Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 155  —  134. mál.
Frumvarp til lagaum afnám gjalds á menn utan trúfélaga.

Flm.: Mörður Árnason.1. gr.

    Maður utan trúfélags, sbr. lög um trúfélög, nr. 18/1975, skal ekki greiða Háskóla Íslands, né neinum öðrum, gjöld sem honum hefði ella borið að greiða trúfélagi sínu, sbr. 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum:
     1.      Í stað orðanna „Þjóðkirkjusöfnuðir, skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög, nr. 18/1975, og Háskólasjóður“ í 1. gr. laganna kemur: Þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög, nr. 18/1975.
     2.      Í stað orðanna „þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands“ í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga.
     3.      4. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.
     4.      Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Um hlutdeild þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga í tekjuskatti.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu vegna tekna á árinu 1999.

Greinargerð.


    Trúfrelsi ríkir á Íslandi og var komið á með stjórnarskránni 1874. Ákvæði núverandi stjórnarskrár um frelsi til að stofna trúfélag er að finna í 63. gr. og til að standa utan trúfélaga í 2. mgr. 64. gr. Félagafrelsi er tryggt í 74. gr., bæði rétturinn til að stofna félag og ákvæði um að engan megi skylda til aðildar að félagi.
    Samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, sér ríkisvaldið um að innheimta fast gjald til þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trúfélaga. Má líta svo á að þessum innheimtustörfum hafi verið komið svo fyrir vegna þeirra sérstöku tengsla ríkisins við evangelisk- lútersku kirkjuna sem kveðið er á um í 62. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessu frumvarpi eru ekki lagðar til breytingar á þessari skipan.
    Hér er hins vegar lagt til að sérstök gjaldheimta á fólk utan trúfélaga verði stöðvuð. Einstaklingur sem kýs að vera utan trúfélaga nýtir sér þar með rétt sinn samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrár til að standa utan félaga. Það er í ósamræmi við 74. gr. og 2. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar að trúfélögum sé gert svo hátt undir höfði að réttinum til að standa utan þeirra fylgi sú kvöð að greiða til alls óskyldra hluta sama gjald og sá greiðir sem kýs að vera í trúfélagi.
    Að sinni hentar illa að fella einfaldlega brott 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar, þá sem kveður á um hina einkennilegu skattrefsingu þeirra sem kjósa að standa utan trúfélaga. Er því lagt til að nýtt sé heimild lokamálsliðar sömu greinar um breytingu með almennum lögum. Um hana segir svo í Stjórnskipunarrétti Gunnars G. Schrams (Reykjavík 1997), bls. 469: „Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 64. gr. er heimilt að breyta með lögum þeirri skipan að menn utan trúfélaga greiði gjöld til Háskóla Íslands. Með almennum lögum má því ákveða að gjöld þeirra renni t.d. í ríkissjóð eða til einhverrar annarrar ókirkjulegrar stofnunar en Háskólans eða afnema þau alveg.“
    Háskólasjóður hefur haft verulegar tekjur af svokölluðum „sóknargjöldum“ fólks utan trúfélaga. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir að þær verði 52 milljónir króna á árinu (bls. 306), en í þingskjali nr. 711 frá 121. löggjafarþingi 1996–97 er því lýst hvernig Háskólasjóður varði tekjum sínum árin 1988–96. Er ljóst að sjóðnum þarf að finna nýjan tekjustofn. Verkefni hans geta á hinn bóginn ekki talist slík þjóðarnauðsyn að fjár sé aflað til þeirra með sérstöku gjaldi á umræddan hóp fólks í samfélaginu og vant að sjá rök fyrir þeirri skipan.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 64. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að öllum er frjálst að standa utan trúfélaga og að enginn sé skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að. Hins vegar er boðið í 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar að maður sem stendur utan trúfélaga greiði til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Stjórnarskárgjafinn heimilar að reglunni um gjaldskyldu manns utan trúfélaga megi breyta með lögum. Hér er lagt til að þessi gjaldskylda þeirra sem standa utan trúfélaga verði afnumin.

Um 2. gr.


    Lög um sóknargjöld, nr. 91/1987, gera ráð fyrir ákveðinni hlutdeild trúfélaga og Háskólasjóðs í álögðum tekjuskatti hverju sinni. Þar sem ekki er gert ráð fyrir gjaldskyldu manna sem standa utan trúfélaga er nauðsynlegt að fella niður ákvæði í 3. gr. laganna sem fjallar um skyldu þeirra til að greiða gjald til Háskóla Íslands og jafnframt er nauðsynlegt að fella brott úr lögunum allar vísanir til Háskóla Íslands og Háskólasjóðs.

Um 3. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en þar sem gjöld sem greidd eru í samræmi við 3. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar eru ákveðin hlutdeild af tekjuskatti er nauðsynlegt að miða framkvæmd við álagningu vegna tekna á árinu 1999.