Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 190  —  164. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, nr. 68/1997.

Flm.: Árni Gunnarsson.



1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við Lánasjóð landbúnaðarins starfar jafnframt sérstök deild, nýsköpunardeild, sem hefur að markmiði að stuðla að útflutningi landbúnaðarafurða og öflun nýrra markaða fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir.

2. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 12. gr., svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
    Lánasjóður landbúnaðarins starfrækir sérstaka deild, nýsköpunardeild, sem hefur það hlutverk að stuðla að útflutningi landbúnaðarafurða og öflun nýrra markaða fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir. Sjóðurinn gegnir hlutverki sínu með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar í útflutningi, einkum með hlutafé en einnig með því að veita lán, ábyrgðir og styrki í þessu skyni.
    Ríkissjóður greiðir til deildarinnar hið minnsta 500 millj. kr. af söluandvirði hlutafjár í eigu ríkisins og skal höfuðstóllinn greiddur eigi síðar en 31. desember árið 2000. Höfuðstól samkvæmt þessari málsgrein skal halda aðgreindum frá bókhaldi og eignum Lánasjóðs landbúnaðarins og verja til verkefna skv. 1. mgr.
    Halda skal sérstakan afskriftareikning vegna deildarinnar samkvæmt góðri reikningsskilavenju og eftir mati á áhættu þannig að efnahagsreikningurinn gefi á hverjum tíma sem raunhæfasta mynd af fjárhagsstöðunni. Samhliða ákvörðunum um hlutafjárþátttöku, lánveitingar, ábyrgðir og styrki skal ákveða framlög á afskriftareikninginn. Fjárhæðirnar sem bætt er við afskriftareikninginn skulu í hverju tilviki samsvara þeirri áhættu sem tekin er og vera í samræmi við reglur sem ráðherra staðfestir. Til verkefna deildarinnar má ekki verja hærri fjárhæð en svo að afskriftir vegna þeirra rúmist innan ramma rekstraráætlunar. Rekstraráætlun deildarinnar skal miðast við að eigið fé deildarinnar dugi til fullrar starfsemi í a.m.k. tíu ár frá því að deildin hefur starfsemi.
    Við deildina skal starfa þriggja manna stjórnarnefnd sem gerir tillögu til stjórnar lánasjóðsins um þátttöku í verkefnum. Nefndin er skipuð af landbúnaðarráðherra. Þar af skal einn nefndarmaður tilnefndur af Bændasamtökum Íslands og einn af samtökum afurðastöðva í landbúnaði.
    Landbúnaðarráðherra skal setja nánari reglur um starfsemi deildarinnar að fengnum tillögum stjórnar og stjórnarnefndar.
    Um deildina gilda að öðru leyti ákvæði laga þessara eftir því sem við á.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að stuðla að útflutningi landbúnaðarafurða og öflun nýrra markaða fyrir þær erlendis. Í frumvarpinu er kveðið á um stofnun sérstakrar deildar innan Lánasjóðs landbúnaðarins, nýsköpunareildar, er hafi það hlutverk að styðja við einstaklinga og félög við öflun nýrra markaða erlendis fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir. Þessu hlutverki skal nýsköpunardeild einkum sinna með því að leggja hlutafé í félög sem stofnuð eru sérstaklega til að afla nýrra markaða fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir erlendis. Jafnframt er nýsköpunardeild heimilt að veita lán, ábyrgðir og styrki í þessu skyni. Markmið deildarinnar er þannig að stuðla að sjálfbærri þróun í útflutningi til lengri tíma litið með því að leggja fram áhættufé í góðar viðskiptahugmyndir. Hlutur nýsköpunardeildar í viðkomandi fyrirtæki yrði síðan seldur nái það árangri en afskrifaður að huta eða öllu leyti gangi viðskiptaáætlun ekki eftir.
    Í sívaxandi alþjóðlegri samkeppni er afar mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað að geta flutt út afurðir á nýja markaði til mótvægis við minnkandi hlut á heimamarkaði. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að allar búgreinar geti sótt um til nýsköpunardeildar en við mat á umsóknum verði fyrst og fremst tekið tillit til framtíðarmöguleika þeirrar viðskiptahugmyndar sem metin er hverju sinni. Á þeim u.þ.b. áratug sem liðinn er frá því að stuðningur við útflutning landbúnaðarafurða var aflagður hefur gætt verulegs samdráttar í sauðfjárrækt. Sauðfjárræktin er dæmi um búgrein sem ekki á vaxtarmöguleika í framtíðinni án útflutnings á afurðum. Nýsköpunardeild Lánasjóðs landbúnaðarins er hugsuð sem eitt af úrræðum er styrkt gæti sauðfjárrækt og byggt upp greinina.
    Gert er ráð fyrir a.m.k. 500 millj. kr. stofnframlagi frá ríkissjóði er aflað verði með söluandvirði af hlutafé í eigu ríkisins. Ekki er útilokað að um önnur framlög geti verið að ræða og ekki er heldur útilokað að nýsköpunardeild geti í framtíðinni fengið framlög af fjárlögum ef reynsla af deildinni verður góð.
    Lagt er til að við deildina starfi sérstök þriggja manna stjórnarnefnd sem verði ráðgefandi fyrir stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins við mat á umsóknum og skulu tveir nefndarmanna tilnefndir af samtökum bænda og afurðastöðva. Gert er ráð fyrir að stjórnarnefndin geri, ásamt stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins, tillögur um nánari reglur fyrir starfsemi deildarinnar.
    Við samningu frumvarps þessa var höfð hliðsjón af lögum nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, einkum 7. og 9. gr. þeirra laga.