur tillit til þeirra breytinga er urðu árið 1998 þegar einkaréttur ríkisins á talsímaþjónustu var afnuminn á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Talsímatilskipunin fjallar um samræmingu fyrirkomulags alþjónustu í fasta fjarskiptanetinu. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja framboð gæðafjarskiptaþjónustu fyrir alla notendur, þar á meðal neytendur. Gera þarf þann fyrirvara við talsímatilskipunina að hún fjallar almennt ekki um farsímaþjónustu.
     6.      Tilskipun ráðsins og þingsins 1999/5/EB frá 9. mars 1999 um útvarpstæki og fjarskiptabúnað og gagnkvæma viðurkenningu á gerðarprófunum mun taka gildi á innri markaði Evrópusambandsins á næsta ári. Hún mun hafa verulegar breytingar í för með sér á öllu eftirliti með innflutningi á fjarskiptabúnaði. Tilskipun 98/13/EB um notendabúnað í fjarskiptakerfum og gervihnattastöðvar, þar á meðal um gagnkvæma samræmisviðurkenningu, hefur þegar tekið gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Hún mun hins vegar falla út við gildistöku tilskipunar 1999/5/EB.
     7.      Á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar hafa verið samþykktar fjölmargar ályktanir og tilmæli sem samningsaðilar EES hafa skuldbundið sig til að taka mið af. Þar má nefna ályktun ráðsins 96/C 376/01 frá 21. nóvember 1996 um nýja forgangsröðun við stefnumótun um upplýsingaþjóðfélagið. Ályktun ráðsins 97/C 303/01 um stefnu í númeramálum vegna fjarskiptaþjónustu. Ákvörðun (decision) framkvæmdastjórnarinnar 98/80/EB um breytingu á II. viðauka tilskipunar ráðsins 92/44/EBE. Tilmæli (recommendation) framkvæmdastjórnarinnar 98/195/EB um samtengingargjöld. Tilmæli (recommendation) framkvæmdastjórnarinnar 98/322/EB um samtengingarbókhald. Tilmæli (recommendation) framkvæmdastjórnarinnar 98/511/EB um samtengingargjöld. Ákvörðun (decision) þingsins og ráðsins 710/97/EB.

2. Aðrir alþjóðlegir samningar.

    Auk samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefur verið unnið mikið starf á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og hefur verið gerð bókun um frelsi í þjónustuviðskiptum með grunnsímaþjónustu er tók gildi 5. febrúar 1998. Með þessum samningi hafa 72 ríki, þar á meðal öll aðildarríki OECD, skuldbundið sig til að opna fjarskiptamarkaði sína fyrir alþjóðlegum viðskiptum.

IV. Meginmarkmið við breytingar á fjarskiptalögum.

    Stefnumörkun á sviði fjarskipta er byggð á nokkrum meginþáttum sem saman eiga að stuðla að virkri samkeppni sem tryggt geti hag neytenda, atvinnulífsins og þjóðfélagsins í heild. Til að ná þessu markmiði hefur í þessu frumvarpi einkum verið litið til eftirfarandi atriða:
          Skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
          Nauðsynjar þess að tryggja samtengingu neta svo að viðskiptavinir ólíkra fjarskiptafyrirtækja geti haft samband sín á milli.
          Nauðsynjar þess að fyrirtækjum sem eiga þjóðbrautina (fjarskiptanetið) og aðra innviði sé gert skylt að opna aðgang að netinu og annarri aðstöðu á sanngjörnum kjörum.
          Nauðsynjar þess að stuðla að raunverulegri samkeppni á markaðnum með því að jafna samkeppnisstöðu fjarskiptafyrirtækja, t.d. með aðgangi að heimtaug.
          Nauðsynjar þess að markaðsráðandi fyrirtæki sé veitt aðhald, m.a. með kröfu um bókhaldslegan aðskilnað.
          Nauðsynjar þess að mæta þörfum allra landsmanna um að njóta ákveðinnar lágmarksþjónustu.
          Nauðsynjar þess að tryggja svigrúm fjarskiptafyrirtækja til að starfa, svo og markaðsráðandi fyrirtækis.
          Nauðsynjar þess að mæta kröfum viðskiptalífsins um að afnema hömlur og einfalda löggjöf og draga úr umfangi hennar eftir því sem samkeppni eykst.
          Nauðsynjar þess að stjórnvöld hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum frá markaðinum svo að þau geti sett almennar leikreglur.
          Nauðsynjar þess að ávallt verði til öflug fjarskiptafyrirtæki á Íslandi.
          Nauðsynjar þess að löggjöf hamli ekki þróun upplýsingatækni og komi ekki í veg fyrir tækniframfarir.

V. Helstu efnisatriði frumvarpsins.

    Meginbreytingum frumvarpsins má skipta í tvo hluta. Annars vegar eru ákvæði sem ætlað er að örva samkeppni en hins vegar ákvæði sem eiga að tryggja aðgang allra landsmanna að gagnaflutningsþjónustu, auk talsímaþjónustu sem kveðið er á um í gildandi lögum.
    Í frumvarpi þessu hefur merkingu orða og hugtaka verið breytt til samræmis við nýjar tilskipanir sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá hafa hugtök verið skilgreind sem ekki eru í gildandi lögum um fjarskipti.

1. Númeraflutningar.

    Númeraflutningur gerir notendum síma mögulegt að halda símanúmeri sínu án tillits til þess hjá hvaða símafyrirtæki viðskiptin eru. Hann er nú almennt talinn forsenda fyrir raunverulegri samkeppni í símaþjónustu. Samkvæmt tilskipun EES ber aðildarríkjum að hafa innleitt númeraflutning eigi síðar en 1. janúar 2000.

2. Innlendir reikisamningar.

    Innlendur reikisamningur þýðir að farsímafyrirtæki eiga aðgang að farsímanetum annarra fyrirtækja þegar uppbygging eigin aðstöðu er talin óraunhæf. Með innlendum reikisamningum er því unnt að koma á virkri samkeppni í farsímaþjónustu á öllu landinu. Innlendir reikisamningar eru ekki orðnir hluti af löggjöf EES en njóta vaxandi fylgis, m.a. vegna umhverfis- og byggðasjónarmiða, auk þess sem það kann að vera þjóðhagslega hagkvæmt að lágmarka tilkostnað við þjónustu við notendur. Einstök ríki, svo sem Bandaríkin, Kanada, Danmörk og Noregur, hafa þegar lögbundið skyldu fjarskiptafyrirtækja í farsímaþjónustu til að gera með sér innlenda reikisamninga.

3. Aðgangur að heimtaug.

    Í aðgangi að heimtaug felst að fjarskiptafyrirtæki á lögvarinn rétt til að leigja aðgang að heimtaug til notenda af markaðsráðandi fjarskiptafyrirtæki. Vegna áratuga einkaréttar símastjórna Evrópu á fjarskiptum er almennt aðeins eitt fjarskiptanet sem nær til allra notenda. Þar af leiðandi þurfa ný fjarskiptafyrirtæki að fjárfesta verulega í eigin netum ætli þeir að ná til notenda almennt. Aðgangur að heimtaug er því mikilvægur til að örva samkeppni á almennum notendamarkaði um allt land. Aðgangur að heimtaug er ekki orðinn hluti af fjarskiptareglum EES, en ýmis aðildarríki, svo sem Danmörk, Finnland, Holland, Austurríki og Þýskaland, hafa nú þegar lögbundið slíkan aðgang og fleiri ríki munu bætast í þann hóp á næstunni. Alþjóðlegir efnahagsráðgjafar, svo sem OECD og Alþjóðabankinn, leggja mikla áherslu á að ríki setji ákvæði um aðgang að heimtaug í löggjöf sína vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem það hefur á viðgang upplýsingaþjóðfélagsins og hagvöxt. Þess ber þó að geta að þetta mun leiða til hækkunar á fastagjaldi fyrir heimtaugina sem nú er lægra en tilkostnaður við hana, en á móti kemst á samkeppni um þjónustuna við notendur sem ætti að leiða til lægra verðs á henni. Þannig er það hagkvæmt fyrir notendur til lengri tíma litið að koma samkeppni á og skammtímasjónarmið vegna leiðréttinga á verðlagningu á notkun heimtaugarinnar eiga ekki að ráða nokkru þar um.

4. Aðgangshindranir afnumdar.

    Í frumvarpinu er dregið úr afskiptum ríkisins af fjarskiptafyrirtækjum, og einstaklingum og fyrirtækjum auðvelduð leið inn á markaðinn. Meginreglan verður sú að ekki þarf sérstakt leyfi til að starfrækja fjarskiptafyrirtæki. Þó mun áfram þurfa rekstrarleyfi til starfrækslu talsímaþjónustu, farsímaþjónustu og fjarskiptanets.
    Frestir vegna málsmeðferðar hjá Póst- og fjarskiptastofnun eru styttir frá því sem nú er.

