Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 373  —  272. mál.
Frumvarp til lagaum jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)I. KAFLI
Markmið og gildissvið laganna.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði. Markmiði þessu skal náð með því að:
     a.      gæta jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins,
     b.      vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu,
     c.      gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf,
     d.      bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu,
     e.      efla fræðslu um jafnréttismál,
     f.      greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni,
     g.      efla rannsóknir í kynjafræðum.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.
2. gr.
Yfirstjórn.

    Félagsmálaráðherra fer með framkvæmd laga þessara nema annars sé sérstaklega getið. Í umboði ráðherra annast Skrifstofa jafnréttismála stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.

3. gr.
Skrifstofa jafnréttismála.

    Ráðherra skipar framkvæmdastjóra Skrifstofu jafnréttismála til fimm ára í senn.
    Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn skrifstofunnar og ræður starfsfólk hennar.
    Verkefni sem Skrifstofa jafnréttismála annast í umboði félagsmálaráðherra eru meðal annars að:
     a.      hafa eftirlit með framkvæmd laganna,
     b.      sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi,
     c.      veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, einstaklingum og félögum ráðgjöf,
     d.      koma ábendingum og tillögum um aðgerðir um jafnréttismál á framfæri við félagsmálaráðherra, Jafnréttisráð og önnur stjórnvöld,
     e.      auka virkni í jafnréttismálum, m.a. með aukinni aðild karla að jafnréttisstarfi,
     f.      fylgjast með þjóðfélagsþróuninni í jafnréttismálum, m.a. með upplýsingaöflun og rannsóknum,
     g.      veita jafnréttisnefndum, jafnréttisráðgjöfum og jafnréttisfulltrúum sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja aðstoð,
     h.      vinna önnur verkefni í samræmi við markmið og gildissvið laganna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
    Opinberum stofnunum, atvinnurekendum og félagasamtökum er skylt að veita Skrifstofu jafnréttismála hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi hennar.

4. gr.
Kærunefnd jafnréttismála.

    Félagsmálaráðherra skipar kærunefnd jafnréttismála. Nefndarmenn skulu skipaðir til þriggja ára í senn. Ráðherra skipar einn án tilnefningar en Hæstiréttur tilnefnir tvo, formann og varaformann nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Nefndarmenn skulu vera lögfræðingar.
    Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka til meðferðar og gefa skriflegt rökstutt álit um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Niðurstöður kærunefndar sæta ekki kæru til æðra stjórnvalds.
    Þegar um er að ræða mál sem ætla má að geti haft stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild skal kærunefnd leita umsagnar frá heildarsamtökum launþega og viðsemjendum þeirra áður en álit er gefið.
    Nú telur kærunefnd jafnréttismála að ákvæði laga þessara séu brotin og skal hún þá beina rökstuddum tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila.
    Aðilar geta lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti.
    Kærunefnd jafnréttismála skal árlega gefa út álit sín.
    Kostnaður við starfsemi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um störf kærunefndar og skrifstofuhald.

5. gr.
Málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála.

    Einstaklingar og félagasamtök, í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna, sem telja að ákvæði laga þessara hafi verið brotin á sér, geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála. Kærunefnd getur enn fremur þegar sérstaklega stendur á tekið mál til meðferðar samkvæmt ábendingum annarra.
    Erindi skulu berast nefndinni skriflega innan eins árs frá því að ætlað brot á lögum þessum lá fyrir eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Sé leitað rökstuðnings á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga tekur fresturinn að líða þegar sá rökstuðningur liggur fyrir. Erindi telst nægjanlega snemma fram komið ef bréf sem hefur það að geyma hefur borist nefndinni eða verið póstlagt áður en fresturinn er liðinn.
    Skrifstofa jafnréttismála getur þegar sérstaklega stendur á óskað eftir að kærunefnd taki erindi til umfjöllunar.
    Málsmeðferð fyrir kærunefndinni skal að jafnaði vera skrifleg en þó getur nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund. Að öðru leyti fer um málsmeðferð hjá nefndinni samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og nánari reglum sem félagsmálaráðherra setur að fengnum tillögum frá nefndinni.

6. gr.
Upplýsingaöflun kærunefndar jafnréttismála.

    Kærunefnd jafnréttismála skal tryggja að aðili máls eigi þess kost að tjá sig um efni máls áður en nefndin veitir álit sitt í því, enda telji nefndin að hvorki afstaða hans né rök fyrir henni liggi fyrir í gögnum málsins.
    Kærunefnd jafnréttismála getur, að kröfu gagnaðila, krafið aðila um gögn sem áhrif geta haft á úrlausn máls, nema hún telji slíkt óþarft eða ónauðsynlegt.
    Kærunefnd jafnréttismála getur krafist frekari gagna frá málsaðilum telji hún málið ekki nægjanlega upplýst.
    Ef lögð eru fyrir kærunefnd gögn sem varða laun, önnur starfskjör eða réttindi einstaklinga skal tilkynna hlutaðeigandi að þessar upplýsingar hafi verið veittar nefndinni. Fara skal með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.

7. gr.
Jafnréttisráð.

    Eftir hverjar alþingiskosningar skipar félagsmálaráðherra sjö manna Jafnréttisráð. Ráðherra skipar formann án tilnefningar, einn nefndarmann tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn tilnefndan af fjármálaráðuneyti, einn tilnefndan af Háskóla Íslands, einn tilnefndan sameiginlega af Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands og einn tilnefndan af Samtökum atvinnulífsins. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Tilnefningaraðilar skulu tilnefna einn karl og eina konu til setu í Jafnréttisráði. Við skipun í ráðið skal þess gætt að hlutfall kynjanna verði sem jafnast.
    Kostnaður við starfsemi ráðsins greiðist úr ríkissjóði. Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um störf Jafnréttisráðs og skrifstofuhald.

8. gr.
Hlutverk Jafnréttisráðs.

    Jafnréttisráð skal stuðla markvisst að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á vinnumarkaðinum.
    Jafnréttisráð er stjórnvöldum til ráðgjafar um jafnréttismál í vinnumarkaðsmálum.


9. gr.
Þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum.

    Félagsmálaráðherra leggur fyrir Alþingi, eigi síðar en ári eftir alþingiskosningar, tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta og Skrifstofu jafnréttismála. Í áætluninni skulu koma fram sundurliðuð framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna sem tengjast jafnréttismálum. Áætlunina skal endurskoða á tveggja ára fresti.
    Samhliða framlagningu tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum og endurskoðun hennar tveimur árum síðar skal félagsmálaráðherra leggja fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála.

10. gr.
Jafnréttisnefndir sveitarfélaga.

    Sveitarstjórnir skulu, að loknum sveitarstjórnarkosningum, skipa 3–5 manna jafnréttisnefndir sem hafi með höndum jafnréttismál innan sveitarfélagsins samkvæmt lögum þessum. Skulu nefndirnar vera ráðgefandi fyrir sveitarstjórnir í málefnum er varða jafnrétti kvenna og karla ásamt því að fylgjast með og hafa frumkvæði að sérstökum aðgerðum til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

11. gr.
Jafnréttisfulltrúar.

    Sérhvert ráðuneyti skal skipa jafnréttisfulltrúa sem fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði ráðuneytisins.

12. gr.
Jafnréttisráðgjafar.

    Félagsmálaráðherra er heimilt að ráða jafnréttisráðgjafa sem vinnur tímabundið að jafnréttismálum á tilteknu sviði og/eða á tilteknu landsvæði.

III. KAFLI
Réttindi og skyldur.
13. gr.
Vinnumarkaður.

    Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.
    Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skulu setja sér jafnréttisáætlun eða kveða sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni. Skal sérstaklega kveðið á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í 14.–17. gr. laga þessara.

14. gr.
Launajafnrétti.

    Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.
    Með launum í lögum þessum er átt við almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, beina og óbeina, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti, sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans.
    Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismunun.
    Með kjörum í lögum þessum er, auk launa, átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár.

15. gr.
Laus störf, starfsþjálfun og endurmenntun.

    Starf sem laust er skal standa opið jafnt konum og körlum.
    Atvinnurekendur skulu tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings annarra starfa.

16. gr.
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs.

    Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa atvinnulífs og fjölskylduaðstæðna starfsmanna, þar með talið að þeim sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.

17. gr.
Kynferðisleg áreitni.

    Atvinnurekendur og skólastjórnendur skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað eða í skólum.
    Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.
    Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.
    Ef yfirmaður eða skólastjórnandi er kærður vegna meintrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að ákvarða um vinnuskilyrði kæranda á meðan rannsókn málsins stendur yfir og skal næsti yfirmaður taka ákvarðanir er varða kæranda.

18. gr.
Auglýsingar.

    Auglýsandi, og sá sem hannar eða birtir auglýsingu, skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.

19. gr.
Menntun og skólastarf.

    Á öllum skólastigum skal veita fræðslu um jafnréttismál, m.a. með því að leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi.
    Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skal leitast við að kynna bæði piltum og stúlkum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf.
    Gæta skal þess sérstaklega að kennslutæki og kennslubækur séu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.
    Efla skal rannsóknir á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi, jafnt fræðilegar grunnrannsóknir sem hagnýtar rannsóknir, og miðla niðurstöðum þeirra markvisst innan skólastarfsins og til fjölmiðla.
    Háskóli Íslands ber ábyrgð á framkvæmd 4. mgr. Að öðru leyti ber menntamálaráðherra ábyrgð á framkvæmd þessarar greinar og skal menntamálaráðuneytið fylgjast með þróun jafnréttismála í skóla- og uppeldisstarfi. Þá skal ráðuneytið fylgjast með að jafnréttis kynja sé gætt í íþrótta- og tómstundastarfi.

20. gr.
Þátttaka í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera.

    Í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar. Skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi nefndir, ráð og stjórnir.

21. gr.
Greining á tölfræðiupplýsingum.

    Í opinberri hagskýrslugerð um einstaklinga og í viðtals- og skoðanakönnunum skal greint á milli kynja við söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og birtingu upplýsinga nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því.

IV. KAFLI
Bann við mismunun á grundvelli kynferðis.
22. gr.
Almennt bann við mismunun.

    Hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil.
    Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ekki ganga gegn lögum þessum. Þá teljast aðgerðir til að auka möguleika kvenna eða karla sérstaklega til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ekki ganga gegn lögum þessum. Sama á við ef nauðsynlegt telst að ráða annað kynið vegna hlutlægra þátta er tengjast starfinu.
    Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar.

23. gr.
Bann við mismunun í kjörum.

    Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis þess.
    Ef leiddar eru líkur að því að kona og karl sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launa eða annarra kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um mun er að ræða, að hann skýrist af öðrum þáttum en kynferði.

24. gr.
Bann við mismunun við ráðningu og í vinnuskilyrðum.

    Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna.
    Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu. Þetta ákvæði gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni. Sama á við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir öðru kyninu.
    Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu, setningu eða skipun í starf, stöðuhækkun, stöðubreytingar, endurmenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

25. gr.
Bann við uppsögnum.

    Atvinnurekanda er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum sökum þess að hann hafi krafist leiðréttingar á grundvelli laga þessara.
    Atvinnurekandi skal jafnframt gæta þess að starfsmaður verði ekki beittur óréttlæti í starfi, svo sem með tilliti til starfsöryggis, starfskjara eða mats á árangri, á grundvelli þess að hafa kært kynferðislega áreitni eða kynjamismunun.
    Ef leiddar eru líkur að því að gengið hafi verið gegn ákvæði þessu skal atvinnurekandi sýna fram á að uppsögn eða meint óréttlæti grundvallist ekki á leiðréttingarkröfu starfsmanns eða kæru um kynferðislega áreitni eða aðra kynjamismunun. Þetta gildir ekki ef uppsögnin á sér stað meira en einu ári eftir að starfsmaðurinn setti fram leiðréttingarkröfu á grundvelli laga þessara.

26. gr.
Menntun.

    Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum er hvers konar mismunun á grundvelli kynferðis óheimil. Skylt er að gæta þessa í námi og kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur.
    Skólastjórnandi skal gæta þess að nemandi sé ekki látinn gjalda þess að hafa kært kynferðislega áreitni eða kynjamismunun.


27. gr.
Bann við afsali réttar.

    Óheimilt er að afsala sér þeim réttindum sem kveðið er á um í lögum þessum.

V. KAFLI
Viðurlög.
28. gr.
Bætur fyrir fjártjón og miska.

    Sá sem af ásettu ráði eða vanrækslu brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Enn fremur má dæma hlutaðeigandi til að greiða þeim sem misgert er við, auk bóta fyrir fjártjón ef því er að skipta, bætur vegna miska.

29. gr.
Sektir.

    Brot gegn 13.–15. gr., 17.–18. gr. og 22.–25. gr. laganna varða sektum sem renna í ríkissjóð.

