Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 429  —  285. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fasteignaskrá stofnunarinnar“ í lokamálslið 1. mgr. kemur: Landskrá fasteigna.
     b.      Í stað orðanna „fasteignaskrám stofnunarinnar“ í 2. málsl. 10. mgr. kemur: Landskrá fasteigna.

2. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Til þess að standa straum af kostnaði Fasteignamats ríkisins við að uppfæra og halda Landskrá fasteigna skulu húseigendur greiða sérstakt gjald til Fasteignamats ríkisins, umsýslugjald. Gjald þetta skal nema 0,1‰ (prómillum) af brunabótamati hverrar húseignar og skal vátryggingafélag innheimta gjaldið samhliða innheimtu brunatryggingariðgjalda og skila umsýslugjaldi til Fasteignamats ríkisins eigi síðar en 45 dögum eftir gjalddaga.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu um breyting á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994 og tveimur öðrum frumvörpum sem lögð eru fram samhliða, frumvarpi um breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, og frumvarpi um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, eru lagðar til nauðsynlegar breytingar vegna myndunar samhæfðs gagna- og upplýsingakerfis um fasteignir og réttindi sem þeim tengjast. Heitir það Landskrá fasteigna og er nánar um það fjallað í fyrrnefndu frumvarpi til laga um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna. Fasteignamat ríkisins heldur Landskrá fasteigna en auk Fasteignamatsins munu sýslumenn og byggingarfulltrúar sveitarfélaga, í umboði Fasteignamatsins, færa upplýsingar um þinglýsingar í skrána.
    Breytingar þær sem lagðar eru til á lögum um brunatryggingar eru tvenns konar. Annars vegar kemur hugtakið Landskrá fasteigna í stað tilvísunar í fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins. Hins vegar er lögð til breyting á svonefndu umsýslugjaldi skv. 6. gr. laganna er nú rennur til Fasteignamats ríkisins til að standa straum af kostnaði við að uppfæra og halda skrá yfir brunabótamat húseigna. Lögð er til hækkun á umsýslugjaldinu úr 0,025‰ (prómillum) af brunabótamati hverrar húseignar í 0,1‰ (prómill) af brunabótamati hverrar húseignar til að standa straum af kostnaði við að uppfæra og halda Landskrá fasteigna. Áætlað er að umsýslugjaldið gefi 200 millj. kr. á ári í stað 50 millj. kr.
    Rökin fyrir þessari breytingu eru þau að með tilkomu Landskrár fasteigna verður sú breyting á að Fasteignamat ríkisins hættir að halda sérstaka fasteignaskrá fyrir brunabótamat. Í þess stað verður til eitt samhæft gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir og réttindi sem þeim tengjast, Landskrá fasteigna, og stór hluti hennar eru upplýsingar um byggingarfræðileg atriði er máli skipta við mat á endurstofnverði húseigna sem aftur er grunnur að ákvörðun um brunabótamat þeirra og aðrar viðbótarupplýsingar sem nauðsynlegar eru til ákvörðunar brunabótamats ásamt upplýsingum um þinglýsta eigendur. Skilvirk söfnun, viðhald og framsetning grunnupplýsinga þeirra sem verða í Landskrá fasteigna er mikilvæg forsenda þess að unnt verði að ákvarða brunabótamat með áreiðanlegum hætti.
    Brunabótamat fasteigna er notað sem árlegur gjaldstofn í ýmsum tilgangi, viðlagatryggingariðgjald er 0,025% af brunabótamati, ofanflóðasjóðsgjald 0,03%, brunavarnagjald 0,0045% og umsýslugjald til Fasteignamats ríkisins 0,0025%. Þessi gjöld nema 1.100–1.200 millj. kr. árlega. Brunabótaiðgjöld nema 500–600 millj. kr. árlega. Alls nema þessi gjöld 1.600–1.800 millj. kr. og er þá ekki tekið tillit til skipulagsgjalds, 0,3%, sem leggst einu sinni á nýbyggingar. Hækkun á umsýslugjaldi Fasteignamats ríkisins úr 50 millj. kr. í 200 millj. kr. er 8–9% heildarhækkun á gjöldum húseigenda sem grundvallast á brunabótamati en hækkun á einstakar eignir getur numið lægra eða hærra hlutfalli eftir áhættuflokkun tryggingafélags vegna brunabótaiðgjalds.
    Í eftirfarandi töflu eru sýnd þrjú dæmi af íbúðarhúsnæði í steinsteyptum húsum í Reykjavík og hvaða breyting verður á heildargjöldum húseigenda við framangreinda breytingu á umsýslugjaldi:Brunabótamat
Heildargjöld fyrir breytingu umsýslugjalds Heildargjöld eftir breytingu umsýslugjalds
Umsýslugjald fyrir breytingu

