Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 259  —  219. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      3. mgr. fellur brott.
     b.      Á greinina kemur svofelld fyrirsögn: Gjaldskyld ökutæki.

2. gr.

    Á 2. gr. laganna kemur svofelld fyrirsögn: Fjárhæð gjaldsins.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      2. og 3. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      5. mgr. fellur brott.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Ef bifreiðir sem hafa verið undanþegnar bifreiðagjaldi skv. d-lið 4. gr. eru settar á skráningarmerki að nýju skal greiða bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af gjaldtímabilinu og hefst gjaldskyldan frá og með afhendingu skráningarmerkis. Gjald vegna skráðra bifreiða sem skráningarmerki eru sett á að nýju fellur í eindaga við afhendingu skráningarmerkis.
             Við afskráningu bifreiða skal endurgreiða eða fella niður bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af því gjaldtímabili sem er að líða þegar afskráning fer fram.
     d.      Á greinina kemur svofelld fyrirsögn: Gjalddagar, eindagar og gjaldskyldir aðilar.

4. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 4. gr. og orðast svo ásamt fyrirsögn:

Undanþága frá gjaldskyldu.

    Eftirfarandi bifreiðir skulu undanþegnar bifreiðagjaldi:
     a.      Bifreiðir í eigu þeirra sem njóta örorkustyrks, örorkubóta, bensínstyrks eða umönnunarbóta og umönnunargreiðslna vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins. Jafnframt eiga þeir öryrkjar sem notið hafa niðurfellingar skv. 1. málsl. rétt á niðurfellingu ef þeir hafa öðlast rétt til ellilífeyrisgreiðslna eða dveljast á stofnun, sbr. 43. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem njóta örorkustyrks, örorkubóta eða bensínstyrks er bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé annaðhvort skráður eigandi í ökutækjaskrá eða skráður umráða maður í ökutækjaskrá samkvæmt eignarleigusamningi. Réttur til niðurfellingar bifreiða gjalds af bifreiðum í eigu þeirra sem fá greiddar umönnunarbætur eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna nær til einnar bifreiðar og er bundinn því skilyrði að skráð ur eigandi bifreiðar samkvæmt ökutækjaskrá fari með forsjá barnsins. Óheimilt er að fella niður bifreiðagjald af bifreiðum sem eru yfir 3.500 kg að eigin þyngd og nýttar eru í atvinnurekstri. Ef sá sem á rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds á fleiri en eina bifreið skal bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem er þyngst. Fyrir álagningu bifreiðagjalds skal Tryggingastofnun ríkisins senda ríkisskattstjóra upplýsingar um bifreiðaeign þeirra er njóta slíkra greiðslna frá stofnuninni sem að framan greinir.
     b.      Bifreiðir í eigu björgunarsveita. Með björgunarsveit er átt við sjálfboðaliðasamtök sem hafa björgun mannslífa og verðmæta að aðalmarkmiði.
     c.      Bifreiðir sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs, talið frá og með árgerðarári þeirra.
     d.      Bifreiðir þegar skráningarmerki hafa verið afhent skráningaraðila til varðveislu. Undanþága þessi miðast við dagsetningu innlagnar skráningarmerkja. Jafnframt skal ríkisskatt stjóri fella niður bifreiðagjald af ónýtum bifreiðum sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu.
     e.      Bifreiðir sem tímabundið hafa verið fluttar úr landi. Framvísa ber útflutnings- og innflutningsskýrslum til sönnunar á tímabundnum útflutningi í jafnlangan tíma.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna er verður 5. gr.:
     a.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Skráning bifreiðar skal ekki fara fram nema gjaldfallið bifreiðagjald hafi áður verið greitt af henni.
             Óheimilt er að afhenda skráningarmerki sem afhent hafa verið skráningaraðila til varðveislu nema greitt hafi verið fyrir þann tíma sem eftir er af gjaldtímabilinu.
     b.      Á greinina kemur svofelld fyrirsögn: Aðalskoðun og skráning.

6. gr.

    5. gr. laganna, er verður 6. gr., orðast svo ásamt fyrirsögn:

Umsjón álagningar, innheimtu og endurgreiðslu.

    Ríkisskattstjóri annast álagningu bifreiðagjalds og aðra framkvæmd laganna. Innheimtu bifreiðagjalds annast tollstjórar og fer um reikningsskil eftir því sem fjármálaráðherra ákveð ur. Heimilt er að fela skoðunarstöðvum innheimtu bifreiðagjalds.
    Endurgreiðslu bifreiðagjalds vegna afskráningar eða innlagnar skráningarmerkja annast tollstjórar.
    Bifreiðagjald nýtur lögtaksréttar.


7. gr.

    Á 6. gr. laganna, er verður 8. gr., kemur svofelld fyrirsögn: Ýmis ákvæði.


