Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 230  —  197. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993.

Flm.: Sighvatur Björgvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jóhann Ársælsson,


Össur Skarphéðinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir.


1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Virkjunarheimildir til handa:
     1.      Landsvirkjun vegna stækkunar Hrauneyjafossvirkjunar, Sigölduvirkjunar, Búrfellsvirkjunar og Blönduvirkjunar og virkjunar Jökulsár í Fljótsdal (Fljótsdalsvirkjun) skv. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum, sbr. og 6. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum,
     2.      Hitaveitu Reykjavíkur (nú Orkuveitu Reykjavíkur) vegna stækkunar jarðvarmavirkjunar á Nesjavöllum skv. 3. mgr. 2. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum,
     3.      Landsvirkjun, Rafmagnsveitum ríkisins, Hitaveitu Suðurnesja og/eða öðrum aðilum er standa að virkjun jarðvarma skv. 4. mgr. 2. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum,
     4.      Andakílsárvirkjun sf. vegna vatnsaflsstöðvar við Kljáfoss í Hvítá samkvæmt lögum um virkjun Hvítár í Borgarfirði, nr. 26/1977,
     5.      Sjóefnavinnslunni hf. vegna raforkuvers í tengslum við starfrækslu fyrirtækisins skv. 4. gr. laga um sjóefnavinnslu á Reykjanesi, nr. 62/1981,
sem ekki eru komnar til fullra framkvæmda árið 1999 skulu háðar mati á umhverfisáhrifum enda falli þær undir skilyrði 5. gr. laganna um skyldu til umhverfismats. Þá er umhverfisráðherra heimilt að gera kröfu um mat á umhverfisáhrifum vegna þessara fyrirhuguðu virkjunarframkvæmda skv. 6. gr. laganna ef skilyrði 5. gr. eiga ekki við. Sama gildir um lagningu háspennulína vegna virkjunarframkvæmdanna.
    Aðrar virkjunarheimildir sem veittar hafa verið með lögum fyrir gildistöku laganna en ekki eru komnar til fullra framkvæmda árið 1999 skulu með sömu skilyrðum og getið er í 1. mgr. háðar mati á umhverfisáhrifum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.



Prentað upp.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt í framhaldi af 62. máli þessa löggjafarþings, fyrirspurn Sighvats Björgvinssonar til iðnaðarráðherra um virkjunarleyfi og umhverfismat. Í svari iðnaðarráðherra á þskj. 141 kemur fram að þó nokkur fjöldi virkjunarheimilda er í lögum, sérstaklega lögum um raforkuver, nr. 60/1981, sem taldar eru undanþegnar ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, þótt framkvæmdir séu ekki hafnar. Ná þessar lagaheimildir til ársins 1947, en á árunum 1947–56 setti Alþingi fjórum sinnum lög um ný orkuver Rafmagnsveitna ríkisins. Þessi lög eru enn í gildi og þar er að finna ónýttar heimildir en um er að ræða litlar virkjanir. Hitt er alvarlegra að í lögum um raforkuver er að finna virkjunarheimildir stórra raforkuvera eða heimildir til verulegra stækkana á eldri raforkuverum sem stjórnvöld telja undanþegin mati á umhverfisáhrifum um ókominn tíma.
    Þegar lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, voru sett var í bráðabirgðaákvæði II í lögunum kveðið á um að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Deilt er um þýðingu og gildi þessa ákvæðis enda tilgangur með setningu þess óljós. Því er haldið fram af stjórnvöldum að allar framkvæmdir samkvæmt leyfum fyrir gildistöku laga nr. 63/1993, sem ella féllu undir lögin, séu undanþegnar mati á umhverfisáhrifum því að lögunum verði ekki beitt afturvirkt án lagaheimilda til þess. Þetta á við hvort sem umrætt bráðabirgðaákvæði er einungis talið gilda um framkvæmdir frá gildistöku laga nr. 63/1993 til 1. maí 1994 eða um allar framkvæmdir sem fengu leyfi fyrir 1. maí 1994.
    Á undanförnum árum hafa orðið gífurlegar viðhorfsbreytingar almennings til umhverfismála og náttúruverndar. Það er í hæsta lagi óeðlilegt að jafnvel áratuga gömul leyfi í lögum til virkjana sem ekki hafa komið til framkvæmda skuli standa óhögguð þrátt fyrir breyttar kröfur samfélagsins. Slíkar framkvæmdir eiga og verða að vera metnar út frá umhverfissjónarmiðum sem gilda á þeim tíma þegar framkvæmdir fara fram en ekki þegar leyfi var veitt, ef til vill fyrir mörgum árum, ef leyfisveiting og framkvæmdir haldast ekki í hendur.
    Af þessum sökum leggja flutningsmenn þessa frumvarps til að ákvæði til bráðabirgða II í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, verði afnumið í núverandi mynd og því breytt þannig að tekinn verði af allur vafi um að lögunum verði beitt afturvirkt um virkjunarframkvæmdir sem fengu leyfi með lögum fyrir gildistöku laganna en hafa enn ekki komið til framkvæmda. Augljós rök mæla með því að öllum vafa um réttarstöðu slíkra leyfa og leyfishafa með tilliti til umhverfismats sé eytt. Ef frumvarpið verður að lögum mun það meðal annars hafa í för með sér að virkjunarframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun verða háðar mati á umhverfisáhrifum.