VI. KAFLI
Önnur ákvæði.
30. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Falla þá jafnframt úr gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, ásamt síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara fær núverandi Jafnréttisráð ný verkefni, sbr. 8. gr., og starfar þar til nýtt Jafnréttisráð hefur verið skipað, sbr. 7. gr.
    Við gildistöku laganna fellur niður umboð núverandi kærunefndar jafnréttismála. Félagsmálaráðherra skal skipa kærunefnd jafnréttismála sem tekur við verkefnum fráfarandi nefndar. Við gildistöku laganna skal ráðherra skipa einn fulltrúa kærunefndar jafnréttismála, án tilnefningar, til þriggja ára. Hæstiréttur skal tilnefna tvo fulltrúa, formann til fjögurra ára og varaformann til tveggja ára. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Félagsmálaráðherra skipaði í júní 1998 nefnd sem falið var að endurskoða núgildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991. Nefndina skipuðu: Árni M. Mathiesen alþingismaður, Elín R. Líndal, formaður Jafnréttisráðs, Elsa S. Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisráðs, og Sigríður Lillý Baldursdóttir, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, sem var formaður nefndarinnar. Starfsmaður nefndarinnar var Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.
    Umboð nefndarinnar til endurskoðunar laganna var rúmt en lögð var áhersla á að hún fengi athugasemdir og hugmyndir sem víðast að. Þá var nefndinni ætlað að skoða sérstaklega frumvörp sem lögð höfðu verið fram á 122. löggjafarþingi til breytinga á lögunum.
    Stjórnarfrumvarp til jafnréttislaga var lagt fram á 123. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Það var tekið til endurskoðunar í félagsmálaráðuneytinu eftir umfjöllun þess á þinginu og hefur það sætt þónokkrum breytingum frá upphaflega frumvarpinu.
    Meginástæðan fyrir endurskoðun laganna var tvíþætt, annars vegar þær breytingar sem orðið hafa í jafnréttismálum, jafnt breytingar á verkefnum og aðferðafræði, frá því að núgildandi lög tóku gildi og hins vegar sú staðreynd að þrátt fyrir lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefur lítið miðað í jafnréttisátt á ýmsum mikilvægum sviðum samfélagsins. Því var auðsætt að við endurskoðunina þurfti bæði að athuga skipan jafnréttismála í stjórnsýslunni og afmörkun þeirra verkefna sem vinna skyldi að.
    Lögð var áhersla á að jafnréttismál þurfa að vera viðfangsefni beggja kynja, enda muni bæði kynin njóta góðs af auknu jafnrétti í samfélaginu. Fram til þessa hafa konur verið mun virkari í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna en undanfarin ár hafa karlar kvatt sér hljóðs og krafist réttar síns á eigin forsendum. Grunntónninn í jafnréttissamfélagi er að konum og körlum séu sköpuð jöfn tækifæri til að nýta krafta sína sjálfum sér og samfélaginu til góða og að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis. Í þessu sambandi er þó mikilvægt að hafa hugfast að sérstakt tillit til kvenna við þungun og barnsburð telst ekki mismunun. Hið sama á við um sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu kvenna eða karla til að koma á jafnrétti kynjanna.
    Við samningu frumvarpsins var sérstaklega hugað að skyldum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist á grundvelli EES-samningsins. Tilskipanir Evrópusambandsins sem eru þegar orðnar hluti samningsins og varða efni frumvarpsins voru sérstaklega skoðaðar við gerð þess. Um er að ræða eftirtaldar tilskipanir: Tilskipun um samræmingu á lögum aðildarríkjanna er varða beitingu meginreglunnar um sömu laun karla og kvenna, nr. 75/117, tilskipun um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkun, sem og varðandi starfskjör, nr. 76/207, tilskipun um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti, nr. 92/85, tilskipun um rammasamning um foreldraorlof, nr. 96/34, sem Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE), Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) og Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC) stóðu að, og tilskipun um sönnunarbyrði í málum er varða mismunun vegna kynferðis, nr. 97/80. Þá hafði nefndin alþjóðlega sáttmála, framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var í Peking 1995 og Norrænu samstarfsáætlunina í jafnréttismálum 1995–2000 til hliðsjónar við gerð frumvarpsins.
    Norðurlönd eru í fararbroddi í jafnréttismálum og samstarf þeirra í málaflokknum hefur verið mikið um langt skeið. Þrátt fyrir samvinnuna er nokkur munur á hvernig tekið hefur verið á jafnréttismálum í þessum löndum. Alls staðar hefur þó verið komið á sérstakri skipan innan stjórnsýslunnar til að fjalla um jafnrétti kynjanna og sett hafa verið sérstök jafnréttislög. Á undanförnum árum hafa flest landanna haft skipan sína og lög til endurskoðunar.
    Uppbygging frumvarpsins er ólík uppbyggingu núgildandi laga. Ákvæði um skipan jafnréttismála í stjórnsýslunni eru sett í sérstakan kafla, um réttindi og skyldur er fjallað í öðrum kafla og bannákvæði eru í sérstökum kafla. Þá er í frumvarpinu sérkafli um viðurlög.
    Helstu nýmæli frumvarps þessa eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að jafnréttismálin heyri áfram undir félagsmálaráðuneytið en sérhvert ráðuneyti skipi jafnréttisfulltrúa sem hafi umsjón með jafnréttismálum á málasviði ráðuneytis síns. Þetta er gert til að styrkja jafnréttisstarf á öllum sviðum samfélagsins, enda varðar jafnrétti kynjanna alla málaflokka ef grannt er skoðað. Ekki er gert ráð fyrir að ráða þurfi nýja starfsmenn í ráðuneytin vegna þessa heldur mætti fela einhverjum núverandi starfsmanna verkefnið.
     2.      Lagt er til að Skrifstofa jafnréttismála, sem samkvæmt núgildandi lögum er skrifstofa Jafnréttisráðs og kærunefndar jafnréttismála, verði sérstök stofnun sem heyri undir félagsmálaráðuneytið og fái skilgreind verkefni. Meginbreytingin sem í þessu felst er að verkefnin sem samkvæmt núgildandi lögum eru á ábyrgð Jafnréttisráðs, sem skipað er fulltrúum hagsmunasamtaka og aðilum vinnumarkaðarins, verða falin stofnun til framkvæmda. Í ljósi þess að undanfarin ár hafa stjórnvöld í síauknum mæli ákveðið eða skuldbundið sig til að sinna ákveðnum verkefnum í jafnréttismálum þykir rétt að leggja til að jafnréttisstofnun stjórnvalda, Skrifstofa jafnréttismála, heyri beint undir ráðuneyti en sé ekki stjórnað af fjölskipaðri nefnd. Samkvæmt frumvarpinu flytjast verkefni Jafnréttisráðs til Skrifstofu jafnréttismála, sem auk þess fær skilgreint eftirlitshlutverk með framkvæmd laganna. Er henni jafnframt sérstaklega ætlað að örva jafnréttisstarf karla. Jafnframt ber að vekja athygli á að hið breytta fyrirkomulag á skipulagi Skrifstofu jafnréttismála kemur ekki í veg fyrir að skrifstofan ásamt Jafnréttisráði og kærunefnd jafnréttismála samnýti starfs- og fundaraðstöðu.
     3.      Jafnréttisráð verði áfram skipað með svipuðum hætti og tíðkast hefur hingað til. Þó er lagt til að fjármálaráðuneytið bætist við sem tilnefningaraðili í ljósi þess hversu stór atvinnurekandi það er. Ástæða þessa er að í frumvarpinu er lagt til afmarkaðra verkefnasvið Jafnréttisráðs sem snýr að jafnréttismálum á vinnumarkaði er verður að teljast mjög mikilvægt verkefni í íslensku samfélagi. Enn fremur er lagt til að Háskóli Íslands tilnefni einn nefndarmanna en Rannsóknarstofa í kynjafræðum hefur á undanförnum árum lagt drjúgt af mörkum í kynjarannsóknum sem hafa skilað mikilsverðum upplýsingum um líf kynjanna í þjóðfélaginu. Þá er lagt til að Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands tilnefni sameiginlega einn aðila. Þessi breyting er einkum gerð í samræmi við breytt hlutverk Jafnréttisráðs í frumvarpinu en þessi tilhögun á sér danska fyrirmynd.
     4.      Í frumvarpinu er lagt til að stjórnendur stofnana eða fyrirtækja þar sem fleiri en 25 manns starfa skuli gera jafnréttisáætlanir sem taki m.a. til launa og almennra starfskjara eða kveði sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni. Ákvæði sem þetta er að finna í lögum annars staðar á Norðurlöndum og hefur sýnt sig að jafnréttisáætlanir eru kjörin leið til að þróa starfsemi stofnana og fyrirtækja í jafnréttisátt.
     5.      Í frumvarpinu er að finna ákvæði um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs er viðfangsefni í norrænni samvinnu, hjá Evrópuráðinu, Evrópusambandinu og hjá Sameinuðu þjóðunum. Með auknum kröfum kvenna um að vera fullgildir þátttakendur í atvinnulífinu og kröfu karla til að fá að njóta fjölskyldulífs hefur jafnréttisumræðan tekið á sig nýja mynd sem gæti skilað okkur í átt til samfélags sem hentar báðum kynjum og tekur tillit til fjölþættra þarfa og langana þegnanna allra.
     6.      Í frumvarpinu er kynferðisleg áreitni skilgreind og skilgreindar ákveðnar skyldur atvinnurekenda og skólastjórnenda til að koma í veg fyrir hana, svo og hvernig staðið skuli að meðferð máls komi slíkt upp á vinnustað eða í skóla.
     7.      Menntamálaráðherra er í frumvarpinu gert að fara með jafnréttismál er varða menntun eins og verið hefur, en auk þess félags- og íþróttastarf. Sérstaklega er kveðið á um rannsóknir í kynjafræðum og er það í fyrsta sinn sem slíkt er gert í lögum. Rannsóknir í kynjafræðum eru rannsóknir á lífi og starfi kynjanna og stöðu þeirra í samfélaginu. Slíkar rannsóknir eru nauðsynlegur grunnur fyrir allt jafnréttisstarf.
     8.      Í frumvarpinu er sérstakt ákvæði um greiningu tölfræðiupplýsinga eftir kynjum. Er þetta gert í ljósi þess hve mikilvægt það er í öllu jafnréttisstarfi að upplýsingar um stöðu kynjanna í samfélaginu séu nákvæmar og aðgengilegar. Á þetta hefur sérstaklega verið bent í samþykktum Sameinuðu þjóðanna og í norrænu samstarfi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að markmið laganna verði að koma á jafnrétti og veita konum og körlum jöfn tækifæri. Jafnframt er það markmið laganna að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði. Framangreind markmið eru í samræmi við mannréttindakafla stjórnarskrárinnar þar sem sérstaklega er kveðið á um að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna.
    Enn fremur er lagt til að lögfestar verði leiðir sem hafa skal til hliðsjónar við að ná markmiðum laganna. Lögð er áhersla á að jafnréttissjónarmiða verði gætt í starfi á öllum sviðum samfélagsins og um leið að unnið verði að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun þess. Konur og karlar hafa um margt ólíkar forsendur og reynslu. Því er talið nauðsynlegt að sjónarmið beggja kynja fái notið sín við stjórnun samfélagsins.
    Jafnrétti kynjanna verður ekki komið á nema bæði konum og körlum verði sköpuð tækifæri til þess að samræma launavinnu og einkalíf, þar á meðal foreldrahlutverkið. Því er lagt til að samræming fjölskyldu- og atvinnulífs verði eitt af meginviðfangsefnum jafnréttisstarfsins. Nauðsynlegt er að tekið sé tillit til þess að bæði konur og karlar eiga börn og er mikilvægt að veita báðum kynjum jafna möguleika til að njóta og axla ábyrgð á uppeldi og umönnun jafnframt því að fá að taka virkan þátt í atvinnulífi.
    Síðustu ár hafa komið fram nýjar áherslur í jafnréttismálum þar sem m.a. er lögð áhersla á að jafnréttismál séu mál samfélagsins í heild en ekki eingöngu sérstakt viðfangsefni kvenna. Þrátt fyrir þessar breyttu áherslur þykir enn nauðsynlegt að leggja sérstaka áherslu á bætta stöðu kvenna enda sýna kannanir og rannsóknir að á þær hallar.
    Á undanförnum árum hefur þekking og reynsla þeirra sem látið hafa sig jafnréttismál varða aukist hraðfara. Mikilvægt er að sérþekking þessi nýtist í jafnréttisstarfi og því er lagt til að fræðsla um jafnréttismál verði efld til að ná markmiði laganna. Nauðsynlegt er að upplýsingum sé miðlað til almennings. Þá er einnig mikilvægt að kynna yfirmönnum og stjórnendum stofnana og fyrirtækja færar leiðir í átt til aukins jafnréttis. Grundvöllur markviss jafnréttisstarfs er að í samfélaginu séu til áreiðanlegar upplýsingar um stöðu kynjanna og því er lagt til að áhersla verði lögð á að greina tölfræðiupplýsingar eftir kynjum. Rannsóknir í kynjafræðum eru einnig mikilvægur grundvöllur fyrir markvissu jafnréttisstarfi og því lagt til að slíkar rannsóknir verði efldar.