5. Ákvæði um opinn netaðgang.

    Í frumvarpinu er mælt fyrir um opinn aðgang að fjarskiptanetum, auk samtengingar, réttar og skyldu fjarskiptafyrirtækja. Póst- og fjarskiptastofnun mun gegna lykilhlutverki við framkvæmd þessa.

    Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp að nýjum lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Breytast gildandi lög um stofnunina til samræmis við þær breytingar sem verða á fjarskiptalögum. Að auki eru stofnuninni tryggð úrræði til að hún geti rækt það mikla hlutverk sem henni er ætlað samkvæmt lögum þessum.

Athugasemdir við einstakar greinar og kafla frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í fyrstu grein er mörkuð almenn stefna og markmið laganna. Eins og fram kemur í 1. mgr. gilda lögin um fjarskipti og fjarskiptaþjónustu. Innan þess gildissviðs fellur umfjöllun um fjarskipti eins og þau hugtök eru skilgreind í 3. gr. frumvarpsins.
    Markmið fjarskiptalaga er að tryggja örugg fjarskipti og sem hagkvæmasta fjarskiptaþjónustu hér á landi auk þess að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði. Eitt megineinkenni frumvarpsins er að aukin áhersla er lögð á að fjarskiptalög stuðli að virkri samkeppni á þeim sviðum sem frumvarpið nær til.
    Ákvæði 3. mgr. er í meginatriðum óbreytt frá gildandi lögum en hér er gerð sú grundvallarbreyting að gagnaflutningsþjónusta verður hluti af alþjónustu en ekki aðeins talsímaþjónusta eins og í gildandi lögum. Því er í 3. mgr. fjallað um fjarskiptaþjónustu almennt í stað talsímaþjónustu.
    Ákvæði 4. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 5. mgr. er tekið sérstaklega fram að frumvarpið sé samið með hliðsjón af tilskipunum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um fjarskiptamál. Vísast hér til 1. tölul. 1. hluta III. kafla almennra athugasemda með frumvarpinu.

Um 2. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 2. mgr. segir að Póst- og fjarskiptastofnun skuli hafa umsjón með fjarskiptum innan lögsögu íslenska ríkisins og hafa eftirlit með framkvæmd laganna.
    Greinin kemur í stað 3. gr. gildandi laga, þó með þeirri viðbót að í 2. mgr. er lögsaga Póst- og fjarskiptastofnunar skilgreind. Alþjóðlegt eðli fjarskipta getur leitt til ágreinings um lögsögu Póst- og fjarskiptastofnunar. Þannig geta komið upp álitamál um hvernig lögsögu skuli háttað þegar lagðir eru sæstrengir milli landa eða þegar skip sigla innan íslenskrar efnahagslögsögu en utan landhelgi.

Um II. kafla.

    Í kaflanum eru einstök hugtök skilgreind. Samkvæmt einsleitnismarkmiði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er brýnt að inntak hugtaka í íslenskum fjarskiptalögum sé í samræmi við löggjöf annars staðar í Evrópu. Það auðveldar jafnframt túlkun á II. kafla frumvarpsins að leita má fordæma úr löggjöf annarra aðildarríkja EES.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa. Skilgreiningar frumvarpsins hafa verið samdar með hliðsjón af skilgreiningum hugtaka í tilskipunum og öðrum alþjóðareglum sem frumvarpið byggist á.

Um III. kafla.

    Í III. kafla er fjallað um heimildir til fjarskiptastarfsemi. Með kaflanum er lögð til sú grundvallarbreyting á V. kafla gildandi laga að í stað þess að gefa þurfi út rekstrarleyfi til fjarskiptaþjónustu verður meginreglan sú að fjarskiptafyrirtæki þurfa einungis að uppfylla almenn skilyrði frumvarpsins. Í ákveðnum tilvikum er þó heimilt að krefjast rekstrarleyfis í samræmi við 7. gr. frumvarpsins. Breytingin er í samræmi við skuldbindingar Íslendinga samkvæmt EES-samningnum í þeim tilgangi að draga úr afskiptum ríkisins af aðgangi fjarskiptafyrirtækja að markaðinum.
    Tilskipun þessi, 97/13/EB frá 10. apríl 1997, um samræmda löggjöf fyrir almennar heimildir og rekstrarleyfi á sviði fjarskiptaþjónustu, var samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni í mars 1999. Auk framanritaðs er aðildarríkjum EES bannað að takmarka fjölda nýrra fjarskiptafyrirtækja nema þegar tíðnisvið er takmarkað og í einstökum undantekningartilfellum vegna númeramála en þá aðeins í takmarkaðan tíma.
    Einnig eru í tilskipuninni settar samræmdar meginreglur um málsmeðferð við leyfisveitingar sem aðildarríki EES verða að fara að. Þessi ákvæði um málsmeðferðartíma og skilyrði rekstrarheimildar tryggja að sömu reglur gilda um ný fjarskiptafyrirtæki alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Stjórnvöldum er óheimilt að setja önnur skilyrði fyrir rekstri en fram koma í tilskipuninni.

Um 4. gr.

    Í 4. gr. kemur fram að Póst- og fjarskiptastofnun veiti heimild til reksturs almennra fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu. Meginbreyting frumvarpsins frá gildandi lögum er að heimildir geta verið tvenns konar, almennar heimildir og rekstrarleyfi.
    Heimildir eru veittar félögum sem staðfestu hafa á Íslandi, innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða innan aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eftir því sem samgönguráðherra ákveður með reglugerð. Í leyfisveitingatilskipun ESB er markmiðið að reglur um leyfisveitingar séu í samræmi við ákvæði Rómarsáttmálans um stofnsetningarrétt og til að veita þjónustu en þær meginreglur er einnig að finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ákvæði 2. mgr. tekur af allan vafa um að ekki þurfi sérstaka heimild til að starfrækja virðisaukandi þjónustu. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um almennar heimildir til að veita fjarskiptaþjónustu. Þar er miðað við að fyrirtæki sem uppfyllir skilyrði laganna geti starfað án þess að um frekari heimild verði að ræða. Skilyrðin samkvæmt lögunum verða að vera almenn þar sem leyfisbréf verða ekki gefin út. Á hinn bóginn þurfa þeir aðilar sem hyggjast starfrækja fjarskiptaþjónustu að senda um það tilkynningu til Póst- og fjarskiptastofnunar með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Þessi tilkynningarskylda er lögð á fjarskiptafyrirtæki af tveimur ástæðum. Annars vegar er mikilvægt að Póst- og fjarskiptastofnun sem er eftirlitsaðili með markaðinum hafi yfirlit yfir það hverjir starfa á viðkomandi markaði. Hins vegar mun ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um hvort fyrirhuguð starfsemi falli undir leyfisskylda starfsemi skv. 7. gr. frumvarpsins byggjast að verulegu leyti á upplýsingum sem fylgja tilkynningu.
    Í 2. mgr. segir að Póst- og fjarskiptastofnun haldi skrá yfir öll fjarskiptafyrirtæki sem hafa tilkynnt að þau muni starfa samkvæmt almennri heimild. Skránni er ætlað að veita yfirlit og auðvelda samskipti stofnunarinnar og þátttakenda á íslenska fjarskiptamarkaðinum.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. segir að Póst- og fjarskiptastofnun skuli setja skilyrði sem gilda um almennar heimildir. Þessi heimild til að setja skilyrði sækir stoð sína í 4. gr. leyfisveitingartilskipunar ESB þar sem fram kemur að einungis megi setja þau skilyrði sem fram koma í viðauka tilskipunarinnar.

Um 7. gr.

    Í greininni er fjallað um þau frávik frá meginreglu 5. gr. að einungis þurfi almenna heimild til að reka fjarskiptaþjónustu. Ákvæðið er byggt á 7. gr. leyfisveitingartilskipunarinnar og eru þar tæmandi talin þau tilvik þegar heimilt er að krefjast rekstrarleyfis.

Um 8. gr.

    Við útgáfu rekstrarleyfa er Póst- og fjarskiptastofnun ætlað að setja rekstrarleyfishöfum skilyrði sem eru tæmandi talin í greininni.

Um 9. gr.

