Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 267  —  224. mál.
Frumvarp til lagaum Byggðastofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)I. KAFLI
Hlutverk og skipulag.
1. gr.
Yfirstjórn og staðsetning.

    Byggðastofnun er sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra.
    Iðnaðarráðherra ákveður staðsetningu Byggðastofnunar að fenginni tillögu stjórnar.

2. gr.
Hlutverk.

    Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni.
    Í samræmi við hlutverk sitt vinnur stofnunin að undirbúningi, skipulagi og fjármögnun verkefna og veitingu lána með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Fjármögnun verkefna skal eftir föngum vera í samstarfi við aðra.
    Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu, m.a. með gagnasöfnun og rannsóknum. Stofnunin skipuleggur og vinnur að atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Stofnunin getur einnig tekið þátt í gerð svæðisskipulags samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.

3. gr.
Ársfundur og stjórn.

    Halda skal ársfund Byggðastofnunar fyrir 1. júlí ár hvert. Nánar skal kveðið á um ársfund í reglugerð.
    Iðnaðarráðherra skipar á ársfundi sjö menn í stjórn Byggðastofnunar til eins árs í senn og sjö menn til vara. Iðnaðarráðherra skipar formann og varaformann og ákveður þóknun stjórnar.
    Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða.

4. gr.
Verkefni stjórnar.

    Verkefni stjórnar Byggðastofnunar eru:
     1.      Að ákveða starfsskipulag að því leyti sem það hefur ekki verið gert í reglugerð.
     2.      Að móta stefnu um helstu áherslur, verkefni og starfshætti og sjá til þess að henni sé framfylgt.
     3.      Að ákveða rekstrar- og starfsáætlun til eins árs í senn.
     4.      Að vinna að samstarfi við aðrar stofnanir og sjóði sem starfa að eflingu atvinnulífs í því skyni að samhæfa og gera atvinnuráðgjöf og stuðningsaðgerðir markvissar.
     5.      Að fjalla um áætlanir sem stofnunin vinnur að, svo og skýrslur um starfsemi hennar.
     6.      Að fjalla um og samþykkja ársreikning.
     7.      Að taka ákvarðanir um heildarlántöku, sbr. 15. gr.
     8.      Að taka ákvarðanir um hlutafjárkaup og þátttöku í eignarhalds-, fjárfestingar- og þróunarfélögum.
     9.      Að setja reglur um lánakjör og fjármögnun verkefna.
     10.      Að taka ákvarðanir og setja reglur um lán- og ábyrgðarveitingar. Þá skal stjórn setja reglur um upplýsingagjöf til stjórnar um þau efni.
     11.      Önnur verkefni sem iðnaðarráðherra felur stjórn að vinna á sviði byggða- og atvinnumála.

5. gr.
Forstjóri.

    Iðnaðarráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar.

6. gr.
Verkefni forstjóra.

    Verkefni forstjóra Byggðastofnunar eru:
     1.      Að stjórna daglegum rekstri stofnunarinnar.
     2.      Að gera tillögur til stjórnar um:
                  a.      starfsskipulag stofnunarinnar,
                  b.      rekstrar- og starfsáætlun,
                  c.      áherslur í starfseminni,
                  d.      lántökur og heildarútlán,
                  e.      reglur um lánakjör.
     3.      Að ráða stofnuninni starfsfólk.
     4.      Önnur verkefni sem honum eru falin af stjórn.

II. KAFLI
Starfsemi.
7. gr.
Byggðaáætlun.

    Iðnaðarráðherra leggur fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Áætlunin skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu.
    Í byggðaáætlun skal gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu.
    Iðnaðarráðherra skal vinna að byggðaáætlun í samvinnu við Byggðastofnun. Við gerð byggðaáætlunar hafi iðnaðarráðherra samráð við önnur ráðuneyti, sveitarfélög og aðra aðila eftir þörfum.
    Byggðaáætlun skal endurskoða á tveggja ára fresti.

8. gr.
Rannsóknir á atvinnu- og byggðaþróun.

    Byggðastofnun vinnur að gagnasöfnun og rannsóknum og fylgist með atvinnu- og byggðaþróun og helstu áhrifaþáttum hennar og árangri opinberra stuðningsaðgerða á sviði atvinnumála og byggðaþróunar, jafnt á Íslandi sem í löndum þar sem svipaðar aðstæður eru. Stofnunin getur tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og gert samninga við háskóla, rannsóknastofnanir og aðra um rannsóknir á þessu sviði.

9. gr.
Atvinnuráðgjöf.