Um 2. gr.

    Lagt er til að yfirstjórn jafnréttismála verði áfram í höndum félagsmálaráðherra en aðrir ráðherrar fari með framkvæmd laganna á tilteknum sviðum þegar það er sérstaklega tekið fram. Í samræmi við það er lagt er til að Skrifstofa jafnréttismála annist stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.

Um 3. gr.

    Í frumvarpinu er lagt til að stofnun Skrifstofu jafnréttismála verði lögfest en undanfarin ár hefur skrifstofa Jafnréttisráðs og skrifstofa kærunefndar jafnréttismála skv. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 28/1991 verið starfrækt undir heitinu Skrifstofa jafnréttismála. Þá er lagt til að skrifstofan verði styrkt í sessi og að hún heyri beint undir félagsmálaráðuneytið. Í samræmi við það er lagt til að félagsmálaráðherra skipi framkvæmdastjóra Skrifstofu jafnréttismála sem annist daglega stjórnun og ráði starfsfólk hennar.
    Í 3. mgr. eru tiltekin þau verkefni sem lagt er til að Skrifstofa jafnréttismála annist en upptalningin er þó ekki tæmandi. Nokkur þessara verkefna eru í núgildandi lögum á verksviði Jafnréttisráðs. Skv. 1. tölul. 16. gr. þeirra laga skal Jafnréttisráð vinna að því að efnisákvæðum laganna verði framfylgt. Hér er lögð til nokkur áherslubreyting í a-lið 3. gr. frumvarpsins þar sem fastar er kveðið að orði hvað varðar eftirlitshlutverk skrifstofunnar. B-liður 3. gr. frumvarpsins er efnislega samhljóða 4. tölul. 16. gr. laga nr. 28/1991, en ekki þykir ástæða til að takmarka fræðslu- og upplýsingastarfsemi skrifstofunnar við félagasamtök og almenning eins og þar er gert. C-liður greinarinnar er efnislega samhljóða 3. tölul. 16. gr. laga nr. 28/1991, en lagt er til að ráðgjafarhlutverk skrifstofunnar nái einnig til einstaklinga en ekki einungis til stjórnvalda, stofnana og félaga. Efnisatriði d-, f- og h-liða greinarinnar er að finna í 5. og 7. tölul. 16. gr. gildandi laga, nr. 28/1991.
    Auk þessara verkefna eru Skrifstofu jafnréttismála lögð til ný verkefni. Lagt er til í e-lið greinarinnar að skrifstofan skuli auka virkni í jafnréttismálum, m.a. með aukinni aðild karla að jafnréttisstarfi. Er þetta gert í ljósi breyttra áherslna í umræðu um jafnréttismál á undanförnum árum. Sjónum er nú í auknum mæli beint að stöðu karla og mikilvægi þess að þeir taki sjálfir þátt í að móta samfélag sem grundvallast á jafnrétti sem hentar báðum kynjum. Jafnframt er lagt til í g-lið greinarinnar að Skrifstofa jafnréttismála verði jafnréttisnefndum, jafnréttisráðgjöfum og jafnréttisfulltrúum innan handar ef þess gerist þörf.
    Lagt er til að opinberum stofnunum, atvinnurekendum og félagasamtökum verði gert skylt að veita Skrifstofu jafnréttismála allar nauðsynlegar upplýsingar svo hún geti sinnt verkefnum sínum skv. 3. mgr. greinarinnar. Ákvæðið er efnislega samhljóða 7. tölul. 16. gr. núgildandi laga.


Um 4. gr.

    Lagt er til að félagsmálaráðherra skipi kærunefnd jafnréttismála og að staðið verði að skipan hennar á sama hátt og skipan nefndarinnar í núgildandi lögum, sbr. 19. gr. laga nr. 28/1991. Lögð er til sú breyting að við fyrstu skipun í nefndina, ef frumvarpið verður að lögum, verði skipunartími nefndarmanna mislangur þannig að hann renni ekki út á sama tíma. Er þannig gert ráð fyrir að árlega verði skipaður einn nefndarmaður en skipunartími hvers og eins verði eftir sem áður þrjú ár. Nefndin skal taka mál til meðferðar og gefur hún álit um hvort brotið hafi verið í bága við lögin. Kærunefndin er ekki bær til að ákvarða um fjártjón og miska.
    Lagt er til að kærunefndin verði áfram sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem gefi álit um ágreiningsefni málsaðila og að álit hennar verði ekki kæranleg til æðra stjórnvalds. Þetta fyrirkomulag kemur þó ekki í veg fyrir að aðilar geti lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti sætti þeir sig ekki við niðurstöðu kærunefndar, sbr. 5. mgr. greinarinnar.
    3. mgr. er efnislega samhljóða lokamálslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 28/1991.
    4. mgr. er efnislega samhljóða 20. gr. gildandi laga, nr. 28/1991.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að kærunefnd jafnréttismála gefi árlega út álit sín en þau hafa áður verið gefin út. Er því verið að festa betur í sessi og fá reglu á það fyrirkomulag sem þegar er viðhaft.
    Í 7. mgr. er kveðið á um að kostnaður af störfum nefndarinnar verði greiddur úr ríkissjóði eins og nú er gert. Jafnframt er lagt til að félagsmálaráðherra geti með reglugerð sett nánari ákvæði um störf nefndarinnar og skrifstofuhald.