    Í 1. mgr. segir að Póst- og fjarskiptastofnun geti krafist af umsækjendum um rekstrarleyfi að þeir leggi fram fullnægjandi upplýsingar um eignaraðild, fjárhagsstöðu og fyrirhugaða starfsemi, svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að leggja mat á umsóknina. Málsmeðferð á að ljúka innan sex vikna frá því að erindi berst, en þó er heimilt að framlengja frestinn í ákveðnum tilvikum.
    Í 2. mgr. segir að Póst- og fjarskiptastofnun sé enn fremur heimilt að fresta ákvörðun um fjóra mánuði til viðbótar við þá fresti sem greindir eru í 1. mgr. þegar sótt er um leyfi sem felur í sér úthlutun í tíðnisviði sem er takmarkað að umfangi og stjórnvöld ákveða að viðhafa útboð um úthlutun eða gefa með auglýsingu öðrum kost á að sækja um sama tíðnisvið.
    Ákvæðið á uppruna sinn í 9. gr. leyfisveitingartilskipunarinnar og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 10. gr.

    Greinin kemur í stað 8. gr. gildandi laga, en hér er nánar skilgreint hvenær verður heimilt að takmarka fjölda leyfa sem er eingöngu þegar úthluta þarf tíðni eða númerum.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun fengin heimild til að efna til útboða í ákveðnum tilvikum. Markmið útboðs samkvæmt ákvæðinu er fyrst og fremst tvenns konar. Annars vegar að stýra aðgangi að auðlindum eftir hlutlægum mælikvarða þegar eftirspurn eftir þeim er meiri en framboð. Hins vegar getur Póst- og fjarskiptastofnun boðið skilgreinda starfsemi út sem ákveðið er að halda uppi en ætla má að skili ekki arði. Útboð er þá fyrst og fremst til þess fallið að lágmarka tilkostnað ríkisins við að halda úti þjónustu sem ella yrði ekki veitt.
    2. og 3. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.

    Greinin er nýmæli en þarfnast ekki skýringa.

Um IV. kafla.

    Í 7. gr. gildandi laga er lögfest skylda rekstrarleyfishafa til að veita alþjónustu. Þar er alþjónusta Póst- og fjarskiptastofnunar skilgreind sem talsímaþjónusta. Hér er það nýmæli að undir alþjónustu fellur einnig ákveðin gagnaflutningsþjónusta. Þarfir einstaklinga og fyrirtækja fyrir fjarskiptaþjónustu og hugmyndir þeirra um verðlagningu á þjónustunni eru breytilegar. Þess vegna er nauðsynlegt að setja ramma sem mæti þörfum allra notenda fyrir þá þjónustu sem þeim er nauðsynleg á eins góðum kjörum og unnt er.

Um 13. gr.

    Greinin byggist á 7. gr. gildandi laga, þó með þeirri breytingu að samkvæmt gildandi lögum á Póst- og fjarskiptastofnun frjálst mat um það hvenær fjarskiptaþjónusta telst alþjónusta. Með breytingunni er leitast við að setja vísireglur um hvenær hægt er að leggja alþjónustukvöð á fjarskiptafyrirtæki. Þá er nýmæli að Póst- og fjarskiptastofnun geti ákveðið lágmarksgæði alþjónustu.
    Í 1. mgr. er jafnframt sú grundvallarbreyting að ákveðin gagnaflutningsþjónusta telst alþjónusta. Er þar um að ræða gagnaflutning t.d. í samneti og er með því leitast við að tryggja öllum landsmönnum gagna flutningsþjónustu sem mundi m.a. bæta aðgang þeirra að internetinu. Ákvæðið á sér fyrirmynd í dönsku fjarskiptalögunum.
    Sjái rekstrarleyfishafi sér ekki fært að veita tilteknum aðila alþjónustu skv. 1. mgr., svo sem vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis, skal ágreiningur um synjun borinn undir Póst- og fjarskiptastofnun til úrskurðar.

Um 14. gr.

    Ákvæðið er óbreytt frá 14. gr. gildandi laga að viðbættri 2. mgr. frumvarpsins þar sem mælt er fyrir um að kostnaður við alþjónustu skuli byggjast á sömu reglum og um samtengingu.

Um 15. gr.

    Sama ákvæði er nú í 15. gr. gildandi laga.

Um 16. gr.

    Greinin kemur í stað 16. gr. gildandi laga. Hún er að mestu óbreytt en því er bætt við að umhverfisástæður geti orðið grundvöllur ákvörðunar samgönguráðherra um framkvæmdir eða rekstur.

Um V. kafla.

    Eitt meginmarkmið fjarskiptalöggjafar er að auðvelda aðgang að fjarskiptanetum og þjónustu. Því er nauðsynlegt að mæla fyrir um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita öðrum, einstaklingum og lögaðilum, þennan aðgang. Í þessum kafla er nánar mælt fyrir um með hvaða skilmálum aðgangur skuli veittur og hvenær heimilt er að synja um aðgang.
    Reglurnar í V. kafla byggjast á meginreglum Evrópuréttar um svokallaða ómissandi aðstöðu (essential facility). Í þeim reglum felst að sá sem ræður yfir aðstöðu sem samkeppnisaðilum hans er nauðsynleg til að geta stundað starfsemi sína þarf að veita aðgang að henni. Í V. kafla eru settar reglur um hvernig aðgangi fjarskiptafyrirtækja og einstaklinga að henni skuli háttað.
    Ákvæði kaflans er í samræmi við tilskipun EES 90/387/EB, sbr. 97/51/EB.

Um 17. gr.

    Greinin er nýmæli og er ætlað að auðvelda framboð almennra fjarskiptaneta og/eða almennrar fjarskiptaþjónustu á Íslandi og á Evrópska efnahagssvæðinu. Skal öllum sem þess óska heimill aðgangur að almennum fjarskiptanetum og almennri fjarskiptaþjónustu með ákveðnum skilmálum. Þessu ákvæði er einnig ætlað að auðvelda aðgang annarra en fjarskiptafyrirtækja að aðstöðu, t.d. aðgang útvarps- og sjónvarpsstöðva að breiðbandi.

Um 18. gr.

    Greinin er nýmæli og er ætlað að koma í veg fyrir að skilmálar um opinn aðgang hafi í för með sér takmörkun á aðgangi að almennum fjarskiptanetum. Grundvallaratriðið í þessu sambandi er að sá sem óskar aðgangs að aðstöðu á að fá hann á hentugasta stað svo fremi sem það er tæknilega mögulegt.
    Ákvæði greinarinnar eru samin á grundvelli ákvæðis tilskipunar EES 90/387/EB, sbr. 97/51/EB.

Um 19. gr.

    Ákvæðið fjallar um aðgang að leigulínum í samræmi við tilskipun 92/44/EBE um leigulínur.

Um 20. gr.