    Byggðastofnun skipuleggur og vinnur að ráðgjöf við atvinnulífið á landsbyggðinni í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra.
    Stofnunin skal í samstarfi við þá aðila sem sinna atvinnuráðgjöf vinna að bættu skipulagi atvinnuráðgjafar og aukinni þekkingu ráðgjafa, m.a. í því skyni að gera ráðgjöfina markvissa og stuðla að betri nýtingu fjármuna.
    Stofnunin getur gert samninga við atvinnuþróunarfélög, stofnanir, sveitarfélög, sjálfstætt starfandi ráðgjafa eða aðra um að annast atvinnuráðgjöf á tilteknu sviði, atvinnugrein eða landsvæði.

10. gr.
Fjármögnun verkefna.

    Byggðastofnun veitir framlög til verkefna á sviði atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar. Stjórn stofnunarinnar ákveður verkefnin og leitar eftir samstarfsaðilum um þau. Við umfjöllun um einstök verkefni getur stjórnin, ásamt samstarfsaðilum, sett á fót verkefnanefndir til ráðgjafar. Einnig er heimilt að fela atvinnuþróunarfélögum úthlutun fjár til einstakra verkefna.

11. gr.
Veiting lána og ábyrgða.

    Byggðastofnun veitir lán eða ábyrgðir í samræmi við hlutverk sitt, sbr. 2. gr.
    Stjórn stofnunarinnar getur falið forstjóra að ákveða einstakar lánveitingar samkvæmt reglum sem stjórn setur, sbr. 10. tölul. 4. gr.
    Reikningslegur aðskilnaður skal vera á milli lánastarfsemi stofnunarinnar og annarrar starfsemi. Fjárhagslegt markmið lánastarfsemi stofnunarinnar samkvæmt þessari grein skal vera að varðveita eigið fé hennar að raungildi.
    Stjórn Byggðastofnunar getur tekið ákvörðun um að gera samninga um að fela fjármálastofnunum afgreiðslu og innheimtu lána, sem og aðra fjármálaumsýslu stofnunarinnar.

12. gr.
Fjármögnun þróunarverkefna.

    Byggðastofnun er heimilt að fjármagna áhættusöm verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar samkvæmt nánari reglum sem iðnaðarráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar.
    Þessi starfsemi skal einkum fjármögnuð með sérstökum framlögum úr ríkissjóði.

III. KAFLI
Önnur ákvæði.
13. gr.
Upplýsingar um starfsemi.

    Iðnaðarráðherra skal gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi Byggðastofnunar og framvindu byggðaáætlunar.
    Ársreikningum skal fylgja skrá yfir verkefni stofnunarinnar og fjármögnun þeirra.

14. gr.
Tekjur.

    Tekjur Byggðastofnunar eru:
     1.      Framlag úr ríkissjóði eins og ákveðið er í fjárlögum hverju sinni.
     2.      Fjármagnstekjur.

15. gr.
Lántaka.

    Byggðastofnun er heimilt innan ramma fjárlaga að taka lán til starfsemi sinnar innan lands eða erlendis, annaðhvort í eigin nafni eða fyrir milligöngu annarra aðila.

16. gr.
Fjárvarsla.

    Handbært fé Byggðastofnunar skal geyma á reikningum í bönkum og sparisjóðum eða tryggum verðbréfum.

17. gr.
Undanþága frá gjöldum og sköttum.

    Byggðastofnun er undanþegin öllum opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs.

18. gr.
Þagnarskylda.

    Stjórnarmenn og allir starfsmenn Byggðastofnunar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

19. gr.
Reglugerð.

    Nánari ákvæði um skipulag og starfsemi Byggðastofnunar og framkvæmd laga þessara má setja með reglugerð.

20. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000. Frá og með sama tíma falla úr gildi lög nr. 64/1985, um Byggðastofnun, með áorðnum breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara skipar iðnaðarráðherra stjórn Byggðastofnunar skv. 3. gr. fram að fyrsta ársfundi sem halda skal fyrir 1. júlí 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sett fram það markmið að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands með hliðsjón af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu. Fyrsta verkefnið á þessu sviði er að færa Byggðastofnun undir iðnaðarráðuneyti og sameina atvinnuþróunarstarfsemi á þess vegum. Þá segir í stefnuyfirlýsingunni að stuðningur við atvinnuþróun á landsbyggðinni verði felldur að öðru nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfi stjórnvalda.
    Þann 16. september sl. skipaði iðnaðarráðherra nefnd til að vinna að undirbúningi þess að flytja starfsemi Byggðastofnunar undir iðnaðarráðuneytið. Var nefndinni falið að yfirfara hlutverk, skipulag og starfsemi Byggðastofnunar, sbr. lög nr. 64/1985, um Byggðastofnun, og reglugerð nr. 274/1998, og gera tillögur um hvernig þessum þáttum verði best fyrir komið í framtíðinni. Við þá vinnu átti nefndin að gæta samræmis við þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 sem Alþingi samþykkti á 123. löggjafarþingi.
    Í nefndina voru skipaðir þeir Guðjón Guðmundsson alþingismaður, Kristinn H. Gunnarssonar alþingismaður, Kristján Skarphéðinsson, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Sigfús Jónsson landfræðingur og Sveinn Þorgrímsson, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Ritari nefndarinnar var Magnús Stefánsson, fyrrverandi alþingismaður. Þá aðstoðaði Birgir Már Ragnarsson, lögfræðingur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, nefndina við samningu lagafrumvarps.
    Nefndin skilaði tillögum sínum til iðnaðarráðherra 11. nóvember sl. Voru tillögur nefndarinnar settar fram í frumvarpi til laga um Byggðastofnun er komi í stað gildandi laga nr. 64/1985.
    Í frumvarpi nefndarinnar, sem lagt er óbreytt fyrir Alþingi, eru lagðar til nokkuð viðamiklar breytingar frá gildandi lögum um Byggðastofnun. Helstu tillögur nefndarinnar eru að:
     a.      sett verði ný lög um starfsemi Byggðastofnunar þar sem aukin áhersla verði lögð á hlutverk stofnunarinnar á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni,
     b.      beint stjórnsýslusamband verði milli Byggðastofnunar og iðnaðarráðherra,
     c.      ráðherra verði heimilt að fenginni tillögu stjórnar að ákvarða staðsetningu Byggðastofnunar,
     d.      Byggðastofnun reyni eftir föngum að fjármagna verkefni í samstarfi við aðra,
     e.      stjórn Byggðastofnunar verði skipuð af iðnaðarráðherra á ársfundi stofnunarinnar,
     f.      stjórn verði heimilt að fela forstjóra að ákvarða lánveitingar Byggðastofnunar að hluta eða öllu leyti,
     g.      frumkvæði að undirbúningi stefnumótandi byggðaáætlunar verði hjá iðnaðarráðherra,
     h.      Byggðastofnun taki í ríkari mæli upp rannsóknir á sviði byggða- og atvinnuþróunar og auki samstarf við erlenda aðila á starfssviði sínu,
     i.      stofnunin styðji áfram við atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni og vinni að samræmingu og eflingu þeirrar starfsemi,
     j.      stjórn Byggðastofnunar verði heimilt að gera samninga um að fela fjármálastofnunum afgreiðslu og innheimtu lána, sem og aðra fjármálaumsýslu stofnunarinnar,
     k.      stjórn Byggðastofnunar hafi frumkvæði að því að setja af stað verkefni á sviði atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar og leiti eftir samstarfi við aðra um fjármögnun þeirra.
    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að komið verði á beinu stjórnsýslusambandi milli Byggðastofnunar og iðnaðarráðherra. Er þessi tillaga í samræmi við niðurstöðu Ríkisendurskoðunar frá árinu 1996 þegar gerð var stjórnsýsluendurskoðun á Byggðastofnun. Taldi Ríkisendurskoðun eðlilegt að breytingar á stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar yrðu teknar til athugunar þannig að stjórnsýslusambandi yrði komið á milli ráðherra og stofnunarinnar. Sú breyting sem hér er lögð til á stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar felur í sér að iðnaðarráðherra fari með yfirstjórn Byggðastofnunar en að stofnunin og stjórn hennar beri ábyrgð á sínum störfum gagnvart ráðherra. Með þessu móti gefst kostur á að skjóta ákvörðunum til ráðherra sem æðra stjórnvalds. Er þetta í samræmi við hið almenna fyrirkomulag í íslenskri stjórnsýslu.
    Í frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp sú nýbreytni að haldinn verði ársfundur Byggðastofnunar og fari hann fram fyrir 1. júlí ár hvert. Með þessu fyrirkomulagi verður til nýr vettvangur til að fjalla um byggðamál og uppbyggingu atvinnulífs og nýsköpunar á landsbyggðinni. Á ársfundi gæfist jafnframt kostur á að fjalla um stefnu stjórnvalda í byggða- og atvinnumálum og aðgerðir sem að því lúta. Í frumvarpinu er lagt til að í reglugerð um Byggðastofnun verði nánar kveðið á um ársfundi. Í reglugerð þarf m.a. að kveða á um það hverjir eigi rétt til setu á slíkum fundum. Mikilvægt er að á ársfundi mæti fulltrúar sem víðast að úr samfélaginu, svo sem sveitarstjórnarmenn, atvinnuráðgjafar, fulltrúar Alþingis og ráðuneyta, fulltrúar stofnana og stoðkerfis atvinnulífsins. Einnig mætti nefna fulltrúa einstakra atvinnugreina sem sérstaklega varða atvinnulíf og búsetu fólks á landsbyggðinni. Það að halda sérstakan ársfund er leið til að halda uppi opinni og faglegri umræðu um byggða- og atvinnumál.
    Lagt er til að horfið verði frá þeirri skipan mála að Alþingi kjósi sjö menn í stjórn Byggðastofnunar að afloknum þingkosningum. Þess í stað skipi iðnaðarráðherra sjö manna stjórn Byggðastofnunar á ársfundi sem halda skal fyrir 1. júlí ár hvert. Einnig er lagt til að iðnaðarráðherra skipi formann og varaformann stjórnar.