Um 5. gr.

    Ákvæðið er nýmæli en það varðar aðild, kærufresti og málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála. Í 1. mgr. er sagt til um hverjir geti átt aðild að málum sem lögð eru til úrlausnar kærunefndar. Er þar jafnframt lagt til að nefndin geti samkvæmt ábendingum annarra tekið mál til meðferðar.
    Í 2. mgr. er lagt til að tekinn verði upp eins árs frestur til að skila inn erindi til kærunefndar sem byrji að líða er ætlað brot lá fyrir eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Lagt er til að þegar rökstuðnings er leitað á grundvelli stjórnsýslulaga byrji fresturinn að líða þegar rökstuðningurinn liggur fyrir.
    Í 3. mgr. er lagt til að Skrifstofa jafnréttismála geti leitað atbeina kærunefndar þegar sérstaklega stendur á og óskað eftir að hún taki erindi til umfjöllunar. Er hér einkum átt við tilvik þar sem skrifstofan hefur fengið vitneskju um ætlað brot á lögunum í gegnum starfsemi sína.
    Í 4. mgr. er fjallað um málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Lagt er til að hún skuli að jafnaði vera skrifleg en þó geti nefndin kallað málsaðila á sinn fund. Að öðru leyti fari um málsmeðferð hjá nefndinni samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og nánari reglum sem félagsmálaráðherra setur að fengnum tillögum nefndarinnar.

Um 6. gr.

    Greinin er nýmæli en með henni er upplýsingaöflun kærunefndar jafnréttismála settar skýrari reglur en gert er í gildandi lögum. Í 2. málsl. 2. mgr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, er kveðið á um upplýsingagjöf til kærunefndar jafnréttismála, en þar segir: ,,Atvinnurekendum, opinberum stofnunum, félagasamtökum og öðrum þeim er upplýst geta málið er skylt að veita kærunefnd hvers konar upplýsingar hér að lútandi.“ Í frumvarpinu er mun skýrar kveðið á um með hvaða hætti upplýsingaöflun kærunefndar skal fara fram.
    Ákvæðinu er ætlað að tryggja andmælarétt aðila máls sem og að mál verði nægjanlega upplýst áður en kærunefnd jafnréttismála gefur álit sitt í máli. Í 2. mgr. er nefndinni tryggður réttur til að krefjast gagna, telji hún að þau geti haft áhrif á niðurstöðu máls, hafi slík krafa komið frá gagnaðilum. Er það nefndarinnar að meta hvort hún telur að þörf sé á slíku eða það nauðsynlegt.
    Í 3. mgr. er lagt til að kærunefndin geti krafist frekari gagna telji hún málið ekki nægjanlega upplýst. Á þetta að koma í veg fyrir að kærunefndin þurfi að vísa málum frá vegna skorts á upplýsingum.
    Í 4. mgr. er lagt til að kveðið verði á um þagnarskyldu nefndarmanna ef nefndin fær í hendur gögn sem varða laun, önnur starfskjör eða réttindi einstaklinga. Mikilvægt er einnig að tryggja að hlutaðeigandi fái vitneskju um að tiltekin gögn hafi verið veitt nefndinni

Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að Jafnréttisráð verði skipað á svipaðan hátt og verið hefur. Félagsmálaráðherra skipar sjö aðila í ráðið að afloknum alþingiskosningum. Ráðherra skipar einn án tilnefningar og skal sá vera formaður ráðsins. Lagt er til að Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja ásamt Vinnuveitendasambandi Íslands, sem nú nefnist Samtök atvinnulífsins eftir sameiningu við Vinnumálasamband Íslands, verði áfram tilnefningaraðilar. Þá er lagt til að fjármálaráðuneytið bætist við sem tilnefningaraðili í ljósi þess hversu stór atvinnurekandi það er. Er þetta einkum gert vegna þeirra markmiða sem Jafnréttisráði eru sett í frumvarpinu. Sú breyting er jafnframt lögð til að Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands tilnefni sameiginlega einn aðila í Jafnréttisráð. Er þessi breyting frá gildandi lögum einkum gerð í ljósi hins breytta hlutverks sem Jafnréttisráð hefur í frumvarpinu. Þessi tilhögun á sér danska fyrirmynd en í frumvarpi til nýrra jafnréttislaga í Danmörku er lagt til að samsvarandi aðilar skipi sameiginlega í nefnd er svarar til Jafnréttisráðs ( Bestyrelse for Videncenter for Ligestilling). Að síðustu er lagt til að Háskóli Íslands verði tilnefningaraðili en Rannsóknarstofa í kynjafræðum hefur á undanförnum árum lagt drjúgt af mörkum í kynjarannsóknum sem hafa skilað mikilsverðum upplýsingum um líf kynjanna í samfélaginu. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að tilnefningaraðilar tilnefni tvo aðila, karl og konu. Skal félagsmálaráðherra gæta þess við skipun í ráðið að hlutfall kynjanna verði sem jafnast. Er þetta í samræmi við tilgang 20. gr. frumvarpsins um þátttöku í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að kostnaður af störfum Jafnréttisráðs greiðist úr ríkissjóði eins og er samkvæmt núgildandi lögum. Jafnframt er kveðið á um að félagsmálaráðherra geti með reglugerð sett nánari reglur um störf Jafnréttisráðs og skrifstofuhald.

Um 8. gr.

    Verkefnasvið Jafnréttisráðs er mun afmarkaðra en verið hefur enda hefur Skrifstofa jafnréttismála tekið við fyrra hlutverki þess. Jafnréttisráði er með frumvarpi þessu ætlað að beina sjónum að stöðu kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði. Þettar er mikilvægt og brýnt verkefni en jafnrétti á vinnumarkaði er lykilþáttur í frekara jafnrétti kynjanna á öðrum sviðum samfélagsins.

Um 9. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 17. gr. gildandi jafnréttislaga. Sú nýbreytni er þó lögð til að gert verði að skilyrði að félagsmálaráðherra leggi þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum fram eigi síðar en ári eftir alþingiskosningar. Markmið þessa er að tryggja að hver ríkisstjórn geri jafnréttisáætlun í formi þingsályktunar sem gildi á kjörtímabili hennar. Um leið er komið í veg fyrir að jafnréttisáætlanir fráfarandi stjórnar gildi langt fram á kjörtímabil nýkjörinnar stjórnar þegar stjórnarskipti verða við alþingiskosningar.
    Enn fremur er lögð til sú breyting að félagsmálaráðherra skuli ekki eingöngu leggja fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála við endurskoðun þingsályktunarinnar heldur einnig þegar þingsályktunartillaga um áætlun í jafnréttismálum er fyrst lögð fram á Alþingi á hverju kjörtímabili. Markmiðið með þessu er að auðvelda þingmönnum sem og öðrum að fylgjast með hverju fram vindur í jafnréttismálum.

Um 10. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 13. gr. gildandi jafnréttislaga, en orðalagi greinarinnar er breytt til að gera ákvæðið skýrara. Sú breyting er þó lögð til að felld verði út viðmiðun við 500 íbúa, en í stað þess skuli öll sveitarfélög skipa jafnréttisnefndir. Í þessu tilliti er rétt að vekja athygli á heimildarákvæði 41. gr. gildandi sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, um sameiningu nefnda. Þar er sveitarstjórnum gefin heimild til að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði, en eðli málsins samkvæmt á sú heimild fyrst og fremst við um fámennari sveitarfélög. Þá er lagt til að jafnréttisnefndirnar verði ekki stærri en þriggja til fimm manna.

