Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 388  —  101. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 80/1996, um framhaldsskóla, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá menntamálaráðuneyti Þórunni Hafstein, Stefán Baldursson, Aðalstein Eiríksson, Margréti Harðardóttur og Hörð Lárusson, Elnu Katrínu Jónsdóttur frá Hinu íslenska kennarafélagi, Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur frá Kennarasambandi Íslands og Ingiberg Elíasson frá Félagi framhaldsskólakennara.
    Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Skólameistarafélagi Íslands og Félagi framhaldsskólanema og einnig barst sameiginleg umsögn frá Hinu íslenska kennarafélagi og Kennarasambandi Íslands.
    Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að kennarar sem ráðnir eru í störf aðstoðarskólameistara fái sambærilegan rétt til leyfis frá kennarastörfum og þeir kennarar sem ráðnir eru í embætti skólameistara, fornám í framhaldsskólum verði skipulagt innan almennra námsbrauta framhaldsskóla og kveðið er skýrar á um heimild menntamálaráðherra til þess að ákveða með reglugerð hvaða lokapróf framhaldsskóla verði samræmd. Þá verði skipan starfsgreinaráða ákveðin með reglugerð og við skipan þeirra verði tekið tillit til hagsmuna þeirra starfsgreina sem ekki njóta þegar fræðslu á framhaldsskólastigi. Að lokum er lagt til að framlengja aðlögunartíma til þess að koma ýmsum ákvæðum laganna að fullu til framkvæmda.
    Nefndin telur rétt að leggja áherslu á að með fyrirhuguðum breytingum á fornámi við framhaldsskóla er verið að fella það inn í hina almennu námsbraut.
    Nefndin bendir á að í 4. gr. frumvarpsins er ekki verið að falla frá þeirri skyldu að samræma lokapróf úr framhaldsskólum heldur er kveðið á um að ráðherra ákveði með reglugerð hvaða próf verði samræmd og hvernig samræmd próf verði framkvæmd. Reynslan hefur t.d. sýnt að vegna breytileika starfsnáms er nauðsynlegt að fyrir hendi sé svigrúm til að skipuleggja utanaðkomandi mat með hagkvæmari hætti en samræmdu prófi.
    Nefndin leggur til breytingu við 1. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins. Samkvæmt hefð hefur hugtakið stúdentspróf eingöngu verið notað um lokapróf af bóknámsbrautum en markmið náms á þeim brautum hefur fyrst og fremst verið að veita almennan undirbúning til náms í háskólum. Hugtakið stúdentspróf er hins vegar ekki skilgreint í lögunum. Þrátt fyrir þetta eru forsendur nemenda sem ljúka stúdentsprófi af bóknámsbrautum mismunandi hvað varðar möguleika til áframhaldandi náms og fer það eftir því hvaða námsbraut þeir hafa valið í framhaldsskóla. Þannig veitir stúdentspróf ekki nein ákveðin réttindi heldur er það metið eftir því námi sem að baki býr. Í ljósi þessa er talið rétt að nemendur í starfsnámi geti einnig lokið framhaldsskólanámi með stúdentsprófi. Því er lagt til að hugtakið stúdentspróf verði notað um öll lokapróf úr framhaldsskóla sem veita undirbúning til áframhaldandi náms í skólum á háskólastigi. Aðrar breytingar á greininni eru eingöngu orðalagsbreytingar.

    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. efnismgr. 4. gr. orðist svo:
    Námi á framhaldsskólastigi er veitir undirbúning til náms á háskólastigi lýkur með stúdentsprófi. Stúdentspróf skulu vera samræmd í tilteknum greinum. Í reglugerð skulu sett ákvæði um samræmingu stúdentsprófa og framkvæmd þeirra.

Alþingi, 14. des. 1999.Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Tómas Ingi Olrich.


Svanfríður Jónasdóttir,


með fyrirvara.Árni Johnsen.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.


Sturla D. Þorsteinsson.Ísólfur Gylfi Pálmason.