Umsýslugjald eftir breytingu

Hækkun umsýslugjalds
7.000.000 5.320 5.845 175 700 525
13.000.000 9.880 10.855 325 1.300 975
20.000.000 15.200 16.700 500 2.000 1.500

    Frekari upplýsingar um Landskrá fasteigna má finna í greinargerð með frumvarpi um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í a- og b-lið 1. gr. er lögð til sú breyting að í stað tilvísunar til fasteignaskrár Fasteignamats ríkisins komi Landskrá fasteigna. Er þessi breyting í samræmi við breytingar sem lagðar eru til í tveimur frumvörpum sem lögð eru fram samhliða frumvarpi þessu, um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, með síðari breytingum, og þinglýsingalögum, nr. 39/1978, með síðari breytingum.

Um 2. gr.


    Hér er mælt fyrir um hækkun á svonefndu umsýslugjaldi sem rennur til Fasteignamats ríkisins til að standa straum af kostnaði við að uppfæra og halda skrá yfir brunabótamat húseigna. Með áðurgreindum frumvörpum um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, með síðari breytingum, og þinglýsingalögum, nr. 39/1978, með síðari breytingum, tekur Landskrá fasteigna við hlutverki fasteignaskrár Fasteignamats ríkisins.

Um 3. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi til að sem fyrst megi hefja nauðsynlegan undirbúning að gerð Landskrár fasteigna.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu
á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvörpum til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976, með síðari breytingum og frumvarpi til laga um breytingu á þinglýsingalögum, nr. 39/1978. Með frumvörpunum er stefnt að myndun samhæfðs gagna- og upplýsingakerfis um fasteignir og réttindi er tengjast þeim sem beri heitið Landskrá fasteigna. Hér er fjallað um áætluð áhrif allra frumvarpanna á útgjöld ríkissjóðs og eru umsagnir fjárlagaskrifstofu með þeim samhljóða.
    Samkvæmt frumvörpunum mun Landskrá fasteigna skiptast í stofnhluta fyrir skilgreiningar og upplýsingar um afmörkun fasteigna, mannvirkjahluta fyrir byggingafræðilegar upplýsingar, fasteignamatshluta fyrir upplýsingar um matsforsendur og niðurstöður og þinglýsingahluta fyrir upplýsingar um þinglýsta eigendur og eignarhlut þeirra ásamt upplýsingum um veðbönd, kvaðir og önnur atriði sem þinglýsingabók inniheldur.
    Samkvæmt áætlun sem unnin er af vinnuhópi, sem hefur unnið að stofnun Landskrár fasteigna, er áætlaður kostnaður við stofnun Landskrár 615 m.kr. sem skiptist á árin 2000–2004, u.þ.b. 150 m.kr. á hverju ári.

Samtals áætlaður rekstrar- og stofnkostnaður 2000–2004 M.kr.
Rekstrarkostnaður Fasteignamats ríkisins
232,0
Stofnkostnaður Fasteignamats ríkisins
176,7
Stofnkostnaður hjá sýslumannsembættum
155,6
Annað og ófyrirséð
51,0
Samtals
615,3

    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, er áformað að hækka umsýslugjald sem rennur til Fasteignamats ríkisins úr 0,025‰ (prómillum) í 0,1‰ (prómill). Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við stofnun Landskrár fasteigna. Miðað við framangreindar áætlanir og fjármögnun Landskrár fasteigna með hækkun umsýslugjalds hækka tekjur og gjöld ríkissjóðs um 150 m.kr. á ári.