Um 11. gr.

    Í þessari grein er lagt til að sérhvert ráðuneyti skipi jafnréttisfulltrúa sem fjalli um og hafi eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði viðkomandi ráðuneytis. Ekki er sérstaklega gert ráð fyrir að ráða þurfi nýja starfsmenn í ráðuneytin vegna þessa heldur mætti fela einhverjum núverandi starfsmanna verkefnið.

Um 12. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 18. gr. gildandi jafnréttislaga. Lögð er þó til sú breyting að ráðnir verði jafnréttisráðgjafar sem vinni að tímabundnum verkefnum er lúta að jafnréttismálum á tilteknu sviði og/eða á tilteknu landsvæði.

Um 13. gr.

    1. mgr. ákvæðisins er samhljóða 5. gr. gildandi jafnréttislaga.
    Í 2. mgr. er lagt til að gert verði að skilyrði að fyrirtæki og stofnanir sem hafa fleiri en 25 starfsmenn geri sér jafnréttisáætlun eða kveði sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni. Jafnréttisáætlun er markviss stefna og verkefnaskrá fyrirtækis eða stofnunar um hvernig jafnrétti kynjanna verði náð. Í áætluninni eða í starfmannstefnunni skal m.a. tilgreina aðgerðir til að tryggja konum og körlum jafna möguleika til starfa, ábyrgðar, launa, stöðuhækkana, starfsþjálfunar og endurmenntunar. Jafnframt á slík jafnréttisáætlun eða starfsmannastefna að taka á vandamálum sem lúta að kynferðislegri áreitni. Síðast en ekki síst eru jafnréttisáætlun og vel skilgreind starfsmannastefna aðferðir til að koma á nauðsynlegum ráðstöfunum til að gera starfsmönnum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þegar jafnréttisáætlun eða starfsmannastefna er gerð er mikilvægt að til sé úttekt á stöðu kynjanna innan viðkomandi fyrirtækja eða stofnana.
    Meginmarkmiðið með jafnréttisáætlun og jafnréttismiðaðri starfsmannastefnu er að atvinnurekendur geti nýtt sér hæfileika og færni allra starfsmanna sinna á sem bestan hátt um leið og þeim hindrunum sem geta verið í vegi bæði karla og kvenna er rutt úr vegi. Aðgerðaráætlun og reglubundið mat á árangri er eðlilegur þáttur í jafnréttisáætlun sem og í starfsmannastefnu.

Um 14. gr.

    Greinin er að mestu efnislega samhljóða 4. gr. gildandi jafnréttislaga en orðalagi hennar hefur verið breytt til að gera ákvæðið skýrara. Ákvæði 1. mgr. er ætlað að tryggja að konur og karlar njóti sömu launa og sömu kjara fyrir sömu störf og fyrir ólík störf sem metin eru jafnverðmæt og sambærileg. Sú breyting er lögð til á orðalagi 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga að bætt verði inn í 1. mgr. orðunum „er starfa hjá sama atvinnurekanda“.
    Enn fremur er lögð til sú breyting á skilgreiningu um laun í 2. mgr. greinarinnar að í stað orðalagsins „venjulegt grunn- eða lágmarkskaup“ komi „almennt endurgjald“.
    Í núgildandi lögum eru jöfn laun karla og kvenna skilgreind í 3. mgr. 4. gr. Með þessu frumvarpi er lögð til breytt skilgreining á jöfnun launum karla og kvenna í 3. mgr. þessarar greinar. Með henni yrði atvinnurekanda skylt að sjá til þess að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir bæði kynin og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun leiði hvorki beint né óbeint til kynbundins launamisréttis.
    4. mgr. er efnislega samhljóða 4. mgr. 4. gr. gildandi laga. Í þeim tilgangi að gera ákvæðið skýrara er lagt til að orðalagið „auk launa“ verði fellt inn í málsgreinina. Undir „kjör“ samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins falla m.a. fæðingarorlof, foreldraorlof og námsleyfi.

Um 15. gr.

    1. mgr. ákvæðisins er samhljóða 7. gr. núgildandi laga.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 9. gr. gildandi laga en orðalagi hennar er þó breytt. Í stað orðsins „framhaldsmenntunar“ kemur „endurmenntunar“ og kveðið er á um skyldur atvinnurekenda.

Um 16. gr.

    Lagt er til að atvinnurekandi geri nauðsynlegar ráðstafanir til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þetta ákvæði er nýmæli og er í samræmi við stefnu Evrópusambandsins, sem og markmið samstarfs Norðurlanda í jafnréttismálum. Ákvæði sama efnis er einnig í 27. gr. félagsmálasáttmála Evrópu.
    Nauðsyn þess að slíkt ákvæði sé að finna í jafnréttislögum kemur einkum fram í því að sú hlutverkaskipting sem lengi hefur viðgengist hamlar báðum kynjum í einkalífi og á vinnumarkaði. Sú mikla áhersla sem í áranna rás hefur verið lögð á fyrirvinnuhlutverk karla skyggir á hlutverk og skyldur föður sem uppalanda. Vegna þessa og með aukinni atvinnuþátttöku kvenna hafa komið fram auknar kröfur um að atvinnurekendur geri ráðstafanir til að gera bæði körlum og konum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu sinni. Er því mikilvægt að vinnumarkaðurinn lagi sig að þeirri staðreynd að bæði kynin hafi á ákveðnu tímabili í lífi sínu ríkum skyldum að gegna gagnvart börnum og fjölskyldulífi. Með skyldum gagnvart fjölskyldu er ekki einungis átt við skyldur foreldra við börn sem eru háð þeim um afkomu heldur einnig við önnur náin skyldmenni sem augljóslega þarfnast umönnunar eða uppihalds.
    Ein leiðanna að þessu markmiði er að auka sveigjanleika við skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að hagsmunir allra séu hafðir að leiðarljósi. Sem dæmi má taka að erfitt er fyrir foreldra ungra barna að vera á fundum á þeim tíma sem sækja þarf börn á leikskóla. Þá geta stjórnendur fyrirtækis hvatt foreldra til að skipta veikindadögum barns á milli sín ef þau eru bæði útivinnandi. Jafnframt er mikilvægt að auðvelda starfsmönnum að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna. Æskilegt er að setja fram aðgerðir sem stefna að settu marki í jafnréttisáætlanir eða í starfsmannastefnur fyrirtækja eða stofnana ef starfsmenn eru fleiri en 25. Í smærri fyrirtækjum eða stofnunum er nauðsynlegt að starfsmönnum sé kynnt stefnan á skýran og skilmerkilegan hátt.

