Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 168  —  147. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Gunnarsson, Gísli S. Einarsson,


Pétur H. Blöndal, Sverrir Hermannsson.1. gr.

    3. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2000.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 122. löggjafarþingi 1997–98 en hlaut þá ekki afgreiðslu og er nú endurflutt. Engar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu sjálfu en greinargerð hefur verið breytt lítillega í samræmi við ábendingar sem fram komu frá ýmsum þeirra sem fengu frumvarpið til umsagnar á sínum tíma.
    Rauði kross Íslands fékk á árinu 1972 leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til að hefja rekstur spilavéla í fjáröflunarskyni, en vélar þessar gátu skilað mönnum allt að fimmföldum peningavinningi. Ýmis skilyrði um eftirlit fylgdu leyfisveitingunni og skyldu kassarnir merktir Rauða krossinum. Á árunum 1972–76 veitti ráðuneytið leyfi fyrir notkun ákveðinnar myntar í vélarnar og til breytinga á hlutfalli vinninga. Árið 1977 fékk Rauði krossinn leyfi fyrir innflutningi og uppsetningu nýrrar tegundar spilakassa með sömu skilyrðum og áður og enn voru veitt leyfi fyrir nýjum tegundum spilakassa árin 1986 og 1987. Skyldi lögreglan hafa eftirlit með notkun og staðsetningu kassanna sem fyrr.
    Árið 1981 fékk SÁÁ leyfi til að reka spilakassa sem merktir yrðu samtökunum. Kassarnir tóku við 1 kr. mynt og vinningar máttu vera allt að 9 kr. Lögreglan skyldi hafa eftirlit með rekstrinum. SÁÁ nýtti sér ekki leyfið en samtökin tóku hins vegar upp samstarf við Rauða krossinn árið 1989 um rekstur spilakassa á vínveitingastöðum.
    Fleiri aðilar eygðu hér ábata og stofnað var svokallað Lukkutríó sem Slysavarnafélag Íslands, Landssamband hjálparsveita skáta og Landssamband flugbjörgunarsveita máttu starfrækja. Vinningar voru að þessu sinni hlutir en ekki peningar. Rauði krossinn og eigendur Lukkutríósins rugluðu síðar saman reytum og gerðu með sér samning um rekstur spilakassa og enn voru sett skilyrði um eftirlit lögreglu og fleira. Landssamböndin tvö sameinuðust og urðu að Landsbjörg og spilakassafyrirtækið var heitið Íslenskir söfnunarkassar sem tók til starfa l. janúar l994. Engin lög voru þá til um starfsemina en frumvarp kom fram skömmu seinna.
    Þegar hér var komið fór Háskóli Íslands að hugsa sér til hreyfings. Með lögum nr. 23/1986 var dómsmálaráðherra veitt heimild til að leyfa Háskóla Íslands að reka skyndihappdrætti með peningavinningum svo og peningahappdrætti sem ekki yrði rekið sem flokkahappdrætti. Háskólinn nýtti sér þessa heimild án frekari lagabreytingar og hóf rekstur happdrættisvéla árið 1993 samkvæmt reglugerð nr. 455/1993. Þegar dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um Íslenska söfnunarkassa hefur eflaust þótt rétt að lögfesta einnig rétt Happdrættis Háskóla Íslands til reksturs spilakassanna sem þegar voru komnir í gagnið. Var þá einnig lagt fram frumvarp um þann rekstur og urðu bæði frumvörpin að lögum árið 1994. Eini meginmunurinn á rekstri þessara tveggja aðila var sá að happdrættisvélar Háskólans má samtengja, einstakar vélar og á milli sölustaða. Sú samtenging felur í sér meiri uppsöfnun fjár í kössunum og þar af leiðandi aukna möguleika á háum vinningum.
    Í eðli sínu er lítill munur á þessum rekstri. Hvort tveggja er fjárhættuspil af ógeðfelldustu gerð, enda voru margir alþingismenn lítt hrifnir af þessari nýbreytni. Það hefur eflaust ráðið úrslitum um framgang frumvarpanna að afraksturinn skyldi renna til óumdeildra málefna. Reynslan hefur hins vegar sýnt að þessi starfsemi hefur valdið mörgum manninum mikilli óhamingju þar sem menn hafa ánetjast spilafíkn sem heilbrigðiskerfið verður nú að kljást við í vaxandi mæli. Fjölmörg dæmi eru um menn sem misst hafa heimili sín og fjölskyldur vegna áráttu sinnar í kassana og er nú svo komið að einn eignaraðilinn, SÁÁ, ver miklum fjármunum og faglegri þekkingu í að lækna þetta gæfulausa fólk. Þá er jafnljóst að börn og unglingar hafa greiðan aðgang að spilakössum og verulegur vafi leikur á hvernig eftirliti með því er háttað.
    Heildarbrúttótekjur Happdrættis Háskóla Íslands, sem eru skattfrjálsar eins og vinningarnir, voru reikningsárið 1995 1.810,1 millj. kr. Þar af skilaði „Gullnáman“, þ.e. spilakassarnir, 619,4 millj. kr. Þó eru aðrir vinningar en gull- og silfurpottar hvorki tekju- né gjaldfærðir, en þeir nema 86% af veltu. Eru því tekjur umtalsvert hærri en að framan segir.
    Í hið fyrra sinn sem frumvarp þetta var lagt fram var leitað umsagna ýmissa aðila um það. Umsagnaraðilar sem t.d. í tengslum við störf sín sjá hrömulegar afleiðingar spilafíknar, þeir sem starfa með ungu fólki og margir fleiri tóku heils hugar undir frumvarpið. Umsagnaraðilar sem áttu fjárhagslegra hagsmuna að gæta voru ósammála frumvarpinu nema að því tilskildu að sambærileg eða jafnörugg fjáröflunarleið yrði tryggð þeim vegna þeirrar nýtu starfsemi sem aðilar þessir stunda. Undir þetta er tekið og ítrekað að fundnir yrðu aðrir tekjustofnar til að fjármagna samfélagsþjónustu og forvarnar- og meðferðarstarf sem rekið hefur verið fyrir ágóða af þessari hættulegu starfsemi. Hins vegar er engu síður ítrekað mikilvægi þess að með öllu verði bönnuð starfsemi af því tagi sem hér um ræðir.
    Í framsöguræðu fyrir frumvarpi þessu og systurfrumvarpi þess, sem fjallar um Íslenska söfnunarkassa, verður nánar fjallað um þessi leiðu fyrirbæri. Hér hefur saga þeirra einungis verið rakin. Annað bíður umræðu.