    Grein þessi felur í sér nýmæli í íslenskri löggjöf um fjarskipti og leggur þá skyldu á rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild að veita fjarskiptafyrirtækjum aðgang að notendum fjarskiptanets á grundvelli nánar tilgreindra skilyrða.
    Frá 1906–98 ríkti lögbundinn einkaréttur á rekstri fjarskiptaneta. Til viðbótar honum voru þær hömlur við lýði að rekstur sjónvarpsstöðva var bannaður til ársins 1986. Þessi lögbundni einkaréttur leiddi til þess að ekki voru byggð upp fjarskiptanet hér á landi fyrir almenning önnur en fjarskiptanet Póst- og símamálastofnunar. Þetta var ólíkt þróuninni í öðrum löndum þar sem frelsi, einkum í sjónvarpsrekstri, komst fyrr á með þeim afleiðingum að sjónvarpskapalkerfi voru byggð upp til almannanota. Þessi sjónvarpskapalkerfi má nú nota sem fjarskiptanet sem auðveldar til muna samkeppni í rekstri fjarskiptaneta í þessum löndum.
    Aðgangur að heimtaug fjarskiptafyrirtækis með umtalsverða markaðshlutdeild er lykilatriði fyrir samkeppni á almennum notendamarkaði hér á landi. Stafar það af því að kostnaður við lagningu heimtaugar til venjulegs notanda er mun hærri en sem nemur þeirri notkun sem fram fer til venjulegra heimilisnota, einkum ef lagning þarf að fara fram í grónum hverfum.
    Um fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild er fjallað í 24. gr. frumvarpsins og eru það fyrirtæki sem hafa að jafnaði meira en 25% hlutdeild tiltekins fjarskiptamarkaðar.
Almennt fjarskiptanet er innviðir fyrir almenn fjarskipti sem gera kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðgerðum.
    Núverandi gjaldtaka fyrir notkun á heimtaugum einstakra notenda er ekki í samræmi við tilkostnað. Verður því að breyta gjaldskrá Landssíma Íslands hf. til samræmis við tilkostnað til að tryggja að fastanetinu verði haldið eðlilega við og ráðist verði í fjárfestingar sem nauðsynlegar eru til að viðhalda kerfinu. Í bráðabirgðaákvæði II er gert ráð fyrir að fastagjöld fyrir talsímalínur verði leiðrétt til samræmis við tilkostnað við rekstur þeirra og skuli kostnaðarreikningar fyrir talsímaþjónustu lagðir fyrir Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar en 1. mars 2000. Stofnunin hefur frest til 1. apríl 2000 til að ákveða fastagjald fyrir síma.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að aðgangurinn verði veittur sex mánuðum eftir að Póst- og fjarskiptastofnun hefur ákvarðað fastagjöldin í samræmi við bráðabirgðaákvæði II.
    Títtnefndar reglur um fjarskipti sem gilda innan EES gera ekki ráð fyrir þeirri skyldu að veita fyrirtækjum aðgang að heimtaug til notenda fjarskiptafyrirtækja með umtalsverða markaðshlutdeild. Öll umræða um breytingar á fjarskiptalöggjöf innan EES miðast við að þessi aðgangur verði tryggður í nánustu framtíð.
    Sérfræðiskýrslur sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur látið gera í tilefni af endurskoðun tilskipana um fjarskiptamál leggja til að framkvæmdastjórnin geri allt sem hún geti til þess að lagaskyldu um aðgang að heimtaug verði komið á gagnvart markaðsráðandi fjarskiptafyrirtækjum eins fljótt og auðið er. Að mati ráðgjafa framkvæmdastjórnarinnar ætti aukinn aðgangur að heimtaug að leiða til:
          Aukinnar samkeppni í innanbæjarsímtölum og langlínusamtölum. Erfitt er fyrir fjarskiptafyrirtæki að keppa hvort sem er í verði eða þjónustu á grundvelli samtengingarsamninga eingöngu.
          Fleiri nýjunga í þróun tækni fyrir heimtaugar og þjónustu við þær. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þróun háhraðaþjónustu sem upplýsingaþjóðfélag nútímans krefst.
          Minni þarfar fyrir ríkisafskipti því að samkeppni á öllum stigum fjarskiptaþjónustu hefur í för með sér innra aðhald í greininni.
    Samkeppni í rekstri fjarskiptaneta er lítil á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Flest ný fjarskiptafyrirtæki leggja áherslu á útlandasímtöl og/eða þjónustu við stærri fyrirtæki í þéttbýli. Að mati ráðgjafa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eru þrjár meginástæður fyrir þessum skorti á samkeppni. Í fyrsta lagi tekur langan tíma að koma á samkeppni á heimtaugarmarkaði ef ætlast er til þess að nýir samkeppnisaðilar verði að leggja nýjar heimtaugar. Mörg Evrópuríki komu fyrst á frelsi í fjarskiptum árið 1998. Í öðru lagi er stærðarhagkvæmni mikil á heimtaugarmarkaði. Þetta leiðir til þess að ný fjarskiptafyrirtæki með óverulega markaðshlutdeild þurfa að bera mikinn kostnað í samanburði við fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild til þess að geta keppt um þjónustu í dreifbýli, við heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki. Án aðgangs að heimtaug er ólíklegt að ný fjarskiptafyrirtæki geti þjónað dreifbýli. Í þriðja lagi er smásöluverð sem fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild innheimta fyrir afnot af heimtauginni í flestum Evrópuríkjum undir kostnaði. Þar af leiðandi geta ný fjarskiptafyrirtæki ekki haft neinar tekjur af heimtaugarmarkaði og verða að treysta alfarið á aðra þjónustu. Þetta eykur áhættufjárfestingar og hindrar aðgang að markaði. Bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er ætlað að auka gagnsæi verðskrárinnar.

Um 21. gr.

    Í ákvæðinu, sem er nýmæli, er fjallað um innlenda reikisamninga og lagt til að fjarskiptafyrirtæki sem reka farsímanet semji sín á milli um reiki á milli farsímakerfa. Í undantekningartilvikum geti Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið hvort samningur skuli gerður og skilmála reikis náist ekki samkomulag.
    Með reiki er átt við það sem á ensku er gjarnan kallað „roaming“ og felur í sér að notandi hjá einu farsímafyrirtæki getur notað síma sinn utan þjónustusvæðis þess hjá öðru farsímafyrirtæki. Eru slíkir samningar alþekktir á milli símafyrirtækja, sérstaklega þegar fyrirtæki bjóða notendum sínum upp á þjónustu í öðrum löndum. Íslensku farsímafyrirtækin hafa gert reikisamninga við símafyrirtæki í mörgum ríkjum um notkun íslenskra notenda í öðrum löndum, sem og samninga við erlend fyrirtæki um reiki á Íslandi.
    Skilyrði þess að fjarskiptafyrirtæki geti átt kröfu á innlendum reikisamningi er að ekki verði ráðist í uppsetningu og rekstur farsímastöðvar, vegna eðlis eða umfangs fjárfestingar, eða þar sem aðstæður til uppsetningar og rekstrar farsímastöðvar eru sérstaklega erfiðar, svo sem náttúrulegar aðstæður. Dæmi um aðstæður sem gætu talist sérstaklega erfiðar er það ef umhverfis- eða skipulagslöggjöf væri hindrun fyrir frekari uppbyggingu farsímanets. Skilyrði þess að fyrirtæki geti krafist reikisamnings er að það ráði að mati Póst- og fjarskiptastofnunar yfir eigin farsímaneti þar sem því verður við komið.
    Skylda til að gera reikisamning skv. 3. mgr. verður undantekningarregla og fer um málsmeðferð fyrir Póst- og fjarskiptastofnun samkvæmt reglum um deilur um opinn aðgang í 22., 27. og 28. gr. Þó gildir sú sérregla um reikisamninga að farsímafyrirtæki sem fær reiki hjá öðru fyrirtæki þarf að greiða fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá, að frádregnum þeim kostnaðarliðum sem eigandi netsins þarf ekki að standa undir. Er þar átt við atriði eins og innheimtu reikninga, markaðsfærslu o.fl.
    Í dönskum og norskum lögum er kveðið á um skyldu rekstrarleyfishafa farsímaþjónustu til að gera reikisamninga við aðra rekstrarleyfishafa og fleiri ríki hafa eða eru að taka upp sams konar samningsskyldu. Í frumvarpi þessu er lagt til að Ísland verði í þeim hópi.

Um 22. gr.

    Ákvæðið heimilar Póst- og fjarskiptastofnun að kveða á um skilmála opins aðgangs að fjarskiptanetum skv. V. kafla. Málsmeðferð ágreinings um opinn netaðgang er mun einfaldari en málsmeðferð vegna samtengingar, enda eru samningar um aðgang að tilteknum nettengipunkti eða aðgangur að tiltekinni þjónustu yfirleitt mun einfaldari en umfangsmiklir samtengingarsamningar.
    Ákvæði greinarinnar um verðlagningu þjónustu eru í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar um opinn aðgang að netum.

Um VI. kafla.

    Í gildandi fjarskiptalögum eru ákvæði um skyldu rekstrarleyfishafa til að tengja fjarskiptanet sitt fjarskiptaneti annarra rekstrarleyfishafa.
    VI. kafli frumvarpsins byggist á sömu sjónarmiðum og ákvæði gildandi laga, en ákvæðin eru ítarlegri og samin með hliðsjón af samtengingartilskipun 97/33/EB.
    Áður en lögbundinn einkaréttur símamálastofnana á starfrækslu almennra fastra fjarskiptaneta var afnuminn á Evrópska efnahagssvæðinu árið 1998 var að jafnaði aðeins eitt fjarskiptafyrirtæki í hverju Evrópuríki sem veitti slíka fjarskiptaþjónustu. Þetta hafði það að sjálfsögðu í för með sér að allt fjarskiptanetið var á einni hendi. Fjarskipti ganga út á það að hægt sé að hafa samskipti á milli a.m.k. tveggja nettengipunkta. Til þess að áskrifandi nýs fjarskiptafyrirtækis geti haft samband við aðila sem er í áskrift hjá öðru fjarskiptafyrirtæki verður að vera samtenging á milli netanna. Þetta séreðli fjarskiptaþjónustunnar gæti leitt til þess að fjarskiptafyrirtæki með flesta áskrifendur gæti útilokað ný fjarskiptafyrirtæki frá markaðinum einfaldlega með því að synja um samtengingu.

Um 23. gr.

