Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 308  —  251. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55 10. júní 1998, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Um innflutning á sjávarafurðum frá Liechtenstein fer eins og um innflutning slíkra afurða frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.


2. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Fiskistofa heldur skrá yfir þá aðila sem hlotið hafa viðurkenningu, sbr. 3. mgr. 22. gr. Skráin skal vera aðgengileg almenningi.

3. gr.

    Í stað orðsins „ráðuneytisins“ í 1. mgr. 26. gr. laganna kemur: Fiskistofu.

4. gr.

    Á eftir orðinu „framleiðendum“ í 1. mgr. 28. gr. laganna kemur: frystiskipum.

5. gr.

    Í stað orðanna „Til og með 31. desember 1999“ í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: Til og með 30. júní 2001.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum sem lúta að því að samræma íslenska löggjöf skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Samkvæmt þeim á að líta á Liechtenstein sem þriðja ríki varðandi innflutning á sjávarafurðum og taka gjald fyrir eftirlit með sjávarafurðum frá frystiskipum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá er enn fremur lögð til breyting á birtingarhætti á lista yfir framleiðendur og vinnsluskip í þriðju ríkjum sem heimilt er að flytja inn sjávarafurðir frá. Er með því ætlað að koma á skýrari og einfaldari birtingarhætti en nú er bundinn í lögum. Að lokum gerir frumvarpið ráð fyrir að til og með 30. júní 2001 þurfi að leita leyfis fyrir innflutningi lifandi sjávardýra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Liecthenstein hefur ekki tekið upp þær gerðir sem tilheyra viðauka I við EES-samninginn og lúta að innflutningi á sjávarafurðum. Af því leiðir að Liechtenstein hefur stöðu þriðja ríkis í þessu sambandi. Þrátt fyrir að ekki megi búast við að mikið reyni á innflutning á sjávarafurðum frá Liechtenstein verður að telja rétt að afmarka skýrt stöðu ríkisins í þessu sambandi.

Um 2. gr.

    Lagt er til að skrá yfir framleiðendur og vinnsluskip sem hlotið hafa viðurkenningu, sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna, verði framvegis unnin og birt af Fiskistofu. Í dag er gert ráð fyrir að sjávarútvegsráðuneytið haldi þessa skrá og birti hana í Stjórnartíðindum ásamt mánaðarlegum breytingum á henni. Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 97/296, með síðari breytingum, inniheldur skrá yfir þriðju ríki sem hafa leyfi til að flytja inn vörur á markaði Evrópusambandsins til manneldis. Tveir flokkar ríkja eru á skránni. Annars vegar flokkur I, en í þeim flokki eru ríki sem eftirlitsmenn á vegum framkvæmdastjórnarinnar hafa heimsótt og tekið út og sérstaklega hefur verið viðurkennt að ríkin fullnægi öllum heilbrigðisskilyrðum við framleiðslu og eftirlit með framleiðslu sjávarafurða, sbr. tilskipun ráðherraráðsins 91/493. Slík viðurkenning leiðir til þess að heimilt er að flytja inn frá framleiðendum og vinnsluskipum sem viðkomandi ríki viðurkennir og sætir innflutningurinn takmörkuðu eftirliti á landamærastöðvum. Ríkið tilkynnir framkvæmdastjórninni um breytingar á listanum eftir því sem við á. Hins vegar er flokkur II. Í þeim flokki eru ríki sem hafa sent framkvæmdastjórninni upplýsingar um kröfur sem gerðar eru við framleiðslu og eftirlit með framleiðslu sjávarafurða í viðkomandi ríki, sbr. ákvörðun ráðherraráðsins 95/498. Heimilt er að flytja inn sjávarafurðir frá ríkjunum en fullt eftirlit er með innflutningnum á landamærastöðvum. Skráin sem sjávarútvegsráðuneytið hefur haldið er mjög viðamikil. Birting skrárinnar og mánaðarlegra breytinga á henni í Stjórnartíðundum gefur litla yfirsýn yfir þá framleiðendur og vinnsluskip sem heimilt er að flytja inn frá. Þá nægja mánaðarlegar birtingar skrárinnar í raun ekki til að halda skránni í samræmi við skrá Evrópusambandsins um framleiðendur og vinnsluskip sem heimilt er að flytja inn frá. Með því að fela Fiskistofu að halda skrána og birta hana á aðgengilegan hátt, til að mynda á vefsíðu sinni, er tryggt að skráin sé stöðugt uppfærð í heildstæðri mynd. Nauðsynlegt er að skráin sé aðgengileg öllum sem þurfa að leita upplýsinga í henni og má gera ráð fyrir að auk þess að birta hana á netinu geti Fiskistofa látið eintak liggja í afgreiðslu sinni. Fiskistofa verður að auglýsa rækilega á hvern hátt megi nálgast skrána eða upplýsingar úr henni.

