Ferill 261. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 331  —  261. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133 21. desember 1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Ráðherra getur sett reglur sem skilgreina nánar einstök störf sem falla undir undanþágu skv. 1. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 14. gr. laga nr. 133 21. desember 1994, um atvinnuréttindi útlendinga, eru útlendingar sem gegna tilteknum störfum undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda starfi þeir ekki hér á landi lengur en í fjórar vikur á hverju tólf mánaða tímabili. Ákvæði þessa efnis var nýmæli í lögunum. Meðal þeirra sem undanþágan gildir um eru listamenn. Starf listamanns er hins vegar ekki skilgreint í lagagreininni en í athugasemdum með frumvarpi að lögunum var gert ráð fyrir að hugtakið yrði túlkað rúmt.
    Á þeim tíma sem liðinn er frá setningu laganna hafa orðið verulegar breytingar í þjóðfélaginu. Ljóst er að brýn þörf er m.a. á að skilgreina hugtakið „listamaður“ og að skýra það þá fremur þröngt. Markmið undanþáguheimildar fyrir listamenn var fyrst og fremst að gefa Íslendingum möguleika á að kynnast mismunandi listformi og fá tækifæri til að sjá listamenn hér á landi í sambandi við einstaka viðburði, en ekki að skapa grundvöll fyrir viðvarandi atvinnustarfsemi.
    Nauðsynlegt er að skýr lagaheimild sé til staðar fyrir ráðherra til að tilgreina nánar hvaða störf falli undir undanþágur 14. gr. laganna þar sem þess gerist þörf. Er þá miðað við að undir skilgreiningu á hugtakinu listamaður falli einkum skáld, rithöfundar, tónskáld, myndlistarmenn, hljóðfæraleikarar, hljómsveitarstjórar, hljóðgervingarmenn, söngvarar, leikmyndahönnuðir, þjóðdansarar, ballettdansarar, leikarar, leikstjórar, svo og þátttakendur og starfsmenn við leiksýningar, kvikmyndir, fjölleikahús og sérstaka list- eða menningarviðburði (ljósameistarar, förðunar- og búningameistarar, hljóðmeistarar, klipparar, aðstoðarmenn o.fl.). Gera má ráð fyrir að hér sé ekki um tæmandi skilgreiningu á hugtakinu listamaður að ræða og að fleiri kunni að falla þar undir innan sama ramma og að framan. Um aðra sem ekki falla undir skilgreiningu sem ákveðin yrði í reglugerð gildir þá ekki undanþágan og yrðu þeir því háðir atvinnuleyfi.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um
atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133 21. desember 1994.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra geti sett reglur sem skilgreini nánar einstök störf sem falli undir undanþágu skv. 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/ 1994. Ekki verður séð að frumvarpið auki útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.