Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 342  —  265. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sameiningu ríkisbanka áður en þeir verða seldir.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Gunnar Ingi Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna hagkvæmni þess að sameina ríkisbanka áður en til sölu þeirra kemur til að tryggja þjóðinni hámarksarð af eign sinni.

                                  G r e i n a r g e r ð.

    Viðskiptaráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingu á lögum nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Samkvæmt frumvarpinu er stefnt að því að 15% af hlutafé ríkissjóðs í hvorum banka verði seld í lok desember 1999.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að ,,hlutabréf í ríkisbönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármálamarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu“. Þar segir enn fremur: ,,Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum.“
    Flutningsmenn tillögunnar telja víst að ríkisstjórnin vilji standa að sölu þessara eigna í samræmi við stefnuyfirlýsingu sína og því hljóti að teljast eðlilegt að auka verðmæti eignanna áður en þær verða falboðnar.
    Komið hefur fram opinberlega í viðtölum við stjórnendur banka að þeir telji að bankar verði sameinaðir þegar ríkið á ekki lengur meiri hluta. Því er rétt að sameina bankana fyrst til að þjóðin fái hámarksarð af eign sinni.
    Þá hafa enn ekki verið settar reglur um dreifða eignaraðild og því erfitt að sjá fyrir hvernig mál þróast verði einungis ,,tekið mið af markmiðum ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild“ eins og segir orðrétt í frumvarpi viðskiptaráðherra.