Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 318  —  25. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



     1.      Við 4. gr.
       a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem verði 3. málsl., svohljóðandi: Viðskiptaráðherra tilnefnir jafnframt fulltrúa innstæðueigenda og fjárfesta sem áheyrnaraðila með málfrelsi og tillögurétt í stjórn sjóðsins og skal hann uppfylla sömu kröfur og stjórnarmenn.
       b.      Framan við 5. mgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórn sjóðsins skal á tveggja ára fresti, eða oftar ef ástæða þykir til, gera ráðherra grein fyrir afstöðu sinni til lágmarkseignar sjóðsins skv. 6. og 7. gr.
     2.      Við 6. gr. Greinin orðist svo:
             Heildareign innstæðudeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Nái heildareign ekki lágmarki skv. 1. málsl. skulu allir viðskiptabankar og sparisjóðir greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins sem nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári, sbr. þó viðmiðunarmörk skv. 1. málsl.
             Nái heildareign deildarinnar samt ekki tilskildu lágmarki skal hver viðskiptabanki og sparisjóður leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu. Í yfirlýsingunni skal hver viðskiptabanki og sparisjóður ábyrgjast að hann muni inna af hendi sérstaka greiðslu til deildarinnar þegar henni ber að endurgreiða innstæður skv. III. kafla í einhverjum viðskiptabanka eða sparisjóði sem aðild á að sjóðnum.
             Ábyrgðaryfirlýsingin skal hljóða upp á sama hlutfall þeirrar fjárhæðar er vantar á lágmarkið og nemur hlutfalli tryggðra innstæðna hlutaðeigandi af samanlögðum tryggðum innstæðum. Kröfur um innborgun í deildina á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga geta þó ekki verið hærri á ári hverju en sem nemur einum tíunda af lágmarksstærð sjóðsins. Viðskiptabönkum og sparisjóðum er skylt að greiða til sjóðsins þegar hann krefst þess og framangreindar aðstæður eru fyrir hendi.
             Nýr viðskiptabanki eða sparisjóður skal greiða sérstaklega til deildarinnar 1. mars ár hvert frá því að hann hefur starfsemi hér á landi 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári þar til lágmarki skv. 1. mgr. er náð. Auk þess leggur hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður fram ábyrgðaryfirlýsingu sem stjórn sjóðsins metur gilda fyrir mismun á greiðslu til sjóðsins og lágmarki skv. 1. málsl. 1. mgr.
             Greiðslur til deildarinnar eru óendurkræfar. Viðskiptabönkum og sparisjóðum er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um innstæður samkvæmt þessari grein.
     3.      Við 7. gr. Greinin orðist svo:
              Heildareign verðbréfadeildar sjóðsins skal að lágmarki nema 100 millj. kr.
             Nái heildareign sjóðsins ekki lágmarki skv. 1. mgr. skulu aðildarfyrirtæki greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins sem nemur samtals 20 millj. kr., þar til sjóðurinn hefur náð tilskilinni lágmarksstærð. Hvert aðildarfyrirtæki skal greiða lágmarksgjald að fjárhæð 50.000 kr. Árleg greiðsla að frádregnu lágmarksgjaldi skiptist í tvo jafna hluta eftir eftirfarandi gjaldstofnum:
                  1.      Hlut aðildarfyrirtækis í samanlagðri fjárhæð verðbréfaviðskipta aðildarfyrirtækja á næstliðnu ári við þá viðskiptavini sem tryggðir eru skv. 9. gr.
                  2.      Hlut aðildarfyrirtækis í samanlögðum fjölda viðskiptareikninga hjá aðildarfyrirtækjum í tengslum við viðskipti með verðbréf. Leggja skal saman fjölda viðskiptareikninga skv. c-lið 1. tölul. og a- og b-lið 2. tölul. 8. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Viðskiptareikningar skv. c-lið 1. tölul. og a-lið 2. tölul. hafa tvöfalt vægi í samtölu. Viðskiptareikningar með hærri inneign en 1,7 millj. kr. miðað við gengi evru (EUR) 5. janúar 1999 hafa einnig tvöfalt vægi í samtölu.
             Nái heildareign deildarinnar samt ekki tilskildu lágmarki skal hvert aðildarfyrirtæki leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu. Í yfirlýsingunni skal hvert aðildarfyrirtæki ábyrgjast að það muni inna af hendi sérstaka greiðslu til deildarinnar þegar henni ber að endurgreiða verðbréf eða reiðufé skv. III. kafla í einhverju fyrirtæki sem aðild á að sjóðnum.
