Ferill 68. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 391  —  68. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um ættleiðingar.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Drífu Pálsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Skúla Guðmundsson frá Hagstofu Íslands og Baldur Þórhallsson, Rannveigu Traustadóttur og Þóru Björk Smith fyrir Félag samkynhneigðra stúdenta. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Lögmannafélagi Íslands, Félagi fósturforeldra, Samtökunum '78, Íslenskri ættleiðingu og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þá voru umsagnir sem bárust um málið á 123. löggjafarþingi hafðar til hliðsjónar við umfjöllun nefndarinnar.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi ættleiðingarlögum, nr. 15/1978. Einnig er leitast við að skapa skilyrði til að unnt sé að standa við skuldbindingar samkvæmt Haag-samningnum frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa.
    Fram hefur komið í umræðunni um málið að mikilvægt er að lögfesta ákvæði Haag-samningsins hérlendis sem fyrst en aðild Íslands að samningnum skiptir höfuðmáli svo unnt verði að fá til ættleiðingar börn frá fleiri löndum en nú. Mörg lönd, t.d. Kína og sum lönd Suður- Ameríku, setja sem skilyrði fyrir ættleiðingu að ríkið sem barn fer til sé aðili að Haag-samningnum. Þar sem Ísland hefur ekki fullgilt samninginn hafa valkostir þeirra Íslendinga sem óskað hafa eftir því að ættleiða barn erlendis frá verið takmarkaðir og hefur skapast löng bið hérlendis eftir börnum til ættleiðingar. Með samþykkt frumvarpsins og tillögu til þingsályktunar um aðild að Haag-samningnum sem verið hefur til meðferðar á þessu löggjafarþingi munu væntanlega verða breytingar þar á.
    Við meðferð málsins hjá nefndinni kom til umfjöllunar 26. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um upplýsingaskyldu kjörforeldra. Þar segir að þeir skuli skýra kjörbarni sínu frá því að það sé ættleitt jafnskjótt og það hefur þroska til og skal það að meginreglu til gert áður en barnið nær sex ára aldri. Rætt var um hvort þörf væri á slíkri lagaskyldu og hvort rétt væri að tilgreina sérstakan aldur. Að mati nefndarmanna er þörf á þessari lagaskyldu þar sem það er réttur barnsins að fá að vita að það sé ættleitt. Einnig var það niðurstaða nefndarmanna að rétt væri að miða við sex ára aldur, einkum með hliðsjón af því að skólaskylda hefst á þeim aldri.
    Málefni samkynhneigðra komu til umfjöllunar í nefndinni en þar er um aðskilið mál að ræða sem fellur undir gildissvið laga um staðfesta samvist. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk frá dómsmálaráðuneyti er unnið þar að frumvarpi til breytinga á þeim og mun það koma til umfjöllunar Alþingis síðar á þessu þingi.
    Það vakti athygli nefndarmanna að III. kafli núgildandi laga um niðurfellingu ættleiðingar er felldur út í frumvarpinu. Í greinargerð kemur fram að þróun í ættleiðingarlöggjöf hafi verið sú að afnema reglur um niðurfellingu ættleiðingar, einkum í löndum þar sem ættleiðing felur í sér gagnger fjölskylduskipti. Þá kom fram í máli fulltrúa dómsmálaráðuneytis að tilgangurinn með niðurfellingu kaflans væri sá að leitast við að gera réttarstöðu ættleiddra barna sem líkasta réttarstöðu kynbarna.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Í 5. mgr. 2. gr. frumvarpsins er óvígð sambúð skilgreind. Fulltrúi Hagstofu Íslands gerði athugasemdir við skilgreininguna og greindi frá því að Hagstofan fylgdi ákveðnum reglum um skráningu í sambúð. Af þeirri ástæðu og vegna lagasamræmis væri eðlilegra að fjalla um skráningu í sambúð sem skilgreiningaratriði.
     2.      Í 2. mgr. 10. gr. leggur nefndin til þá orðalagsbreytingu að í stað orðanna skynsamleg rök komi gild rök.
     3.      Nefndin leggur til að nýrri málsgrein verði bætt við 16. gr. þar sem kveðið verði á um skyldu dómsmálaráðherra til að setja reglugerð um umsagnir barnaverndarnefnda. Ráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar við gerð umsagna samkvæmt núgildandi lögum og hefur nefndin fengið ábendingu um að rétt væri að endurnýja þær og koma þeim á skýrara form.
     4.      Breyting sem lögð er til við 3. mgr. 37. gr. er gerð til leiðréttingar þar sem smávægileg villa er í heiti Haag-samningsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu en með fyrirvara.
    

Alþingi, 14. des. 1999.Valgerður Sverrisdóttir,


varaform., frsm.


Ásta Möller.


Guðrún Ögmundsdóttir.Gunnar Ingi Gunnarsson,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson.


Helga Guðrún Jónasdóttir.Katrín Fjeldsted.


Ólafur Örn Haraldsson,


með fyrirvara.


Pétur H. Blöndal.