Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 346  —  139. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um tannvernd og tannlækningar barna og unglinga á grunnskólaaldri.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hefur verið háttað stuðningi við tannvernd og tannlækningar barna og unglinga á grunnskólaaldri frá 1990:
     a.      í Reykjavík,
     b.      utan Reykjavíkur?


    Tannvernd og tannlækningar barna og unglinga í grunnskólum Reykjavíkur fara að hluta til fram á vegum skólatannlækninga Reykjavíkur á tannlæknastofum í skólum borgarinnar. Munu um 27% grunnskólabarna í Reykjavík nýta þá þjónustu en stærsti hlutinn velur að fara til sjálfstætt starfandi tannlækna.
    Nú starfa 11 tannlæknar í hálfu starfi og tveir í fullu starfi hjá skólatannlækningum Reykjavíkur. Þar að auki starfa þar 18 tanntæknar (aðstoðarkonur) og 5 tannverndarkonur sem annast flúorskolun í öllum bekkjardeildum 6–12 ára. Einn tannfræðingur í hálfu starfi annast fræðslu um tennur og tannvernd í 6, 8, 10, 12 og 15 ára bekkjardeildum í öllum skólum Reykjavíkur. Í 14 skólum er tannlæknastofa og ein er á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur.
    Árið 1990 var 31 skólatannlæknir í 50% starfi á 24 tannlæknastofum í skólum í Reykjavík. Aðstoðarkonur voru 29 og tannverndarkonur sem önnuðust flúorskolun voru sex. Allir nemendur grunnskólanna voru skoðaðir af tannlækni einu sinni til tvisvar á ári. 6–12 ára nemendur fengu flúorskolun hálfsmánaðarlega. Tannlækningar grunnskólanemenda voru þeim að kostnaðarlausu.
    Með breytingu á lögum um almannatryggingar 1992 og 1993 var forráðamönnum gert skylt að greiða hluta tannlækniskostnaðar grunnskólanemenda og jafnframt var sett reglugerð um að sjúkratryggð börn og unglingar, 16 ára og yngri, skyldu hafa einn ábyrgðartannlækni og greiðslur sjúkratrygginga fyrir almennar tannlækningar takmörkuðust við að ábyrgðartannlæknir viðkomandi barns eða unglings hefði unnið tannlæknisverkið. Frá 1. september 1993 varð því sú breyting á starfsemi skólatannlækna í Reykjavík að einungis þeir nemendur sem óskað hafði verið eftir að fengju þjónustu hjá skólatannlækningum Reykjavíkur voru kallaðir inn til skoðunar. Sá tannlæknir sem undirritaði fyrsta reikning til Tryggingastofnunar vegna tannviðgerða einstaklings eftir 1. september 1993 var skráður ábyrgðartannlæknir þess einstaklings, óháð því hvort um bráðahjálp eða fullnaðartannviðgerð var að ræða.
    Utan Reykjavíkur er aðstaða til tannlækninga á 48 stöðum þar sem sjálfstætt starfandi tannlæknar vinna m.a. við tannlæknaþjónustu grunnskólabarna. Á 30 þessara staða starfa þeir í húsnæði hins opinbera og á 25 þeirra staða á hið opinbera tækin. Á 18 stöðum vinna sjálfstætt starfandi tannlæknar með eigin tæki í eigin húsnæði. Þar að auki eru tannlæknastofur fyrir þroskahefta á þremur stöðum á landinu, að Sólheimum, Skálatúni og í Öskjuhlíðarskóla.