Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 268  —  225. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Það telst til verkfalla í skilningi laga þessara þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Meðan kjarasamningar eru í gildi ríkir svokölluð friðarskylda. Í friðarskyldunni felst að aðilar mega ekki á samningstímabilinu knýja fram breytingar á því sem um hefur verið samið með vinnustöðvun, þ.e. verkfalli eða verkbanni. Almennt hefur verið talið að friðarskyldan hvíli bæði á aðilum kjarasamnings og þeim sem bundnir eru af ráðningarsamningum sem styðjast við kjarasamninginn. Meginsjónarmiðið um að samninga beri að virða liggur til grundvallar friðarskyldunni en kjarasamningum er ekki síst ætlað að skapa starfsfrið á samn ingstímanum.
    Á síðustu árum hefur það ítrekað gerst að fjöldi starfsmanna í sömu starfsstétt hjá hinu opinbera hefur sagt störfum sínum lausum á sama eða svipuðum tíma vegna óánægju með launakjör. Umræddum uppsögnum hafa ávallt fylgt viðræður milli starfsmanna og hlutaðeig andi aðila hjá hinu opinbera.Viðræðunum hefur ætíð lyktað með einhvers konar samkomulagi eða samningi um launahækkanir til starfsmanna sem þá hafa dregið uppsagnir sínar til baka eða sótt aftur um fyrri störf.
    Í nýlegum dómi Félagsdóms (mál nr. 7/1999) var til úrlausnar hvort uppsagnir fjölda opinberra starfsmanna í sömu starfsstétt á sama tíma hjá sveitarfélaginu Árborg fælu í sér brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamnings. Í forsendum dómsins sagði: „Í 4. gr. laga nr. 75/1996, sem breyttu lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, segir svo: „Vinnu stöðvanir í skilningi laga þessara eru verkbönn atvinnurekenda og verkföll þegar launamenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sam eiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launamanna sem jafna má til vinnustöðvunar.“ Engin sambærileg breyting hefur verið gerð á ákvæðum laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þrátt fyrir að gögn málsins beri með sér að um fjöldauppsagnir hafi verið að ræða hjá leikskólakennurum í Ár borg verður þeim uppsögnum, án skýrra lagaákvæða, ekki jafnað til aðgerða sem jafna megi til vinnustöðvunar og brots á friðarskyldu.“
    Dómurinn hafnaði þannig þeirri lögskýringu að almenn ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur tækju til opinberra starfsmanna hvað þetta varðar. Niðurstaða dómsins kallar á að ákvæðum laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna verði breytt að þessu leyti til samræmis við ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur, enda standa engin rök til þess að aðrar reglur gildi um friðarskyldu opinberra starfsmanna.
    Lagt er til að nýrri málsgrein verði bætt við 14. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Sú málsgrein verði efnislega samhljóða 19. gr. laga um stéttarfélög og vinnu deilur, nr. 80/1938, sbr. 4. gr. laga. nr. 75/1996. Orðalagið er ekki alveg eins þar sem ólíkt ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur gera lögin um kjarasamninga opinberra starfs manna ekki ráð fyrir vinnustöðvun af hálfu vinnuveitenda.
    Áréttað skal að með orðalagi 2. málsl. málsgreinarinnar, þ.e. um aðrar sambærilegar að gerðir starfsmanna er jafna má til verkfalla, er m.a. átt við fjöldauppsagnir starfsmanna. Sama skilning er að finna í lögskýringargögnum með fyrrnefndri 19. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Í upphaflegum texta að frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/1995 var lagt til að 19. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur mundi hljóða svo: „Vinnustöðvanir í skilningi laga þessara eru verkbönn atvinnurekenda og verkföll þegar launamenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um fjöldauppsagnir og aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launa manna sem jafna má til vinnustöðvunar.“ Í nefndaráliti meiri hluta félagsmálanefndar var lögð til sú breyting að felld yrði brott tilvísun til fjöldauppsagna. Þá sagði að með því væri þó ekki lagt til að fjöldauppsögnum yrði aldrei unnt að jafna til vinnustöðvunar, enda gætu slíkar uppsagnir fallið undir aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launa manna sem jafna mætti til vinnustöðvunar. Þetta sjónarmið var ítrekað í ummælum framsögu manns fyrir áliti meiri hluta félagsmálanefndar um frumvarpið.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986,
um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði nánari ákvæði um aðgerðir sem jafna megi til verkfalla í lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ekki er talið að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.