Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 247  —  165. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um erlenda fjárfestingu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve miklu námu beinar erlendar fjárfestingar í árslok 1998 eftir atvinnugreinum og hvaða breytingar hafa átt sér stað frá 1996?
     2.      Hve miklu námu óbeinar erlendar fjárfestingar í árslok 1998 eftir atvinnugreinum og hvaða breytingar hafa átt sér stað frá 1996?
    Sjávarútvegur verði tiltekinn sérstaklega og greint á milli veiða og vinnslu eftir því sem unnt er.


1. Bein erlend fjárfesting.
    Tölur um beina erlenda fjárfestingu árin 1996 til 1998 má sjá í eftirfarandi töflum, annars vegar flokkaðar eftir atvinnugreinum og hins vegar eftir löndum.
    Að fjárfestingum í sjávarútvegi verður vikið í umfjöllun um óbeina fjárfestingu.

Staða í árslok eftir atvinnugreinum

Milljarðar kr. á verðlagi hvers árs 1996 1997 1998
Iðnaður 9,9 19,5 21,1
Verslun 2,1 2,1 3,2
Fjármálaþjónusta 0,1 0,0 2,2
Samgöngur og fjarskiptaþjónusta 0,3 1,4 0,7
Annað 0,9 0,9 4,5
Samtals 13,2 23,9 31,7
Staða í árslok eftir löndum
Milljarðar kr. á verðlagi hvers árs 1996 1997 1998
Sviss 8,1 12,1 11,8
Bandaríkin 0,7 5,6 9,5
Lúxemborg 0,1 0,1 2,5
Noregur 0,9 2,1 2,3
Danmörk 1,3 1,6 2,0
Bretland 0,6 0,8 0,9
Svíþjóð 0,3 0,4 0,8
Þýskaland 0,5 0,6 0,5
Japan 0,4 0,4 0,4
Önnur lönd 0,2 0,3 0,9
Samtals 13,2 23,9 31,7
Heimild: Seðlabanki Íslands.

2. Óbein erlend fjárfesting.
    Varðandi annan lið fyrirspurnarinnar er því til að svara að ekki liggja fyrir upplýsingar um óbeina fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Hins vegar er rétt að greina frá því hvernig eftirliti ráðuneytisins með erlendri fjárfestingu er háttað, m.a. eftirliti með fjárfestingum í sjávarútvegi.
    Um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri gilda lög nr. 34/1991. Samkvæmt 7. gr. lag anna ber að tilkynna ráðherra alla erlenda fjárfestingu jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan nær jafnt til nýrra fjárfestinga sem viðbótar fjárfestinga erlendra aðila. Hún hvílir á íslensku atvinnufyrirtæki sem erlendur aðili fjárfestir í en á hinum erlenda aðila ef um er að ræða fyrirhugaða starfsemi hans hér á landi. Tilkynn ing þessi þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að upplýsa ráðherra um fjárfestingu svo unnt sé að grípa til ráðstafana sé hún óleyfileg.
    Í 1. mgr. 4. gr. laganna er að finna takmarkanir á heimildum erlendra aðila til fjárfestinga í atvinnurekstri, m.a. fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar og fiskvinnslu. Ákvæði þessu var breytt með lögum nr. 46/1996 en áður var m.a. fortakslaust bann við fjárfestingu erlendra að ila í fiskvinnslu og frumvinnslu sjávarafurða. Slíkt fortakslaust bann við óbeinni fjárfestingu í fiskveiðum og fiskvinnslu var talið leiða til þess að fyrirtæki í þeirri atvinnugrein ættu erfið ara með að afla sér eigin fjár en önnur fyrirtæki í landinu og því var óbein fjárfesting heimil uð innan ákveðinna marka. Samhliða var ákvæðum laga nr. 13/1992, um rétt til veiða í efna hagslögsögu Íslands, breytt, sbr. nú lög nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, þannig var áfram tryggt samræmi á milli þessara tvennu laga. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 34/1991 er einungis íslenskum ríkisborgurum og lögaðilum heimilt að stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands eða eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávaraf urða hér á landi. Erlendum aðilum er þannig ekki heimiluð bein fjárfesting í sjávarútvegi. Í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. kemur fram að erlendum aðilum er heimil óbein fjárfesting í sjávarút vegi innan ákveðinna marka. Þar kemur fram að erlendum aðila er heimilt að eiga allt að 25% af hlutafé eða stofnfé í íslenskum lögaðila sem á í íslenskum lögaðila sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands eða vinnslu sjávarafurða hér á landi. Ef hinn íslenski lögaðili á ekki yfir 5% hlut í lögaðila sem stundar veiðar og vinnslu sjávarafurða má hlutur hins erlenda að ila þó vera allt að 33%. Hvað átt er við með vinnslu sjávarafurða er nánar skilgreint síðar í ákvæðinu.
    Til að tryggja að farið sé að ákvæðum 4. gr. er í 5. gr. laganna lögð skylda á stjórnendur fiskveiðifyrirtækja og fiskvinnslufyrirtækja og stjórnendur innlendra lögaðila sem eiga hlut í slíkum fyrirtækjum að tilkynna brot á ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Ráðuneytinu ber þá að afla upplýsinga um eignarhlut og önnur atriði sem máli kunna að skipta varðandi raun veruleg yfirráð yfir fyrirtækjum. Ráðherra getur jafnframt að eigin frumkvæði óskað eftir slíkum upplýsingum ef grunsemdir eru um brot gegn ákvæði 4. gr. Ráðuneytið sendir þau gögn og þær upplýsingar sem borist hafa til sérstakrar fimm manna nefndar um erlenda fjár festingu sem skipuð er af Alþingi og hefur það hlutverk að fylgjast með því að ákvæðum 4. gr. um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sé framfylgt. Telji nefndin að fjárfesting eða yfirráð séu með þeim hætti að gengið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. skyldar ráðherra með úrskurði hlutaðeigandi aðila til að selja þann eignarhlut í fisk veiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki eða, ef um það er að ræða, þá hlutdeild í lögaðila sem á hlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki sem ekki er samræmanlegt ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Söluskylda þessi takmarkast við þann eignarhlut sem varð til þess að er lend fjárfesting fór fram úr þeim mörkum sem greinir í ákvæðinu.