8. gr.

    7. gr. laganna, auk fyrirsagnar, orðast svo:

Kæruleið.

    Greiðanda bifreiðagjalds er heimilt að kæra til ríkisskattstjóra álagningu bifreiðagjalds skv. 6. gr. innan þrjátíu daga frá því að gjaldið var ákvarðað.
    Úrskurði ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. má skjóta til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
    Um málsmeðferð að öðru leyti fer samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.


9. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða við lögin fellur brott.


10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000. Við gildistöku laganna fellur úr gildi reglugerð nr. 359/1998, um bifreiðagjald, sbr. reglugerð nr. 811/1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Samkvæmt gildandi lögum hefur fjármálaráðherra heimild til að endurgreiða, lækka eða fella niður bifreiðagjald af bifreiðum í eigu öryrkja og björgunarsveita, bifreiðum sem ekki eru í notkun og bifreiðum sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs. Getur hann í reglugerð kveðið nánar á um hverjir falli undir undanþáguheimild þessa og önnur skilyrði sem hann telur nauðsynleg. Í 5. gr. reglugerðar nr. 359/1998, um bifreiðagjald, sbr. reglugerð nr. 811/1998, er að finna nánari útlistun á því hvaða bifreiðir skuli undanþegnar bifreiðagjaldi. Skv. 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal skattamálum skipað með lögum og má ekki fela stjórnvöldum ákvörðun um það hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Með tilliti til þessa er lagt til að heimild fjármálaráðherra til að endurgreiða, lækka eða fella niður bifreiðagjald verði afnumin. Í stað þess verði tekin upp í lögin útlistun á því hvaða bifreiðir skuli undanþegnar bifreiðagjaldi.
    Samkvæmt núgildandi lögum annast innheimtumaður ríkissjóðs bæði innheimtu og álagningu bifreiðagjalds. Telja verður að réttaröryggi greiðenda sé mun betur borgið ef einn aðili annast álagningu skatts og annar innheimtuna. Telja verður jafnframt að skattyfirvöld séu betur í stakk búin en innheimtumenn til að annast álagningu skatta, enda búa þau yfir meiri sérþekkingu á því sviði. Sérstaklega á þetta við um alla málsmeðferð. Auk þess leiðir þessi breyting til þess að meira samræmi næst við álagningu bifreiðagjalds annars vegar og þungaskatts hins vegar, en samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, annast ríkisskattstjóri álagningu þungaskatts og aðra framkvæmd laganna. Með þessari breytingu geta greiðendur þessara gjalda snúið sér að einum og sama álagningaraðilanum hvort heldur sem um bifreiðagjald eða þungaskatt er að ræða og málsmeðferðin er sú sama.
    Lagt er til að felld verði úr gildi reglugerð nr. 359/1998, sbr. reglugerð nr. 811/1998, við gildistöku laganna. Nokkur ákvæði reglugerðarinnar eru tekin upp í lögin en að öðru leyti er reglugerðin að miklu leyti endursögn á texta laganna.
Til hægðarauka er bætt inn í lögin fyrirsögnum til skýringa á einstökum ákvæðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
    Um 1. gr.

    Þar sem lagt er til að álagning, innheimta og endurgreiðsla bifreiðagjalds verði færð til ríkisskattstjóra er rétt að felld verði niður heimild fjármálaráðherra til þess að skera úr ágreiningi um gjaldskyldu bifreiðar.


Um 2. gr.

Greinin þarfnast ekki skýringar.


Um 3. gr.

    Í a-lið er lögð til breyting á því hvernig gjald vegna nýskráðra bifreiða er reiknað. Lagt er til að afnumin verði sú regla að gjaldið reiknist fyrir heila mánuði þannig að 15 dagar eða fleiri teljist heill mánuður, en færri dögum sé sleppt. Einnig verði afnumið lágmarksgjald vegna nýskráðra bifreiða sem nú er 523 kr. Í stað þess reiknist gjaldið í hlutfalli við skráningartíma nýrra bifreiða á gjaldtímabilinu og hefst gjaldskyldan frá og með afhendingu skráningarmerkja. Breyting þessi felur í sér einföldun á álagningu bifreiðagjalds á nýjar bifreiðir.
    Um b-lið vísast til almennra athugasemda.
    Bifreiðir eru undanþegnar bifreiðagjaldi ef skráningarmerki þeirra eru afhent skráningar aðila til varðveislu. Innheimtumönnum ríkissjóðs er jafnframt heimilt að fella niður bifreiða gjald af bifreiðum sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu, sbr. d-lið 4. gr. frumvarpsins. Ef skráningarmerki eru sett á þessar bifreiðir að nýju skal greiða bifreiðagjald í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af gjaldtímabilinu þegar skráningarmerki er afhent. Þessa reglu er að finna í 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 359/1998. Sú breyting er þó gerð á reglunni að gjaldið reiknast í hlutfalli við skráningartíma bifreiðarinnar og hefst gjaldskyldan frá og með afhendingu skráningarmerkja, en reiknast ekki fyrir heila mánuði þannig að 15 dagar eða fleiri teljist heill mánuður en færri dögum sé sleppt. Auk þess er ekki kveðið á um lágmarksbifreiðagjald sem skv. 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er 1.141 kr. Gjald vegna nýskráðra bifreiða fellur í eindaga við afhendingu skráningarmerkja.
    Lagt er til að tekin verði upp regla sem er í 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 359/1998 um að bifreiðagjald sé endurgreitt eða það fellt niður við afskráningu bifreiða.

