Ferill 259. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 329  —  259. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um réttarstöðu örorku- og ellilífeyrisþega.

Flm.: Gunnar Ingi Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að:
     a.      bæta stöðu þeirra örorku- og ellilífeyrisþega, sem byggja framfærslu sína að mestu eða öllu leyti á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga, með því að hækka tekjutryggingarhluta lífeyrisgreiðslna almannatrygginga um jafnvirði 1.141 millj. kr. árlega í fjögur ár, frá og með árinu 2000;
     b.      bæta réttarstöðu lífeyrisþega almannatrygginga sem búa í vígðri sambúð með því að fella niður allar tengingar lögbundins lífeyrisréttar þeirra við tekjur maka.
    Breytingin taki gildi 1. janúar 2001.

Greinargerð.


    Á Íslandi munu fyrst og fremst hinir ört vaxandi lífeyrissöfnunarsjóðir starfsgreina tryggja þorra landsmanna ákjósanlegt fyrirkomulag lífeyrismála í náinni framtíð. Þetta gildir bæði um elli- og örorkulífeyri. Áætlað er að á næstu 10–15 árum verði þetta fyrirkomulag fullþróað og þar með muni Ísland skipa sér í hóp þjóða sem eru á toppi heimslistans varðandi lífeyrismál. Hins vegar segir mat á stöðunni nú að nokkur þúsund Íslendinga séu í mismiklum erfiðleikum með lífeyri sinn og að margir hverjir búi raunar við sára fátækt. Þetta fólk er eiginlega statt á milli kerfa og byggir flest afkomu sína að mestu eða öllu leyti á lífeyrisgreiðslum almannatryggingakerfisins, en þar eru hámarksgreiðslur nú um 68 þús. kr. á mánuði. Um er að ræða fólk á ýmsum aldri. Annars vegar eru ellilífeyrisþegar sem hafa skilað þjóðfélaginu drjúgu ævistarfi og lagt í hendur afkomendum sínum undirstöður hins íslenska velferðarkerfis en misst af velferðinni sjálfri. Þessa fólks er oft minnst í hátíðarræðum á tyllidögum, en það hefur gleymst í skipulagi velferðarkerfisins. Hins vegar er um að ræða öryrkja á ýmsum aldri, m.a. ungt fólk sem hefur af ýmsum ástæðum annaðhvort misst heilsu og starfsorku eða aldrei fengið tækifæri til að vera virkir þjóðfélagsþegnar. Meðal þessa unga fólks er að finna fátækustu einstaklinga íslensks þjóðfélags, fólk sem aldrei hefur fengið tækifæri til að spjara sig af eigin rammleik og hefur verið haldið í viðvarandi fátækt með tilheyrandi tjóni á sál og líkama. Hér er því verið að fjalla um mjög alvarlegan ágalla á öryggisneti velferðarkerfisins. Efnahagsástand þjóðarbúsins gefur okkur nú tækifæri til að koma á löngu tímabærum lagfæringum.
    Flutningsmenn leggja því til að tekjutryggingarhluti lífeyrisgreiðslanna hækki sérstaklega um u.þ.b. 50% og deilist hækkunin á fjögur ár. Kostnaðurinn er alls áætlaður um 4.565 millj. kr. og verða því árlegar hækkanir um 1.140 millj. kr. á gildandi verðlagi. Með 50% hækkun á tekjutryggingarhlutanum munu hámarksgreiðslur hækka úr um 68.000 kr. í um 80.500 kr. á mánuði eða um 18,38%, og gerir sú hækkun lítið annað en að bjóða lífeyrisþegunum ámóta kjarabætur og almennir launþegar hafa þegar fengið.
    Almannatryggingakerfið er tryggingakerfi velferðarsamfélags þar sem sérhver einstaklingur kaupir sér grunntryggingu í gegnum skattkerfið. Réttur til lífeyris er einstaklingsbundinn og því getur hið opinbera ekki skert tryggingarrétt neins á grundvelli hjúskaparstöðu. Því er ekki verjandi að tengja réttarstöðu lífeyrisþega tekjum maka hans. Þetta atriði mun vera til meðferðar fyrir dómstólum hér á landi. Í stað þess að lagfæra þessa mannréttindaskerðingu seinna, samkvæmt væntanlegum fyrirmælum dómstóls, ætti Alþingi að ákveða breytingarnar strax. Áætlaður kostnaður við þessa réttarbót er talinn nema um 360 millj. kr. á ári. Hér er lagt til að réttarbótin verði ekki fyrr en 1. janúar 2001 vegna þeirrar miklu undirbúningsvinnu sem breytingin kallar á í bókhaldi Tryggingastofnunar ríkisins.