Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 166  —  145. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.

Flm.: Sighvatur Björgvinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson,


Bryndís Hlöðversdóttir, Einar Már Sigurðarson, Gísli S. Einarsson,
Guðmundur Árni Stefánsson, Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir,
Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson, Mörður Árnason, Rannveig Guðmundsdóttir,
Svanfríður Jónasdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Össur Skarphéðinsson.


1.      gr.

    Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein, er hljóðar svo:
    Söluandvirði eigna, sem um ræðir í 1. mgr. þessarar greinar, skal einungis varið til greiðslu af lánum ríkissjóðs eða til eignamyndunar.

2.      gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að koma í veg fyrir að söluandvirði ríkiseigna í A- hluta ríkisreiknings verði varið til þess að standa undir rekstrarútgjöldum ríkissjóðs heldur verði því undantekningarlaust varið til greiðslu á lánum ríkissjóðs eða eftir atvikum til annarrar eignamyndunar. Ekki er hvað síst litið til andvirðis ríkiseigna sem selst hafa fyrir hátt verð, svo sem eignarhlutar ríkissjóðs í FBA, og annarra verðmætra eigna sem áform eru um að selja, þ.e. hlutar ríkissjóðs í viðskiptabönkum, Landssímans o.fl.
    Umtalsverðar ríkiseignir hafa verið seldar á umliðnum árum og hefur andvirðinu að langmestu leyti verið varið til þess að greiða útgjöld við rekstur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja í A- hluta þó að nokkur hluti söluhagnaðarins hafi upp á síðkastið runnið til þess að lækka skuldir ríkissjóðs. Þannig hefur ríkissjóður fjármagnað útgjöld í almennum rekstri ríkisins og ríkisstofnana með andvirði eignasölu. Með öðrum orðum, eignir ríkissjóðs hafa farið minnkandi til þess að standa undir rekstrarútgjöldum sem hafa verið umfram rekstrartekjur. Að fjármagna rekstrarútgjöld með eignasölu er ekki aðeins til þess fallið að ýta undir þenslu á þenslutímum heldur dylur það hinn raunverulega vanda í ríkisfjármálum, þ.e. að útgjöld af almennum rekstri eru umfram tekjur af honum. Svo lengi sem það viðgengst að nota andvirði af sölu eigna til þess að fjármagna rekstur vanrækja stjórnendur ríkisfjármála að snúast gegn raunverulegum rekstrarvanda ríkissjóðs og ríkisstofnana. Slíkt ráðslag er ekki ólíkt því að


Prentað upp.

fjölskylda fjármagni neysluútgjöld sín umfram atvinnutekjur með því að selja eignir sínar smátt og smátt — fyrst kjallarann, svo risið, síðan helming íbúðarhæðarinnar, svo fjölskyldubílinn, því næst síðari helming íbúðarhæðarinnar og loks innbúið — uns ekkert er eftir. Slíkt ráðslag kann ekki góðri lukku að stýra, hvorki í heimilishaldi né í ríkisbúskap.
    Ekki ætti að þurfa að fara mörgum orðum um hina hlið málsins, þ.e. þau óheillavænlegu áhrif sem það hefur á fjárhag ríkisins og efnahagsstarfsemina að öðru leyti, eins og henni er nú háttað, að nota andvirði af sölu ríkiseigna til þess að standa undir síauknum útgjöldum ríkissjóðs. Gildir þá einu þótt bókfærður hagnaður af sölu ríkiseigna sé að hluta eða í heild notaður til greiðslu skulda ef annað söluandvirði er notað til þess að greiða rekstrarútgjöld. Slíkur búskapur er vísasti vegurinn til þess að stjórn ríkisfjármála ýti undir þensluna í þjóðfélaginu sem nú ógnar stöðugleika efnahagslífsins, ekki síst þar sem verðbólga fer vaxandi sakir hennar. Við slíkar aðstæður ber ríkisvaldinu skylda til þess að spyrna á móti og það verður ekki betur gert en með því að sýna aðhald í rekstri ríkissjóðs og ríkisstofnana og freistast alls ekki til þess að nota andvirði eignasölu til annars en að greiða skuldir eða afla ríkissjóði annarra eigna.
    Nú þegar fram hefur farið verðmætasta sala ríkiseigna til þessa, sala á hlut ríkisins í FBA, munu fleiri milljarðar króna renna til ríkisins sem söluandvirði. Skiptir þá miklu máli að þeim fjármunum verði ekki varið til þensluhvetjandi aðgerða heldur til þess að lækka skuldir eða til eignamyndunar af því tagi sem gefið getur ríkissjóði rekstrarlegan arð. Flutningsmenn telja því brýnt að bregðast við á þann hátt sem lagt er til hér.
    Eðlilegt þykir að finna ákvæði af því tagi sem frumvarpið felur í sér stað í 29. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Greinin hefur yfirskriftina „ráðstöfun eigna A-hluta ríkisins og samningar hjá A-hluta“. Í 1. mgr. nefndrar greinar er mælt fyrir um að ríkisaðilar skuli hverju sinni afla heimilda í lögum til þess að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, eignahluta í félögum, skip, flugvélar, söfn og safnahluta sem hafa að geyma menningarverðmæti og aðrar eignir sem verulegt verðgildi hafa. Tillagan felur í sér að andvirði greindra verðmæta skuli undantekningarlaust varið til greiðslu á lánum eða eignamyndunar en ekki til þess að standa undir rekstrarkostnaði ríkisins eða stofnana þess.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Eins og rakið er í greinargerð er tilgangurinn sá að koma í veg fyrir að stjórnvöld gangi á eignir ríkisins til þess að fjármagna rekstrarútgjöld þess. Í því skyni þykir eðlilegt að bæta við þessa grein laganna nýrri málsgrein sem mælir sérstaklega fyrir ráðstöfun á söluandvirði eigna til greiðslu skulda eða eignamyndunar á ný.

Um 2. gr.

    Gert er ráð fyrir því að ákvæði frumvarpsins öðlist gildi þegar í stað. Það tekur að sjálfsögðu ekki til söluandvirðis eigna sem þegar hefur verið ráðstafað í fjárlögum eða með samþykkt ríkisreiknings en ætti að gilda um söluandvirði sem ekki hefur verið ráðstafað, svo sem söluandvirði af hlut ríkissjóðs í FBA.