Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 171  —  150. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna, nr. 45/1999.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson.



1. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Iðgjald til sjóðsins skal nema 11% af heildarlaunum og greiðir launþegi 4% og launagreiðandi 7%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna myndar 1% af greiðslu launagreiðanda ekki réttindi til lífeyris frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2009.

Greinargerð.


    Um alllangt skeið hafa eignir Lífeyrissjóðs sjómanna ekki staðið undir framtíðarskuldbindingum sjóðsins samkvæmt tryggingafræðilegu mati. Stjórn sjóðsins hefur leitað leiða til að minnka muninn milli eigna hans og skuldbindinga. Í nokkur skipti hafa verið gerðar lagabreytingar sem allar hafa haft í för með sér mikla skerðingu á lífeyrisskuldbindingum félaga í sjóðnum. Þrátt fyrir þetta vantar enn u.þ.b. 5% upp á að eignir sjóðsins standi undir skuldbindingum hans.
    Með því að hækka lögbundið framlag launagreiðenda í Lífeyrissjóð sjómanna um eitt prósentustig, án þess að lífeyrisréttindi sjóðfélaga aukist, er stigið mikilvægt skref í þá átt að brúa það bil sem upp á vantar svo að sjóðurinn eigi fyrir framtíðarskuldbindingum sínum. Auk þess er það réttlætismál að launagreiðendur leggi fram sinn skerf og taki þátt í því að koma sjóðnum á réttan kjöl. Til þess hníga ýmis rök, svo sem afar háar greiðslur Lífeyrissjóðs sjómanna vegna örorkulífeyris sem er afleiðing af því hversu hættulegt sjómannsstarfið er. Á undanförnum árum hefur örorkulífeyrir verið nálægt 45% af heildargreiðslum Lífeyrissjóðs sjómanna. Sambærilegt hlutfall hjá öðrum sjóðum er mun lægra, í sumum tilfellum aðeins 20%.
    Í frumvarpinu er lagt til að þessi hækkun á hlutfallslegri greiðslu launagreiðanda myndi ekki aukinn rétt til lífeyris til 31.desember 2009. Þess í stað muni auknar greiðslur í sjóðinn af þessum toga notaðar til þess að auka eignir svo að þær geti frekar staðið undir framtíðarskuldbindingum og bætt hag sjóðfélaga.