Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 271  —  226. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 66/1995.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhann Ársælsson.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og foreldra“ í 4. mgr. kemur: foreldra og nemenda.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Nemendur kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa til setu á skólanefndarfundum þegar fjall að er um skipulag skólastarfsins og önnur mál sem með beinum hætti snerta hagsmuni nemenda í viðkomandi skóla.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tveir fulltrúar nemenda, eða nemendaráðs þar sem það er starfandi, eiga rétt til setu á kennarafundum með málfrelsi og tillögurétt þegar fjallað er um skipulag skólastarfsins og önnur þau mál sem með beinum hætti snerta hagsmuni nemenda.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samningurinn um réttindi barna, oftast nefndur barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, var undirritaður fyrir Íslands hönd 26. janúar 1990 og með samþykkt þingsályktunar á Alþingi 13. maí 1992 var ríkisstjórninni heimilað að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd. Það var gert hinn 28. október sama ár. Með fullgildingu barnasáttmálans skuldbinda íslensk yfirvöld sig til að tryggja íslenskum börnum öll þau réttindi sem þeim eru tryggð í sáttmálanum.
    Í 12. gr. samningsins segir: „Aðildarríki skulu tryggja barni sem getur myndað eigin skoð anir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.“
    Flest börn dvelja stóran hluta dagsins í skóla og viðurkennt er að skólinn hefur mikil áhrif á uppeldi og félagsmótun barna og ungmenna. Fyrir mörg börn er skólinn bæði leik- og vinnustaður. Því er mikilvægt að börn og unglingar eigi þess kost að setja með formlegum og skipulegum hætti fram skoðanir sínar og álit á skipulagi vinnunnar, aðstöðu nemenda og vinnubrögðum á þessum mikilvæga vinnu- og leikstað sínum.
    Í núgildandi lögum um grunnskóla er hlutur foreldra við stjórn grunnskólans og möguleik ar til að hafa áhrif á störf hans auknir frá því sem var og er það vel. En í þeim sömu lögum er skertur réttur nemenda til að geta formlega komið á framfæri skoðunum sínum um skipu lag skólastarfsins eða annað sem hefur bein áhrif á aðstæður nemenda í skólanum.
    Í grunnskólalögum, nr. 49/1991, var gert ráð fyrir því að fulltrúi nemenda eða nemenda ráðs ætti „rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs, svo og á kennarafundum, með málfrelsi og tillögurétti, þegar rætt er um skipulag skólastarfsins“. Við setningu núgildandi laga var þetta ákvæði fellt út með eftirfarandi rökstuðningi í greinargerð: „Rétt þykir að hafa það í valdi hvers skóla hvernig formlegri aðild nemenda að stjórn skólans er fyrir komið.“ Í ljósi ákvæða barnasáttmálans um að börnum skuli tryggður réttur til að láta í ljósi skoðanir á öllum málum sem þau varða þykir rétt að ákvæði séu í grunnskólalögum þess efnis að börn in eigi þennan rétt án tillits til aðstæðna í viðkomandi skóla.
    Í grunnskólalögum, nr. 49/1991, var einnig ákvæði um skólaráð sem skipað skyldi fulltrú um starfsfólks skóla, foreldra og nemenda. Skólum var þó heimilt að sækja um undanþágu frá þessu ákvæði og fámenni nefnt sem gild ástæða. Ákvæði þess efnis í núgildandi lögum að skólastjóri skuli a.m.k. tvisvar á ári boða til sameiginlegs fundar kennararáðs, foreldraráðs og nemendaráðs til að veita upplýsingar um skólastarfið og til að fjalla um starfsemi þessara ráða er e.t.v. sambærilegt við ákvæði eldri laga um skólaráð.
    Í eldri lögum var ekki ákvæði þess efnis að fulltrúar nemenda ættu rétt til setu á skóla nefndarfundum þegar fjallað væri um málefni sem snerta hagsmuni nemenda sérstaklega.
    Með barnasáttmálanum er börnum veittur réttur til að láta í ljós skoðanir sínar um öll mál sem snerta þau sjálf. Til að tryggja betur en nú er formlegan farveg fyrir nemendur grunn skólans til að láta í ljós skoðun sína á málefnum innan skólans, málefnum sem snerta þá sjálfa, er gerð tillaga um þessar breytingar á lögum um grunnskólann.
    Frumvarp þetta var flutt á 122. og 123. löggjafarþingi en varð ekki útrætt og er því endur flutt nú.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að nemendum sé bætt við í upptalningu 4. mgr. 13. gr. laganna á þeim sem rétt eiga til setu á fundum skólanefndar þegar fjallað er um skipulag skólastarfsins eða önnur bein hagsmunamál nemenda.
    Í ljósi þeirra verkefna sem skólanefnd eru falin þykir eðlilegt að nemendur eigi rétt til setu á fundum skólanefnda með málfrelsi og tillögurétti þegar skólanefnd fjallar um málefni sem snerta nemendur í viðkomandi skóla sérstaklega en í sumum skólahverfum eru fleiri en einn skóli. Skólanefnd staðfestir m.a. áætlun um starfstíma nemenda ár hvert og fylgist með námi og kennslu, skólanefnd getur gert tillögur til skólastjóra um umbætur í skólastarfi og skóla nefnd fylgist með og stuðlar að því að jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar aðbúnaður, þar með talin útivistar- og leiksvæði nemenda. Allt eru þetta verkefni sem eðlilegt er að nemendur fái að láta í ljós skoðun á þegar um þau er fjallað.
    Ný málsgrein sem lagt er til að bætist við 13. gr. laganna fjallar um fyrirkomulag kosninga á fulltrúum nemenda til setu á skólanefndarfundum. Rétt þykir að nemendur kjósi fulltrúa beint úr sínum hópi þar sem einungis er heimilt en ekki skylt samkvæmt núgildandi lögum að stofna nemendaráð. Einnig þykir rétt að fulltrúar nemenda séu tveir svo þeir hafi stuðning hvor af öðrum. Með því yrði tekið tillit til veikrar stöðu barna gagnvart hinum fullorðnu.

Um 2. gr.


    Ný 2. mgr. er felld inn í 17. gr. Með málsgreininni er gert ráð fyrir því að nemendur, eða nemendaráð, eigi tvo fulltrúa á kennarafundum. Þetta er stutt sömu rökum og sett eru fram fyrir tveimur fulltrúum nemenda í skólanefnd, þ.e. að þeir styrki hvor annan vegna veikrar stöðu barna gagnvart hinum fullorðnu.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.