Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 433  —  122. mál.
Breytingartillögurvið frv. til l. um fjarskipti.

Frá meiri hluta samgöngunefndar (ÁJ, HjÁ, GHall, HGJ, ArnbS).     1.      Við 13. gr. Síðari málsliður 1. mgr. orðist svo: Til alþjónustu teljast m.a. talsímaþjónusta, þjónusta við fatlaða eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir og gagnaflutningsþjónusta með 128 Kb/s flutningsgetu sem notendur tengjast um heimtaugar almenna talsímanetsins.
     2.      Við 15. gr. 1. málsl. 2. mgr. orðist svo: Skal jöfnunargjaldið lagt á fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja almenn farsímanet og/eða almenna talsímaþjónustu í hlutfalli við bókfærða veltu þessarar starfsemi.
     3.      Við 29. gr. 3. mgr. orðist svo:
             Rekstrarleyfishafar með umtalsverða markaðshlutdeild skulu eigi síðar en fjórum virkum dögum fyrir gildistöku nýrra eða breyttra skilmála og/eða gjaldskrár senda Póst- og fjarskiptastofnun skilmála og/eða gjaldskrá til umsagnar. Stofnuninni er leyfilegt að krefjast lagfæringa á skilmálum eða uppsetningu gjaldskrár leyfishafa ef efni þeirra þykir brjóta í bága við lög og reglur eða leyfisbréf leyfishafa. Ef umfang málsins er slíkt að ekki verði greitt úr því á fjórum dögum getur stofnunin frestað gildistöku nýrra eða breyttra skilmála, en þó ekki um meira en sjö daga.
     4.      Við 30. gr. 4. mgr. orðist svo:
             Ef símtöl bera yfirgjald skal þjónustuaðili ávallt geta þess í upphafi símtals hver fjárhæð gjaldsins sé eða á hvaða forsendum það verði ákvarðað. Áskrifandi skal eiga þess kost að læsa fyrir símtöl í númer þar sem tekið er yfirgjald. Nánar skal kveðið á um símtöl með yfirgjaldi í reglugerð.
     5.      Við 39. gr.
       a.      Í stað 1. og 2. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Óheimilt er að setja á markað annan notendabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur skv. 37. gr. og ber CE-merkingu því til staðfestingar.
       b.      Á eftir orðunum „fyrir notendur“ í 3. mgr. komi: á íslensku.
     6.      Við 43. gr. Fyrri málsliður 2. mgr. orðist svo: Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau.
     7.      Við 44. gr. Í stað orðanna „Viðtakandi símtals“ í 3. mgr. komi: Sá aðili að símtali.
     8.      Við 57. gr. Í stað orðanna „X. kafla“ í 3. mgr. komi: XI. kafla.
     9.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Þar til tilskipun ráðsins og þingsins 1999/5/EB frá 9. mars 1999, um þráðlausan fjarskiptabúnað og notendabúnað og gagnkvæma viðurkenningu á gerðarsamþykktum, hefur tekið gildi á Evrópska efnahagssvæðinu er heimilt að setja á markað notendabúnað sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur framkvæmt prófun á og viðurkennt í samræmi við staðla þrátt fyrir að hann beri ekki CE-merkingu.