Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 187  —  161. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    3. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 88/1998, fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í mars sl. setti Seðlabanki Íslands nýjar reglur um laust fé lánastofnana sem byggjast á núverandi 3. mgr. 8. gr. laganna um Seðlabanka Íslands. Við setningu reglnanna var Seðlabankanum ljóst að þær væru ekki nútímalegar. Í ljósi þróunar lausafjárstöðu lánastofnana mánuðina næst á undan taldi bankinn eigi að síður nauðsynlegt og réttlætanlegt að setja reglur á grundvelli gildandi laga til að stuðla að bættri lausafjárstöðu en hún hafði rýrnað verulega. Sérstaklega var erlend lausafjárstaða þeirra slæm og fól í sér umtalsverða veikleika á fjármögnunarhlið þeirra að mati Seðlabankans. Seðlabankinn bauð um leið lánastofnunum og Fjármálaeftirlitinu til samstarfs um undirbúning að setningu nýrra reglna sem væru meira í takt við nútímaleg og alþjóðleg sjónarmið.
    Forsvarsmenn ýmissa lánastofnana voru ósáttir við reglurnar og töldu þær í ósamræmi við sjónarmið sem væru almennt lögð til grundvallar í lausafjárstýringu lánastofnana. Meðal annars var fundið að því að reglurnar tækju ekki til fjölmargra þátta sem telja mætti til lausafjár. Í gildandi reglum væru aðeins svokallaðir hefðbundnir liðir taldir til lausafjár, svo sem sjóður og innstæður í Seðlabanka. Lánastofnanir ættu eignir sem féllu utan reglnanna en með sanngjörnum hætti mætti telja til lauss fjár. Þá tækju reglurnar ekki til lausafjárskuldbindinga lánastofnana. Gildandi reglur gerðu kröfu um laust fé sem hlutfall af svokölluðu ráðstöfunarfé. Sama lausafjárhlutfall gilti hjá öllum lánastofnunum sem reglurnar tækju til, óháð eðli viðskipta þeirra. Stofnanir með ólíka starfsemi þyrftu því að sæta sömu lausafjárkvöð. Þá settu gildandi lög þær skorður að lánstími mætti ekki vera lengri en þrír mánuðir til þess að eignir teldust til lauss fjár. Allt sem væri lengra væri utan lausafjár. Bent hefði verið á að þetta skekkti vaxtarófið og að hnykkur kæmi á ávöxtunarkúrfuna við 90 daga. Gagnrýni þessi féll nokkuð í sama farveg og leiddi til þess að þróaðar hafa verið nútímalegri reglur í ýmsum öðrum löndum.
    Seðlabanki Íslands hefur að undanförnu fylgst með þróun reglna um laust fé í nágrannalöndunum og á vegum alþjóðastofnana, svo sem Alþjóðagreiðslubankans í Basel (BIS). Til þeirra var einnig horft við undirbúning nýrra reglna sem er nánast lokið. Þær byggjast á hugmyndum sem þróaðar hafa verið í öðrum löndum. Samkvæmt þeim færi fram almennt lausafjáruppgjör þar sem litið væri á alla liði innan og utan efnahags og metið hver væru lausafjáreinkenni þeirra, en miðað við ákveðin fyrir fram skilgreind tímabelti. Lausafjárstaða lánastofnana yrði með öðrum orðum metin með því að greina áhrif allra eigna og skuldaliða lánastofnana á lausafjárstöðuna, þ.e. innstreymi og útstreymi fjár á komandi mánuðum hverju sinni. Lagt yrði mat á líkur þess að lánastofnun, sem skortir laust fé, gæti gengið að einstökum eignum til skamms tíma og hversu líklegt væri að einstakar skuldir lánastofnunar kæmu til greiðslu á komandi mánuðum. Endanleg krafa í reglunum yrði sú að lausafjárkröfur stofnana væru meiri en sem svaraði til lausafjárskulda þeirra. Þessar reglur ættu að tryggja betur öryggi og heilbrigði í rekstri þeirra stofnana sem þeim er ætlað að ná til.
    Nýjar reglur hliðstæðar þeim sem settar hafa verið í nágrannalöndunum eða eru í mótun á vegum BIS og Evrópusambandsins verða ekki settar hér á grundvelli núgildandi laga um Seðlabanka Íslands. Gildandi ákvæði 3. málsl. 3. mgr. 8. gr. er of þröngt til þess að svo verði gert. Til að veita Seðlabankanum heimild til þess að setja viðhlítandi lausafjárreglur er því einfaldast að fella úr gildi þá skilgreiningu á lausu fé sem nú felst í 3. málsl. 3. mgr. 8. gr. laga um Seðlabanka Íslands.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/1986,
um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að rýmka skilgreiningu á lausafé lánastofnana í þeim tilgangi að auðvelda setningu nýrra reglna sem eru hliðstæðar þeim sem gilda í nágrannalöndunum og eru í mótun á vegum BIS og Evrópusambandsins.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi aukinn kostnað í för með sér verði það óbreytt að lögum.