Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 434  —  240. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um Póst- og fjarskiptastofnun.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Einar Hannesson frá samgönguráðuneyti, Gústav Arnar frá Póst- og fjarskiptastofnun, Jakob Fal Garðarsson, aðstoðarmann samgönguráðherra, Þórarin V. Þórarinsson, Pál Ásgrímsson, Bergþór Halldórsson og Kristján Indriðason frá Landssíma Íslands hf., Eyþór Arnalds og Ágúst Sindra Karlsson frá Íslandssíma hf., Ragnar Aðalsteinsson, Ragnar Tómas Árnason og Þórólf Árnason frá TAL hf., Guðmund Sigurðsson og Ásgeir Einarsson frá Samkeppnisstofnun, Björn Davíðsson frá Snerpu ehf., Svavar Kristinsson frá Íslenskri miðlun, Guðjón Rúnarsson og Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands og Stefán Hrafnkelsson frá Margmiðlun hf.
    Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga sem lagt var fram samhliða.
    Í frumvarpinu er leitast við að skerpa á úrræðum stofnunarinnar til að afla upplýsinga frá einstökum póst- og fjarskiptafyrirtækjum á markaðinum og gera stofnuninni þannig kleift að rækja hlutverk sitt samkvæmt frumvarpi til fjarskiptalaga. Er stofnuninni m.a. ætlað veigamikið hlutverk við framkvæmd reglna um alþjónustu og sértæka fjarskiptaþjónustu.
    Þá er gert ráð fyrir því nýmæli í frumvarpinu að stofnuninni verði veitt heimild til að taka ákvörðun til bráðabirgða þegar aðstæður krefjast þess að mati hennar og dráttur á niðurstöðu máls er til þess fallinn að valda verulega tjóni.
    Í frumvarpinu eru ákvæði um að skýra skuli valdmörk Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar.
    Einnig er gert ráð fyrir að tekið verði sérstakt gjald fyrir úthlutun símanúmera til rekstrarleyfishafa og úthlutun einstakra stuttnúmera. Verði gjald fyrir þriggja stafa númer 1.000.000 kr. og 200.000 kr. fyrir fjögurra stafa númer. Er tilgangurinn m.a. að draga úr eftirspurn þar sem um fá númer er að ræða og því erfitt, þegar til lengri tíma er litið, að anna eftirspurn.
    Þá er gert ráð fyrir að fjarskiptafyrirtæki, póstrekendur og rekstrarleyfishafar skuli árlega greiða Póst- og fjarskiptastofnun rekstrargjald sem nemi 0,25% af bókfærðri veltu. Vegna ákvæða 77. gr. stjórnarskrárinnar um skipan skattamála er nauðsynlegt að heimild til skattlagningar sé skýr í lögum og er því mælt fyrir um að gjaldið sé fast hlutfall af bókfærðri veltu.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á tilvísun í 6. mgr. 5. gr. en þar er vísað í 7. mgr. greinarinnar í stað 9. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „sbr. 7. mgr.“ í 6. mgr. 5. gr. komi: sbr. 9. gr.

    Jón Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. des. 1999.Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Guðmundur Hallvarðsson.Helga Guðrún Jónasdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.