    Í frumvarpinu er lögð meiri áhersla á að Byggðastofnun stundi rannsóknir á atvinnu- og byggðaþróun en gert er í gildandi lögum. Jafnframt er lagt til að Byggðastofnun taki þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á starfssviði hennar í þeim löndum þar sem aðstæður eru svipaðar og hérlendis, t.d. í Noregi, Skotlandi, Írlandi og austurströnd Kanada. Hér má einnig nefna norrænt samstarf og rannsóknaráætlanir Evrópusambandsins en Ísland er aðili að mörgum slíkum áætlunum á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Á undanförnum árum hefur aukinn hluti af fé Byggðastofnunar runnið til atvinnuþróunarfélaga og atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni. Nefndin telur að hér hafi verið um skynsamlega þróun að ræða. Er lagt til að þessi þáttur í starfsemi stofnunarinnar haldi áfram og verði jafnvel efldur. Telur nefndin að Byggðastofnun geti haft veigamiklu hlutverki að gegna varðandi samhæfingu atvinnuráðgjafar. Í því sambandi má nefna atvinnuvegabundna ráðgjafarstarfsemi, t.d. í landbúnaði og ferðaþjónustu. Þá telur nefndin að Byggðastofnun geti gegnt veigamiklu hlutverki á sviði fræðslu og endurmenntunar þeirra sem starfa við atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni.
    Í frumvarpinu er lögð áhersla á að Byggðastofnun hafi frumkvæði að uppbyggingu atvinnulífs og nýsköpunar á landsbyggðinni. Er gert ráð fyrir að stofnunin komi af stað verkefnum er miði að því að auka fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Byggðastofnun hafi frumkvæði að því að hrinda slíkum verkefnum í framkvæmd og að leita eftir samstarfi við aðra um fjármögnun. Eru þessar breytingar m.a. í samræmi við þær áherslur sem fram koma í 1. og 2. tölul. þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001.
    Á undanförnum árum hafa af og til komið upp umræður um það hvort rétt sé að Byggðastofnun reki lánastarfsemi. Hefur m.a. verið vísað til þeirra breytinga sem orðið hafa á fjármagnsmarkaði á síðustu árum og betra aðgengis að lánsfé. Nefndin hefur rætt þessi mál við ýmsa er starfa að atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á landsbyggðinni. Voru flestir viðmælendur nefndarinnar þeirrar skoðunar að lánastarfsemi Byggðastofnunar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki á landsbyggðinni. Stofnunin hafi í gegnum árin byggt upp mikla þekkingu á starfsemi fyrirtækja á landsbyggðinni og því mikilvægt að þeirri þekkingu verði viðhaldið, m.a. með lánastarfseminni. Telur nefndin eðlilegt að lánastarfsemi stofnunarinnar haldi áfram a.m.k. fyrst um sinn og er það í samræmi við það sem fram kemur í 2. tölul. áðurnefndrar þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001. Skv. 10. tölul. 4. gr. og 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að stjórn Byggðastofnunar setji reglur um lánveitingar stofnunarinnar og geti m.a. falið forstjóra að ákveða lánveitingar. Með þessu ákvæði er opnað fyrir þann möguleika að stjórnin geti falið forstjóra að taka ákvarðanir um lánveitingar samkvæmt reglum sem stjórnin setur þar sem m.a. yrðu ákvæði um upplýsingagjöf til stjórnar svo að hún geti sinnt eftirlitsskyldu sinni. Slíkt fyrirkomulag gæti stuðlað að hraðari afgreiðslu lánsumsókna og veitt stjórninni svigrúm til að fjalla meira um aðra þætti í starfsemi stofnunarinnar. Þá er lagt til að stjórn stofnunarinnar geti tekið ákvörðun um að fela fjármálastofnunum afgreiðslu og innheimtu lána sem og aðra fjámálaumsýslu stofnunarinnar. Tilgangurinn með þessari tillögu er að skapa sveigjanleika fyrir Byggðastofnun til að laga rekstur sinn að breyttum aðstæðum.
    Í frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra hafi frumkvæði að gerð stefnumótandi byggðaáætlunar til fjögurra ára sem verði unnin í samvinnu við Byggðastofnun og í samráði við önnur ráðuneyti, sveitarfélög og aðra. Gert er ráð fyrir að iðnaðarráðherra leggi byggðaáætlun fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu. Í frumvarpinu er kveðið á um að byggðaáætlun lýsi markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, fram komi áætlanir um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlanir á sviði opinberrar þjónustu í landinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er kveðið á um stöðu Byggðastofnunar innan stjórnsýslukerfis ríkisins. Tekið skal fram að þrátt fyrir að í lögunum séu ýmis ákvæði er fela í sér ákveðið sjálfstæði stofnunarinnar er litið svo á að hún sé lægra sett stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga. Litið er svo á að Byggðastofnun teljist lánastofnun samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og gilda þau lög um starfsemi stofnunarinnar nema annað sé boðið í frumvarpinu.
    Í greininni er síðan lögð til sú breyting að Byggðastofnun heyri undir iðnaðarráðherra í stað forsætisráðherra. Vísað er til umfjöllunar í almennum athugasemdum um þennan þátt frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild fyrir ráðherra til að ákveða staðsetningu Byggðastofnunar. Frumkvæði að slíkum flutningi skal koma frá stjórn stofnunarinnar. Hér er um opna heimild til handa ráðherra að ræða í þeim skilningi að ákvörðun um staðsetningu er í hans valdi. Ástæðan fyrir þessu ákvæði er dómur Hæstaréttar frá 18. desember 1998 í málinu 213/1998. Þar komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að umhverfisráðherra þyrfti að afla sér lagaheimildar til að flytja Landmælingar Íslands frá Reykjavík til Akraness. Með vísan til þessarar niðurstöðu þykir eðlilegt að í löggjöf um Byggðastofnun sé heimild til handa ráðherra að flytja starfsemi hennar.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er lögð til sú breyting að meginhlutverk Byggðastofnunar verði að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni, en í gildandi lögum er það að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu. Hér er verið að efla frumkvæði Byggðastofnunar til að vinna að fyrrgreindum markmiðum.
    Í 2. mgr. er lögð áhersla á að stofnunin vinni að undirbúningi, skipulagi og fjármögnun verkefna og veitingu lána með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun. Þá er lögð áhersla á samstarf Byggðastofnunar við aðra aðila um fjármögnun verkefna.
    Í 3. mgr. er kveðið á um það hlutverk Byggðastofnunar að fylgist með þróun byggðar í landinu. Í ákvæðinu er lögð aukin áhersla á þá vinnu stofnunarinnar sem fellst í gagnasöfnun og rannsóknum í því skyni að fá betri vitneskju um helstu áhrifaþætti byggðaþróunar og ná þannig betri árangri í starfsemi sinni. Auk þess er kveðið á um að stofnunin skuli skipuleggja og vinna að atvinnuráðgjöf í samráði við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra. Stofnunin geti gert eða látið vinna áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu á landsbyggðinni, eins og verið hefur. Sú breyting er gerð frá eldri lögum að stofnunin geti tekið þátt í gerð svæðisskipulags, sbr. nú 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr.73/1997.

