Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 317  —  25. mál.



                                  

Nefndarálit



um frv. til l. um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti, Guðjón Rúnarsson og Sigríði Ásthildi Andersen frá Verslunarráði Íslands, Sigurð Hafstein frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Sveinbjörn Hafliðason frá Seðlabanka Íslands, Tómas Sigurðsson frá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Finn Sveinbjörnsson frá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Pál Gunnar Pálsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu og Jón Arnalds frá Samtökum fjárfesta. Umsagnir um málið bárust frá Fjárfestingabanka atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sparisjóða, Verslunarráði Íslands, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands og Samtökum fjárfesta.
    Með frumvarpinu er lagt til að Tryggingarsjóður viðskiptabanka, innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða og nýtt tryggingakerfi fyrir fjárfesta renni saman í einn sjóð, Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn starfi í tveimur sjálfstæðum deildum, innstæðudeild og verðbréfadeild, og verði heimilt að lána fé milli deildanna að vissu marki. Heildareign innstæðudeildar sjóðsins nemi ávallt a.m.k. 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum, en eignir verðbréfadeildarinnar skuli vera a.m.k. 100 millj. kr. Með samrunanum yrði til einn heildstæður tryggingarsjóður sem verndar innstæðueigendur og viðskiptavini lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu gegn greiðsluerfiðleikum þessara fyrirtækja. Helstu rök að baki slíkum samruna eru að banka- og verðbréfastarfsemi er orðin mjög samofin. Þá er hagstætt út frá tryggingarfræðilegu sjónarmiði að stækka sjóðinn og dreifa áhættu auk þess sem rekstrarkostnaður yrði minni. Frumvarpið er samið í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 97/9/EC, sem kveður á um samræmdar reglur um lágmarksvernd fyrir fjárfesta sem eiga kröfu á hendur fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir í tengslum við viðskipti með verðbréf gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu :
     1.      Lagt er til að í 4. gr. komi fram að viðskiptaráðherra tilnefni fulltrúa innstæðueigenda og fjárfesta sem áheyrnaraðila með málfrelsi og tillögurétt í stjórn sjóðsins, til að þeir geti fylgst með störfum hans. Er eðlilegast að slíkur fulltrúi komi frá Samtökum fjárfesta. Þá er lagt til að bætt verði við 5. mgr. 4. gr. ákvæði þess efnis að stjórn sjóðsins skuli á a.m.k. tveggja ára fresti gera ráðherra grein fyrir afstöðu sinni til lágmarkseignar sjóðsins. Með því verði tryggt að stjórn sjóðsins fari reglulega yfir hvort lágmarkseign sjóðsins sé nægileg. Við þá skoðun er eðlilegt að stjórnin líti m.a. til þeirrar áhættu sem í starfsemi aðildarfyrirtækja felst og skoði eignir sambærilegra sjóða á EES-svæðinu.
     2.      Lagt er til að bætt verði við 6. gr. nánari lýsingu á því hvernig staðið skuli að ábyrgðaryfirlýsingum viðskiptabanka og sparisjóða. Þessi ákvæði eru öll í núgildandi reglugerð um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og tilhögun á greiðslum úr tryggingasjóðum innlánsstofnana, nr. 21/1997. Þá er lagt til að í varúðarskyni verði bætt við ákvæði um að viðskiptabönkum og sparisjóðum sé skylt að veita sjóðnum upplýsingar um innstæður samkvæmt greininni.
     3.      Lagt er til að bætt verði við 7. gr. nánari lýsingu á því hvernig staðið skuli að ábyrgðaryfirlýsingum aðildarfyrirtækja og hvernig staðið skuli að greiðslum nýrra aðildarfyrirtækja. Þá er lagt til að lágmarksfjárhæð deildarinnar verði aðeins breytt með lögum. Lagt er til að kveðið verði á um árlegt lágmarksgjald, 50 þús. kr., sem hvert aðildarfyrirtæki skuli inna af hendi á meðan heildareign deildarinnar nær ekki tilskildu lágmarki. Þá er gert ráð fyrir að árleg greiðsla taki að hluta mið af hlut aðildarfyrirtækis í samanlagðri fjárhæð verðbréfaviðskipta aðildarfyrirtækja á næstliðnu ári við þá viðskiptavini sem tryggðir eru, í stað þess að miða við fjölda stöðugilda í tengslum við viðskipti með verðbréf. Kom það sjónarmið fram við meðferð málsins í nefndinni að ekki væri hægt að kveða á óyggjandi hátt á um síðarnefnda gjaldstofninn í lögum. Lagt er til að bætt verði við ákvæðum um hvernig reikna skuli út hlut aðildarfyrirtækis í samanlögðum fjölda viðskiptareikninga í tengslum við viðskipti með verðbréf. Í stað þess að fjórðungur af lágmarkseign skuli vera í verðbréfum eða reiðufé þegar vátrygging er keypt er lagt til að fimmtungur skuli vera í verðbréfum eða reiðufé. Það jafngildir 20 millj. kr., eða eins árs framlagi aðildarfyrirtækja til deildarinnar. Þá er lagt til að í varúðarskyni verði bætt við ákvæði um að viðskiptabönkum og sparisjóðum sé skylt að veita sjóðnum upplýsingar um innstæður skv. 7. gr.
     4.      Lagt er til að 8. gr. verði breytt á þá leið að unnt verði að beita aðildarfyrirtæki sem ekki sinna skyldum sínum gagnvart sjóðnum dagsektum og síðan afturkalla starfsleyfi þeirra ef sektirnar skila ekki tilætluðum árangri.
     5.      Loks er lagt til að breyting verði gerð á 1. mgr. 20. gr. Verði með því tryggt að sú túlkun komi ekki til álita að Tryggingarsjóður sparisjóða verði í heild sinni lagður niður um áramótin.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Pétur H. Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.
    Leggja Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson til að tjón einstaklinga vegna tryggðra innstæðna verði alltaf bætt að fullu. Þá leggja þau til að annar stjórnarmanna sem ráðherra tilnefnir skuli koma úr röðum fjárfesta eða innstæðueigenda. Telja þau eðlilegast að sá fulltrúi komi úr röðum Neytendasamtakanna eða Samtaka fjárfesta.
    Fyrirvari Péturs H. Blöndal lýtur að því að hann telur ekki rétt að stofna sérstaka verðbréfadeild í sjóðnum. Litlar sem engar líkur séu á að þær kringumstæður komi upp að greiða þurfi úr þeirri deild, auk þess sem starfsábyrgðartrygging samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti mundi verða virk við sömu kringumstæður. Leggur hann því til að sjóðurinn tryggi einungis innstæður í viðskiptabönkum og sparisjóðum. Ef í ljós kemur að kröfur tilskipana Evrópusambandsins um lágmarksvernd fyrir fjárfesta verða ekki uppfylltar með núgildandi reglum um starfsábyrgðartryggingu verðbréfafyrirtækja leggur hann til að ráðherra endurskoði gildandi reglugerð þar að lútandi og sjái til þess að svo verði. Þá leggur hann til að innstæðueigendur fái fulltrúa í stjórn sjóðsins.

Alþingi, 6. des. 1999.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Gunnar Birgisson.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Hjálmar Árnason.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


                             

Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.