Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 325  —  67. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69 10. mars 1995.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Barnaverndarstofu, Stígamótum og umboðsmanni barna.
    Í 6. gr. laga um greiðslur á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, er það skilyrði sett fyrir því að bætur fáist greiddar að brot hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta. Auk þess þarf umsókn um bætur að hafa borist innan tveggja ára frá því að brot var framið. Í erindi umboðsmanns barna til dómsmálaráðherra, dags. 15. september 1997, fór umboðsmaður þess á leit að skilyrði umræddrar greinar yrðu endurskoðuð með tilliti til þess hve illa þau ættu við þegar um kynferðisbrot gegn börnum væri að ræða. Er umrætt erindi tilefni frumvarpsins, en auk þess var höfð hliðsjón af löggjöf annars staðar á Norðurlöndum við samningu þess.
    Í frumvarpinu er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við umrædda grein laganna þar sem fram komi að víkja megi frá skilyrðum greinarinnar þegar veigamikil rök mæla með því. Þótt tilefni frumvarpsins sé að styrkja réttarstöðu barna sem þolenda afbrota kann í fleiri tilvikum að vera ástæða til að víkja frá skilyrðum 6. gr. og er því ekki gert ráð fyrir að heimildin verði bundin við tilvik þar sem börn eru þolendur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Guðrún Ögmundsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Hjálmar Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 6. des. 1999.


Valgerður Sverrisdóttir,


varaform., frsm.


Ásta Möller.


Katrín Fjeldsted.


              

Ólafur Örn Haraldsson.


Helga Guðrún Jónasdóttir.


Gunnar Ingi Gunnarsson.