Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 400  —  251. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55 10. júní 1998, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein Geirsson og Kristínu Haraldsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Þórð Ásgeirsson frá Fiskistofu og Halldór Runólfsson yfirdýralækni. Málið var ekki sent til umsagnar.
    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að eins verði farið með innflutning á sjávarafurðum frá Liechtenstein og ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ástæða þess er sú að Liechtenstein hefur ekki tekið upp þær gerðir sem tilheyra viðauka I við EES-samninginn og lúta að innflutningi á sjávarafurðum.
    Þá er lagt til að Fiskistofu verði falið að vinna og birta skrá yfir framleiðendur og vinnsluskip sem hlotið hafa viðurkenningu. Nú þarf að birta skrána í Stjórnartíðindum og vegna tíðra breytinga á henni hefur sá listi gefið litla yfirsýn. Er gert ráð fyrir að Fiskistofa muni birta skrána á einfaldan hátt, t.d. á vefsíðu sinni, og með því verði tryggt að skráin verði stöðugt uppfærð í heildstæðri mynd.
    Einnig er í frumvarpinu lagt til að frystiskipum verði bætt við þá aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins sem gjald er innheimt af til að bera kostnað af eftirliti með sjávarafurðum. Er þetta í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Loks er lagt til að til og með 30. júní 2001 þurfi að leita leyfis fyrir innflutningi lifandi sjávardýra, en núgildandi ákvæði laganna um þetta fellur úr gildi 31. desember 1999. Fram til þess tíma er stefnt að því að fá samþykkta viðbótarvernd gegn innflutningi á lifandi fiski frá stöðum þar sem tilteknir fisksjúkdómar finnast í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins þar um.
    Vilhjálmur Egilsson og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 14. des. 1999.Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Sturla D. Þorsteinsson.


Jóhann Ársælsson.Guðjón A. Kristjánsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Svanfríður Jónasdóttir.Hjálmar Árnason.