Um 3. gr.

    Sú breyting sem hér er lögð til er í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í 2. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Lög nr. 134/1998, um breytingu á lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, fólu m.a. í sér að orðin „verksmiðjuskipum og frystiskipum“ í 1. mgr. 28. gr. féllu niður og í staðinn kom „og vinnsluskipum“. Þetta þýðir að Fiskistofa hefur ekki heimild til að taka gjald fyrir eftirlit með frystiskipum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins en afli þeirra þarf að fara um landamærastöðvar, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Þetta er ekki í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins 85/73, eins og henni var breytt með tilskipun 96/43, er gert ráð fyrir að innheimt sé gjald vegna eftirlits með frystiskipum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Tilskipanirnar eru í viðauka I við EES-samninginn og hefur Ísland skuldbundið sig til að framfylgja þeim. Er því lagt til að frystiskip falli undir greinina á ný.

Um 5. gr.

    Með 3. gr. laga nr. 134/1998, um breytingu á lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, var gildistími bráðabirgðaákvæðis laganna framlengdur til 31. desember 1999. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að þeim lögum er forsaga bráðabirgðaákvæðisins rakin. Þá kemur einnig fram að með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 17. júlí 1998 hafi Ísland yfirtekið tilskipanir ráðherraráðsins 91/496 um eftirlit með heilbrigði lifandi dýra og dýraafurða frá þriðju ríkjum og 90/425 um eftirlit með heilbrigði dýra og dýraafurða frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins að því er varðar humar, lúðuseiði, barrahrogn, hrogn og svil Atlantshafslax, regnbogasilungs og bleikju. Samkvæmt ákvörðuninni hafi átt að endurskoða ákvæðið fyrir 1. júlí 1998. Í ljósi væntanlegrar endurskoðunar og þar sem embætti yfirdýralæknis hefði lýst yfir áhyggjum sínum vegna takmarkaðra möguleika til eftirlits með innflutningi á framangreindum tegundum væri lagt til að framlengja gildistíma ákvæðisins um eitt ár. Nú liggja fyrir drög sameiginlegu EES-nefndarinnar að breyttum texta að því er þetta varðar og eru drögin til meðferðar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Í drögunum er gert ráð fyrir að gildissvið gerðanna að því er Ísland varðar haldist óbreytt til og með 30. júní 2001. Eftir það taki Ísland gerðirnar yfir varðandi alla lifandi fiska sem falla undir þær. Það þýðir að fram til 2001 eiga áðurtaldar tegundir að vera í frjálsu flæði á Evrópska efnahagssvæðinu en eftir 2001 allar tegundir lifandi fiska sem undir gerðirnar falla. Núgildandi bráðbirgðaákvæði fellur úr gildi 31. desember 1999. Nú er leitast við að fá samþykkta viðbótarvernd, í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins þar um, gegn innflutningi á lifandi fiski frá stöðvum þar sem tilteknir fisksjúkdómum finnast. Þar sem ákvörðun hefur ekki verið tekin um það hvort að Ísland fái slíka viðbótarvernd samþykkta þykir rétt að leggja til að núgildandi bráðabirgðákvæði verði framlengt.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55 10. júní 1998, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að færa íslenska löggjöf til samræmis við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í frumvarpinu er lagt til að skrá yfir framleiðendur og vinnsluskip sem hlotið hafa viðurkenningu, sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna, verði framvegis unnin og birt af Fiskistofu. Samkvæmt núgildandi lögum hefur sjávarútvegsráðuneytið haldið þessa skrá og birt í Stjórnartíðindum ásamt mánaðarlegum breytingum. Hefur kostnaður við birtinguna verið 1–1,5 m.kr. á ári. Í frumvarpinu er kveðið á um að skráin skuli eftir sem áður aðgengileg almenningi.
    Frumvarpið felur einnig í sér heimild Fiskistofu til aukinnar gjaldtöku fyrir eftirlit með afla við löndun frystiskipa utan Evrópska efnahagssvæðisins. Lög nr. 134/1998, um breytingu á lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, fólu m.a. í sér að orðin „verksmiðjuskipum og frystiskipum“ í 1. mgr. 28. gr. féllu brott og í staðinn kom „og vinnsluskipum“. Þannig hefur Fiskistofa ekki haft heimild til að taka gjald fyrir eftirlit með frystiskipum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins en afli þeirra þarf að fara um landamærastöðvar, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Það er ekki í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Afli skipa sem fara um landamærastöðvarnar er að mestu úr frystiskipum og má ætla að gjaldið skili 6–10 m.kr. í ríkissjóð á ári hverju.