Um 3. gr.

    Lagt er til að horfið verði frá þeirri skipan mála að Alþingi kjósi sjö menn í stjórn Byggðastofnunar að afloknum þingkosningum. Þess í stað skipi iðnaðarráðherra sjö manna stjórn Byggðastofnunar og sjö menn til vara á ársfundi stofnunarinnar sem halda skal fyrir 1. júlí ár hvert. Einnig er lagt til að iðnaðarráðherra skipi formann og varaformann stjórnar. Ráðherra er síðan veitt heimild til þess að kveða nánar um atriði er lúta að ársfundi í reglugerð. Að öðru leyti, og um skýringar á breytingunni, er vísað til umfjöllunar í almennum athugasemdum um stjórnsýslulega stöðu Byggðastofnunar.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um verkefni stjórnar Byggðastofnunar. Gerðar eru tillögur um nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi er lagt til að texti laganna verði einfaldaður og samræmdur. Í öðru lagi er bætt við nýjum efnisatriðum með breyttum áherslum. Í þriðja lagi eru felld út ákvæði sem eru í gildandi lögum. Eftirfarandi eru skýringar við einstaka töluliði:
     1.      Óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
     2.      Lagt er til að stjórn móti stefnu stofnunarinnar varðandi helstu áherslur, verkefni og starfshætti og sjái til þess að henni sé framfylgt. Hér er lögð áhersla á frumkvæði stjórnarinnar og eftirfylgni varðandi helstu málefni stofnunarinnar.
     3.      Ákvæðið er til samræmingar og einföldunar.
     4.      Lagt er til að hér komi nýtt ákvæði þess efnis að stjórn skuli vinna að samstarfi við aðrar stofnanir og sjóði sem starfa að eflingu atvinnulífs. Markmið ákvæðisins er að samhæfa og gera atvinnuráðgjöf og stuðningsaðgerðir markvissari.
     5.      Lagt er til að stjórn fjalli um áætlanir sem stofnunin vinnur að, sem og skýrslur um starfsemi hennar. Þetta ákvæði kemur í stað 4. og 5. tölul. 5. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um að stjórn skuli einungis fjalla um byggðaáætlanir sem gerðar eru á vegum stofnunarinnar eða lagðar fyrir hana til samþykktar. Breytt ákvæði miðar að víðtækara verksviði stjórnar varðandi áætlanir og einnig er ákvæðið til einföldunar og samræmingar lagatexta.
     6.      Í gildandi lögum er ekki ákvæði um að stjórn skuli fjalla um og samþykkja ársreikning stofnunarinnar. Það hefur hins vegar verið gert í framkvæmd og hér er lagt til skýrt lagaákvæði um að slíkt verði gert.
     7.      Óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
     8.      Lagt er til skýrt ákvæði um að stjórn skuli taka ákvarðanir um hlutafjárkaup stofnunarinnar. Þá er stjórn einnig veitt heimild til að eiga aðild að tilteknum félögum. Hér er um almennt og opið ákvæði að ræða og gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð.
     9.      Lagt er til að ákvæði gildandi laga um að stjórn setji reglur um lánakjör stofnunarinnar verði óbreytt, en bætt verði við að stjórn skuli setja reglur um fjármögnun verkefna. Um frekari útskýringar er vísað til umfjöllunar um 10. tölul.
     10.      Samkvæmt gildandi lögum tekur stjórn ákvarðanir um veitingu lána og ábyrgða, svo og um óafturkræf framlög. Lagt er til í frumvarpinu að stjórnin setji reglur um lán- og ábyrgðaveitingar og um upplýsingagjöf til stjórnar um þau efni. Með þessu er stjórn veitt svigrúm til þess að fela starfsmönnum stofnunarinnar ákveðið vald um að ákveða einstakar lán- og ábyrgðaveitingar samkvæmt reglum sem stjórn setur. Slíkar reglur geta t.d. varðað áhættustig útlána, þ.e. að starfsmönnum sé heimilt að ákveða einstakar lánveitingar undir tiltekinni áhættu. Gert er ráð fyrir að stjórn ákveði í reglum verkferli við afgreiðslu verkefna og lánsumsóknar, þ.e. hvernig skuli fara með greiningu og undirbúning þeirra. Þá er lagt til að stjórn setji reglur um upplýsingagjöf til sín um þessi efni.
     11.      Í ljósi þess að lögð er til breyting á stjórnskipulegri stöðu Byggðastofnunar skv. 1. og 3. gr. er hér lagt til það nýmæli að stjórn stofnunarinnar skuli annast önnur verkefni sem iðnaðarráðherra felur stjórn að vinna á sviði byggða- og atvinnumála.