    Með þessari grein er lagt til að lögfest verði ákvæði og viðaukar samtengingartilskipunarinnar. Í 1. mgr. eru skilgreindar tegundir fjarskiptaþjónustu og fjarskiptaneta sem leiða til réttar og skyldu til að semja um samtengingu. Í II. viðauka samtengingartilskipunarinnar eru fjarskiptafyrirtæki sem njóta réttar og bera skyldu til að semja um samtengingu skilgreind. Viðaukinn er fyrirmynd upptalningar í greininni en ljóst er að hún er rúm því að hún tekur einnig til flutningsþjónustu til notenda sem önnur fjarskiptaþjónusta byggist á. Þannig fellur m.a. ATM-þjónusta undir ákvæðið.
    Í 2. mgr. er minnt á þá meginreglu að samtengingarsamningar eiga að vera frjálsir og á forræði fjarskiptafyrirtækjanna sem að þeim standa. Rétt er að gæta þess að milliganga Póst- og fjarskiptastofnunar kemur ekki til nema samningaviðræður fjarskiptafyrirtækjanna séu sigldar í strand að mati annars eða beggja samningsaðila.
    Í 3. mgr. er fjallað um þátt Póst- og fjarskiptastofnunar ef til milligöngu hennar þarf að koma. Mikilvægi þess að stofnunin kveði upp úrskurð um inntak samtengingarsamnings ræðst af aðstæðum hverju sinni. Í 2. mgr. 3. gr. samtengingartilskipunarinnar er sú skylda lögð á aðildarríki EES að tryggja virka og nægilega samtengingu þeirra almennu fjarskiptaneta sem talin eru upp í I. viðauka tilskipunarinnar en það eru þau net sem talin eru upp í 3. mgr.

Um 24. gr.

    Ákvæðið sem er nýmæli felur í sér ríkari skyldur til að verða við beiðni um samtengingu þegar um er að ræða fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild. Skilgreining á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild er í samræmi við 3. tölul. 4. gr. samtengingartilskipunarinnar.

Um 25. gr.

    Með þessari grein er lagt til að lögfest verði 6. gr. samtengingartilskipunarinnar þar sem mælt er fyrir um meginreglur til að tryggja gagnsæi, aðgang að upplýsingum, jafnræði og jafnan aðgang að fjarskiptaneti. Í þeim felst að Póst- og fjarskiptastofnun skuli leggja sérstakar kvaðir á fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild til þess að tryggja jafnræði að því er varðar samtengingu við önnur fyrirtæki. Upplýsingar um samtengingarskilmála skulu vera aðgengilegar enda skiptir samtenging sköpum fyrir ný fyrirtæki á markaðinum sem verða að treysta á samtengingu neta til að geta tryggt notendum sínum aðgang að notendum annarra neta og boðið hinum síðarnefndu þjónustu sína. Samtímis er tryggt að notendur eigi kost á vali á þjónustuveitanda. Í 2. mgr. er ákvæði sem ætlað er að fyrirbyggja misnotkun upplýsinga sem fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild fá í hendur vegna sérstöðu sinnar í krafti grunnnetsins.

Um 26. gr.

    Fyrirtæki sem starfrækja almenn fjarskiptanet og/eða almenna fjarskiptaþjónustu á sviði talsíma í fastaneti og leigulína og njóta umtalsverðar markaðshlutdeildar skulu uppfylla ákvæði greinarinnar.
    Verðlagning samtengingar er lykilatriði fyrir fjarskiptafyrirtæki sem hyggst starfa á markaðinum. Hér er sú meginbreyting gerð að fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild verða að sanna að samtengingargjöld þeirra séu ákveðin á grundvelli tilkostnaðar. Af þessum sökum er fyrirtækjum nauðsynlegt að halda fullkomið kostnaðarbókhald. Í því skyni getur Póst- og fjarskiptastofnun krafið viðkomandi fyrirtæki um rökstuðning fyrir kostnaðartölum og þegar ástæða þykir til krafist breytinga á gjaldi. Í V. viðauka tilskipunarinnar er að finna nánari útfærslu á kostnaðargrundvelli í þessu skyni. Framkvæmdastjórn ESB hefur auk þess gefið út tilmæli um nánari útfærslu á ákvæðum tilskipunarinnar, sjá 98/195/EB og 98/511/ EB. Samkvæmt þeim eru einkum þrír flokkar samtengingargjalda, staðarsímtöl, einfaldur flutningur og tvöfaldur flutningur. Flest bendir til að svipaðri aðferðafræði verði beitt við verðlagningu á leigulínum styttri en 5 km að lengd. Miðað er við að virðisaukatengdur langtímakostnaður verði notaður, fremur en sögulegur kostnaður við ákvörðun um verð þjónustu. Kemur þetta skýrt fram í inngangsorðum tilskipunarinnar.
    Í 1. tölul. greinarinnar sem byggist á 7. gr. samtengingartilskipunar 97/33/EB er kveðið á um að gjöld fyrir samtengingu skuli miðast við tilkostnað, þ.m.t. hæfilega arðsemi af fjárfestingum.
    Í 2. tölul. kemur fram krafa um að fjarskiptafyrirtæki sem nýtur umtalsverðrar markaðshlutdeildar birti viðmiðunartilboð. Innihald slíks viðmiðunartilboðs er ekki tæmandi talið í greininni og tekur mið af þróun fjarskiptamarkaðarins á hverjum tíma. Samtengingartilskipunin leggur eftirlitsstofnunum í einstökum ríkjum á herðar skyldu að tryggja að fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild birti viðmiðunartilboð um samtengingu.
    Skyldur fjarskiptafyrirtækja til að gefa út viðmiðunartilboð og leiðbeiningar um innihald viðmiðunartilboðs er að finna bæði í samtengingartilskipuninni, grein 7.3, og tilskipun um samkeppni á fjarskiptamarkaði 90/388/EB, með síðari breytingum. Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út leiðbeiningar um innihald viðmiðunartilboðs. Tilboðinu er ætlað að auðvelda nýjum fyrirtækjum á markaðinum að átta sig á möguleikum sem samtenging á að veita þeim til að bjóða notendum nýja kosti í fjarskiptaþjónustu.
    Ákvæði 3. tölul. er ætlað að hindra að ný fyrirtæki verði beitt þrýstingi til að þiggja hjá fyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild meiri þjónustu en þörf er fyrir.

Um 27. gr.

    Í 1. mgr. er að finna ákvæði sem er efnislega samhljóða 2. mgr. 12. gr. gildandi laga, þó með þeirri mikilvægu breytingu að aðilar geta nú leitað til Póst- og fjarskiptastofnunar innan mánaðar í stað þriggja mánaða áður. Ljóst er að það getur valdið nýjum fyrirtækjum verulegu fjárhagstjóni ef samningar dragast á langinn. Þess vegna er frestur aðila til að komast að samkomulagi takmarkaður.
    Í 2. mgr. eru talin upp þau sjónarmið sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur til hliðsjónar við sáttameðferð.

Um 28. gr.

    Í greininni er Póst- og fjarskiptastofnun veitt heimild til að leggja fram miðlunartillögu í samtengingarmáli sem vísað hefur verið til stofnunarinnar. Ekki er talið hægt að kveða nánar á um innihald málamiðlunartillögu vegna þess hversu fjölþætt samtenging getur verið en tekið er fram að hliðsjón skuli höfð af öðrum greinum þessa kafla. Lykilatriðið er að tillaga Póst- og fjarskiptastofnunar um samtengingu á að vera til þess fallin að ná sem mestri hagkvæmni og hagsbótum fyrir notendur, sbr. markmið 27. gr. frumvarpsins. Sáttameðferð eru sett tímamörk til að koma í veg fyrir að ný fyrirtæki bíði fjárhagslegt tjón af langri málsmeðferð.
    Náist ekki samkomulag innan þriggja mánuða þrátt fyrir sáttatilraunir skal Póst- og fjarskiptastofnun að kröfu annars eða beggja aðila ákveða skilmála fyrir samtengingu. Kemur sá frestur í stað sex mánaða frests í 13. gr. gildandi laga. Þeir skilmálar mundu þá alla jafna vera í samræmi við framkomna miðlunartillögu nema aðilar hefðu náð samkomulagi um hluta samtengingarsamnings sem væri annars efnis en fram komin tillaga stofnunarinnar. Þetta ákvæði er í samræmi við 9. gr. samtengingartilskipunarinnar sem segir að fjarskiptastofnun hvers aðildarríkis skuli geta ákveðið að fjarskiptafyrirtæki samtengi net sín sem lokaúrræði til þess að gæta mikilvægra almannahagsmuna. Fjarskiptastofnanir aðildarríkjanna eiga samkvæmt sama ákvæði einnig að geta ákveðið skilmála samtengingar þegar það á við.
    Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar skal fylgja rökstuðningur og er því um sambærilegar kröfur að ræða og gilda samkvæmt stjórnsýslulögum vegna kæruúrskurða.
    Í greininni er að finna heimildir til að krefjast upplýsinga úr bókhaldi aðila og eins er stofnuninni heimilt að láta löggilta endurskoðendur yfirfara slík gögn í sínu umboði.

Um 29. gr.

