Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 333  —  89. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (umhverfisbrot).

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti og Ingimar Sigurðsson frá umhverfisráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Samtökum útivistarfélaga (SAMÚT), umhverfisráðuneyti, ríkissaksóknara, lögreglustjóranum í Reykjavík, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landvernd og Lögmannafélagi Íslands.
    Í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, er ekki tekið á umhverfisbrotum. Refsiákvæði vegna slíkra brota hafa hins vegar að jafnaði verið að finna í sérlögum sem fjalla um umhverfismál. Tilgangurinn með frumvarpinu er eins og fram kemur í greinargerð að auka varnaðaráhrif refsiákvæða í lögum til verndar umhverfi með því að alvarlegustu umhverfisbrotin varði ekki einungis við sérlög heldur einnig við almenn hegningarlög. Þær athugasemdir hafa verið gerðar við frumvarpið að það taki ekki nægjanlega heildstætt á brotum á lögum á sviði umhverfismála og að ákvæði þess gangi ekki nógu langt. Að öðru leyti hafa umsagnaraðilar almennt lýst ánægju sinni með frumvarpið og talið það vera framfaraspor. Nefndin tekur undir það og telur þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu mikilvægan þátt í þeirri viðleitni að bæta umgengni við náttúruna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Lúðvík Bergvinsson og Hjálmar Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. des. 1999.Valgerður Sverrisdóttir,


form., frsm.


Ásta Möller.


Helga Guðrún Jónasdóttir.Ólafur Örn Haraldsson.


Gunnar Ingi Gunnarsson.


Katrín Fjeldsted.Guðrún Ögmundsdóttir.