Um 5. gr.

    Lagt er til að iðnaðarráðherra skipi forstjóra til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar. Breyting þessi helgast af breyttu skipulagi stofnunarinnar.

Um 6. gr.

    Til samræmis við breytingar sem gerðar eru frá gildandi lögum í 4. gr. frumvarpsins um verksvið stjórnar eru lagðar til nokkrar breytingar frá gildandi lögum varðandi verkefni forstjóra Byggðastofnunar. Hér er þó ekki um að ræða efnislegar breytingar á verkefnum forstjóra. Eftirfarandi eru skýringar við einstaka töluliði:
     1.      Óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
     2.      Hér eru lagðar til breytingar frá gildandi lögum til einföldunar og samræmingar á lagatexta. Lagt er til að á einum stað sé kveðið á um hvaða tillögur forstjóri skuli gera til stjórnar. Hér er um að ræða atriði sem forstjóri skal hafa frumkvæði að og leggja fyrir stjórn. Töluliðurinn felur í sér 2., 3. og 5. tölul. 7. gr. gildandi laga auk nýrra atriða sem leiðir af öðrum ákvæðum frumvarpsins.
     3.      Óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.
     4.      Til samræmis við 11. tölul. 4. gr. frumvarpsins er lagt til að undir verksvið forstjóra falli önnur verkefni sem honum eru falin af stjórn.

Um 7. gr.