Um 4. gr.

    Lagt er til að teknar verði upp í lögin undanþágureglur 5. gr. reglugerðar nr. 359/1998, um bifreiðagjald, sbr. reglugerð nr. 811/1998, með minni háttar breytingum.
    Reglu a-liðar er að finna í a-lið 5. gr. reglugerðarinnar. Lagt er til að fyrir álagningu bifreiðagjalds sendi Tryggingastofnun ríkisins ríkisskattstjóra lista yfir bifreiðir sem skjól stæðingar stofnunarinnar eru eigendur eða umráðamenn að og undanþegnar skulu álagningu bifreiðagjalds samkvæmt þeirri reglu sem fram kemur í frumvarpinu og ber ríkisskattstjóra við álagningu gjaldsins að styðjast við listann. Þessi breyting leiðir til þess að skjólstæðingar Tryggingastofnunar ríkisins munu, hvað undanþágu á grundvelli þessa ákvæðis varðar, leita til Tryggingastofnunar í stað þess að snúa sér til innheimtumanna ríkissjóðs.
    Reglu b-liðar er að finna í b-lið 5. gr. reglugerðarinnar. Lagt er til að nánari grein sé gerð fyrir því hvers konar starfsemi geti talist til björgunarsveita í skilningi reglunnar, þ.e. að um sjálfboðaliðasamtök sé að ræða sem hafi það að markmiði að bjarga mannslífum og verðmætum.
    Reglu c-liðar er að finna í c-lið 5. gr. reglugerðarinnar. Reglan þarfnast ekki nánari skýringar.
    Reglu d-liðar er að finna í d-lið 5. gr. reglugerðarinnar, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 811/1998. Reglan þarfnast ekki nánari skýringar.
    Samkvæmt e-lið er lagt til að því nýmæli verði bætt við gildandi reglur að bifreið sem tímabundið er flutt úr landi skuli undanþegin bifreiðagjaldi ef framvísað hefur verið útflutnings- og innflutningsskýrslum því til sönnunar. Komi til inneignar verður hún endurgreidd eða henni skuldajafnað við framvísun útflutnings- og innflutningsskýrslna. Sams konar reglu er að finna í 2. málsl. 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

Um 5. gr.

    Lagt er til að ákvæði 2. og 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/1998 verði tekin upp í lögin. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki nánari skýringar.

Um 6. gr.

    Um skýringar við greinina vísast til almennra athugasemda.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 8. gr.

    Lagt er til að hægt sé að kæra álagningu þungaskatts til ríkisskattstjóra innan þrjátíu daga frá því að skatturinn var ákvarðaður. Þá er gert ráð fyrir að hægt verði að kæra úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar innan þrjátíu daga frá póstlagningu úrskurðar eða endurákvörðunar.
    Um málsmeðferð er lagt til að sömu reglur gildi og í lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, svo sem varðandi fyrirspurnir, boðanir og fresti.

Um 9. gr.

    Lagt er til að fellt verði úr gildi bráðabirgðaákvæði laganna þar sem endurgreiðsla hefur þegar átt sér stað.

Um 10. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi og komi til framkvæmda 1. janúar 2000.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 39/1988,
um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta snýr einkum að tekjuhlið ríkissjóðs en með því er ætlað að lögfesta vissar undanþágur frá greiðslu bifreiðagjalds sem nú eru settar með reglugerð. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að álagning bifreiðagjalds verði flutt frá ríkisbókhaldi til ríkisskattstjóra. Kostnaður við álagninguna er ekki talinn vera verulegur og fyrirhugar fjármálaráðuneytið að sú vinna verði framkvæmd innan óbreytts útgjaldaramma. Ef ástæða þykir til eftir nánari skoðun á helstu kostnaðarþáttum verkefnisins er gert ráð fyrir að fjárveitingar verði fluttar á milli ríkisbókhalds og ríkisskattstjóra með fjárlögum.