Ferill 256. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 322  —  256. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987, með síðari breytingum.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Guðmundsson,


Sigríður A. Þórðardóttir, Ólafur Örn Haraldsson,


Sturla D. Þorsteinsson.



1. gr.

    Við B-lið 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
    Fella skal niður þungaskatt innheimtan samkvæmt ökumæli (kílómetragjaldi) sem fellur á akstur sérútbúinnar bifreiðar í eigu fatlaðra einstaklinga, sem fá örorkulífeyri eða örorkustyrk. Sama gildir um sérútbúnar bifreiðar foreldra eða framfærenda barna sem fá umönnunargreiðslur.

2. gr.

    Við 3. mgr. A-liðar 7. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Fella skal niður eða endurgreiða þungaskatt af sérútbúnum bifreiðum í eigu fatlaðra einstaklinga sem fá örorkulífeyri eða örorkustyrk. Sama gildir um sérútbúnar bifreiðar foreldra eða framfærenda barna sem fá umönnunargreiðslur.

3. gr.

    Lög þessi öðlist þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 123. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.
    Á vegum Reykjavíkurborgar er rekin ferðaþjónusta fyrir fatlaða samhliða rekstri Strætisvagna Reykjavíkur. Þessi þjónusta hefur mælst vel fyrir en hefur þó þá annmarka að panta þarf far með dags fyrirvara auk þess sem þjónustan er lokuð frá kl. 23.00 til kl. 9.00 á morgnana. Enn fremur reka sameiginlega þessa þjónustu Hafnarfjörður, Bessastaðahreppur og Mosfellsbær annars vegar og hins vegar Kópavogur og Garðabær. Nokkrir fatlaðir einstaklingar, sem áður hafa notið þessarar þjónustu, hafa með ýtrasta sparnaði og ráðdeildarsemi fest kaup á eigin bifreið og þannig létt ákveðnu álagi af ferðaþjónustunni. Í nokkrum tilfellum, þegar um mikið fatlaða einstaklinga er að ræða, hafa þeir þurft að kaupa sér sendiferðabifreið sérinnréttaða með lyftu fyrir hjólastól.
    Það er ljóst að fatlaðir einstaklingar og foreldrar eða framfærendur barna, sem fá umönnunargreiðslur, geta af illri nauðsyn þurft á stærri bifreiðum að halda og velja því í sumum tilfellum dísilbifreiðar í sparnaðarskyni, þrátt fyrir að þær séu oftast dýrari í innkaupum. Sparnaður sem næst með notkun dísilbifreiðar yrði að engu ef þeir sem hér um ræðir þyrftu að greiða þennan skatt. En sem kunnugt er þarf mikinn akstur til að ná sparnaði með rekstri dísilbifreiðar þegar nefndur skattur er greiddur.
    Þessir einstaklingar þurfa að greiða geysiháan þungaskatt af bifreiðum sínum þar sem fjárhæð skattsins miðast við þyngd hvort sem greitt er kílómetragjald samkvæmt ökumæli eða árlegt fastagjald, sbr. lög um fjáröflun til vegagerðar.
    Hér er lagt til að fella niður fyrrnefndan skatt af bifreiðum í eigu þessara einstaklinga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um hvenær og hvernig niðurfellingu þungaskatts skuli háttað. Jafnframt eru sett fram tiltekin skilyrði um það hverjir geti notið niðurfellingarinnar. Eru þau til samræmis við ákvæði laga um félagslega aðstoð þar sem m.a. er fjallað um hverjir eiga rétt á að fá styrk til bifreiðakaupa.

Um 2. gr.


    Lagt er til að fatlaðir einstaklingar sem eiga þungaskattsskyldar bifreiðar á föstu gjaldi eigi sama rétt á niðurfellingu og þeir einstaklingar sem eiga bifreiðar með ökumæli. Er þetta lagt til svo gætt sé jafnræðis, hvort sem gjaldskyldan miðast við fast árgjald eða gjald samkvæmt eknum kílómetrum.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.