Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 368 —  270. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga þessara, sbr. 3.–6. gr., skulu tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 480 m.kr. renna í ríkissjóð á árinu 2000.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2000. Að venju byggist frumvarp til fjárlaga á ákveðnum forsendum um að lögum verði breytt til að markmið þeirra nái fram að ganga.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að afnema þá tilhögun sem fest hafði rætur of víða og fólst í því að framlög og útgjöld til ýmissa viðfangsefna voru bundin í lög, ýmist með eða án sérstakra tekjustofna. Lög nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum, hafa að geyma ákvæði af því tagi. Með slíkum ákvæðum er fjárveitingavald Alþingis í raun fyrir fram bundið þegar að fjárlagagerðinni kemur, en það dregur um leið úr þeim áhrifum sem fjárstjórnarvaldi Alþingis er með fjárlögum ætlað að hafa á hagstjórn ríkisins til að gæta aðhalds í ríkisrekstri og ná jafnvægi í ríkisbúskap. Ákvæði um lögmælt framlög verða því að sæta þeim skerðingum sem markmið fjárlagafrumvarpsins setja, enda þótt þörf fyrir sérstakar aðgerðir sé minni nú en oft áður. Af þeim sökum eru í frumvarpinu lagðar til tímabundnar skerðingar á ráðstöfun hins sérstaka eignarskatts sem kveðið er á um í lögum nr. 83/1989, eins og 23. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, gerir reyndar ráð fyrir. Í ljósi þess hvern áskilnað 1. mgr. 42. gr. stjórnarskrárinnar gerir um efni fjárlaga þykir hins vegar verða að leita eftir heimild til þessara skerðinga í almennum lögum jafnframt.
    Samkvæmt lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, rennur sérstakur eignarskattur, sem lagður er á samkvæmt lögunum, í sérstakan sjóð sem skal varið til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana o.fl. Á árinu 2000 er gert ráð fyrir að tekjur af sérstökum eignarskatti verði 626 m.kr. Hér er lagt til að af þessum tekjum renni 146 m.kr. í ríkissjóð.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 480 m.kr. renni í ríkissjóð á árinu 2000.
    Verði frumvarp þetta að lögum er áætlað að útgjöld ríkissjóðs lækki að öðru óbreyttu um 146 m.kr. miðað við að tekjur af sérstökum eignarskatti nemi 626 m.kr. eins og áætlað er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2000.