             Ábyrgðaryfirlýsingin skal hljóða upp á sama hlutfall þeirrar fjárhæðar er vantar á lágmarkið og nemur hlutfalli greiðslna aðildarfyrirtækis af samanlögðum greiðslum allra aðildarfyrirtækja við fyrstu greiðslu eftir að ljóst er að heildareign deildarinnar nær ekki tilskildu lágmarki. Kröfur um innborgun í deildina á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga geta á ári hverju þó ekki verið hærri en sem nemur einum fimmta af lágmarksstærð sjóðsins. Aðildarfyrirtækjum er skylt að greiða til sjóðsins þegar hann krefst þess og framangreindar aðstæður eru fyrir hendi.
             Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er stjórn sjóðsins heimilt að kaupa vátryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi á Evrópska efnahagssvæðinu til að tryggja sig gegn tjóni. Kaupi sjóðurinn vátryggingu skal þó í það minnsta fimmtungur af lágmarksstærð deildarinnar skv. 1. mgr. vera í verðbréfum eða reiðufé.
             Nýtt aðildarfyrirtæki sem nýtir sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti skal greiða sérstaklega til deildarinnar 1. mars ár hvert í fimm ár frá því að það hefur starfsemi hér á landi. Greiðslan skal nema því hlutfalli af 20 millj. kr. sem nemur hlutfalli þess í gjaldstofnum skv. 2. mgr. Greiðslan skal innt af hendi í fyrsta sinn fullu ári eftir upphaf starfseminnar. Auk þess leggur hlutaðeigandi fyrirtæki fram ábyrgðaryfirlýsingu sem jafngildir fjórfaldri greiðslu fyrsta ársins.
             Greiðslur til deildarinnar eru óendurkræfar. Aðildarfyrirtækjum er skylt að veita sjóðnum upplýsingar samkvæmt þessari grein.
     4.      Við 8. gr. Greinin orðist svo:
             Nú uppfyllir aðildarfyrirtæki ekki skyldur sínar gagnvart sjóðnum samkvæmt lögum þessum og reglugerð og skal þá stjórn hans tilkynna það ráðherra og Fjármálaeftirlitinu án tafar. Ráðherra veitir hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki þá allt að þriggja mánaða frest til úrbóta að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. Hafi aðildarfyrirtækið ekki uppfyllt skyldur sínar að þeim fresti liðnum getur stjórn sjóðsins, að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins, lagt dagsektir á fyrirtækið. Greiðast þær þangað til aðildarfyrirtækið hefur uppfyllt skyldur sínar gagnvart sjóðnum. Sektirnar geta numið 50–500 þús. kr. á dag.
             Hafi aðildarfyrirtæki ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart sjóðnum innan eins mánaðar frá álagningu dagsekta getur ráðherra tilkynnt því að hann hyggist afturkalla starfsleyfi þess hafi fyrirtækið ekki uppfyllt skyldur sínar að tólf mánuðum liðnum.
             Nú rennur frestur skv. 2. mgr. út án þess að hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki hafi uppfyllt skyldur sínar gagnvart sjóðnum og getur þá ráðherra afturkallað starfsleyfi þess að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. Skuldbindingar sem stofnað er til áður en frestur skv. 1. og 2. mgr. rennur út skulu njóta tryggingaverndar í samræmi við ákvæði III. kafla.
             Nú rennur frestur skv. 1. og 2. mgr. út þegar um er að ræða útibú aðildarfyrirtækis með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og getur stjórn sjóðsins þá tilkynnt útibúinu að hún hyggist útiloka það frá sjóðnum hafi það ekki uppfyllt skyldur sínar að tólf mánuðum liðnum. Ef frestur skv. 1. málsl. rennur út án þess að útibúið hafi uppfyllt skyldur sínar getur sjóðurinn útilokað það frá aðild að sjóðnum að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. Skuldbindingar sem stofnað er til áður en frestur samkvæmt þessari málsgrein rennur út skulu njóta tryggingaverndar í samræmi við ákvæði III. kafla.
             Ákvæði 1.–3. mgr. eiga einnig við um útibú aðildarfyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     5.      Við 20. gr. Í stað síðari málsliðar 1. mgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sjóðurinn yfirtekur þá eignir og skuldir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og innstæðudeildar Tryggingarsjóðs sparisjóða. Tryggingarsjóður viðskiptabanka og innstæðudeild Tryggingarsjóðs sparisjóða verða hvor tveggja lögð niður frá sama tíma.