Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 302  —  246. mál.




Beiðni um skýrslu



frá félagsmálaráðherra um kjör forræðislausra foreldra.

Frá Jóhanni Ársælssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur,     Bryndísi Hlöðversdóttur,


Einari Má Sigurðarsyni, Gísla S. Einarssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni,
Guðrúnu Ögmundsdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Kristjáni L. Möller,
Lúðvík Bergvinssyni, Margréti Frímannsdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur,
Sighvati Björgvinssyni, Sigríði Jóhannesdóttur, Svanfríði Jónasdóttur,
Þórunni Sveinbjarnardóttur og Össuri Skarphéðinssyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félagsmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um fjárhag forræðislausra foreldra.
    Í skýrslunni komi fram upplýsingar um eftirtalin atriði:
     1.      hvað forræðislausir foreldrar eru margir;
     2.      hve margir þeirra, skipt eftir fjölda barna, hafa atvinnutekjur á mánuði:
                  a.      undir 100 þús. kr.,
                  b.      100–150 þús. kr.,
                  c.      150–200 þús. kr.,
                  d.      yfir 200 þús. kr.;
     3.      hve margir þeirra, skipt eftir fjölda barna og tekjum, skulda meðlag;
     4.      hverjar ráðstöfunartekjur þeirra árin 1994–99 voru; beðið er um samanburð við aðra þjóðfélagshópa;
     5.      hver árleg eigna- og skuldastaða þeirra árin 1995–99 var; beðið er um samanburð við aðra þjóðfélagshópa;
     6.      hverjar meðalskattgreiðslur forræðislausra foreldra tekjuárin 1997 og 1998 voru og hve margir þeirra voru skattlausir;
     7.      hverjar meðaltekjur þeirra hafa verið árin 1995–99, skipt eftir kyni, og hver meðalhækkun teknanna hefur verið á þeim árum; beðið er um samanburð við tekjur og hækkun hjá öðrum hópum á þessum árum;
     8.      og hvort ráðherra áformar að gera forræðislausum foreldrum sem ekki hafa til þess fjárhagslegt bolmagn betur kleift að sinna uppeldishlutverki sínu og tryggja þannig betur rétt barna til sambands við báða foreldra sína.

Greinargerð.


    Staða forræðislausra foreldra hefur ekki verið könnuð sérstaklega en nýlega var lögð fram á Alþingi skýrsla um kjör einstæðra foreldra, samkvæmt beiðni.
    Nauðsynlegt er að einnig liggi fyrir upplýsingar um efnahagslega og félagslega stöðu forræðislausra foreldra svo að hægt sé að meta möguleika þeirra og getu til að sinna foreldrahlutverki sínu jafnframt möguleikum einstæðra foreldra og aðstöðu til að sinna sínu hlutverki við uppeldi barna.
    Á þessu er þörf svo að ákvarðanir sem hugsanlega verða teknar í ljósi upplýsinga um hagi einstæðra foreldra verði einnig byggðar á þekkingu á getu forræðislausra foreldra til að rækja uppeldisskyldu sína og fjárhagslegan stuðning við börnin. Þess vegna er hér beðið um upplýsingar um svipuð atriði varðandi forræðislausa foreldra og beðið var um í skýrslu um kjör einstæðra foreldra. Vitað er að margir foreldrar án forræðis eiga í fjárhagserfiðleikum og margir þeirra hafa af einhverjum ástæðum ekki getað greitt meðlög með börnum sínum. Einungis 48% þeirra búa í eigin húsnæði en 80% hjóna og sambýlisfólks og 63% einstæðra foreldra búa í eigin húsnæði.
    Mikill kostnaður við ferðalög forræðislausra foreldra og/eða barna þeirra til að rækta samband þeirra kemur stundum í veg fyrir að börn og foreldrar njóti réttar síns til eðlilegs sambands. Fjárhagsleg og félagsleg vandamál foreldra án forræðis hljóta að koma niður á sambandi þeirra við börnin sem eiga rétt á sambandi við báða foreldra sína, leiðsögn þeirra og umhyggju.
    Af framangreindum ástæðum telja skýrslubeiðendur nauðsynlegt að stjórnvöld hafi glögga mynd af aðstæðum foreldra til að rækja uppeldishlutverk sitt og því er þessi beiðni lögð fram.