    Í 7. gr. er fjallað um byggðaáætlun. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að Byggðastofnun geri tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn og að ráðherra leggi tillöguna fyrir Alþingi til afgreiðslu. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að frumkvæði að gerð byggðaáætlunar verði hjá iðnaðarráðherra. Áætlunin á að lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu.
    Þá er í 2. mgr. lagt til að fellt verði út ákvæði um að í forsendum áætlunarinnar geri Byggðastofnun grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í einstökum landshlutum og markmiðum sem æskileg eru talin og þjóðfélagslega hagkvæmt að stefna að í þróun byggðar landsins í heild. Þess í stað verði kveðið á um að í byggðaáætlun skuli gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu í heild. Um þessa breytingu er vísað til athugasemda við 2. gr.
    Í 3. mgr. er lögð er til sú breyting að í stað þess að Byggðastofnun hafi samráð við ráðuneyti og aðra aðila við gerð áætlunarinnar vinni iðnaðarráðherra áætlunina í samvinnu við Byggðastofnun að höfðu samráð við önnur ráðuneyti, sveitarfélög og aðra aðila eftir þörfum. Þessa breytingu leiðir af breytingum skv. 1. og 3. gr. um breytta stjórnsýslulega stöðu Byggðastofnunar.
    Lagt er til að niður falli ákvæði sem er í gildandi lögum um að Byggðastofnun geri einnig svæðisbundnar byggðaáætlanir í samráði við sveitarfélög, atvinnuþróunarfélög og aðra aðila er málið varðar. Breytingin kemur m.a. til vegna þess að í 2. gr. eru almenn ákvæði um gerð áætlana og að stofnunin geti tekið þátt í gerð svæðisskipulags skv. 12. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þá er í 4. gr. kveðið á um að stjórn geti tekið ákvarðanir um starfsemi stofnunarinnar, þar á meðal um áætlanir. Loks getur Byggðastofnun gert samninga við atvinnuþróunarfélög og aðra aðila um gerð byggðaáætlana um einstaka landshluta.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er fjallað um rannsóknir á atvinnu- og byggðaþróun. Í samræmi við 2. gr. eru hér ákvæði um að Byggðastofnun vinni að gagnasöfnun og rannsóknum og fylgist með byggðaþróun, helstu áhrifaþáttum hennar og árangri opinberra stuðningsaðgerða á sviði atvinnumála og byggðaþróunar, jafnt á Íslandi sem í löndum þar sem svipaðar aðstæður eru, t.d. í Noregi, Skotlandi, Írlandi og á austurströnd Kanada. Einnig eru ákvæði um að stofnunin geti tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og gert samninga við háskóla, rannsóknarstofnanir og aðra aðila um rannsóknir á þessu sviði. Með þessum ákvæðum er lögð áhersla á rannsóknarstarfsemi stofnunarinnar og að hún fylgist með þróun í byggða- og atvinnumálum. Þá er lögð áhersla á samstarf við erlenda aðila sem er nýmæli í lögum. Helgast það m.a. af auknu alþjóðlegu samstarfi og skal í því sambandi einkum nefna EES-samninginn og norrænt samstarf.

Um 9. gr.

    Hér er fjallað um atvinnuráðgjöf. Um er að ræða breytingu frá gildandi lögum, einkum til einföldunar og samræmingar. Lagt er til að Byggðastofnun skipuleggi og vinni að ráðgjöf við atvinnulífið á landsbyggðinni í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, stofnanir, sveitarfélög og aðra. Byggðastofnun skuli í samstarfi við þá aðila sem sinna atvinnuráðgjöf vinna að bættu skipulagi atvinnuráðgjafar og bættri þekkingu ráðgjafa, m.a. í því skyni að gera ráðgjöfina markvissa og stuðla þannig að sem bestri nýtingu þeirra fjármuna sem varið er til ráðgjafar. Atvinnuráðgjöf er nú að nokkru leyti atvinnuvegatengd. Má þar m.a. nefna ráðgjafarstarf í landbúnaði og ferðaþjónustu. Ákvæðinu er ætlað að auka samhæfingu og samstarf á þessum vettvangi.
    Lagt er til í 3. mgr. að Byggðastofnun geti gert samninga við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög, sjálfstætt starfandi ráðgjafa eða aðra um að annast atvinnuráðgjöf á tilteknu sviði, atvinnugrein eða landsvæði. Með þessu er lögð áhersla á að stofnunin geri samninga við atvinnuþróunarfélög um atvinnuráðgjöf og er það í samræmi við það sem stofnunin hefur unnið að. Að auki er lögð til sú nýjung að stofnunin geti gert samninga við sjálfstætt starfandi ráðgjafa um einstök ráðgjafarverkefni. Með þessu er lögð áhersla á að stofnunin hagnýti þjónustu sjálfstætt starfandi ráðgjafa sem eru víða á landsbyggðinni.

Um 10. gr.

    Í greininni er fjallað um fjármögnun verkefna. Gert er ráð fyrir að Byggðastofnun geti veitt fé til verkefna á sviði atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar. Hér er um að ræða óafturkræf framlög til verkefna en ekki rekstrarstyrki. Það er hlutverk stjórnar stofnunarinnar að ákveða verkefnin og að leita eftir samstarfsaðilum um þau. Við umfjöllun um einstök verkefni getur stjórnin í samvinnu við samstarfsaðila sett á fót verkefnanefndir til ráðgjafar. Ákvörðunarvald um val verkefna til fjármögnunar er þó ætíð hjá stjórn. Skipan verkefnanefnda er háð ákvörðun stjórnar hverju sinni. Einnig er gert ráð fyrir að stjórninni sé heimilt að fela atvinnuþróunarfélögum úthlutun fjár til einstakra verkefna samkvæmt nánari reglum sem stjórnin setur.

Um 11. gr.