    Greinin kemur í stað 11. gr. gildandi laga, en lagt er til að skyldan til að semja og birta viðskiptaskilmála nái til almennrar fjarskiptaþjónustu í stað alþjónustu og reksturs fjarskiptanets áður. Þetta ákvæði er í samræmi við tilskipanir um opinn netaðgang að netum, a.m.k. talsímatilskipunarinnar. Í viðskiptaskilmálum skal mæla fyrir um helstu atriði sem notendum er nauðsynlegt að hafa vitneskju um.
    Í 2. mgr. segir að gjöld skuli vera sundurliðuð svo að notendur eigi þess kost að meta sjálfir hvaða þætti þjónustu þeir vilja kaupa. Er þetta ákvæði sett með neytendasjónarmið í huga.
    Í 3. mgr. er það nýmæli að finna að rekstrarleyfishöfum ber að tilkynna breytingar á gjaldskrá til Póst- og fjarskiptastofnunar eigi síðar en fjórum virkum dögum fyrir gildistöku þeirra.
    Í 4. mgr. er stofnuninni fengin heimild til að fylgjast með starfsemi rekstrarleyfishafa í þeim tilgangi að sannreyna að hún sé í samræmi við gildandi reglur, ákvarðanir og skilyrði stofnunarinnar á hverjum tíma.
    Samgönguráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um bókhaldslegan aðskilnað eða aðgreiningu einstakra rekstrarþátta þannig að unnt sé að fylgjast með stofnkostnaði og kostnaði af rekstri samtengdra fjarskiptaneta. Reglugerð hefur ekki verið sett um þetta efni á grundvelli gildandi laga. Í rekstrarleyfi Landssíma Íslands hf. eru ákvæði um skyldu rekstrarleyfishafans til aðgreina bókhald sitt. Samsvarandi ákvæði eru í reglugerð nr. 216/1998 um alþjónustu sem sýna hvernig greina ber bókhald fyrir alþjónustu.

Um 30. gr.

    Greinin er nýmæli. 1. mgr. tryggir rétt notenda til að fá reikninga sína sundurliðaða eftir tegundum þjónustu án sérstakrar greiðslu. Sem dæmi má nefna að nú eru reikningar Landssíma Íslands hf. sundurliðaðir eftir þjónustuflokkum. Með 2. mgr. er áskrifendum gert kleift að óska eftir nánari sundurliðun á reikningum sínum gegn sérstakri greiðslu, en fjallað er um þetta í tilskipun 97/66/EB um vernd einkalífsins á sviði fjarskipta. Dæmi um þetta er sundurliðun símreikninga eftir einstökum símtölum.
    Í 3. mgr. er að finna það nýmæli að leitast er við að vernda friðhelgi þeirra sem leita þurfa félagslegrar þjónustu með því að slík símtöl komi ekki fram á sundurliðuðum reikningi, enda hafi þjónustuveitandi látið rekstrarleyfishafa upplýsingar í té um eðli þjónustunnar. Sem dæmi um þetta má nefna þjónustu félagsráðgjafa og presta.
    Í 4. mgr. segir að innheimti fjarskiptafyrirtæki yfirgjöld af símtali skuli þess ávallt getið í upphafi símtals hver fjárhæð gjaldsins sé eða á hvaða forsendum það verði ákvarðað. Grein þessi kemur í stað ákvæðis 27. gr. gildandi laga um eftirlit með símatorgsþjónustu og hefur sama markmið og eldra ákvæði sem er að vernda neytendur fyrir kostnaði við þjónustu.

Um 31. gr.

    Krafa um fjárhagslegan og/eða bókhaldslegan aðskilnað tekur ekki aðeins til fjarskiptafyrirtækja með umtalsverða markaðshlutdeild. Hafi fjarskiptafyrirtæki sérleyfi á öðru sviði en fjarskiptum er gerð krafa um það í frumvarpinu að sá rekstur sé aðgreindur frá fjarskiptastarfsemi. Þetta ákvæði á sér hliðstæðu í 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993.

Um VIII. kafla.

    Í 10. tölul. 3. gr. gildandi laga um Póst- og fjarskiptastofnun segir að stofnunin fari með númeramál. Auk þess eru í gildi reglur birtar í B-deild Stjórnartíðinda, nr. 6/1999, um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga.
    Ákvæði kaflans eru samin með hliðsjón af ákvæðum talsímatilskipunar 98/10/EB, samtengingartilskipunar 97/33/EB og persónuverndartilskipunar 97/66/EB sem fjallar um friðhelgi einkalífsins og fjarskipti og er ætlað að samræma gildandi reglur um númeramál hér á landi við framangreindar reglur.

Um 32. gr.

    Í greininni er fjallað um skipulag númera og skyldur Póst- og fjarskiptastofnunar til að viðhalda skipulagi í númerum, sbr. ákvæði samtengingartilskipunar 97/33/EB. Ákvæðin eru í samræmi við hlutverk stofnunarinnar samkvæmt gildandi lögum og við ákvæði 12. gr. samtengingartilskipunarinnar. Tilskipanir ESB leggja eftirlitsstofnunum á herðar ábyrgð á framkvæmd númeramála til að tryggja jafnræði og eðlilega samkeppnisstöðu fyrirtækja, enda eru númer lykilatriði í fjarskiptaþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar auk venjulegra sjö tölustafa númeraraða fyrirtækjum stuttnúmer sem fyrst og fremst eru hugsuð sem þjónustunúmer. Í samræmi við tilskipanir ESB er 112 frátekið sem neyðarnúmer og er kveðið á um að símtöl í 112 skulu vera endurgjaldslaus af augljósum ástæðum.

Um 33. gr.

    Greinin er nýmæli og ætlað að leiða í lög ákvæði samtengingartilskipunarinnar um númeraflutning og möguleika á forskeyti við símanúmer. Reglur um númeraflutning tryggir enda notendum sem þess óska möguleika á því að halda því númeri eða númerum sem þeir hafa á tilteknum stað á fasta almenna símnetinu, óháð því hvaða fyrirtæki veitir þjónustuna. Réttur notandans samkvæmt ákvæðinu tekur til númeraflutnings innan númerasvæðis þegar viðkomandi hefur svæðisnúmer en er óháð staðsetningu sé svæðisnúmer ekki innifalið í símanúmerinu. Samkvæmt tilskipuninni á númeraflutningur að bjóðast notendum eigi síðar en 1. janúar 2000.
    Kostnaður við umskráningu verður að miðast við tilkostnað og má ekki á neinn hátt hafa þau áhrif að hindra notendur í því að óska eftir að skipta um þjónustuveitanda. Í frumvarpinu kemur fram að fjarskiptafyrirtæki er heimilt að innheimta eingreiðslu er nemi kostnaði fjarskiptafyrirtækis af umskráningu. Um kostnað við tæknilega framkvæmd skal fara að reglum sem Póst- og fjarskiptastofnun setur um númeraflutning skv. 1. mgr.
    Símanúmer geta skipt einstaklinga og fyrirtæki miklu máli, enda kann að fylgja því mikill kostnaður og röskun að skipta um símanúmer, t.d. auglýsingum. Af þeirri ástæðu er meginregla um númeraflutning mjög æskileg fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði. Eins og sakir standa er ekki gert ráð fyrir möguleika á númeraflutningi á milli númerasvæða, en Póst- og fjarskiptastofnun er ætlað að ákveða hvenær sá möguleiki stendur opinn fyrir notendur. Sömu sögu er að segja af númeraflutningi utan fasta fjarskiptanetsins, svo sem milli farsíma og fastanets. Póst- og fjarskiptastofnun ber að tryggja númeraflutning utan almenna fasta fjarskiptanetsins eins fljótt og auðið er.
    Í 2. mgr. er fjallað um það sem nefnt hefur verið forskeyti. Greinin er í samræmi við tilskipun 98/61/EB. Gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun ákveði nánar hversu fljótt hægt verði að innleiða forvalið.

Um 34. gr.

    Greinin sem er nýmæli fjallar um réttinn til að vera skráður í símaskrá sem og rétt áskrifanda til að vera óskráður. Hún á uppruna í 6. gr. talsímatilskipunarinnar 98/10/EB. Samkvæmt tilskipuninni má fjármagna símaskrárþjónustu úr jöfnunarsjóði alþjónustu. Ákvæðið er einnig samið með hliðsjón af tilskipun 97/66/EB um vinnslu gagna og friðhelgi einkalífsins í fjarskiptastarfsemi.
    Í 4. mgr. er sérstakt ákvæði sem ætlað er að vernda símnotendur sem þess óska fyrir seljendum vöru og þjónustu sem hyggjast markaðssetja vörur sínar með símhringingum.

Um 35. gr.

