Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 393  —  69. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um skráð trúfélög.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti og Einar Sigurbjörnsson prófessor. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá biskupi Íslands, guðfræðideild Háskóla Íslands, kaþólska biskupnum í Reykjavík, Kvennakirkjunni, Krossinum, Andlegu þjóðarráði bahá'ía á Íslandi og Siðmennt.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um trúfélög, nr. 18/1975. Lagðar eru til breytingar, m.a. til samræmis við breytingar sem gerðar voru á trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar með stjórnarskipunarlögum árið 1995. Einnig er lagt til að einungis verði fjallað um trúfélög sem hafa verið formlega skráð en önnur trúfélög falli utan gildissviðs laganna en eins og fram kemur í greinargerð er lagt til að miðað verði við að um slík félög gildi sömu reglur og um frjáls félög og félagasamtök, hvort sem þau tengjast átrúnaði eða ekki. Þá kemur fram að fyrirsögn frumvarpsins er frumvarp til laga um skráð trúfélög en þó er að finna almennt ákvæði um trúfélög í I. kafla þess. Einnig kemur fram í kaflaheiti II. kafla að hann gildi um skráð trúfélög en hins vegar er fjallað um þjóðkirkjuna að hluta í 8. og 9. gr.
    Við umfjöllun málsins hjá nefndinni var nokkuð rætt um eftirlit sem hafa skal með skráðu trúfélagi. Í 4. gr. kemur m.a. fram að senda skuli dóms- og kirkjumálaráðuneytinu nákvæmt félagatal við skráningu trúfélags með nöfnum, kennitölum og heimilum félagsmanna og í 5. gr. segir að gera skuli grein fyrir breytingum á félagatali einu sinni á ári. Rætt var um hvort þessi ákvæði væru í samræmi við persónuvernd einstaklingsins og hvort nauðsynlegt teldist að hafa þennan háttinn á. Eftir að hafa rætt við fulltrúa Hagstofunnar um þetta álitaefni varð niðurstaða nefndarinnar sú að leggja ekki til breytingar. Upplýsingar verða að liggja fyrir um meðlimi trúfélags, einkum með tilliti til sóknargjalda sem renna til trúfélagsins. Nefndin vill þó leggja mikla áherslu á að fyllsta trúnaðar verði gætt við skráningu og meðhöndlun upplýsinganna.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að aldurshámark það sem sett er í 1. mgr. 7. gr. verði tekið út. Nefndin telur ekki sérstaka þörf á að gera það að skilyrði í lögunum að forstöðumaður skuli ekki vera eldri en 75 ára. Eðlilegast sé að hafa það á forræði viðkomandi trúfélags. Þá eru lagðar til málfarsleiðréttingar á 7. gr.
     2.      Lagt er til að í stað 18 ára aldursviðmiðunar í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins komi 16 ára. Í lögum um sóknargjald, nr. 91/1987, kemur fram að frá 16 ára aldri skuli hver einstaklingur greiða sóknargjöld samkvæmt lögunum. Að mati nefndarinnar er eðlilegt að sami aldur verði notaður sem viðmiðun um greiðslu sóknargjalda og ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi. Nefndin leggur einnig til breytingar á 4. mgr. sömu greinar. Í stað þess að fjalla eingöngu um þau tilvik þegar forsjá barns hefur verið falin öðrum en foreldrum á grundvelli barnaverndarlaga leggur nefndin til að ákvæðið nái einnig til þeirra tilvika þegar öðrum en foreldrum hefur verið falin forsjá barns á grundvelli annarra laga, en fjallað er um forsjá í fleiri lögum, t.d. barnalögum.
     3.      Lagðar eru til breytingar á 4. mgr. 9. gr. Leggur nefndin til að í stað þess að prestum eða forstöðumönnum verði skylt að koma tilkynningu um inngöngu í og úrsögn úr trúfélagi til þjóðskrár geti þeir komið tilkynningunni á framfæri. Hingað til hefur Hagstofa Íslands annast skráninguna og telur nefndin hagræði að því að hafa það fyrirkomulag óbreytt. Þá leggur nefndin til breytingar á greinarfyrirsögninni í þeim tilgangi að gera hana skýrari þar sem nefndin telur rétt að fram komi að í greininni sé einnig fjallað um úrsögn úr þjóðkirkjunni og skráðu trúfélagi en ekki einvörðungu inngöngu í skráð trúfélag.
    Að síðustu vill nefndin taka fram að hún telur að frágangur málsgreina í frumvarpinu sé ekki í samræmi við þá meginreglu í frágangi frumvarpa að hafa málsgreinar ónúmeraðar. Ekki er rökstutt sérstaklega af hvaða ástæðu málsgreinar eru númeraðar og því verða númer málsgreina felld niður og stafliðum breytt í töluliði í lokafrágangi verði frumvarpið samþykkt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ólafur Örn Haraldsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. des. 1999.Valgerður Sverrisdóttir,


varaform., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Lúðvík Bergvinsson.Helga Guðrún Jónasdóttir.


Gunnar Ingi Gunnarsson.


Ásta Möller.Guðrún Ögmundsdóttir.


Pétur H. Blöndal.