Ferill 204. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 238  —  204. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á almennnum hegningarlögum, nr. 19/1940.

Flm.: Bryndís Hlöðversdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar Már Sigurðarson,


Gísli S. Einarsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Guðrún Ögmundsdóttir,
Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján L. Möller,
Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,
Sighvatur Björgvinsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Svanfríður Jónasdóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.

    Við 210. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hver sem býr til eða flytur inn í útbreiðsluskyni, selur, útbýtir eða dreifir á annan hátt klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi

Greinargerð.


    Samkvæmt 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar það refsingu, sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum að framleiða, flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum eða hafa þá til sýnis. Þá varðar það sömu refsingu að láta af hendi við unglinga yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra sambærilega hluti. Í 4. mgr. 210 gr. hegningarlaga er síðan lögð refsing við því að hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða aðra sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt. Það er hins vegar ekki lögð sérstök refsing við því í hegningarlögum að búa til, flytja inn, selja, útbýta eða dreifa klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Refsingin er sú sama hvort sem börn eru notuð til framleiðslu efnisins eða fullorðnir. 4. mgr. 210. gr. hegningarlaga fjallar einvörðungu um vörslu barnakláms, en framleiðsla og dreifing á slíku efni varðar sömu refsingu hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna.
    Í þessu frumvarpi er lagt til að ný málsgrein bætist við 210. gr. hegningarlaga þar sem lögð verði sérstök refsing við því að búa til, flytja inn, eða dreifa barnaklámi. Flutningsmenn telja eðlilegt að það varði meiri refsingu að búa til eða dreifa barnaklámi en þegar um fullorðna þátttakendur er að ræða, en önnur brot skv. XX. kafla hegningarlaga eru höfð til viðmiðunar við ákvörðun refsirammans. Frumvarpið miðar að því að vernda börn frekar en nú er fyrir því kynferðislega ofbeldi sem framleiðsla á barnaklámi er og fyrir dreifingu á slíku efni.