Um 17. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að atvinnurekendum verði gert skylt að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Evrópusambandið hefur um margt verið leiðandi í baráttunni gegn kynferðislegri áreitni og hefur hvatt aðildarríki sín til að vinna ötullega að framgangi þessara mála. Ákvæði frumvarpsins er í samræmi við stefnu Evrópusambandsins í jafnréttismálum. Árið 1990 samþykkti ráðherranefndin ályktun um vernd mannvirðingar kvenna og karla á vinnustað. Þar er aðildarríkjum og stofnunum Evrópusambandsins gert að sjá til þess að atvinnurekendur beri ábyrgð á að kynferðisleg áreitni líðist ekki á vinnustað.
    Sambærilegt ákvæði er einnig að finna í 26. gr. félagssáttmála Evrópu um rétt til mannlegrar reisnar í starfi. Þar kemur fram að stuðla skuli að bættri meðvitund og upplýsingum um kynferðislega áreitni á vinnustað. Auk þess skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda launafólk fyrir slíkri háttsemi. Í þessu sambandi er almennt lögð mikil áhersla á ábyrgð atvinnurekenda og skólastjórnenda.
    Mikilvægt er að brugðist sé við af þekkingu og að tryggt sé að starfsfólk sé nægjanlega upplýst til að takast rétt og málefnalega á við vandann. Sem dæmi um sérstakar ráðstafanir sem atvinnurekendur og skólastjórnendur geta gert til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar í trúnaðarsambandi verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og í skólum er m.a. að lýst sé yfir að allir starfsmenn eigi rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu. Jafnframt sé gefið skýrt til kynna að kynferðislegri áreitni sé með öllu hafnað og verði ekki liðin og að starfsmenn sem verði fyrir slíkri framkomu hafi rétt til að kæra viðkomandi háttsemi. Nauðsynlegt er að stjórnendur taki ákveðið á málum í samvinnu við starfsmenn sína og hagsmunasamtök þeirra.
    Víða í nágrannalöndunum hefur þótt ástæða til að setja sérstakar reglur um kynferðislega áreitni á vinnustað. Er tilgangur þeirra að koma í veg fyrir að fólki sé mismunað eftir kynferði þegar teknar eru ákvarðanir um vinnuaðstæður og vinnuskilyrði. Í Svíþjóð hafa verið sett ákvæði um kynferðislega áreitni í jafnréttislög en í Noregi er slík ákvæði að finna í lögum um vinnuvernd. Skilgreining á því hvað felst í kynferðislegri áreitni er vandasöm. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gert tillögur um leiðbeiningarreglur til verndar launþegum þar sem m.a. kynferðisleg áreitni er skilgreind. Sú skilgreining var lögð til grundvallar við gerð frumvarpsins. Megineinkenni kynferðislegrar áreitni er að um óvelkomna kynferðislega hegðun er að ræða að mati þess sem fyrir henni verður og að hegðuninni sé framhaldið þrátt fyrir að skýrt hafi verið gefið til kynna að hún sé óvelkomin.
    Vakin er athygli á því að ákvæðið nær einungis til ábyrgðar atvinnurekenda og skólastjórnenda á að kynferðisleg áreitni verði ekki látin viðgangast á vinnustað eða í skóla en sá sem beitir annan einstakling kynferðislegri áreitni getur orðið refsiábyrgur samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum.
    Lagt er til í 3. mgr. að eitt tilvik geti talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt. Væri það kærunefndar jafnréttismála og dómstóla að meta hvenær tilvik telst falla undir þetta ákvæði.
    Tilgangur 4. mgr. ákvæðisins er að tryggja kæranda vernd á meðan rannsókn stendur yfir. Þrátt fyrir að ekki sé átt við ákvörðun í því máli sem snýr beint að ákærunni þykir ástæða til að efast um hlutleysi viðkomandi yfirmanns eða stjórnanda í eftirfarandi samskiptum aðila málsins. Reynslan hefur sýnt að óvarlegt er að treysta dómgreind manns þegar málið varðar hann beint og verður að líta svo á að sama eigi við um mál þar sem sömu aðilar eiga í hlut á meðan rannsókn stendur yfir.

Um 18. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 11. gr. gildandi laga.

Um 19. gr.

    Efni 1. og 3. mgr. er að finna í 1. mgr. 10. gr. gildandi laga, og 2. mgr. greinarinnar er samhljóða 2. mgr. 10. gr. gildandi laga. Hins vegar er 4. mgr. greinarinnar nýmæli, en þar er lagt til að þess skuli sérstaklega gætt að rannsóknir í kynjafræðum verði efldar og kynntar almenningi í gegnum skólastarf og fjölmiðla. Er þetta í samræmi við e-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er Háskóla Íslands falin ábyrgð á framkvæmd 4. mgr., en menntamálaráðherra ber að öðru leyti ábyrgð á framkvæmd greinarinnar. 3. málsl. 5. mgr. er nýmæli, en þar er sérstaklega lagt til að menntamálaráðuneytið fylgist með að jafnréttis kynja sé gætt í íþrótta- og tómstundastarfi.

Um 20. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 12. gr. gildandi laga.

Um 21. gr.

    Greinin kveður á um greiningu tölfræðiupplýsinga eftir kynjum. Eins og fram kemur í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins er söfnun og meðferð upplýsinga um stöðu kynjanna í samfélaginu hornsteinn markviss jafnréttisstarfs. Í norrænu samstarfi og starfi Sameinuðu þjóðanna að jafnréttismálum hefur ítrekað verið bent á mikilvægi þessa. Þótt margt hafi áunnist í þessum efnum hér á landi vantar enn nokkuð á að fullnægjandi upplýsingar um stöðu kynja á öllum sviðum samfélagsins séu tiltækar. Er mikilvægt að greining tölfræðiupplýsinga eftir kynjum verði sjálfsagður hluti opinberrar hagskýrslugerðar þar sem við á. Því þótti rétt að hafa þetta ákvæði í frumvarpinu. Ákvæðið tekur til söfnunar gagna, úrvinnslu þeirra og birtingar upplýsinga. Frá þessu getur þó þurft að víkja í sérstökum tilvikum, svo sem þegar í húfi eru hagsmunir er tengjast persónu manna, ef mjög fáir einstaklingar eiga í hlut eða ef ekki er hægt samkvæmt eðli máls að greina upplýsingar eftir kyni.

Um IV. kafla.

    Í kaflanum er að finna ákvæði er varða bann við mismunun vegna kynferðis. Bannið tekur bæði til beinnar mismununar og óbeinnar. Ákvæði er um almennt bann við slíkri mismunun og til að útrýma henni er áfram lögð til heimild til sérstakra tímabundinna aðgerða.

Um 22. gr.

    Greinin er sambærileg 3. gr. gildandi laga, en lagðar eru til mikilvægar breytingar frá því sem nú er. Í gildandi lögum eru sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna ekki taldar ganga gegn þeim lögum. Sú breyting er gerð frá núgildandi lögum að lagt er til að heimilt verði að beita sérstökum tímabundnum aðgerðum til að rétta hlut karla jafnt sem kvenna á tilteknum sviðum samfélagsins. Líklegt er þó að ákvæðinu yrði fyrst og fremst beitt í þágu kvenna þar sem enn er þörf margþættra aðgerða til að tryggja konum raunverulega jafna stöðu á við karla. Auk þess er lagt til að sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem auki möguleika kvenna eða karla á tilteknum sviðum samfélagsins, verði ekki taldar ganga gegn jafnréttislögum, enda sé til þeirra gripið til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna.
    Í greininni er einnig lögð til sú breyting frá gildandi lögum að banni við óbeinni mismunun verði bætt inn í ákvæðið í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins um sönnunarbyrði í málum er varða mismunun vegna kynferðis, nr. 97/80. Skv. 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar er óbein mismunun talin vera fyrir hendi þegar hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kemur hlutfallslega verr við annað kynið nema að slíkt sé viðeigandi, nauðsynlegt eða réttlætanlegt vegna hlutlægra þátta óháð kyni. Augljósustu dæmi undantekningarinnar í niðurlagi skilgreiningarinnar eru störf leikara og baðvarða.

Um 23. gr.

    Í frumvarpinu er lagt til að 6. gr. gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, verði skipt í tvennt og er 1. mgr. þessarar greinar efnislega samhljóða 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er lagt til að sama sönnunarreglan gildi fyrir kærunefnd jafnréttismála og dómstólum í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 87/80. Réttarfarsnefnd dómsmálaráðuneytis hefur fengið tilskipunina til skoðunar og er það niðurstaða nefndarinnar að hún sé í öllum meginatriðum í samræmi við ólögfestar grunnreglur um sönnun sem íslenskir dómstólar beita við úrlausn einkamála, þar á meðal þeirra sem lúta að jafnrétti kvenna og karla. Tilskipunin tekur til málsmeðferðar fyrir þar til bærum stjórnvöldum og dómstólum. Skv. 4. gr. hennar skulu aðildarríkin gera ráðstafanir sem tryggja að þeir sem telja sig misrétti beitta vegna kynferðis síns og geta sýnt fram á líkur á beinni eða óbeinni mismunun þurfi ekki að sanna að svo sé, heldur sé það þá atvinnurekanda að sanna að meginreglan um jafnrétti kynja hafi ekki verið brotin. Kærandi verður þó fyrst að leggja fram gögn sem sýna fram á líkur á kynjamisrétti.

