Ferill 184. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 214  —  184. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um nefnd sem fjalli um málefni ungs fólks á sviði jafnréttismála.

Flm.: Helga Guðrún Jónasdóttir, Drífa Hjartardóttir, Ásta Möller.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að setja á fót nefnd sem fjalli um málefni ungs fólks á sviði jafnréttismála. Nefndin starfi sem fastanefnd á vegum Jafnréttisráðs og njóti aðstoðar Skrifstofu jafnréttismála.

Greinargerð.


    Einn helsti vandi jafnréttisumræðunnar lýtur að almennum viðhorfum í garð málaflokksins. Viðhorfskannanir hafa leitt ítrekað í ljós að almenningur er hlynntur jafnstöðu kynjanna í hvívetna. Engu að síður er oft og tíðum glímt við neikvæð viðhorf.
    Liður í því að bregðast við þessum vanda var að setja karlanefnd Jafnréttisráðs á fót, en hún hefur verið starfandi frá árinu 1994. Hlutverk nefndarinnar er að auka þátt karla í þjóðfélagsumræðunni um jafnrétti kynjanna og breikka þar með almenna skírskotun þessara mála. Á þeim rúmlega hálfa áratug sem liðinn er hefur karlanefnd Jafnréttisráðs beint athygli almennings og stjórnvalda að miklvægum þáttum jafnréttismála, aðallega þeim sem að karlmönnum snúa. Sambærileg nefnd fyrir ungt fólk mun að mati fagaðila hafa afar jákvæð áhrif á þróun þessa mikilvæga málaflokks. Jafnframt hafa ýmis fjölmenn samtök ungs fólks á framhaldsskólaaldri lýst yfir áhuga á formlegum vettvangi á sviði jafnréttismála fyrir ungt fólk.