Ferill 255. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 321  —  255. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir,


Katrín Fjeldsted, Drífa Hjartardóttir, Ásta Möller, Lára Margrét Ragnarsdóttir.



1. gr.

     Við 2. tölul. 1. mgr. 102. gr. laganna bætist svohljóðandi málsliður: Ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa á meðan hjónaband stóð, skulu þó ekki falla utan skipta.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp til laga um lífeyrisréttindi hjóna var lagt fram á 112., 113., 115., 116. og 117. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Það var sama efnis og þetta frumvarp, að ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa í hjúskap, skuli teljast hjúskapareign þeirra og koma því jafnt til skipta verði slit á fjárfélagi hjónanna, en frumvarp þetta var áður flutt á 118., 120., 121. og 123. löggjafarþingi.
    Ný hjúskaparlög tóku gildi 1. júlí 1993 og er því lagt til að mælt verði fyrir um þetta atriði þar. Samkvæmt hjúskaparlögunum er eign hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars, sbr. 54. gr., og er þar m.a. átt við persónuleg réttindi að svo miklu leyti sem það brýtur ekki í bága við þær sérreglur sem um þau réttindi gilda, sbr. 57. gr. laganna. Um fjárskipti þessara réttinda eru ákvæði í 102. gr. en þar eru taldar upp þær hjúskapareignir sem geta fallið utan skipta að kröfu maka. Í frumvarpi þessu er lagt til að ellilífeyrisréttindi verði ekki talin þar með, þau séu hjúskapareign sem geti ekki fallið utan skipta.
    Eins og nú háttar til eru ellilífeyrisréttindi beinlínis tengd þeirri persónu sem aflað hefur tekna og greitt af þeim iðgjald, enda þótt önnur eignamyndun af tekjum hjóna teljist hjúskapareign þeirra og henni sé skipt við slit hjúskapar. Eðlilegt er að litið sé á öflun ellilífeyrisréttinda sem eignamyndun sem aðilar hafa stuðlað að með ákveðinni verkaskiptingu.
    Það verður að teljast réttlætismál að litið sé á þessa eignamyndun sem sameiginlega eign hjóna. Auk þess hefur þetta þann kost að tekjuöflun hjóna hefur ekki áhrif á myndun ellilífeyrisréttinda þeirra, þ.e. að ekki skiptir máli hvernig hjón hafa valið að skipta með sér störfum og tekjuöflun heimilisins.
    Samkvæmt lögum eru allir landsmenn, sem starfa á almennum vinnumarkaði, skyldaðir til þess að vera aðilar að lífeyrissjóði. Slík aðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins hefur það í för með sér, með iðgjaldagreiðslum fólks í sjóðina í áratugi, að þar myndast raunverulega mesta eign viðkomandi einstaklinga á langri starfsævi. Þessi eign er skilyrt og felur í sér verðmætan tryggingarrétt að starfsævi lokinni. Því er sjálfsagt og eðlilegt að hjón líti á þennan rétt sem sameiginlegan rétt eins og aðrar eignir.
    Eins og fram hefur komið hefur frumvarp um þetta efni verið lagt fram áður. Oft hafa umræður og umsagnir um málið þó snúist meira um aðra þætti, eins og fjölmargar aðrar greiðslur frá lífeyrissjóðum en sjálfan ellilífeyrisréttinn sem kannski vonlegt er. Kemur þar einkum til skráning á greiðslum og áunnum réttindum í viðkomandi lífeyrissjóði sem nú tengjast einvörðungu þeirri persónu sem iðgjöld til viðkomandi lífeyrissjóðs eru greidd fyrir, svo og sá viðbótarréttur sem ávinnst við inngreiðslu, þ.e. örorkulífeyrir og barnalífeyrir. Þá er réttur til töku ellilífeyris mismunandi hjá lífeyrissjóðum. Hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er t.d. um að ræða svokallaða 95 ára reglu (þ.e. samanlagður aldur og starfsaldur), tengingu lífeyris við launaflokk viðkomandi, svo og niðurfellingu iðgjaldagreiðslna eftir 32 ár. Í Lífeyrissjóði sjómanna öðlast menn rétt til ellilífeyris 60 ára hafi þeir stundað sjómennsku í 25 ár. Þá veitir 20–25 ára starf á sjó rétt til ellilífeyristöku frá 61 árs aldri og frá 62 ára aldri eftir 15–20 ára starf á sjó.
    Hér eru nefnd fáein dæmi um það flókna kerfi sem lífeyrissjóðir hafa komið sér upp, en fjölmörg dæmi væri einnig hægt að nefna þar sem löggjafinn hefur gripið inn í eða ákvarðanir eru teknar af stjórnum sjóðanna samkvæmt reglugerð.
    Flutningsmenn gera sér fulla grein fyrir þeim vanda sem stjórnir fjölmargra lífeyrissjóða stæðu frammi fyrir væri ætlunin með frumvarpi þessu að rétturinn yrði allur sá sami hvað hjón varðar, þ.e. áunninn flýtiréttur til töku lífeyris, tímabundnar örorkubætur eða bætur fyrir langtímaörorku. Með frumvarpinu er hins vegar eingöngu gert ráð fyrir að við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skuli áunninn ellilífeyrisréttur greiddur til fyrrverandi maka miðað við inngreiðslur í viðkomandi sjóð á meðan hjúskapur stóð yfir og þá miðað við almennan lífeyrisaldur viðkomandi lífeyrissjóðs án tillits til flýtireglna. Að sjálfsögðu yrði viðkomandi lífeyrissjóður að taka upp skráningu lífeyrisréttinda með tilliti til þess sem að framan greinir. Ætla má að slík skráning yrði starfsmönnum lífeyrissjóða ekki erfið þegar litið er til tölvuvæðingar og mikils samstarfs og upplýsingaflæðis milli lífeyrissjóða í dag.
    Eftir að frumvarp þetta var lagt fram á 121. löggjafarþingi hefur þó nokkuð miðað í þessum efnum. Þannig sendi allsherjarnefnd Alþingis, sem hafði málið til umfjöllunar, frá sér skýrslu (614. mál á 121. löggjafarþingi) þar sem fram kemur að nefndarmenn séu sammála um að nauðsynlegt sé að leysa úr því vandamáli sem upp kemur ef slit verða á fjárfélagi hjóna og aðeins annað þeirra hefur áunnið sér lífeyrisréttindi eða lífeyrisréttindi annars eru mun meiri en hins. Hins vegar taldi nefndin að kanna þyrfti ýmis atriði betur áður en lagabreyting í þessa átt væri afgreidd.
    Á 122. löggjafarþingi voru afgreidd lög frá Alþingi um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Þar er nokkuð komið til móts við efni tillögu þessarar með ákvæði í 14. gr. Í lögunum kemur fram að sjóðfélagi getur á grundvelli samkomulags við maka sinn tekið ákvörðun um, í fyrsta lagi, að ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Í öðru lagi að í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka. Í þriðja lagi að iðgjald vegna hans sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð réttindi fyrir maka hans. Nær slíkt samkomulag eftir því sem við á til ellilífeyrisgreiðslna, verðmætis ellilífeyrisréttinda eða ellilífeyrisréttinda beggja aðilanna og felur í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna réttinda meðan hjúskapur, óvígð sambúð eða staðfest samvist hefur staðið eða stendur.
    Flutningsmenn frumvarpsins telja að með þessum nýmælum í lögum nr. 129/1997 sé stigið skref í rétta átt, en vilja ganga lengra og því er það lagt fram að nýju.