Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 167  —  146. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, með síðari breytingum.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Sighvatur Björgvinsson,


Jóhann Ársælsson, Lúðvík Bergvinsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Orðin „eða eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi“ í 1. tölul. 1. mgr. falla brott.
     b.     2. mgr. 1. tölul. fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir því að um fiskiðnað gildi almennt sömu reglur og annan iðnað hvað varðar fjárfestingar erlendra aðila. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á gildandi lögum um útgerð.
    Samkvæmt gildandi lögum um fjárfestingar erlendra aðila er þeim heimilt að eiga óbeinan hlut í íslenskum sjávarútvegi og ekki er gerður greinarmunur á veiðum og vinnslu nema að því er varðar tiltekna vinnsluþætti. Heimild til óbeinnar eignaraðildar var lögfest til að laga lögin að veruleikanum, en vitað var um óbeina eignaraðild erlendra fyrirtækja í sjávarútvegsfyrirtækjum og ekki var talið ráðlegt að fylgja fortakslausu banni eftir, eins og þágildandi lög gerðu ráð fyrir. Með því að heimila einungis óbeina eignaraðild voru því engir nýir möguleikar opnaðir.
    Með heimild til beinna fjárfestinga erlendra aðila í íslenskum fiskiðnaði, eins og í öðrum matvælaiðnaði, geta skapast ýmsir nýir möguleikar og sóknarfæri fyrir fiskvinnsluna. Jafnframt má ætla að ný sóknarfæri kynnu að skapast fyrir annan matvælaiðnað þar sem mjög er nú sóst eftir samstarfi við erlend fyrirtæki. Þekking erlendra aðila á Íslandi er lítil, hvort sem um er að ræða aðila í matvælaframleiðslu eða fjárfesta, en mestar líkur eru á að þekking þeirra tengist sjávarútvegi í einhverri mynd. Heimild til beinnar þátttöku í fiskiðnaði gæti því laðað að aðila sem síðar, eða jafnframt, vildu gerast þátttakendur í öðrum matvælaiðnaði.
    Erlendir aðilar geta keypt fisk á innlendum mörkuðum en mega ekki taka þátt í vinnslu hans nema að mjög takmörkuðu leyti. Breyting í þá veru að heimilt yrði að fjárfesta beint í fiskvinnslu þýddi því ekki útflutning hráefnis miðað við reynslu okkar heldur gæti sú skipan mála eflt frekari vinnslu hérlendis.
    Fjölmörg veigamikil rök eru fyrir því að gera þessa breytingu á lögunum:
—    Óeðlilegt er að mismuna fyrirtækjum í matvælaiðnaði eftir því í hvaða grein þau eru.
—    Mörg dæmi eru um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri og slík eignaraðild hefur styrkt íslenskt atvinnulíf.
—    Lengi hefur verið stefna stjórnvalda að fá erlenda aðila til að fjárfesta meira í íslensku atvinnulífi. Það hefur helst gengið í stóriðju hingað til en lítið verið um fjárfestingar í öðrum greinum.
—    Eignatengsl Íslendinga og útlendinga í fiskvinnslufyrirtækjum geta örvað markaðsstarf og leitt til nýsköpunar.
—    Fiskiðnaðurinn gæti sótt sér áhættufé og yrði þá ekki eins háður erlendu lánsfé.
—    Samstarf við erlenda aðila með þátttöku þeirra í uppbyggingu fiskiðnaðar á Íslandi færi fram fyrir opnum tjöldum og samkvæmt eðlilegum leikreglum.
—    Íslendingar hafa fjárfest mikið í sjávarútvegi erlendis. Þróunin hefur verið sú að fyrirtæki verði til þvert á landamæri ef atvinnurekstur og þjóðfélag hefur hag af.
—    Heimild til beinna fjárfestinga og þátttöku í fiskiðnaði getur verið lykill að frekari fjárfestingum í öðrum greinum. Þá geta orðið til hliðarfyrirtæki með nýjum umsvifum.
—    Lagabreyting sem þessi mundi styrkja samkeppnisstöðu Íslands.
    Ekki er um það að ræða að verið sé að skylda aðila til að aðskilja veiðar og vinnslu þótt óbreytt lög mundu gilda um útgerðarþáttinn. Ætlunin er eingöngu að bjóða upp á þann valkost að ef fyrirtækin vilja efna til samstarfs við erlenda aðila um fiskvinnslu þá sé það heimilt og að ekki þurfi að fara kringum lögin. Þau fyrirtæki sem reka útgerð mundu þá stofna sérstakt fyrirtæki um þann vinnsluþátt sem þau hyggjast efna til samstarfs um.
    Í núgildandi lögum eru eftirtaldar vinnsluaðferðir þegar undanþegnar sérstökum takmörkunum: reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning og umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu. Ef frumvarp þetta yrði að lögum yrði jafnframt heimilt að erlendir aðilar fjárfestu í frystingu, söltun, herslu, bræðslu og mjölvinnslu.
    Þar sem sumar vinnsluaðferðir eru nú þegar undanþegnar lögunum um fjárfestingu erlendra aðila en í öðrum má eignaraðild einungis vera óbein verður framkvæmd laganna bæði flókin og erfið. Aðilar beina jafnvel samstarfinu í allt annan farveg en æskilegt væri þar sem erfitt getur verið að skipta vinnslunni upp eftir einstökum þáttum.
    Íslendingar hafa undanfarin ár afnumið sérstakar hömlur fyrir erlenda fjárfesta hérlendis á flestum sviðum. Afnám sérstakra takmarkana í fiskvinnslu er eðlilegt framhald þeirrar stefnu.
    Í frumvarpinu er lagt til að orðin „eða eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi“ í 4. gr. laganna falli brott en með því ná takmarkanir við fjárfestingu erlendra aðila aðeins til útgerðar. Enn fremur er felld niður skilgreining á vinnslu sjávarafurða sem lýtur sérstökum takmörkunum.