    Hér er fjallað um veitingu lána og ábyrgða. Lagt er til að ákvæði í gildandi lögum um afstýringu neyðarástands verði ekki tekið beint upp í frumvarpið. Telja verður að heimildir Byggðastofnunar til slíks felist í almennum heimildum stofnunarinnar um fjármögnun verkefna.
    Í 2. mgr. er lagt til að stjórn stofnunarinnar geti falið forstjóra að ákveða einstakar lánveitingar samkvæmt reglum sem stjórn sjóðsins setur, sbr. 10. tölul. 4. gr. Markmið þessarar heimildar er einkum að auka skilvirkni í afgreiðslu erinda viðskiptavina stofnunarinnar og að stjórn þurfi ekki að fjalla um öll slík erindi hversu umfangsmikil sem þau eru.
    Í 3. mgr. er kveðið á um þá skyldu að reikningslegur aðskilnaður sé á milli lánastarfsemi stofnunarinnar og annarrar starfsemi og að fjárhagslegt markmið lánastarfsemi samkvæmt greininni skulu vera að viðhalda eigin fé. Er þetta í samræmi við 2. tölul. þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 þar sem kemur fram að lánastarfsemi Byggðastofnunar verði rekin á arðsemisgrundvelli. Aðskilnaður lánastarfseminnar í bókhaldi er nauðsynlegur til að stuðla að því markmiði.
    Í 4. mgr. er opnað fyrir heimild stjórnarinnar að semja við fjármálastofnanir um afgreiðslu og innheimtu lána, sem og aðra fjármálaumsýslu stofnunarinnar.

Um 12. gr.

    Í greininni er fjallað um heimildir Byggðastofnunar til að taka þátt í fjármögnun áhættusamra verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar. Hér er um að ræða sérstakan þátt í starfsemi stofnunarinnar sem er ætlað að lúta reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar. Þessi starfsemi skal einkum fjármögnuð með framlögum úr ríkissjóði.

Um 13. gr.

    Greinin fjallar um upplýsingar sem Byggðastofnun skal veita um starfsemi sína að eigin frumkvæði.

Um 14. gr

    Hér er fjallað um tekjur Byggðastofnunar. Lagt til að 1. tölul. 17. gr. gildandi laga falli niður. Eignir Byggðasjóðs hafa runnið inn í Byggðastofnun og því er óþarfi að telja þær upp.

Um 15. gr.

    Í greininni er fjallað um lántöku Byggðastofnunar. Lagt er til að ekki verði tekið upp í frumvarpið ákvæði gildandi laga um að ráðstöfunarfé stofnunarinnar skuli vera a.m.k. 0,5 af hundraði þjóðarframleiðslu. Ákvæðið hefur ekki raunhæfa þýðingu og nægilegt er að slíkar heimildir séu innan fjárlaga hverju sinni.

Um 16. gr.

    Greinin fjallar um vörslu fjár Byggðastofnunar. Lögð er til sú breyting frá gildandi lögum að auk þess sem handbært fé Byggðastofnunar skuli geyma í bönkum eða sparisjóðum verði opnað fyrir þá heimild að handbært fé megi einnig geyma í tryggum verðbréfum. Þessi breyting kemur m.a. til vegna breytinga og þróunar á íslenskum fjármálamarkaði.

Um 17. gr.

    Lagt er til að Byggðastofnun verði einungis undanþegin opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs en ekki sveitarsjóða og annarra stofnana eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Ekki þykir eðlilegt að undanþiggja Byggðastofnun sérstaklega frá gjöldum sveitarfélaga og annarra aðila.

Um 18. gr.

    Ákvæðið er samhljóða gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.

    Ákvæðið er samhljóða gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 20. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Lagt er til að iðnaðarráðherra skipi stjórn Byggðastofnunar við gildistöku laganna og jafnframt formann og varaformann stjórnar og ákveði þóknun stjórnar fram að fyrsta ársfundi Byggðastofnunar sem halda skuli fyrir 1. júlí 2000.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Byggðastofnun.

    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný lög um Byggðastofnun og eldri lög falli úr gildi. Samhliða er lagt til að Byggðastofnun færist frá forsætisráðuneyti og heyri undir iðnaðarráðherra. Þá eru gerðar ýmsar breytingar í þeim tilgangi að fella störf stofnunarinnar að öðru nýskipunar- og atvinnuþróunarstarfi. Loks eru lagðar til breytingar á stjórnsýslu Byggðastofnunar og kveðið á um að iðnaðarráðherra ákveði staðsetningu stofnunarinnar að fenginni tillögu stjórnar.
    Ekki verður séð að ákvæði um breytingar á stjórnsýslu og að iðnaðarráðherra ákveði staðsetningu stofnunarinnar hafi áhrif á útgjöld ríkisins þar sem engin ákvörðun liggur fyrir um að flytja stofnunina. Gert er ráð fyrir að kostnaður við 12. gr. laganna verði innan núverandi fjárheimilda stofnunarinnar.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem nú er, verði það óbreytt að lögum.