    Greinin kemur í stað j-liðar 1. mgr. 6. gr. gildandi laga. Ákvæði greinarinnar er samið með hliðsjón af b-lið 9. gr. talsímatilskipunarinnar sem segir að aðildarríki sé skylt að tryggja að allir notendur sem skráðir eru í fasta almenna fjarskiptanetið eigi rétt á því að fá upplýsingar um öll símanúmer hjá einni upplýsingaþjónustu. Með aukinni samkeppni og fjölgun rekstrarleyfishafa verður mikilvægt að haldin sé heildstæð skrá yfir alla notendur og að slíkar upplýsingar fáist almennt á einum stað og séu ekki bundnar við einstaka þjónustuveitendur. Í 2. mgr. 35. gr. felst skylda rekstrarleyfishafa til að láta í té upplýsingar um símanúmer viðskiptamanna sinna, með þeim takmörkunum þó sem greinir í 34. gr.

Um IX. kafla.

    Kaflinn kemur í stað XI. kafla gildandi laga. Felur hann í sér nýmæli þar sem horfið er frá kröfu um gerðarsamþykki búnaðar. Komið er á meginreglunni um frjálsa vöruflutninga á fjarskiptabúnaði sem hlotið hefur gerðarsamþykki hjá þar til bærum aðila innan EES, svokölluð CE-merking.
    Tilskipun ráðsins og þingsins 1999/5/EB frá 9. mars 1999 um þráðlausan fjarskiptabúnað og notendabúnað og gagnkvæma viðurkenningu á gerðarsamþykktum mun taka gildi á innri markaði Evrópusambandsins á næsta ári. Hún mun hafa í för með sér verulegar breytingar á heimild til innflutnings á fjarskiptabúnaði. Ákvæði kaflans taka mið af tilskipuninni þótt hún sé ekki enn hluti EES-reglna á sviði fjarskipta.
    Í lágspennutilskipun ráðsins 73/23/EBE frá 19. febrúar 1973 til að opna markaði fyrir fjarskiptabúnað var fyrir fram eftirlitsskyldu með innflutningi raftækja létt af stjórnvöldum eins og kostur var. Þess í stað var ábyrgð á tjóni látin hvíla á framleiðendum og dreifingaraðilum búnaðarins. Þessi ábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila fjarskiptabúnaðar hefur nú verið lögfest með lögum nr. 25/1993, um skaðsemisábyrgð.

Um 36. gr.

    Í greininni er fjallað um kröfur er gera má til tækjabúnaðar sem notaður er í almennum fjarskiptanetum. Þar segir að tæknilegir eiginleikar skuli vera í samræmi við nánar tilgreinda staðla. Þeir staðlar sem hér er vísað til geta verið frá ýmsum staðlasamtökum, svo sem Evrópustaðlasamtökunum ETSI. Í ákvæði 5. gr. tilskipunar 1999/5/EB er fjallað um samræmda staðla fjarskiptabúnaðar. Í 20. gr. talsímatilskipunar Evrópusambandsins 98/10/EB er einnig fjallað um samræmda staðla fjarskiptabúnaðar. Staðla sem birtir hafa verið í stjórnartíðindum EB ber að viðurkenna sem fullnægjandi staðla fyrir talsímanet á Íslandi samkvæmt báðum þessum tilskipunum. Um gildi staðla á Íslandi vísast að öðru leyti í lög um staðla, nr. 97/1992.
    Í 2. mgr. er fjallað um þráðlaus fjarskiptanet sem einungis má setja upp og nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar. Þetta er í samræmi við 4. tölul. 6. gr. tilskipunar 1999/5/EB og er í samræmi við gildandi ákvæði í 25. gr. fjarskiptalaga.

Um 37. gr.

    Í ákvæðinu eru grunnkröfur skilgreindar til samræmis við 3. gr. tilskipunar 1999/5/EB um fjarskiptabúnað. Í ákvæðum hennar kemur fram að allur notendabúnaður þurfi að vera öruggur fyrir heilsu og öryggi manna og að rafsvið hans megi ekki trufla önnur rafmagnstæki í nágrenni sínu.

Um 38. gr.

    Á meðan Póst- og símamálastofnun, Póstur og sími hf. og nú síðast Landssími Íslands hf. höfðu einkarétt á starfrækslu fjarskiptaneta mótuðust verklagsreglur innan stofnunarinnar um fjarskiptalagnir innan húss, staðsetningu húskassa og frágang þeirra. Eftir að samkeppni var heimiluð er eðlilegast að Póst- og fjarskiptastofnun hafi heimildir til að kveða á um fyrirkomulag innanhússlagna og húskassa. Brýnt er að reglur sem settar verði um fyrirkomulag húskassa hamli ekki samkeppni fjarskiptafyrirtækja.

Um 39. gr.

    Í ákvæðinu telst það nýmæli að heimilt verður að markaðssetja fjarskiptabúnað, annan en tiltekinn þráðlausan búnað, án fyrir fram samþykkis Póst- og fjarskiptastofnunar. Í 8. gr. tilskipunar 1999/5/EB kemur skýrt fram að aðildarríkjum ESB sé óheimilt að hindra, takmarka eða hamla því að búnaður verði markaðssettur eða honum komið í notkun svo lengi sem hann ber CE-merkingu til samræmis við VII. viðauka tilskipunarinnar. Þegar búnaður hefur verið merktur með CE-merki þýðir það að hann á að vera í fyllsta samræmi við tilskipunina, þar á meðal um gerðarprófun eins og hún er skilgreind í II. kafla.
    Lagt er til að sama regla gildi hér á landi um búnað sem hlotið hefur CE-merkingu.
    Í 4. mgr. er undantekning frá meginreglu um gildi CE-merkinga sem gildir um þráðlausan búnað í tíðnisviðum þar sem notkun hefur ekki verið samræmd á Evrópska efnahagssvæðinu. Í VII. viðauka tilskipunarinnar er gert ráð fyrir sérstakri merkingu fyrir slíkan búnað sem kemur til viðbótar við CE-merkið. Auk þess er gert ráð fyrir að búnaðinum fylgi upplýsingar um að hann vinni á tíðnisviði sem ekki er samræmt innan EES.

Um 40. gr.

    Greinin er nýmæli þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verulega verði dregið úr eftirliti með notendabúnaði áður en hann kemst á markað. Þarf því að grípa til annarra ráðstafana til að búnaður sem uppfyllir ekki grunnkröfur valdi ekki skaða. Í tilskipun 1999/5/EB um þráðlausan fjarskiptabúnað og notendabúnað eru ákvæði í 9. gr. sem heimila stjórnvöldum að taka af markaði búnað sem uppfyllir ekki lágmarkskröfur tilskipunarinnar og þar með EES-kröfur.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að banna eða takmarka sölu búnaðar. Umræddar heimildir eru undantekningartilvik sem túlka ber þröngt, sbr. 13. gr. EES-samningsins.

Um 41. gr.

    Greinin kemur í stað 20. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 42. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um XI. kafla.

    XI. kafli er að stofni til samhljóða X. kafla gildandi laga og fjallar um þagnarskyldu og friðhelgi einkalífsins. Ákvæði kaflans eru samin með hliðsjón af ákvæði stjórnarskrár og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/66/EB frá 15. desember 1997 um úrvinnslu persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífsins á sviði fjarskipta.

Um 43. gr.

    Greinin sem er að stofni til 17. gr. gildandi laga þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 44. gr.

    Greinin sem er að stofni 18. gr. gildandi laga þarfnast ekki nánari skýringa.

Um XII. kafla.

    Leyfisveitingafyrirkomulag á Evrópska efnahagssvæðinu er breytilegt milli landa. Mörg ríki nota samanburð umsókna til þess að ákveða úthlutun rekstrarleyfa þegar nauðsynlegt er að takmarka fjölda leyfishafa. Vaxandi fjöldi ríkja er einnig farinn að nota uppboð til þess að veita rásir þar sem takmarka þarf aðgang að tíðnirófi. Báðar aðferðir hafa mætt nokkurri gagnrýni þar sem talið er að þær mismuni aðilum, einkum þar sem nýir rekstrarleyfishafar þurfa að greiða hátt gjald fyrir aðgang að tíðnirófinu en þeir sem fyrr komu á markaðinn þurftu ekkert að greiða. Evrópusambandið er að undirbúa stefnumörkun við úthlutun takmarkaðs tíðnisviðs þar sem áhersla virðist lögð á að aðgangur að tíðnirófinu sé seldur á markaðsverði þess. Þrátt fyrir að sala á aðgangi að tíðnirófinu hafi þann ótvíræða kost að vera hlutlægari en matskennd úthlutun þarf að gæta þess að slíkt uppboð á tíðni hafi ekki í för með stórkostlegar verðhækkanir til neytenda sem á endanum njóta aðgangs að fjarskiptaþjónustunni. Einnig er mjög brýnt að úthlutun samkvæmt útboði leiði ekki til þess að fjársterkir rekstrarleyfishafar sem fyrir eru á markaðinum kaupi ekki tíðnirásir í útboði gagngert til þess að útiloka samkeppni.
    Almennt er nauðsynlegt að samræma notkun tíðnirófsins fyrir þráðlausar sendingar af ýmsu tagi, bæði til að komast hjá truflunum milli landa og til þess að hægt sé að samræma framleiðslu notendabúnaðar fyrir mismunandi markaði. Alþjóðlegar ráðstefnur eru haldnar reglulega til að ná þessum markmiðum. Póst- og fjarskiptastofnun er gert að skipuleggja notkun tíðnirófsins á Íslandi í samræmi við alþjóðlegar ákvarðanir sem Ísland hefur gengist undir. Að auki er nauðsynlegt að skipuleggja sundurliðaða notkun hvers hluta tíðnisviðsins í þeim tilgangi að forðast að notendur valdi truflunum á starfsemi hver annars.