Um 24. gr.

    1. mgr. ákvæðisins er efnislega samhljóða 2.–5. tölul. 1. mgr. 6. gr. gildandi laga. Lagt er til að við bætist að sama gildi um endurmenntun, starfsþjálfun og námsleyfi til samræmis við tilskipun Evrópusambandsins um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkunum, sem og varðandi starfskjör, nr. 76/207.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 2. og 3. mgr. 7. gr. gildandi laga en þó er bætt við að ákvæðið eigi jafnframt ekki við ef gild rök mæla með því að einungis sé auglýst eftir öðru kyninu. Er vísað til athugasemdar við 22. gr. frumvarpsins.
    3. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 6. gr. en orðalagi breytt til að gera það skýrara. Einnig er vísað til athugasemda við 2. mgr. 23. gr. frumvarpsins.

Um 25. gr.

    Þetta ákvæði er nýmæli og er tilgangur þess að vernda starfsmenn sem hafa lagt fram kröfu um leiðréttingu á grundvelli ákvæða frumvarpsins eða hafa kært kynferðislega áreitni eða aðra kynjamismunun. Slíkt ákvæði er nauðsynlegt til þess að ákvæði frumvarpsins verði virk á þann hátt að sá sem telur sig misrétti beittan geti leitað réttar síns án þess að eiga á hættu frekari neikvæðar afleiðingar.

Um 26. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. gildandi laga en orðalagi þess hefur verið breytt í þeim tilgangi að gera það skýrara.
    Í 2. mgr. er lagt til nýmæli í frumvarpi þessu og vísast til athugasemda við 25. gr. frumvarpsins um tilgang þess.

Um 27. gr.

    Mikilvægt er að í lögum sem þessum sé skýrt kveðið á um að ekki sé hægt að afsala sér þeim rétti sem lögin kveða á um með samningum, loforðum eða á annan hátt. Í þessari grein felst því ákveðin vernd fyrir einstaklinginn þegar kemur að samningsgerð við atvinnurekanda.

Um 28. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 22. gr. núgildandi laga, nr. 28/1991, en þó hefur orðalagi hennar verið breytt til samræmis við orðalag núgildandi skaðabótalaga, nr. 50/1993.

Um 29. gr.

    Greinin er nýmæli og kveður á um að brot á tilteknum greinum laganna varði sektum sem renni í ríkissjóð. Ákvæðin eru eftirfarandi: 13. gr. þar sem kveðið er á um skyldu stofnana og fyrirtækja þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn til að setja sér jafnréttisáætlun eða kveða sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni, 14. gr. þar sem fjallað er um launajafnrétti, 15. gr. sem fjallar um jafnan rétt kvenna og karla til starfa, endurmenntunar og starfsþjálfunar, 17. gr. þar sem fjallað er um skyldur atvinnurekenda og skólastjórnenda til að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni á vinnustað eða í skóla, 18. gr. þar sem kveðið er á um að auglýsandi sjái til þess að auglýsingar séu ekki öðru kyninu til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt, 22. gr. sem varðar almennt bann við beinni og/eða óbeinni mismunun kynjanna, 23. gr. þar sem fjallað er um bann við mismunun í kjörum, 24. gr. þar sem kveðið er á um bann við mismunun við ráðningu og í vinnuskilyrðum og 25. gr. þar sem fjallað er um bann við brottrekstri úr starfi sem og bann við beitingu óréttlætis í starfi, svo sem með tilliti til starfsöryggis, starfskjara og mats á árangri, þrátt fyrir að starfsmaður hafi kært kynferðislega áreitni eða kynjamismunun.
    Í gildandi lögum er ekki ákvæði um að brot á lögunum eða tilteknum greinum þeirra varði sektum. Þetta hefur sætt gagnrýni og þótt bera þess merki að lögin væru fremur stefnumarkandi en gildandi um athafnir og gerðir manna. Með greininni er því á afdráttarlausari hátt lýst yfir að brot á tilteknum greinum geti komið í veg fyrir að markmiðinu um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan samfélagsins verði náð. Eru dómstólar einir bærir til að kveða á um sektir samkvæmt lögum þessum.

Um 30. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi og að núgildandi lög, nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, falli úr gildi við gildistöku þeirra.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Lagt er til að núverandi Jafnréttisráð starfi þar til nýtt ráð hefur verið skipað að loknum alþingiskosningum og að það starfi samkvæmt ákvæðum laganna. Þá er lagt til að umboð núverandi kærunefndar jafnréttismála falli niður og skipuð verði ný kærunefnd jafnréttismála sem taki við verkefnum fyrri nefndar. Sú breyting er lögð til að nefndarmenn verði ekki skipaðir til jafnlangs tíma í upphafi til þess að skipunartími þeirra renni ekki út á sama tíma. Er þannig gert ráð fyrir að árlega verði skipaður einn nefndarmaður en skipunartími hvers og eins verði eftir sem áður þrjú ár.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Skrifstofa jafnréttismála, sem samkvæmt núgildandi lögum er skrifstofa Jafnréttisráðs og kærunefndar jafnréttismála, verði sjálfstæð stofnun sem heyri undir félagsmálaráðuneyti og annist skilgreind verkefni. Gert er ráð fyrir að verkefni skrifstofunnar verði að nokkru leyti önnur en eru nú falin núverandi Jafnréttisráði og má þar nefna eftirlitshlutverk með framkvæmd laganna. Samkvæmt frumvarpinu verður hlutverk Jafnréttisráðs að stuðla markvisst að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á vinnumarkaðinum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að kærunefnd jafnréttismála starfi með svipuðu sniði og í núgildandi lögum en að nefndinni verði settar skýrari málsmeðferðarreglur. Sú breyting er lögð til að kærunefnd jafnréttismála verði ekki ætlað að standa að málshöfðun fyrir dómstólum eins og kærunefnd samkvæmt núgildandi lögum. Í greinargerð með frumvarpinu er vakin athygli á að breytt fyrirkomulag á skipulagi Skrifstofu jafnréttismála kemur ekki í veg fyrir að skrifstofan ásamt Jafnréttisráði og kærunefnd jafnréttismála samnýti starfs- og fundaraðstöðu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðuneytin skipi hvert fyrir sig jafnréttisfulltrúa sem fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði viðkomandi ráðuneytis. Fleiri verkefni eiga ekki að leiða til fjölgunar starfa. Í 19. gr. frumvarpsins er kveðið á um að efla skuli fræðilegar og hagnýtar rannsóknir á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi og miðla niðurstöðum þeirra markvisst til skóla og fjölmiðla. Í 21. gr. frumvarpsins er enn fremur kveðið á um að í opinberri hagskýrslugerð og í viðtals- og skoðanakönnunum skuli greint á milli kynja við söfnun gagna, úrvinnslu og birtingu upplýsinga nema sérstakar aðstæður mæli gegn því. Hagstofa Íslands getur uppfyllt þessi skilyrði án aukins kostnaðar en einhver kostnaðarauki getur fylgt birtingu kyngreindra upplýsinga. Með fjölgun verkefna á Skrifstofu jafnréttismála og innan ráðuneyta og aukinnar áherslu á fræðilegar og hagnýtar rannsóknir má gera ráð fyrir að útgjaldaauki ríkissjóðs geti numið 0,5–1,0 m.kr. á ári verði frumvarpið óbreytt að lögum.