Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 432  —  122. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um fjarskipti.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Einar Hannesson frá samgönguráðuneyti, Gústav Arnar frá Póst- og fjarskiptastofnun, Jakob Fal Garðarsson, aðstoðarmann samgönguráðherra, Þórarin V. Þórarinsson, Pál Ásgrímsson, Bergþór Halldórsson og Kristján Indriðason frá Landssíma Íslands hf., Eyþór Arnalds og Ágúst Sindra Karlsson frá Íslandssíma hf., Ragnar Aðalsteinsson, Ragnar Tómas Árnason og Þórólf Árnason frá TAL hf., Guðmund Sigurðsson og Ásgeir Einarsson frá Samkeppnisstofnun, Björn Davíðsson frá Snerpu ehf., Svavar Kristinsson frá Íslenskri miðlun, Guðjón Rúnarsson og Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands og Stefán Hrafnkelsson frá Margmiðlun hf. Umsagnir um málið bárust frá Snerpu ehf., Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Verslunarráði Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun, TAL hf., Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Ríkisútvarpinu, Samkeppnisstofnun, Landssíma Íslands hf., Bændasamtökum Íslands og Íslandssíma hf.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að mæta auknum umsvifum fjarskipta- og upplýsingatækni og nýjum skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Má skipta frumvarpinu í tvo hluta, annars vegar ákvæði sem ætlað er að örva samkeppni en hins vegar ákvæði sem eiga að tryggja aðgang allra landsmanna að alþjónustu. Helstu nýmæli frumvarpsins eru eftirfarandi:
          Ákveðin tegund gagnaflutningsþjónustu verður skilgreind sem alþjónusta.
          Númeraflutningur sem gerir notendum síma mögulegt að halda símanúmeri sínu án tillits til þess hjá hvaða símafyrirtæki viðskiptin eru.
          Innlendir reikisamningar, en í þeim felst að farsímafyrirtæki eigi aðgang að farsímanetum annarra fyrirtækja þegar uppbygging eigin aðstöðu er talin óraunhæf.
          Aðgangur að heimtaug, en samkvæmt frumvarpinu eiga fjarskiptafyrirtæki lögvarinn rétt til að leigja aðgang að heimtaug af markaðsráðandi fyrirtæki.
          Dregið er úr ríkisafskiptum og nýjum aðilum auðvelduð leið inn á markaðinn.
          Mælt er fyrir um opinn aðgang að fjarskiptanetum auk samtengingar.
    Við meðferð málsins í nefndinni var 23. gr. frumvarpsins sem fjallar um samtengingu neta og þjónustu skoðuð sérstaklega. Er það skilningur meiri hlutans að svokölluð ATM-þjónusta sé samtengingarskyld á grundvelli hennar. Hins vegar telur meiri hlutinn að ATM-þjónusta falli ekki undir ákvæði 26. og 27. gr. frumvarpsins um að gjöld fyrir samtengingu skuli byggjast á kostnaði.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lögð er til smávægileg breyting á orðalagi 13. gr. frumvarpsins. Ekki er um efnislega breytingu að ræða.
     2.      Lögð er til breyting á orðalagi 2. mgr. 15. gr. sem gerir hana skýrari og markvissari.
     3.      Lagðar eru til nokkrar breytingar á 3. mgr. 29. gr. frumvarpsins. Sú helsta er að lagt er til að skylda til að senda nýja eða breytta gjaldskrá til umsagnar til Póst- og fjarskiptastofnunar hvíli eingöngu á rekstrarleyfishöfum með umtalsverða markaðshlutdeild. Þá eru lagðar til nokkrar smávægilegar orðalagsbreytingar á málsgreininni.
     4.      Lögð er til sú breyting á 4. mgr. 30. gr. að skylda til að geta þess í upphafi símtals að yfirgjald sé heimt af símtali hvíli á þjónustuaðila en ekki fjarskiptafyrirtæki.
     5.      Lögð er til breyting á 39. gr. sem felur það í sér að óheimilt verði að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur skv. 37. gr. og ber CE-merkingu því til staðfestingar. Hins vegar er lagt til að nýtt bráðabirgðaákvæði bætist við frumvarpið sem felur í sér að heimilt verði að setja á markað notendabúnað sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur framkvæmt prófun á og viðurkennt í samræmi við staðla, þrátt fyrir að hann beri ekki CE-merkingu, þar til tilskipun ráðsins og þingsins 1999/5/EB frá 9. mars 1999, um þráðlausan fjarskiptabúnað og notendabúnað og gagnkvæma viðurkenningu á gerðarsamþykktum, hefur tekið gildi. Frumvarpið var samið með það í huga að taka mið af væntanlegum breytingum sem leiðir af tilskipuninni en nokkur tími mun líða þar til hún tekur gildi.
     6.      Lagt er til að kveðið verði á um það í 39. gr. að framleiðanda eða umboðsmanni hans hér á landi verði skylt að tryggja að búnaði sem settur er á markað hér á landi fylgi upplýsingar um notkun hans á íslensku.
     7.      Lagt er til að bætt verði við ákvæði 43. gr. um þagnarskyldu að ekki megi án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá annála um sendingar sem fara um fjarskiptavirki. Kom fram við meðferð málsins í nefndinni að slíkir annálar geti haft að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og því sé full þörf á að vernda þá með þessum hætti.
     8.      Lögð er til sú breyting á 3. mgr. 44. gr. að þeim aðila að símtali sem vill hljóðrita símtalið beri að tilkynna viðmælanda sínum um þá fyrirætlan. Hvíli sú skylda því ekki aðeins á viðtakanda símtals eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
     9.      Lögð er til breyting á tilvísun í 3. mgr. 57. gr.
    Meiri hlutinn mælir með að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jón Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. des. 1999.Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Guðmundur Hallvarðsson.Helga Guðrún Jónasdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.