Um 45. gr.

    Greinin kemur í stað 24. gr. gildandi laga en í henni eru settar nánari reglur um notkun tíðnirófsins.
    Greinin lýsir skyldum Póst- og fjarskiptastofnunar til að stuðla að hagkvæmri nýtingu tíðnirófsins í samræmi við alþjóðaákvarðanir, enda verður tíðninotkun hér á landi ekki einangruð þrátt fyrir fjarlægð frá öðrum löndum. Lýst er vinnureglum sem gilda skulu um úthlutun tíðni, þ.m.t. hvernig skuli úthluta tíðnum þegar nauðsynlegt er að takmarka aðgang að þeim. Gert er ráð fyrir að í slíkum tilvikum geti stofnunin ýmist kynnt fyrirhugaða úthlutun með opinberri tilkynningu sem gefi aðilum markaðarins kost á að tilkynna um þörf þeirra fyrir tíðni eða ákveðið að halda útboð þegar ljóst er að takmarka verður fjölda rekstrarleyfishafa sem geta fengið úthlutun í viðkomandi tíðnisviði. Ákvæði er um að taka verði tíðni í notkun innan hæfilegs tíma ella falli úthlutun niður og er markmiðið að koma í veg fyrir að aðilar haldi tíðnum ónotuðum sem aðrir kunna að sækjast eftir. Vegna örrar þróunar í þráðlausum fjarskiptum og stöðugra breytinga á alþjóðlegu skipulagi tíðnirófsins þykir nauðsynlegt að samgönguráðherra verði veitt heimild til að gefa út reglugerð um skipulagningu og úthlutun tíðni.
    Í þeim tilvikum að takmarka þarf aðgang að tíðnirófinu er lagt til að útboð verði notað sem meginstefna við úthlutun tíðni og fer um þá úthlutun skv. 11. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er samið með hliðsjón af 10. gr. leyfisveitingartilskipunarinnar. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 46. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um heimildir til að hafa búnað til þráðlausra fjarskipta undir höndum. Ljóst er að fjarskiptabúnaður til þráðlausra fjarskipta getur haft í för með sér truflanir fyrir aðra notendur tíðnirófsins. Hættan á slíkum truflunum ræðst að verulegu leyti af þáttum eins og sendistyrk og stefnuvirkni sendis í tækinu. Þannig er ljóst að öflugur sendibúnaður hefur í för með sér meiri hættu á að trufla móttökubúnað annarra notenda tíðni í andrúmslofti jarðar. Eins er ljóst að minni truflunarhætta er af stefnuvirkum sendum en sendum með vítt útsendingarsvæði ef móttakendur sendingar eru ekki á sama stað. Vegna þessarar truflunarhættu við móttöku sendingar er Póst- og fjarskiptastofnun falið að gefa út leyfisbréf fyrir notkun þráðlauss sendibúnaðar.
    Ákvæðið ber að túlka svo að Póst- og fjarskiptastofnun hafi forræði á notkun, uppsetningu og vörslu fjarskiptabúnaðar hér á landi. Í þessu forræði felst m.a. að stofnunin má gera útgáfu leyfisbréfa til einstakra notenda að skilyrði heimildar. Einnig gæti stofnunin sett staðlaðar reglur er fælu í sér almenna heimild til notkunar þráðlauss sendibúnaðar svo fremi sem notendur uppfylltu almenn skilyrði reglnanna. Í ákvæðinu segir enn fremur að starfrækja megi þráðlausan búnað án sérstaks leyfis þegar hann er eingöngu notaður í sambandi við almenna fjarskiptaþjónustu í tilteknu tíðnisviði. Þannig getur verið heimilt að starfrækja þráðlausan sendibúnað án þess að afla þurfi leyfisbréfs eða almennrar heimildar sem skilgreind hefur verið af Póst- og fjarskiptastofnun.

Um 47. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa en hún er samhljóða 22. gr. og 23. gr. gildandi laga.

Um 48. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 28. gr. gildandi laga.

Um 49. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 29. gr. gildandi laga.

Um 50. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 33. gr. gildandi laga.

Um 51. gr.

    Greinin er nýmæli. Þegar rekstrarleyfishafi hefur rétt á að setja upp eða grafa niður fjarskiptavirki á afréttum, almenningum eða eignarlöndum, eða getur tekið land eignanámi, sbr. 48. gr. frumvarpsins, skal Póst- og fjarskiptastofnun hafa forgöngu um samnýtingu á aðstöðu eða landareign, einkum ef grunnkröfur skv. 3. gr. frumvarpsins koma í veg fyrir að önnur fjarskiptafyrirtæki geti fengið aðgang að sambærilegri aðstöðu. Sem dæmi má nefna að leyfi til lagningar sæstrengs á íslenska landgrunninu fellur undir ákvæði 1. mgr. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 11. gr. samtengingartilskipunarinnar.
    Aðilar skulu gera með sér samkomulag um samnýtingu. Náist samkomulag ekki innan tveggja mánaða getur annar aðila óskað eftir íhlutun Póst- og fjarskiptastofnunar. Skulu þá gilda ákvæði 22. gr. um deilur um aðgang. Kostnaði við samnýtta aðstöðu skal Póst- og fjarskiptastofnun skipta á milli aðila. Í þeim löndum þar sem reynsla er fengin af samnýtingu aðstöðu, svo sem Þýskalandi og Bandaríkjum Norður-Ameríku, hafa mótast viðmiðunarreglur um skiptingu kostnaðar sem fela í sér að eftir því sem fleiri fá aðgang dreifist kostnaður á fleiri herðar.
    Í einstökum tilfellum, þegar um er að ræða sérstaka landfræðilega aðstöðu eða þegar umhverfissjónarmið réttlæta það, getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt fyrir um samnýtingu þótt ákvæði 1. mgr. eigi ekki við. Þannig er ljóst að umhverfis- og skipulagslöggjöf gæti leitt til þess að rekstrarleyfishafi þyrfti að veita þeim sem krefðist þess aðgang að aðstöðu sinni þegar þannig háttar til.

Um 52. gr.

    Greinin kemur í stað 30.–31. gildandi laga og er efnislega samhljóða þeim.

Um 53. gr.

    Greinin er samhljóða 32. gr. gildandi laga.

Um 54. gr.

    Greinin er samhljóða 34. gr. gildandi laga.

Um 55. gr.

    Greinin er samhljóða 35. gr. gildandi laga.

Um 56. gr.

    Grein þessi er nýmæli. Í ákvæðinu segir að Póst- og fjarskiptastofnun megi stöðva, fella úr gildi leyfi eða skilyrða starfsemi almenns fjarskiptanets og/eða almennrar fjarskiptaþjónustu uppfylli hún ekki skilyrði laga þessara eða leyfisbréfs eða þegar grunnkröfum er ekki fullnægt. Málsmeðferð við slíka rekstrarstöðvun er í samræmi við ákvæði 5. og 9. gr. leyfisveitingartilskipunarinnar sem mælir fyrir um heimildir til að stöðva rekstur sem ekki er í samræmi við skilyrði gildandi laga.

Um 57. gr.

    Ákvæðið í 1.–4. mgr. er efnislega samhljóða ákvæðum 38. gr. gildandi laga. Það telst nýmæli að Póst- og fjarskiptastofnun er fengin heimild til að leggja á dagsektir til að tryggja að farið sé að fyrirmælum stofnunarinnar.

Um 58. gr.

    Ákvæði þetta er samhljóða 39. gr. gildandi laga.

Um 59. og 60. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um fjarskipti.

    Tilgangur frumvarpsins er að færa íslenska löggjöf til samræmis við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og efla samkeppni á fjarskiptamarkaði. Jafnframt því að tryggja öllum landsmönnum aðgang að fjarskiptaþjónustu, eftir því sem unnt er.
    Frumvarp þetta er lagt fyrir samhliða frumvarpi til laga um breyting á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun.
    Það er mat fjármálaráðuneytisins að með samþykkt frumvarpsins þurfi samgönguráðuneytið að bæta við einum starfsmanni til að sinna nýjum verkefnum og við það aukist útgjöld ríkisins um 4–5 m.kr. á ári.