Ferill 231. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 278  —  231. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson.



1. gr.

    Fyrri málsliður 16. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Í 16. grein laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins segir að sjóðurinn skuli vera undanþeginn fasteignagjöldum af fasteignum sem sjóðurinn eignist og að öll skjöl viðvíkjandi lánum sem sjóðurinn taki skuli undanþegin stimpilgjöldum. Í frumvarpinu er lagt til að fyrri málsliður greinarinnar falli brott þannig að undanþága sjóðsins frá greiðslu fasteignagjalda verði afnumin.
    Við setningu laganna var ákveðið að Þróunarsjóðurinn fengi heimild til að leysa til sín og eignast fiskvinnsluhúsnæði. Reynslan varð sú að sjóðurinn eignaðist ekki mjög mörg hús og var sett vinnuregla um að almennt skyldi sjóðurinn ekki kaupa hús nema ljóst væri að hann gæti selt þau aftur til annarra nota en fiskvinnslu. Tilgangur undanþágureglu fyrri málsliðar 16. gr. var að þar sem engin starfsemi færi fram í fasteignunum á meðan þær væru í eigu sjóðsins væri eðlilegt að þær nytu undanþágu frá fasteignagjöldum og að um leið og þeim væri ráðstafað af sjóðnum til annarra nota yrðu fasteignagjöld lögð á að nýju. Því virðist hafa verið gert ráð fyrir að eignarhald Þróunarsjóðs væri ávallt til skamms tíma.
    Um nokkurra ára skeið hefur Þróunarsjóður sjávarútvegsins átt húsnæði á tveimur stöðum á landinu, á Patreksfirði og Ísafirði. Vegna undanþágu fyrri málsliðar 16. gr. laganna hefur sjóðurinn ekki þurft að greiða fasteignagjöld til viðkomandi sveitarfélaga frá því að hann eignaðist húsin. Telja verður óeðlilegt og ekki í samræmi við upphaflegan tilgang fyrri málsliðar 16. gr. laganna að Þróunarsjóður geti átt fasteignir um langt skeið án þess að greiða af þeim lögboðin gjöld til viðkomandi sveitarfélaga.
    Húsin sem hér um ræðir eru stór og myndarleg fiskvinnsluhús og samkvæmt upplýsingum frá Þróunarsjóði er fasteignamat húsanna á Patreksfirði um 40 millj. kr. en á Ísafirði um 140 millj. kr. Þó verður að hafa í huga að fasteignamat sem slíkt myndar ekki hinn eiginlega gjaldstofn, heldur er það útreiknuð stærð húss, en samkvæmt ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga er gjaldstofn skilgreindur sem afskrifað endurstofnverð húsnæðis, margfaldað með markaðsstuðli fasteigna samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Álagningarhlut fall skattsins er síðan breytilegt eftir því hvers konar hús er um að ræða en sveitarfélagi er svo heimilt að hækka álagningu um 25%.
    Samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ voru álagðir fasteignaskattar af húseignum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins á Ísafirði um 2,8 millj. kr. á árinu 1999 en samkvæmt ákvæðum laganna er þó ekki heimilt að innheimta þá. Bæjaryfirvöld og bæjarlögmaður telja að þrátt fyrir undanþágu Þróunarsjóðs frá greiðslu fasteignagjalda beri sjóðnum að greiða þann hluta fasteignagjaldanna sem telst til þjónustugjalda en með þjónustugjöldum er átt við lóðarleigu og holræsa-, vatns- og sorphirðugjald. Ætla má að tekjutap Vesturbyggðar geti af sömu ástæðum numið um 1 millj. kr. á ári.
    Því er ljóst sveitarfélög eins og Ísafjörður og Patreksfjörður verða fyrir töluverðu tekju-tapi vegna þess eins að fasteignir skipta um eigendur og komast í eigu Þróunarsjóðs sjávar útvegsins sem er í eigu ríkisins. Þessi tilhögun styðst ekki við nein frambærileg rök og ef gæta á jafnræðis hlýtur að teljast eðlilegt að Þróunarsjóður sjávarútvegsins greiði fasteigna gjöld eins og aðrir fasteignareigendur í sama sveitarfélagi.